Klíkufundir í stað opinnar umræðu - taktleysi!

Vestfirðir  Fram kom á  fréttavef bb.is í gær að Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði hefði kynnt skýrslu Vestfjarðanefndarinnar um útbætur í atvinnumálum á fundi með Sjálfstæðismönnum daginn áður. Flokksbróðir hans státar sig af þessari kynningu bæjarstjórans á bloggsíðu  sinni í dag.

Einmitt það. Fyrsta opinbera kynningin sem fram fer á inntaki skýrslunnar fer ekki fram á opnum borgarafundi - ekki á sameiginlegum fundi allra stjórnmálaflokka. Ónei. Fyrsta formlega kynningin þar sem aðstandendur skýrslunnar gefa kost á fyrirspurnum og svörum - hún fer fram á lokuðum fundi Sjálfstæðismanna á Ísafirði. Er hægt að hugsa sér neyðarlegra taktleysi?

 Dagana á undan var furðurlegur farsi í gangi á fréttavef bb.is, þar sem mikið virtist í húfi að koma fólki í skilning um að Vestfjarðanefndin hafi EKKI verið skipuð vegna ákalls til stjórnvalda sem barst frá baráttufundinum Lifi Vestfirðir þann 11. mars. Ó, nei. Ákvörðunin hafi legið fyrir ÁÐUR en sá fundur var haldinn - hún hafi bara ekki verið kynnt fyrr en EFTIR fundinn. Hmmm .... Og ég sem hafði fundið hlýjuna verma hjartað við fréttina af skipun nefndarinnar - var svo barnaleg að halda að forsætisráðherra hefði heyrt neyðarkallið að vestan og vildi bregðast við. Sýna okkur að hér í landinu væru stjórnvöld sem væru þrátt fyrir allt að hlusta.

Það var sem sagt minn misskilningur - og nú hafa verið tekin af öll tvímæli um það.

Þetta er auðvitað ástæða þess að þingmenn sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum, Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og Einar Oddur Kristjánsson, sáu hvorugur ástæðu til að mæta á baráttufundinn með vestfirskum borgurum, sendu ekki fulltrúar fyrir sig og boðuðu ekki forföll. Hinsvegar gat sjávarútvegsráðherrann mætt á 30 manna klíkufund sem haldinn var að frumkvæði nokkurra sjálfstæðismanna í "krónni" sem svo er kölluð. Þangað mætti ráðherrann til þess að bera boðin inn að ríkisstjórnarborðinu - eins og einn fundarmannanna bloggaði svo eftirminnilega um.

 Í sama anda er kynning Vestfjarðanefndarinnar á skýrslunni. Þeir eru ekki að tala við fólkið í landinu - það er ástæðulaust. Þeir tala bara við Sjálfstæðismenn.

Menn sem þannig hugsa þekkja ekki erindi sitt í stjórnmálum. Firring þeirra er algjör.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komdu sæl Ólína.

Vegna bloggfærslu þinnar vil ég koma því á framfæri að forsætisráðherra kynnti skýrsluna á blaðamannafundi daginn sem hún kom út.

Fundurinn hjá sjálfstæðismönnum var opinn fundur. Undirritaður tilkynnti öllum framboðum sem bjóða fram til Alþingis að hann væri tilbúinn að kynna skýrsluna hjá þeim. Ekki hefur komið beiðni frá neinu öðru framboði en sjálfstæðismönnum um kynningu.

Að lokum þá vil ég geta þess að forsætisráðherra verður á Ísafirði á opnum fundi 6. maí n.k. Þar gefst væntanlega tækifæri til þess að ræða skýrsluna.

Með góðri kveðja
Halldór Halldórsson

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 14:35

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Halldór.

Hvenær sendir þú þína tilkynningu til allra framboða um að þú værir tilbúinn að kynna þeim skýrsluna - var það ekki sama dag og þú  mættir hjá sjálfstæðismönnum?

Og ef þú heldur Halldór minn að blaðamannafundur suður í Reykjavík sé jafngildi þess að ræða við íbúa á Vestfjörðum, þá ert þú á villigötum.

Með góðri kveðju í hlýviðrinu,

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.5.2007 kl. 16:48

3 Smámynd: Auðun Gíslason

Sérkennilegt að kalla súpufund á kosningaskrifstofu djélistans á Ísafirði opin borgarafund, einsog ég sá á BB (sem mé er sagt að þýði bara bull).

Auðun Gíslason, 4.5.2007 kl. 11:09

4 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Blessuð Ólína

Þetta er réttmæt ábending hjá þér.  Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segfir ekki satt þegar hann segist hafa  tilkynnti öllum framboðum sem bjóða fram til Alþingis að hann væri tilbúinn að kynna skýrsluna hjá þeim.  Raunin er sú að hann þorir ekki að mæta fólkinu í bænum á opnum fundi á jafnréttisgrundvelli.  Hann lætur fjölmiðlum í té upplýsingar um innistæðulausu þrekvirkin sem hann og félagar hans (já, vel á minnst tveir ráðherrar eru þar á meðal) hafa unnið í málefnum Vestfjarða.  Svo þegar hann á að stíga niður til fólksins augliti til auglitis þá er innistæðan heldur rýr.  Það er þess vegna sem hann þarf að kynna umrædda skýrslu í vernduðu umhverfi.  Opnir borgarafundir á Ísafirði eru eitur í beinum Sjálfstæðismanna.  

Kveðja,

Bryndís Friðgeirs 

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 4.5.2007 kl. 21:00

5 Smámynd: Páll Einarsson

Mér fannst nú skrítið að blaðamannafundur forsætisráðherra hafi ekki verið haldin á Ísafyrði enda verið að ræða um málefni Ísfyrðinga. Svo sannar sjálfstæðisflokkurinn en og aftur fyrir mér hversu kommonískur hann er í raun.

kveðja,

Páll Einarsson, 4.5.2007 kl. 22:58

6 identicon

Sæl Ólína. Ég bý á Akureyri en fylgist vel með bloggvinum mínum og vinkonum fyrir vestan enda Grunnvíkingur í föðurætt  Það er út af fyrir sig verðugt rannsóknarefni að skoða hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni svona rétt fyrir kosningar. Undirritunarpennar eru til dæmis mjög, segi og skrifa MJÖG mikilvæg verkfæri og ferðast með ráðherrunum á hraða ljóssins milli landshluta. Og svo eru það fyrirsagnirnar á pappírunum sem skrifað er á: Ótrúlegt hvað margar þeirra byrja á þjónustu- menningar- samgöngu-  og enda á -samningur eða eitthvað álíka.  Þess vegna fannst mér það svo óheyrilega fyndið þegar ég heyrði viðtal við Ólaf Darra, deildarstjóra hagdeildar ASÍ í tilefni af vorskýrslu ASÍ og RÚV-spyrillinn spurði: En eru þetta ekki mjög pólitísk skilaboð að gefa svona viku fyrir kosningar?  Ég gat ekki varist að spyrja mig hvort ég hefði heyrt svipaða spurningu þegar ráðherrarnir flengjast um landið með undirritunarpennann. Ja, það er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón!

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 4.5.2007 kl. 23:19

7 identicon

Hún er alveg meiriháttar flott myndin sem fylgir færslunni hjá þér .

Ég hef verið að reyna að gera mér grein fyrir landslaginu. Er það ekki Riturinn sem er fremst til vinstri,síðan  Vébjarnarnúpurinn og Steingrímsfjarðarheiði fyrir botni Ísafjarðardjúpsins ?

Gott að hvíla sig um stund frá pólitíkinni og njóta þessarar mikilfenglegu náttúru Vestfjarðanna. 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 23:17

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þar sem ég er að koma úr nokkurra daga útilegu hef ég ekki verið á síðunni síðustu daga. Sé núna þessi skoðanaskipti sem hafa orðið á meðan ég var í burtu og þakka fyrir þau.

Sævar, myndina sem fylgir færslunni fékk ég á myndavef google.com. Það fylgir ekki sögunni hvar hún er tekin, hinsvegar held ég eins og þú að þetta séu Vébjarnarnúpur og Ritur með Langadalsströnd í baksýn. Sé myndin skoðuð í fullri stærð má sjá móta fyrir Ögurnesinu hægra megin - en ég er ekki alveg viss um þetta. Tek undir það að myndin er tilkomumikil, því miður þekki ég ekki höfund hennar.

Kær kveðja - tek til við að blogga þegar líður á daginn.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.5.2007 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband