Hvað eru Vinstri grænir að hugsa?

Eru vinstri grænir að reyna að tala sig frá vinstri stjórn? Það hvarflar sterklega að mér eftir að hafa hlýtt á þá Ögmund Jónasson og Steingrím J í umræðuþáttum síðustu sólarhringa, að þeir ætli að nota Framsóknarflokkinn sem ásteytingarstein gegn því að ganga í vinstri stjórn. Að Framsókn verði þeirra tylliástæða fyrir því að reyna að komast í stjórn með íhaldinu.

Auðvitað má svosem segja að mikið beri á milli þessara tveggja flokka í umhverfis- og stóriðjumálum. En halló: Stjórnarmyndun byggist alltaf á málefnasamningum. Það er engu líkara en að Vinstri grænir ætli EKKI að gefa neinn kost á slíkum samningum við Framsókn. Tilboð þeirra um minnihlutastjórn sem varin yrði falli með hlutleysi Framsóknar er á þeim nótum. Eða hvað ætti Framsókn að fá fyrir sinn snúð? Það vantar eitthvað inn í þessa samningatækni - ég meina, flokkurinn er jú í ríkisstjórn nú þegar. Það gefur auga leið að hann þarf að sjá sér einhvern hag í því að ganga út úr því samstarfi. 

Ég tek undir með þeim sem hafa haldið því fram að undanförnu að Framsóknarflokkurinn hafi ýmis spil á hendi. Það er augljóslega ekki hægt að mynda vinstristjórn án þátttöku þeirra - og tilhugsunin um Vinstri græna í stjórn með Sjálfstæðisflokknum er ... tja, halda menn að unga fólkið sem kaus Vinstri græna í þessum kosninum hafi gert það til þess að koma þeim í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum? Það efa ég. Ef flokkurinn vill drepa sig - þá fer hanninn í slíka tveggja flokka stjórn. En ég held honum væri heilladrýgra að veðja á vinstrið að þessu sinni. Satt að segja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég spyr þess sama.  Hvernig hugnast þér íhald og Samfylking?

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.5.2007 kl. 14:19

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Framsókn vinnur alltaf - allar kosningar. sjá hérna:

http://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/208226/ 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.5.2007 kl. 14:25

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Æ, verið nú ekki svona erfið við mig.

Auðvitað líkar mér það ekki sem fyrsti kostur. Ég vil láta á það reyna til hins ýtrasta hvort ekki tekst að mynda vinstri stjórn. Takist það ekki, nú þá verða menn auðvitað að skoða aðra möguleika - og allt byggist þetta á því hvernig til tekst með málefnasamninga. Ef Samfylkingin neyðist til þess að fara í stjórn með Sjálfstæðismönnum á hún að standa fast á ákveðnum grundvallar skilyrðum í velferðarmálum og svo auðvitað Evrópumálum. ´

En ég get nú ekki sagt að ég sé hrifin af hugmyndinni - verð bara að segja eins og er. Þá get ég allt eins hugsað mér að framsókn lafi áfram með íhaldinu og fái svo náðarhöggið í næstu kosningum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.5.2007 kl. 14:25

4 Smámynd: Guðmundur Björn

Hvernig er hægt að ætlast til þess að Framsókn verði hækja umhverfisfasista og sósíalista miðað við það sem undan er gengið?  Þetta er svo aumkunarvert af VG, Ögmundi og Steingrími hvernig þeir hafa biðlað til Framsóknar.   Valdaþorstinn er alveg að fara með þá.  Það er ekket annað í stöðunni en að Sjálfstæðisflokkur verði við völd, sama hvernig ríkisstjórnin verður. Þjóðin kaus það sl. laugardag.  

Guðmundur Björn, 15.5.2007 kl. 19:56

5 identicon

Engu líkara en Vinstri grænir séu með Framsóknarflokkinn á heilanum! Hvað ætli þeir hugsi núna, vinstrisinnuðu framsóknarmennirnir sem hafa hallað sér að Vinstri grænum þegar þeim hefur þótt hægri slagsíða vera á Framsóknarflokknum í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn? Þegar á hólminn kemur og sá möguleiki er raunverulega á borðinu að ná saman stjórn VG, Samfylkingar og Framsóknar taka VG menn til fótanna! Hvað varð nú af öllu talinu um myndun vinstrisinnaðrar velferðarstjórnar? Hvað varð nú af markmiði VG um að koma Sjálfstæðisflokknum út úr Stjórnarráðinu? Hvað varð nú af öllu talinu um um ofurvöld flokks í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Ekki munar nú þrátt fyrir allt svo miklu á fylgi VG og Framsóknar. Alla vega er alveg ljóst að VG hefur bara tvær leiðir á teikniborðinu núna, þ.e. að sitja áfram í stjórnarandstöðu eða komast í áhrifastöðu með Sjálfstæðisflokknum.
Vinstri grænir munu eflaust reyna allt næsta kjörtímabil að kenna Framsóknarflokknum um að ekki hafi verið mögulegt að koma á vinstri stjórn, enda þótt það sé VG sem á höfundarréttinn af þeim gjörningi. Þetta fer nú að minna svolítið á Kvennalistann um árið. Þegar sá flokkur komst upp í slíkar hæðir í fylgi að hann ætti möguleika til áhrifa við ríkisstjórnarborðið brast kjarkurinn. Og þar með lauk sögu flokksins í framhaldinu. Kjósendur sáu kjarkleysið skína í gegn. Varla er nú ástæða til að ætla að VG verði i hættu í næstu kosningum en það er í það minnsta athyglisvert að heyra kjósendur VG sjá eftir því aðeins þremur sólarhringum eftir kjördag að hafa eytt á þá atkvæðum.

Jóhann Ó. (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 20:59

6 identicon

Stjórnin hélt velli og Sjálfstæðisflokkurinn er ennþá stærsti flokkurinn, ef flokkarnir ákveða að slíta samstarfinu þá er sjálfsagt að Sjálfstæðisflokkurinn fái umboð til að mynda nýja stjórn. Því er fáránlegt að ræða um einhverja vinstristjórn með Framsókn. Kjósendur sendu skýr skilaboð að Framsókn eigi að stíga til hliðar, það breytist ekkert þó þeir halli sér til vinstri.

 Einu sanngjörnu leiðirnar hljóta því að vera D og V eða D og S... Ættu að reyna á D og S fyrst enda yrði það sterk stjórn og raunhæfara að þeir nái saman.

Geiri (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 23:10

7 identicon

Sjálfstædisflokkur og Samfylkingin -ekki spurning. Vinstri grænir hafa hagad sér eins og vitleysingar fyrir og eftir kosningar og sýnt ad their hafa tæpast throska til ad sitja í ríkisstjórn, og hvad thá med fleirum en einum flokki. Thjódin er búin ad kjósa, Framsókn er búin á thví. Med samstarfi Samfylkingar og Sjálfstædisflokks er hægt ad taka thad besta úr bádum áttum.

Maddý (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband