Komin úr söngferðinni - og fer nú beint í hundana!
19.6.2007 | 20:59
Jæja, þá er ég komin úr stórkostlegu söngferðalagi með Sunnukórnum á Ísafirði til Eystrasaltslanda. Fyrsti viðkomustaður var Finnland - sungum þar undir Síbelíusarminnismerkinu (sjá mynd), líka á Esplanaden, og svo var það hápunkturinn: Sjálf Klettakirkjan. Það var mikil upplifun ... og margt sem fór úrskeiðis, bæði fyrir tónleikana og meðan á þeim stóð.
Til dæmis tókst mér, fyrir ótrúlega slysni sem of langt mál yrði að rekja hér, að brenna hnefastórt gat á kórbúninginn minn kvöldið fyrir tónleikana í Klettakirkjunni . Ég á það hjálpsamri kórsystur að þakka, henni Hrafnhildi, að þessu varð bjargað. Hún er nefnilega völundur í höndum, og þrátt fyrir að hótelið gæti einungis útvegað okkur ónýta saumavél, sem að sjálfsögðu bilaði á meðan verið var að reyna að gera við skemmdina þarna á síðustu stundu, þá tókst henni að sauma treyjuna upp með sínum fimu fingrum. Og nú er treyjan betri ef eitthvað er. Enda sáu allir - þegar viðgerðinni var lokið - að svona styttri treyjur væru eiginlega bara klæðilegri á okkur konunum. Þannig að óhappið hefur sennilega skapað nýjan "trend" fyrir kórbúninga Sunnukórsins í framtíðinni
Jæja, en tónleikarnir tókust vel. Þeir voru vel sóttir og viðtökur áheyrenda frábærar í lokin, mörg uppklöpp og endaði með því að salurinn reis á fætur fyrir okkur. Jamm - ekkert minna.
Sanngirninnar vegna skal þess getið að við höfðum fyrirtaks klapplið með í för þar sem makar okkar voru annarsvegar. Þeir tóku að sér hlutverk kynningarfulltrúa og aðdáenda með öllu sem því tilheyrir - klöppuðu mest og hæst og sköpuðu stemningu hvar sem við komum. Nú skil ég betur en nokkru sinni gildi þess fyrir fótboltaliðin að hafa góða aðdáendaklúbba
En kórinn sjálfur átti auðvitað sinn hlut í þessu - og þá ekki síst stjórnandinn okkar hún Ingunn Ósk Sturludóttir. Hún er sjálf mezzo-sopran söngkona með djúpa og þróttmikla rödd - og það gerði auðvitað útslagið þegar hún tók lagið með okkur. Sérstaklega var áhrifamikið þegar hún söng Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns. Það eru engar ýkjur að fólk tárfelldi undir söng hennar, og eftir það áttum við hvert bein í áheyrendum. Þá spillti ekki fyrir að undirleikari kórsins, Sigríður Ragnarsdóttir, er snillingur á hljóðfærið. Sömuleiðis BG sjálfur, hann Baldur Geirmundsson með harmonikkuna og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir sem sló rengtrommuna af mikilli list þegar við tókum "Húsið" (lagið góða "Húsið er að gráta" sem Helgi Björns gerði frægt en Vilberg Viggósson hefur nú útsett sérstaklega fyrir Sunnukórinn).,
Jæja, svo var haldið til Eistlands. Þar sungum við á ráðhústorginu í Tallin og héldum svo opinbera tónleika síðar um daginn í sænsku kirkjunni. Hljómburðurinn í kirkjunni var ótrúlega fagur, og satt að segja held ég að þar hafi styrkur kórsins og samstilling notið sín best. Oft hef ég heyrt fagra Ave Maríu sungna eftir Sigvalda - en hvergi eins og þar.
Frá Tallin var haldið til Lettlands og sungið í menningarmiðstöðinni í Riga ásamt heimakór, sem að fáum vikum liðnum mun þreyta kapps í alþjóðlegri kórakeppni. Í Riga hittum við líka samkór Kópavogs sem voru á söngfeðralagi. Kórarnir slógu sig saman eitt kvöldið, borðuðu saman og tóku svo lagið, m.a. framan við hótelið þar sem báðir hóparnir gistu (sjá mynd). Kraftmikill söngur kóranna tveggja vakti óskipta athygli gesta og gangandi.
Síðustu tveimur dögunum eyddum við svo í Vilníus í Litháen. Þar gerðum við okkur glaðan dag á 17. júní með því að syngja þjóðsönginn okkar á tröppum ráðhússins. Að því loknu var haldið fylktu liði niður að Óperutorginu og sungið á leiðinni. Vakti þetta mikla athygli í Vilníus og var okkur tjáð að um fátt hefði verið meira rætt þann sunnudaginn en þessa skemmtilegu Íslendinga.
Í gær ókum við svo aftur frá Vilníus til Riga og tókum þaðan ferju yfir til Stokkhólms - gistum um borð og áttum skemmtilegt lokahóf í gærkvöldi. Mikið sungið og trallað.
Ferðina kórónaði Bryndís Schram, sem var fararstjórinn okkar þessa daga. Hún er hafsjór af fróðleik um Eystrasaltslöndin, enda fylgdist hún með sjálfstæðisbaráttu þeirra í óvenjulegu návígi sem utanríkisráðherrafrú á sínum tíma (þegar Jón Baldvin tók sig til fyrir hönd Íslendinga og viðurkenndi sjálfstæði þeirra á undan öðrum). Er síst ofmælt að Bryndís átti sinn þátt í því að gera þessa ferð ógleymanlega.
Jæja, en nú er næst á dagskrá að halda norður í Vaglaskóg með fjölskylduna og hundinn, á nokkurra daga björgunarhundanámskeið og tjaldútilegu.
Blessað barnið hann Hjörvar minn, og tíkin hún Blíða, hafa verið í sveitinni hjá systur minni meðan við hjónin vorum á fyrrnefndu söngferðalagi. Er ekki að orðlengja að þau hafa hvort með sínum hætti notið frelsisins í sveitinni. Hann með frænda sínum og jafnaldra honum Vésteini. Tíkin með heimilishundinum á bænum, honum Sámi. Hefur þar verið óheftur aðgangur að sauðfé, hrossum og öðrum hundum - og nú er spurningin hvernig mér gengur að tjónka við hundspottið þegar við komum norður á björgunarhundanámskeiðið.
Frá því verður kannski sagt síðar - næsta blogg kemur sennilega ekki fyrr en eftir helgina. Hafið það gott á meðan.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Lífstíll, Menning og listir, Tónlist, Vinir og fjölskylda | Breytt 20.6.2007 kl. 09:51 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg lesning og velkomin heim.
Edda Agnarsdóttir, 19.6.2007 kl. 23:51
Við svona lestur saknar maður félagsskapsins úr Sunnukórnum. Fylgdi ykkur nú samt eftir í anda á bb.is. Gott að vita að móðir mín gat bjargað kórdressinu þinu, hún er sko betri en engin þegar kemur að svona hlutum. Kveðjur,
Sigríður Jósefsdóttir, 20.6.2007 kl. 09:07
Velkomin heim, mín elskuleg. Gangi þér vel í hundaþjálfuninni.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 20.6.2007 kl. 09:47
Nú ætla ég að láta svo lítið að gefa þér komment: Árið 1991 söng ég (af öllum mönnum) fyrir Jóhannes páfa við athöfn í Vatikaninu í kór organista frá Íslandi.
Sigurður Þór Guðjónsson, 20.6.2007 kl. 15:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.