Ég játa: Get ekki hugsað mér olíuhreinsunarstöð!

oliuhreinsun oliuhreinsun2

Nú er bóndi minn staddur úti í Rotterdam ásamt bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar og einhverjum fleirum að skoða olíuhreinsunarstöðvar. Úr því að olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum er í umræðunni taldi hann rétt að berja eina slíka augum áður en hann tæki afstöðu til framhaldsins. Það er virðingarverð afstaða.

En eftir því sem menn ganga lengra í því að "hugsa" þetta mál með "opnum huga" - því áhyggjufyllri verð ég yfir því að kannski séu þeir að láta draga sig út í að samþykkja eitthvað sem þeir munu sjá eftir síðar. Rétt eins og gerðist með Kárahnjúkavirkjun - sem skyndilega var orðin margfalt meira gímald en nokkurn hafði órað fyrir; aðstæður starfsmanna og vinnusiðferði allt annað en Íslendingar hafa átt að venjast; hinn meinti ágóði fyrir samfélagið í heild einhvern veginn mun takmarkaðri og "öðruvísi" en menn töldu í upphafi - Jökla þögnuð - og fórnirnar meiri þegar til kastanna kom en menn höfðu gert ráð fyrir.

Ég óttast sumsé að áður en menn ná almennilegum áttum verði komið eitthvert reykspúandi ferlíki ofan í annan af tveim fegurstu fjörðum Vestfjarðakjálkans, Arnarfjörðinn eða Dýrafjörð - af því menn treystu sér ekki, í erfiðu árferði, til þess að taka af skarið. Kannski skorti þá sýn á framtíðarmöguleika svæðisins.

Það er svo margt sem mér finnst athugavert við þetta mál. En það sem ég held að hver einasti Vestfirðingur verði að byrja á að spyrja sjálfan sig að er þetta:

  1. Vil ég þetta fyrir mig sjálfa(n)? 
  2. Er þetta framtíðartækifæri fyrir börnin mín? 
  3. Mun þetta freista unga fólksins sem nú er að fara utan til náms til að koma aftur að því loknu? 
  4. Mun olíuhreinsunarstöð bæta mannlíf á Vestfjörðum?
  5. Mun hún laða atgervi inn á svæðið?
  6. Mun hún fegra umhverfið?  
  7. Mun hún auka möguleika okkar á öðrum sviðum og styðja við aðrar atvinnugreinar á svæðinu? 
  8. Munu Vestfirðingar njóta arðsins af starfsemi stöðvarinnar?

Sjálf get ég ekki svarað neinni þessara spurninga játandi - þvert á móti óttast ég að fórnirnar sem færa þarf verði umtalsvert meiri en hinn ætlaði ávinningur: 

  1. Ég þekki engan sem sér tækifæri fyrir sjálfan sig í þessari olíuhreinsunarstöð.
  2. Hvorki ég sjálf, né nokkur sem ég þekki, sér þetta sem framtíðarmöguleika fyrir börn sín.
  3. Enginn sem ég hef rætt við telur að starf í olíuhreinsunarstöð muni freista ungs fólks að námi loknu, að koma heim aftur.
  4. Olíuhreinsunarstöð myndi væntanlega þurfa á innfluttu vinnuafli að halda, líkt og Kárahnjúkavirkjun. En það er líka viðbúið að hún muni soga til sín mörg störf úr stoðkerfinu hér vestra. Stöðin mun því ekki koma sem blómstrandi viðbót heldur sem n.k. æxli sem sogar til sín mannafla sem samfélagið má síst við að missa úr öðrum störfum. 
  5. Olíuhreinsunarstöð mun því ekki laða atgervi inn á svæðið.
  6. Stöð sem þessi þarf að koma frá sér mengun og úrgangi sem enn er ekki útséð með hvert muni lenda, en þar er einungis um þrennt að ræða: Hafið (uppsprettu fiskveiða okkar og fiskeldis), loftið (hina blátæru ímynd norðursins) eða jarðveginn (uppsprettu vatns og landsgæða).
  7. Mengun sú sem fylgir olíuhreinsunarstöð mun ógna stöðu okkar og ímynd á ýmsum sviðum. Augljósasta ógnin snýr að fiskveiðum og ferðamennsku - en á báðum þeim sviðum hefur landið verið markaðssett sem náttúruperla. Hætt er við að menn geti gleymt möguleikum á vatnsútflutningi frá Vestfjörðum ef þetta verður að veruleika.  
  8. Stöðin verður ekki í eigu Vestfirðinga, þannig að varla kemur arðurinn af henni inn í vestfirskt samfélag. Hún mun vissulega greiða aðstöðugjöld, en um leið mun hún líka krefjast mikillar aðstöðu, frálagna og aðfangaleiða af stærðargráðu sem líklega hefur aldrei sést hér áður.

Niðurstaða: Við eigum að hætta að hugsa um þetta og snúa okkur að einhverju sem hefur raunverulega uppbyggingu í för með sér; framþróun og tækifæri fyrir okkur sem hér búum og börnin okkar. Eitthvað sem við getum glatt okkur við að hlúa að til framtíðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Getur alltaf farið í lúpínurækt.  Það er mjög fljótt að gera sig.

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 4.7.2007 kl. 22:24

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Opnaði af tiviljun fyrir sjónvarp í gærkvöld. Þar var viðtal við einn af íbúum Árósa. Hann sagði að það væru bara tvær útgáfur af lykt í þeirri borg. Önnur tengdist bruggverksmiðju og hin tengdist olíuhreinsistöð sem er í miðri borginni. Semsagt: í báðum tilvikum peningalykt.

Auðvitað dettur mér ekki í hug að Vestfirðingar taki þennan viðbjóð til sín þegar til kastanna kemur.

En mér finnst skelfilegt að þessi hringavitleysa skuli hafa verið talinn raunverulegur valkostur!

Hvað um framleiðslu á napalmsprengjum eða sinnepsgasi fyrir BNA? Það held ég að gæti verið ábatasamt og skapað mörg vel borguð störf. 

Árni Gunnarsson, 4.7.2007 kl. 22:48

3 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Alveg hjartanlega sammála þér. 

Þetta er ekki einungis spurning um hvort Vestfirðingar vilji hafa þetta mengandi ferlíki á svæðinu heldur heldur er þetta líka spurning um hvort Íslendingar yfir höfuð vilja fá setja þetta inn í landið. 

Ég legg til að við fáum Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur frá Núpi í Dýrafirði sem ráðgjafa í málinu. Hún ætti að vera í útlöndum núna sem sérfræðingur á okkar vegum í stað pólitíkusanna.

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 4.7.2007 kl. 23:25

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Það hefur setið töluvert fast í mér sú hugsun síðan þessi hugmynd og umræðan um hana hefur komið fram sú viðbjóðslega hætta sem stafar af svona óskapnaði eins og t.d. bruni sem er töluvert um í olíuhreinsistöðvum í heiminum.

Edda Agnarsdóttir, 4.7.2007 kl. 23:41

5 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

    Ég er sammála þér með að það er virðingarvert að menn fari og skoði slíkar hreinsistöðvar áður en ákvörðun er tekin.

 

  Það er nú ekki svo mjög gott að sjá fyrirfram hvort að men muni endilega sjá eftir ákvörðannatökunni hver sem hún verður, því að það getur alveg eins farið svo að menn sjái eftir því eftir einhver ár að hafa ekki reist hana.Ég er ekkert viss um að menn séu farnir að sjá eftir að hafa farið útí að byggja Kárhnjúkavirkjun. Þetta með aðbúnað og framgöngu við verkafólk þar uppfrá má kanski rekja til þes að ákveðnir hópar fólks sáu til þes að fyrirtæki með meiri metnað í þeim málum hættu við að bjóða í verkið á sínum tíma. Það er ekki komið í ljós ennþá hvort að meintur ágóði verði minni eða meiri en til stóð. Jökla er nú eldeilis ekki þögnuð hún stefnir í að verða ein falleagsta laxveiðá sem Íslendingar eiga eftir að þekja og erlendir ferðamenn eiga eftir að koma í, ég segi ekki milljónavís, hópum til að veiða í henni. Það er heldur ekki orðið ljóst með fórnirnar, vatn er jú undirstaða alls lífs svo ég held að þarna eigi eftir að aukast fuglalíf og að öllum líkindum, miðað við hlýnandi loftslag, eigi gróður eftir að vaxa þarna í mun meiri mæli en hann átti möguleika á áður.

 

  Það er einmitt í erfiðum áferðum sem þrýst er á stjórnarmenn að koma með lausnir og það getur verið úr vöndu að ráða og sé ég ekki betur en að þeir séu að reyna að gera þetta eins vel og hægt er og ef að fólk hefur aðra sýn á framtíðarmöguleika þessa svæðis en bara eitthvað annað nú eða flytja vestfirðinga á suðvesturhornið á það að sjáfsögðu að koma sýnum hugmyndum á framfæri við rétta aðila.

 

  Kárahnjúkavirkjun þurfti erlent vinnuafl á meðan á byggingu þess stendur en ekki til langframa því að þar verða ekki margir starfsmenn, ég býst við að olíuhreinsistöð á vestfirði sé hugsuð sem atvinnutækifæri fyrir einhverja núverandi og ófædda vestfirðinga til frambúðar og eitthvað þarf stöðin vafalaust af mentuðu fólki.

 

 Ég er sammála því að það á að taka umræðu um svona mál og hætta því svo þegar ákvörðun hefur verið tekin. Ég er líka sammála því að fólk á að spyrja sig þessara spurninga og jafnvel fleiri.

   Enn þetta EITTHVAÐ ANNAÐ er orðið úrelt hugmynd og má segja að hún sé fullreynd hún hefur hvergi verið sett á koppinn ennþá, líklega vegna þess að án betri útfærslu á þessari hugmynd verður ekkert af henni, en þið sem aðhyllist þesa hugmynd og haldið henni á lofti ættuð nú að setjast saman niður og úfæra hana vel t.d. að nota tímann, núna á meða men eru erlendis að skoða aðra hugmynd og útfæra hana vel og vera með hana tilbúna til að leggja fyrir bæjastjórnarfund um leið og olíuhreinsistöðvarhugmyndin verður rædd eða jafnvel fyrr.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.7.2007 kl. 00:18

6 identicon

Ég er hjartanlega sammála þér Ólína. Við verðum að spyrja okkur þessara spurninga áður en farið er út í svona stórvirki sem olíuhreinsunarstöð er. Hverjir munu koma til með að vinna við þetta? Íslendingar munu kannski vilja vinna skrifstofustörfin en.. ekkert annað.

Ég er nýkomin frá Patreksfirði og annar gestgjafi minn var einmitt að fara í þessa ferð til Rotterdam ofl. og vona ég að þau sem eru í ferðinni komi þaðan frelsuð frá þessari hugmynd.

Í þau fáu skipti sem ég hef farið til Vestfjarða og þá oftast til Patreksfjarðar verð ég alltaf heillaðri af þeirri fegurð sem þar er.  Við hljótum að geta fundið eitthvað annað til að byggja upp þessa staði.

Þóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 11:37

7 Smámynd: Gísli Gíslason

Ég held að það væri hollt fyrir  vestfirðinga að skoða reynslu austfirðinga.   Ég veit að það eru að flytja austur burtfluttir austfirðingar, háskólamenntaðir, sem hafa fengið störf við sitt hæfi.  Það er orðinn till fasteignamarkaður, það er farið að byggja hús aftur eftir tveggja áratuga hlé. Eignir eru orðnar einhvers virði, og fólk að viðhalda eignum sínum betur.  Allt hefur þetta skapað jákvæð áhrif á atvinnu og efnahagslífið þar eystra.  En mikilvægast er að fólk hefur öðlast frelsi.  Frelsið felst í því að nú getur fólk selt eignir sínar og farið.  Flestir velja að eiga áfram eignir sínar og vera áfram, þar sem að fólk hefur öðlast aftur trúa á framtíð svæðisins.  Það er mikilvæg breyting.

Ég held að vestfirðingar ættu að skoða  vel, hvort olíuhreinsistöð gæti verið fýsilegur kostur. 

Ef fólk hefur aðrar lausnir sem gæti skapað atvinnuuppbyggingu á vestfjörðum,  þá á einnig að skoða það.   Því miður þá hefur enginn ennþá komið með neinar  slíkar hugmyndir.

Gísli Gíslason, 5.7.2007 kl. 11:53

8 Smámynd: Jón Svavarsson

Hver er sinnar gæfu smiður! Segir einhversstaðar og er það gott þegar menn skoða málin ofaní kjölinn. Ég er sammála Ólínu með að það er sennilega ekki vænlegt að byggja olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Ef þörf er á slíkri verksmiðju hér á landi, hver er þá ávinningurinn? Verður þá ódýrara eldneyti á Íslandi? Munum við geta selt eitthvað af þeirri framleiðslu úr landi? Verður þetta þjóðhagslega hagkvæmt? Það eru margar spurningar ósvaraðar í þessu máli og ef þörf er á að reisa slíka verksmiðju, því þá ekki að reisa hana á Reyðarfirði við álversins, nýta hafnaraðstöðuna þar og mengunin öll á einum stað, eða því sem næst. HUGSUM MÁLIN tökum rökfastar ákvarðanir, en ekkert fum.

Kveðja Jón staddur í Svíþjóð.

Jón Svavarsson, 5.7.2007 kl. 11:53

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Komið þið sæl - og takk fyrir viðbrögð ykkar.

Högni Sigurjónsson (aths 6) skensar okkur efasemdafólki fyrir að tala um "eitthvað annað" en olíuhreinsunarstöð og hvetur okkur drýgindalega til þess að útfæra nú þá ágætu hugmynd

Ég vil benda Högna á skrif mín um Háskóla Vestfjarða, all vel útfærð. Þau hafa m.a. birst á bb.is, í Morgunblaðinu og hér á þessari bloggsíðu.

Þá tel ég mig í allri hógværð hafa átt minn þátt í því að efna til öfgalausrar, þverpólitískrar umræðu um málefni þessa svæðis og þá möguleika sem eru í stöðunni. Mér er stendur næst að nefna fjölmennan borgarafund í Hömrum á Ísafirði sem ég stýrði og gekkst fyrir ásamt fleirum.

Ég hvet Högna - og aðra áhugasama - til þess að bera háskólahugmyndina saman við þær spurningar sem ég set fram í færslu minni hér fyrir ofan - og sjá hvort ekki fjölgi eitthvað jákvæðum svörum, sé það gert.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.7.2007 kl. 11:56

10 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

   Mér sýnist sem menn séu ekki að stökkva á neina skyndilausn sé ekki betur en að þeir séu að vanda vel til verka við undirbúningsvinnu fyrir ákvarðannatöku.

 

  Já mér finnst það mjög aumt ef að vestfirðingar ætla að sitja röflandi yfir vandamálum sínum og bíða eftir lausnum að sunnan, Árni. Auðvitað eiga þau að vera búin að setja saman starfshóp sem ætti að fara um vestfirði og halda einhverskonar “breinstorm” fundi og gera svo eitthvað úr þessu”eitthvað annað” að sjálfsögðu hafa vestfirðingar sjálfsbjargarhvöt og ýmsar hugmyndir, nema ástæðan fyrir því að þau eru þarna um það bil að verða ósjálfbjarga sé sú að þau séu hugmyndasnauð.

 

  Ég held að það gæti verið gott að hafa stórt fyrirtæki svona nokkurskonar “kjöl” því að það vaxa síðan mörg þjónustufyrirtæki af ýmsum toga út frá því, hvort það á að vera olíuhreinsistöð um það eru vestfirðingar alveg fullfærir um að taka ákvörðun um.

 

  Ég er mjög svo sammála málshefjanda að þau eigi að spurja sig þessara og fleiri spurninga og umfram allt að nota þennan tíma vel, á meðan stjórnamenn eru að skoða olíuhreinsistöðvarhugmyndina vel og koma öllum hugmyndum sem mönnum dettur í hug á framfæri hvort sem fólki finnst þær bjánalegar eða góðar og gera nú alvöru úr “eitthvað annað”.

 

  Þú ættir kanski Ólína að setja upp hugmyndabanka á síðuna hjá þér þar sem fólk gæti sent sýnar hugmyndir inn.

  

  Hitt er svo annað ég sé ekkert að því að það komi líka eitthvað að sunnan þó ekki væri nema einhverjir vegir og annarskonar samskiptaþjónusta.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.7.2007 kl. 12:19

11 identicon

Ég bý sjálf í Árósum og í hvert skipti sem ég geng um götur borgarinnar og er ad kafna úr fnyk, thá verdur mér hugsad med søknudi til heimahaganna og ferska loftsins hér á Íslandi. Mér finnst thad vera verdmætara en flest annad.

Ég vona ad stjórnvöldum sé ekki alvara med thessum hugleidingum, mér finnst thad módgun vid Vestfirdinga ad halda thvi fram ad olíuhreinsunarstöd sé gód lausn fyrir byggdarlagid.

Maddý (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 13:45

12 Smámynd: Ég

Ég afneita þeirri hugmynd að nokkur Íslendingur sé í alvöru að pæla í þessari olíuhreinsunarhugmynd ... eru sveitastjórnarmenn og ráðherrar ekki bara að sigta sér út smá dagpeninga og evrópuskrepp með þessum pælingum? ... sem er ákveðin viðleitni í þá átt að draga aur í fjórðunginn af ríkispeningum :)  

En svona í alvöru þá finnst mér dularfullt af hverju enginn hefur markaðssett "lúxustúrisma" (v.s. fjöldatúrisma) á Vestfjörðum (og annars staðar á landinu), það er svoooo mikið af fólki sem er tilbúið að borga meiri peninga en venjulegt fólk skilur, til að komast í "upplifun" eins og Vestfirðir klárlega eru.  Legg þetta í "eitthvað annað" bankann.

Ég, 5.7.2007 kl. 14:00

13 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég efast ekki Ólína um að þú hafir lagt eitthvað til málanna í byggðamálum enda sýnir þessi pistill þinn sem við erum nú að spjalla um það svart á "ljósbleiku" að þú hefur áhuga og um leið áhyggjur af framtíð vestfjarða, ég hef ekki tíma fyr en í kvöld til að lesa um háskólahugmyndina þína, hvað með það hér eru nú þegar tvær mjög svo frambærilegar hugmyndir komnar í "eitthvað annað"bankann. 

Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.7.2007 kl. 15:21

14 identicon

Sæl öll, skemmtileg umræða. Verð nú að viðurkenna að olíuhreinsunarstöðin heillar mig ekki alveg upp úr skónum. En málið verður að skoða, það er á hreinu. Þessi ferð sveitastjórnarmanna er kannski full snemma á ferðinni og bendi ég á bloggið hans Tolla og hans og Ólínu hugmyndir að undirbúningsvinnu fyrir þessa olíuhreinsunarstöð sem var hafnað.

Að öðru, Högni minnist á hugmyndabanka fyrir Vestfirði, en ég hef sett á fót vefsíðu sem einmitt er með svona hugmyndabanka og ýmsu fleira um fjórðunginn. Síðan er langt komin og "opin" og er öllum frjálst að skoða sig um þar og koma með hugmyndir . Þarna inni eru komin 3 verkefni sem eru í vinnslu og á ég von á að fleiri bætist við með tíð og tíma.

Endilega skoðið síðuna hér: http://kjalkinn.is

Ágúst Atlason (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 15:56

15 identicon

Risaolíuhreinsunarstöð á einhvern Vestfjarðanna ?...Oj bara

Höldum Vestfjörðunum utan við  efnamengandi stóriðjuna.

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 16:07

16 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Er sammála þér Ólína að mér líst ekkert á olíuhreinsistöðina.  Finnst það svolítið síðustualdarverkefni.  Svona eins og að ætla að hefja framleiðslu á hestvögnum eða tækjum til að senda morsekóða milli fólks í stað þess að einblína frekar á nútímatækni.  Olía er ekki framtíðin.  Sjálfbærir orkugjafar eins og rafmagn, vetni og metan eru framtíðin.  Það er alveg klárt mál.

Það sem er verst við þetta mál er ekki það að taka einn fjörð á Vestfjörðum í þetta.  Tiltölulega afskekktan stað þangað sem enginn þarf að fara eftir að verksmiðjan er komin nema hann vilji það sjálfur.  Auðvitað synd með fjörðinn en það eru vissulega til fleiri fallegir firðir til að njóta.

Það versta eru aðföngin.  Að koma þarna fyrir rússneskri olíuhreinsistöð sem vinnur væntanlega olíu sem framleidd er í Rússlandi og seld á meginlandi Evrópu kallar á að rússnesk olíuskip sigli frá Rússlandi meðfram öllu Norðurlandi og öllum fiskimiðum norður af landinu fyrir megnið af fjörðum og fiskimiðum Vestfjarða áður en skipið kemur loksins á áfangastað - olíuhreinsistöðina.

En þá er ekki öll sagan sögð.  Því það á eftir að a) losna við afurðina og b) losna við úrganginn. 

Afurðin færi væntanlega í skipi og væri ferðinni heitið til Evrópu finnst mér líklegt að leiðin lægi suður fyrir landið og síðan yrði farið yfir hafið um það bil frá Höfn í Hornafirði eða þar um bil.  Það þýðir að olían er búin að ferðast í gegnum alla íslenska fiskimiði að miðunum undan Austurlandi undanskildum.  Meðfram Norðurlandi og Vestfjörðum á leið til olíuhreinsistöðvarinnar og meðfram Vesturlandi og Suðurlandi á leið frá verksmiðjunni til Evrópu.

Þá á enn eftir að losa sig við úrganginn, þ.e. það sem eftir verður þegar búið er að hreinsa olíuna.  Hvert vilja menn fara með það?  Hver vill fá hann til sín?  Hvert sem farið verður liggur leiðin í gegnum fiskimiðina okkar.

Þetta tel ég að sé stóra málið.  Ég hef ekki vit á því hversu miklu svona olíuhreinsistöð skilar af góðurhúsalofttegundum en það er lítið orðið eftir af þeim kvóta og samkvæmt lögum eiga þeir sem fyrir eru með vinnslu forgangsrétt að honum.

Ég ætla að vona að þeir sjái eitthvað sniðugt í Rotterdam sem hægt er að gera á Vestfjörðum en ég held ekki að það verði olíuhreinsistöð.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 5.7.2007 kl. 17:25

17 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Jæja Ólína ég las greinina þína um háskóla á Ísafirði og líst vel á hana, hvernig undirtektir hefurðu fengið með hana , er ekki mjög mikil undirbúnings vinna sem þarf að fara fram fyrir svona hákóla?

   En hvað um það ég fór líka inná kjalkinn.is og las ýmislagt þar og ég er jafn sannfærður og í upphafi að þið finnið lausn á þessu máli og þurfið virkilega að taka umræðu um hvort það á að vera olíuhreinsistöð eða eitthvað annað, ég er viss um að ykkar menn koma með upplýsingar til að byggja á.

Ég er samt ennþá á þeirri skoðun að gott sé fyrir "kjálkann" að fá stórt sterkt fyritæki sem svo mörg fyrirtæki byggjast á, ég er ekki endilega viss um að það eigi endilega að vera mengandi fyrirtæki, þið hafið ályktað um að ekkert slíkt muni koma í ykkar hérað, en við sjáum líka að sveitastjórnamenn eru í vanda það er ekkert auðvelt fyrir þá að takast á við þau verkefni sem blasa við í atvinnumálum og þeir hafa ekki endalausann tíma því liggur mikið við að þið sem eruð búin að mynda ykkur skoðun að vinna ykkar málstað fylgi og ég hef verið á því lengi að "eitthvað annað" dugi ekki lengur, heldur þarf að vinna virkilega í þeirri lausn og bretta upp ermarnar.

  Ég get svosem setið hér með malbikað heim í hlað og loksins hraða nettengingu, fékk hana ekki fyrr en í síðustu viku er næstum þriðja flokks þegn og malað um hvað aðrir eiga að gera og ekki að gera.

  Ég fékk bara þörf fyrir að taka þátt í þessari umræðu og hef haft gaman af henni en ykkar vegna má hún ekki þagna og raunar okkar allra vegna.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.7.2007 kl. 23:59

18 identicon

Svona smá innlegg í orkumálin. Núna eru tvö stórfyrirtæki í BNA, Ford bílaframleiðandinn og Edison orkufyrirtækið að hefja samstarf sem miðar að því að auka veg tengitvinnbíla .

Bílarnir verða til þess gerðir, að  öllujöfnu verður þeim ekið á rafhleðslunni svona hjá hinum almenna neytanda. Rafhleðslan færi fram að nóttu til þegar  orkunotkunin er hvað minnst  og  nýtir þannig orkuna  án  þess að  viðbótarorkuvera sé þörf.

Enginn vafi er á að BNA menn eru farnir að átta sig á þeim geigvænlegu mengunaráhrifum sem frá bílum stafar og jarðefnabrennslu almennt og sóunar á orkunni.

Þegar svona bifreiðar verða komnar á almennan markað, sem ætla má að verði frekar fyrr en seinna, þá erum við hér á landi í afargóðum málum þ,e ef við verðum ekki búin að ráðstafa allri okkar vistvænu orku til mengandi áliðnaðar o.þ.h

Það yrði enginn smá búhnykkur fyrir þjóðarbúið ef  innflutt jarðefnaeldsneyti fyrir almennan bílaflota okkar heyrði sögunni til . Það væri hægt að tal a um um það í þúsundum þorskígildistonnum svo vitnað sé í umræðuna í dag

Nú er þörf á að horfa vandlega fram í tímann í orkumálum ,sem aldei fyrr. 

Og þá í framhaldi... olíuhreinsunarstöð (var) fyrir hvað ? 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband