Hverskonar vettvangur er bloggið?
27.6.2007 | 15:57
Ég hef stundum orðið þess vör að sumir virðast álíta að "blogg" sé samheiti yfir einhverskonar sóðaskrif á netinu.
Í dag hitti ég landsþekktan blaðamann, gamlan kollega frá því ég var sjálf í þeim bransa. Þessi ágæti blaðamaður hraunaði því yfir mig - þar sem ég í sakleysi mínu vísaði til einhvers sem ég hefði sagt á bloggsíðu minni - að enginn málsmetandi Íslendingur myndi nokkru sinni standa í rökræðum á blogginu. Var helst á viðkomandi að skilja að bloggsíður væru vettvangur fyrir fólk að viðra sínar verstu hvatir.
Hmmm..... Ég er svolítið hugsi yfir þessu. Sjálf er ég gamall frétta- og blaðamaður, hef skrifað fjölda greina í blöð og tímarit, verið álitsgjafi í spjallþáttum o.s.frv.. Ég tel mig hvorki betri né verri eftir að ég setti upp bloggsíðu - hef einfaldlega bara sett upp minn eigin fjölmiðil sem er síðan mín . Þangað má fólk koma og viðra skoðanir sínar svo fremi þær meiði engan.
Ég á fjölda bloggvina sem una sælir við sömu iðju, halda úti skemmtilegum bloggsíðum með fréttum af mönnum og málefnum, umræðum um fréttatengt efni í bland við dagbókafærslur og áhugamál. Þetta eru yfirleitt góðir pennar og ég tel hvorki þá né sjálfa mig neitt minni fyrir það að skrifa á bloggsíður.
Vitanlega eru líka til bloggarar sem misnota aðstöðu sína - blogga t.d. undir dulnefnum og liggja eins og óværa í athugasemdadálkum hjá öðrum. En það er ansi hart ef sá hópur á að verða útgangspunkturinn þegar skilgreina skal bloggara. Það fyrirfinnast líka óvandaðir fjölmiðlamenn, slúðurblaðamenn hinnar gulu pressu til dæmis - ekki látum við það ráða afstöðu okkar til fjölmiðlafólks almennt, eða hvað?
Það væri leitt ef fordómar af fyrrnefndu tagi yrðu til þess að almennilegt fólk færi að forðast bloggið sem vettvang til skoðanaskipta.
Ég ætla a.m.k. ekki að hætta - ekki á meðan þetta er skemmtilegt.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:00 | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr, flottur pistill!
Það er staðreynd að bloggið hefur fengið töluvert mikið pláss í fjölmiðlaflórunni síðustu mánuði og ég hreinlega velti fyrir mér, þegar ég les viðbrögðin hjá þeim landsþekkta, hvort blaðamenn séu að verða eitthvað abbó út í þennan „fjölmiðil“ vegna þessarar athygli og finnst hann jafnvel vera að seilast inn á þeirra „svið“ - segi bara sisona - En annað þessu tengt en innan bloggheimsins: Það voru áhugaverðar umræður um blogg snobb í gangi inni á blogginu hans Karls Tómassonar forseta bæjarstjórnar í Mosfellsbæ - kíktu á það ef þú hefur ekki lesið það nú þegar.
Ég segi sama og þú - finnst þetta bloggsamfélag alveg ótrúlega skemmtilegt og ætla ekki að hætta meðan það veitir mér ánægju og bætir við þekkingu á mannlífinu
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 16:19
Takk fyrir að kalla mig óværu.
Menn sem blogga undir dulnefni eru ekkert verri en margir sem blogga undir fullu nafni... svo veist þú bara ekkert hvort þeir sem nota "fullt nafn" séu raunverulegir eður ei.
Peace.
DoctorE (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 17:22
Minn ástkæri DoctorE er líka ekki einn af þeim sem eru daginn út og inn að reyna að krækja sér í illindi.
Ég las einmitt á einhverju blogginu um daginn að blogg ætti að vera: ... og svo kom uppskrift af bloggi eins og höfundurinn vildi hafa það. Það skemmtilega við bloggsamfélagið er hins vegar að bloggin eru eins ólík og þau eru mörg.
Ég sleppi því hreinlega að fara inn á síður sem snúast um skítkast. og þeir sem ætla að hefja skítkast á mig eða mína bloggvini inn á minni síðu eru einfaldlega fjarlægðir út úr kommentakerfinu.
Friður veri með ykkur (í bloggheimum)
Aðalheiður Ámundadóttir, 27.6.2007 kl. 17:31
Bloggarar eru jafn misjafnir og fólk er margt. Ég sé ekki að það sé hægt að koma með alhæfingar um bloggara. Það er jafnmikið vit í því að segja að allir Íslendingar séu svona eða hinsegin.
TómasHa, 27.6.2007 kl. 18:11
Hún er hvimleið þessi dulnafnaleið sem sumir tileinka sér... að þora ekki af einhverjum ástæðum að ljá nafn sitt opinberlega við skrifelsi sitt.
Það er nú ekki langt síðan að fólk ,svona almennt ,var slegið ótta við tjá sig um málefni sem hugsast gat að pólitísk stjórnvöld .. "hin bláa hönd" sem vofði yfir landi og lýð, væri styggð Fólkið gat ekki verið öruggt með starf sitt eða kjör... væri eitthvað sagt sem hentaði "hinu bláa valdi" ekki , að það lá sem mara á fólkinu í landinu.
Nú eru breyttir tímar og það sjáum við einna best á því að ekki færri en þrír topp pólítíkusar sem áður lutu "hinni bláu hönd"...þora nú að tjá hug sinn til fiskveiðistjórnunnarmála okkar nú um stundir .Breyttir tímar.
Bloggið er ekkert annað en einn risafjölmiðill og mjög hraðvirkur. Auðvitað eru bloggin misvönduð og innihaldsrík svona eins og tilveran almennt.
Þegar tölvuöldin hélt innreið sína tóku margir þá ákvörðun að halda sínu gamla striki og koma ekki nálægt þessari nýju tækni... þeir lentu fjótt utangarðs .
Gamalreyndir blaðamenn og konur sem ætla að láta bloggið , þennan nýja miðil, fram hjá sér fara og telja sig þannig geta haldið í sitt gamla og góða blaðaskrifelsi... lenda þeir ekki meira og minna utangarðs..þegar fram líða stundir..?
Auðvitað þróast þessi miðill og slípast til.
Bloggið þitt,Ólina , er vandað ,fjölbeitt og innihaldsríkt..takk fyrir það.
Sævar Helgason (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 18:59
Sammála Tómasi. Ég hef heyrt þessa umræðu sem Ólína vísar í, og er sammála því að hún sé frekar asnaleg. T.d. að áfellast blogg, eða bloggara, fyrir að einhver kommenti á færslur. Hér í BNA hafa hægrimenn nokkrum sinnum æst sig ægilega yfir því hversu ílla innrættir og ógeðfelldir "liberal bloggers" séu, og benda á kommentakerfin á Huffingtonpost sem dæmi. Apakettir sem drita aulalegum eða ósmekklegum athugasemdum á bloggfærslur annarra eru hins vegar ekki bloggarar, ekkert frekar en að vitleysingar sem gera frammíköll af svölum alþingis séu alþingismenn!
Sömuleiðis er kvart um "dulnefni" yfirleitt byggt á fáfræði eða misskilningi. Blogg hlýtur að mega heita annað en sá sem skrifar það! Morgunblaðið heitir t.d. ekki Styrmir, þó það sé hann sem ritstýri blaðinu. Sama er hægt að segja um bloggið "Freedomfries": það kemur fram á síðunni hver haldi því úti, þó ég hafi kosið að nota ekki mitt eigið nafn í titilinn. Ég hef engu að síður nokkrum sinnum verið gagnrýndur fyrir að vera "nafnlaus".
Aðrir bloggarar hafa svo kosið að setja engar persónuupplýsingar á síður sínar - en ég get ekki skilið af hverju það ætti að vera einhverskonar ógn við siðaða umræðu. Mér sýnist að klúrustu eða lágkúrulegustu bloggsíðunum á Mbl.is sé haldið út undir nafni!
Ég held að hér sé á ferðinni ótti gamalla blaðamanna, stjórnmálamanna og stjórnmálaskýrenda sem eiga að venjast því að þeir einir hafi aðgang að fjölmiðlum. Það er allavegana ástæðan fyrir ergelsi margra fjölmiðlamanna hér vestra út í bloggið. Eins og Ólína segir - blogg eru nánast prívatfjölmiðlar sem allir geta sett upp. Fólk sem annars myndi kannski láta sér nægja að tala um pólítík eða dægurmál við vini og kunningja getur nú deilt skoðunum sínum og hugsunum með allri þjóðinni. Svoleiðis lýðræði er auðvitað stórhættulegt ! ;)
mbk. Magnús
FreedomFries, 27.6.2007 kl. 19:07
Ég hef verið á netinu frá byrjun þess, reyndar byrjaði ég mun fyrr þegar allt gekk út á usenet,ftp og svoleiðis.
Aldrei hef ég heyrt neinar kröfur um að fólk þurfi að koma fram undir nafni fyrr en hér á moggablogginu og þá oftar en ekki er það fólk sem gerir slíkar kröfur algerir nýbúar á netinu.
Og já, flestir þeir soralegustu hér á þessu moggabloggi koma fram undir nafni... eða kannski er það bara plat; hver veit.
DoctorE (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 19:36
Bloggið gagnrýnir stundum blaðamennsku og veitir henni föurlegt aðhald, blaðamenn hafa ekki sama vald yfir bloggurum. Það pirrar þá. Bloggið takmarkar möguleika blaðamanna á að móta skoðanir eða segja hálfsannleika, býður upp á fjölbreyttari sjónarhorn en ritstjórnarrammar. Það rýrir ímynd blaðamanna og áhrif og setur á þá kröfur um málaefnaleg skrif. Það pirrar væntanlega líka. Bloggið er einnig oft betur skrifað og athyglisverðara en þýddar tuggur af erlendum fréttamiðlum og margir bloggarar hafa hærri standard en margir blaðamenn í framsetningu sinni. Það setur blaðamenn til jafns við bloggara og stundum neðar. Það hlýtur að pirra að vera ekki meira en bloggaraígildi í stað hins eldri og virðulegri titils. Gagnvirk skoðanaskipti eru líka ný fyrir blaðamönnum, allavega jafn fjölbreytt og hröð og bloggið bíður upp á. Það pirrar væntanlega að geta ekki staðið og gapað í pódíuminu án þess að eilíft sé verið að rétta upp hönd í salnum og spyrja og leiðrétta. Raddir blaðamana eru því orðnar lágværari í öllum þessum klið.
Þeir gleyma þó að þakka fyrir að einatt er bloggið ótæmandi uppspretta hugmynda fyrir þá bæði í gúrkutíð og utan.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.6.2007 kl. 22:27
Mér finnst nafnlausir bloggarar minna áhugaverðir en þeir sem standa við sín skrif undir nafni og mynd. Persónulega er mér sama hvort þeir eru í felum eða ekki - en ég staldra ekki við bloggskrif þeirra og tek þar af leiðandi ekki sama mark á þeim. En að sjálfsögðu er ég göbbuð jafnt og aðrir þegar fólk villir á sér heimildir.
Halldóra Halldórsdóttir, 27.6.2007 kl. 22:44
Flottur pistill Ólína. Virkilega gaman að lesa. Ég er algjörlega sammála þér.
mbk.
Stefán Friðrik Stefánsson, 27.6.2007 kl. 22:56
Ég þakka þessar skemmtilegu umræður um bloggið sem miðil og umræðuvettvang.
DoktorE nefnir að nafnlaust blogg geti verið allt eins málefnalegt og það sem sett er fram undir nafni. Vissulega er það rétt - en því miður gerist það oftar að menn ausa óhróðrinum úr sér í skjóli nafnleyndar, þó þess séu auðvitað líka dæmi að nafngreint fólk fari yfir strikið í færslum sínum.
Ég þakka Sævari Helgasyni hlýleg ummæli - og ykkur öllum málefnaleg innlegg. Gaman að sjá að "sveitungi" minn Jón Steinar er aftur kominn á stjá - við erum oft sammála
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.6.2007 kl. 23:02
Það er mikið til í þessu það virðist gæta ákveðinnar fordóma í garð bloggara. Það er líka eins og þú segir þegar ómálefnalegir einstaklingar liggja í skjóli nafnleyndar og skjóta frá sér skítakúlum gefur það hinum óorð.
Skafti Elíasson, 28.6.2007 kl. 00:49
Vil bæta við varðandi nafnleysi. Naflausir bloggarar eru misjafnir eins og þeir eru margir. Sumir eru bara feimnir og fella grímuna, þegar þeim vex ásmeginn. Aðrir eru ekki sýnilegir nema sem rassverkir í athugasemdum. Sennilega betra að þeir tappi þessu ergelsi af sé þar en að láta það bitna á sínum nánustu. Freedomfries er dæmi um eðalbloggara, sem bloggar undir dulnefni, þótt hann geri grein fyrir sér á síðu sinni. Ég nýt þess mjög að lesa bloggin hans. Þau eru vonduð og vel unnin með tenglum og tilvísunum og meira upplýsandi um innviði amerískskrar pólitíkur og samfélags en flest, sem blaðamenn hafa fram að færa. Þar falla þeir flestir í skuggann.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.6.2007 kl. 06:09
Mér finnst þú taka þessa athugasemd of alvarlega. Ég myndi ekki alhæfa neitt út frá þessum eina blaðamanni, þeir eru ekkert dómbærari þó þeir séu "landsþekktir".
Það að skrifa undir nafni setur á mann þá skyldu að fara vel með mannorð sitt. Sumir sem skrifa undir dulnefnum eru oft (ekki alltaf) rætnari og óvægnari.
Við megum ekki gleyma því að okkur ber ekki skylda að lesa allt sem skrifað er á bloggi. Ég var spurður að því hvernig ég hefði tíma til að lesa allt. Ég gat upplýst viðkomandi að ég læsi, eins og hann, bara það sem mér þætti áhugavert á hverjum tíma.
Rétt eins og þér, þykir mér þetta ágætur vettvangur til að koma skoðunum mínum á framfæri, og fá athugasemdir annarra á þær. Við skrifum bara á meðan við nennum og viljum.
Haukur Nikulásson, 28.6.2007 kl. 08:55
Takk fyrir þessi frábæru skrif og ekki er verra að viðbrögðin við henni eru líka gagnleg.
En það er eitt sem ég velti fyrir mér, að skrifa undir dulenefni er ekkert nýtt og ég er ekki viss um hvar ég er nýbúin að sjá umfjöllun um bloggara, sem skrifa undir dulnefnum og nafnleysi. Var þar m.a. vitnað í marga rithöfunda gegn um tíðina sem hafa gert það. Einn þessara rithöfunda er JaneAusten sem sendi allt frá sér nafnlaust, ekki bætir það að útgáfufélag sem nýbúið er að gefa út ævisögu hennar sá sér ekki annað fært en breyta myndinni af henni á kápu bókarinnar svo hún yrði seljanlegri. Við höfum líka átt listamenn sem hafa dulist og man ég þá helst eftir "12.september" sem var Freymóður Jóhannesson sem var bæði listmálari og lagahöfundur (Draumur fangans, Frostrósir og Litli tónlistarmaðurinn). Var ekki Kristmann Guðmundsson undir dulnefni um tíma? Svo eru það pælingar út af fyrir sig afhverju fólk kemur ekki undir nafni. Það má náttúrlega geta sér þess til, það gæti stafað af: kjarkleysi, ótta, feimni, fælni, fötlun og eða rætni. Þetta síðasttalda hefur mér fundist áberandi í kommentakerfum bloggara þegar skrifað hefur verið um hitamál.
Edda Agnarsdóttir, 28.6.2007 kl. 10:25
Sæl Edda.
Ég er sammála þér - það geta margvíslegar ástæður legið að baki því þegar fólk kemur fram undir dulnefni. Menn geta t.d. verið feimnir við að "trana sér fram". Mér dettur í hug nafnþekktur einstaklingur sem veigrar sér við að láta orða sig við eitthvað annað en hann er þekktastur fyrir, t.d. að skrifa reyfara eða birta ljóð. Um þetta höfum við mörg dæmi eins og þú bendir á, skáldkonuna Huldu (Unni Benediktsdóttur Bjarklind), Örn Arnarson (Magnús Stefánsson), Þorgils Gjallanda (Jón Stefánsson) o.fl., o. fl. .
En svo eru það þeir sem þora ekki að standa við orð sín og láta gamminn geysa í lesendabréfum og athugasemdum bloggsíðna með persónulegri rætni og skítkasti. Þeir eru hvimleiðir, og ég var nú fyrst og fremst að vísa til þeirra í mínu máli -- sbr. spakmælið: Ekki eru öll dýr kýr þó kýr séu dýr
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.6.2007 kl. 10:41
Uppistaðan af skrifum sem birtast í dagblöðum eru án fulls nafns. Sjálfur var ég blaðamaður hjá bæði dagblöðum og tímaritum í þrjá áratugi. Ég haga bloggi mínu á sama hátt og í þeim skrifum. Munurinn er sá helstur að lesendur geta strax sýnt viðbrögð í athugasemdakerfinu. Þar spinnst oft skemmtileg umræða út frá lítilli færslu.
Jens Guð, 28.6.2007 kl. 11:52
Ég er sammála því sem DoctorEsegir hér að ofan. Í þeim netkúltúr sem ég hef vanist hingað til man ég ekki eftir því að það hafi verið amast við því þó að menn notist við gælunöfn (sem eru ekki endilega dulnefni), þvert á móti hefur frekar verið hvatt til þess að fólk gefi ekki of mikið upp af persónuupplýsingum. Moggabloggið er greinilega öðruvísi, ég skil ekki hversvegna þetta er talið skipta svona miklu máli hér. Málefnalegt komment er jafn málefnalegt hvort sem það er kvittað undir það með fullu nafni eða ekki. Og hvernig er það betra að skítakommentin komi fram undir nafni? Er það vegna þess að þá er hægt að fletta ódæðismanninum upp í þjóðskrá? Er þetta kannski bara smásálarlegi íslendingurinn í okkur sem hérna ræður för? Auðvitað hendir maður bara skítakommentum og hugsar svo ekki um það meir, nafnlausum eða ekki.
Það sem ég hef séð til moggabloggara hingað til virðist vera lifandi afsönnun þess að umræður undir fullu nafni séu á einhvern hátt siðmenntaðri eða gáfulegri en aðrar, eiginlega þvert á móti.
Bjarki Sigursveinsson 0411824079 Tröllagili 29-605, 603 Akureyri (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 11:56
Menn hræðast það sem þeir ekki skilja.
Egill Harðar (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 12:31
Þakka innihaldsríkan pistil, jafnvel hugvekju.
Svo er, að ég bloggaði á öðrum vetfangi, hvar nafnleynd átti að gilda en ef menn klæjar nægjanlega og hafa aðstæður til, geta þeir komist að því, hver pikkar á takkaborðið.
Þetta upplifðu nokkrir á Málefnunum og gekk svo langt, að ofur hörundssárir með ofmat á sínu dagfari, sendu á þá húskarla sína.
Blogg er ekkert annað en samansafn af niðurstöðu uppeldis þeirra, sem þar eru. Sumsé, hafi tekist vel upp með uppeldið hjá foreldrum eða forráðamönnum bloggara, eru þetta kurteist fólk, þó með skoðanir og auðvitað ekki geðlaust.
Hinir útiloka sig nokk sjálfir.
Hafðu þökk
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 28.6.2007 kl. 14:00
Ég skoða blog.is daglega og fæ ekki séð að þeir sem rita undir nafni segi eitthvað merkilegra en þeir sem nota gælunöfn. Það eru skemmtilegir pennar í báðum flokkum og það eru örgustu dónar í báðum flokkum.
Þessi ágæti blaðamaður, sem hraunaði yfir þig hversu ómerkilegt bloggið er, telur sjálfsagt (er mín tilfinning) að það sé ekki fínt og/eða beri ekki vott um næga greind og menningarvitund að blogga. Ég gæti best trúað að hann skrifi á einhverju blogginu, ötullega, undir dulnefni hvort sem það er nú skáldað nafn eða lítur út fyrir að vera eigiðnafn. En mér finnst þú svolítið setja þig í sama dómarastól þegar þú stuttu síðar alhæfir um þá með skálduðu nöfnin að þeir séu verri en aðrir bloggarar.
Fólk getur haft alls konar ástæður fyrir því að nota skálduð nöfn og hefur hver sína skoðun á hvað eru gildar ástæður fyrir því. Persónulega finnst mér nóg að þykja það skemmtilegt nóg ástæða. Það benti einn hér á í ummælum að fólki sé ráðlagt að gefa sem minnstar persónulegar upplýsingar á netinu og er það gott og gilt. Blog.is er ekkert minna hættulegur staður en aðrir á netinu. Margar aðrar ástæður eru líka fullgild rök, en orð fólks hvað sem það "heitir" standa eða falla með innihaldinu.
Ég vona að þeir sem skrifa skemmtilega og/eða um áhugaverð málefni hér á blog.is undir skálduðum nöfnum láti ekki undan eilífum hnýtingum, þessara nokkurra sem hafa ákveðið að það sé merkilegra sem sagt er undir meintum eiginnöfnum og hætti að skrifa. Það myndi svo sannarlega minnka fjölbreytnina.
Að lokum þakka ég þér fyrir, oft á tíðum, alveg hreint ágæt skrif og skemmtileg... þó þú skrifir undir eigin nafni.
Halldóra Traustadóttir (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 19:29
Úff, alltaf er maður að móðga einhvern.
Nú móðgaði ég einhvern ótilgreindan hóp fólks sem heldur út bloggsíðum undir undir dulnefnum. Þetta er eins og með akstursíþróttamennina - ef maður minnist á einn svartan sauð þá tekur hópurinn það til sín og fólk sem ekki má vamm sitt vita er skyndilega komið upp á kant við mann, að ástæðulausu.
Það verður þá bara að hafa það. Ég var ekki að tala til allra þeirra sem kjósa að skrifa undir dulefnum - heldur var ég að tala um þá sem skrifa illa um annað fólk, áreita það og hóta því jafnvel - í skjóli nafnleyndar.
Auðvitað dæmir maður skrif af inntaki þeirra (því sem sagt er) - en ekki umbóðunum (nafninu sem gefið er uppð, hvort sem það er nú ekta eða upplogið). Það segir sig sjálft.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.6.2007 kl. 01:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.