Að velja milli kvenna - erfitt!?
21.4.2007 | 14:22
Sú óvenjulega staða er nú uppi í Norðvesturkjördæmi að tvær konur eru í baráttusætum tveggja framboðslista, báðar úr Skagafirði. Anna Kristín Gunnarsdóttir, sem verið hefur þingmaður kjördæmisins á yfirstandandi kjörtímabili, skipar þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar. Herdís Sæmundardóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, skipar annað sæti á lista Framsóknarflokksins. Báðar eiga þær raunhæfan möguleika á að komast í þingsæti - en hvorug er þó örugg inn.
Það gerist ekki oft í íslenskum stjórnmálum að kjósendur þurfi að velja á milli kvenna. Algengara er að valið standi milli karls og konu. Hefur af því skapast sú hvimleiða umræða sem margir þekkja, að konur komist til valda bara vegna þess að þær séu konur. Nú er því ekki að heilsa, heldur þurfa kjósendur að vega og meta tvær mætar konur á pólitískum forsendum. Fyrir hvað standa þær?
Fulltrúi óbreytts ástands
Herdís Sæmundsdóttir er lítt þekkt á opinberum vettvangi, utan héraðs. Hún gegnir þó stjórnarformennsku sem fulltrúi Framsóknarflokksins í Byggðastofnun og hefur starfað sem bæjarfulltrúi. Að öðru leyti þekkja almennir kjósendur í kjördæmi lítið til hennar.Eins og menn vita hefur Byggðastofnun veikst mjög í tíð iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og hefur átt erfitt með að gegna sínu mikilvæga rannsóknar- og stuðningshlutverki við byggðir landsins. Áform iðnaðarráðherra um að sameina hana Iðntæknistofnun og Nýsköpunarmiðstöð ollu stofnuninni erfiðleikum og óvissu, enda þótt ekki yrði af sameiningunni.
Samkvæmt skoðanakönnun sem fréttablaðið hefur nú kynnt vilja 90% framsóknarmanna áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar með vitum við að atkvæði greitt framsóknarflokknum er atkvæði greitt ríkisstjórninni og óbreyttum stjórnarháttum. Hvað þýðir það? Það þýðir meðal annars áframhaldandi ójafnvægi í hagstjórnun landsins, misskiptingu lífskjara, vaxandi mun milli ríkra og fátækra, viðvarandi biðlista eftir velferðarþjónustu, óréttlátt skattkerfi, miðstýringu í landbúnaði og þverrandi virðingu fyrir grunngildum jafnaðarhugsjónarinnar.
Fulltrúi umbóta og nýsköpunar
Anna Kristín Gunnarsdóttir er alþingisþingmaður á yfirstandandi kjörtímabili og kjósendur þekkja hana af verkum hennar. Hún hefur verið ötull málsvari landsbyggðarinnar, talað fyrir nýsköpun í atvinnu- og menntamálum kjördæmisins. Ekki síst hefur hún talað fyrir bættum samgöngum og umbótum í landbúnaði og látið sig varða málefni íslenskra bænda. Anna Kristín er sömuleiðis málsvari skynsamlegrar nýtingar náttúruauðlinda og aðhyllst hófsemi í þeim efnum. Hún hefur verið einörð og heiðarleg í sínum málflutningi.
Við sem höfum kynnt okkur stefnurskrár stjórnmálaflokkanna fyrir þessar kosningar vitum að atkvæði greitt Samfylkingunni er atkvæði greitt umbótavilja og breytingum: Stjórnarháttum sem miða að jafnvægi og réttlátri skiptingu lífskjara, auknum jöfnuði í samfélaginu, aukinni þjónustu í velferðarkerfinu og nýsköpun í atvinnulífi. Samfylkingin stefnir að sanngjörnum leikreglum í atvinnulífi þjóðarinnar, ekki síst landbúnaði og tekur stöðu með neytendum jafnt og bændum. Samfylkingin hefur heitið því að útrýma biðlistum eftir velferðarþjónustu og gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að afnema launamun kynjanna. Síðast en ekki síst byggir Samfylkingin á grundvallargildum jafnaðarmanna um heim allan.
Kjósendur í Norðvestur kjördæmi! Ef þið eigið erfitt með að velja á milli tveggja frambærilegra kvenna á kjördag, hugleiðið þá vel hvaða grundvallarsjónarmið þessar tvær konur standa fyrir. Það er hið raunverulega val sem þið standið frammi fyrir í kjörklefanum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.4.2007 kl. 14:21 | Facebook
Athugasemdir
Vaá þetta getur verið erfitt þegar fólk er farið að kjósa eingöngu vegna einstaklingsins og tengsla en ekki grundvallarhugmynda og stefnu flokksins sem þær eru í framboði fyrir! Ég vel fokkinn umfram persónanna þótt ég sé í hjarta mínu hlynnt því að val í kosningum eigi að vera á milli einstaklinga, sérstaklega til sveitsjórnar og bæjarstjórnar.
Ég kýs x-S.
Edda Agnarsdóttir, 21.4.2007 kl. 15:09
Ekki flókið, X-D
Örvar Þór Kristjánsson, 21.4.2007 kl. 17:11
Þetta er sjúklegt!
Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 19:45
ég myndi nú heldur ekki gleyma Herdísi Þórðardóttur sem er í fjórða sæti hjá Sjálfstæðisflokknum í norðvesturkjördæmi. Það er ekki langt í að hún detti inn miðað við kannanir.
Ingólfur H Þorleifsson, 21.4.2007 kl. 20:27
Ég væri alveg til í að kjósa þessa Herdísi Þórðar... ef bara væri hægt að lofa því að þessir þrír gráhærðu þreyttu þursar þarna á undan henni fylgdu ekki með... ;c)
Jón Þór Bjarnason, 21.4.2007 kl. 22:14
Sæl Ólína.
Það sannast á þessum skrifum þínum að konur eru konum verstar. Þar sem þú hefur ekki haft tök á að finna nýlega mynd af Herdísi, set ég eina nýrri hér inn.
Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 22:51
Er ekki rétt að minna hér á Ingibjörgu Ingu sem skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna og er eina konan sem er nokkuð örugg inn? -Enda er þar um flokk að ræða sem gætir kynjasjónarmiða við uppröðun á lsita, ólíkt sumum...
Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 22:56
Góðan dag, Ólína mín. Ég hef mikla ánægju af að lesa bloggsíðuna þína. Kveðja
Ragnheiður.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 22.4.2007 kl. 09:42
Sæll Kári - takk fyrir þessa glæsilegu mynd af henni Herdísi. Ég set hana inn með það sama. Skil þó ekki athugasemd þína um að "konur séu konum verstar" í þessu tilviki - og tek hana því ekki til mín.
Kær kveðja,
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.4.2007 kl. 14:19
Ég tek undir með þér Ólína. Auðvitað má tala um konur og taka afstöðu til þeirra í stjórnmálum. Konur mega vel, og eiga auðvitað aðl taka afstöðu til annarra kvenna og það sem þær standa fyrir. Sumar standa t.d. fyrir kvenréttindi, aðrar fyrir umhverfisvernd, enn aðrar fyrir frjálshyggju og markaðsöfl. Auðvitað mega konur ræða erindi annarra kenna í stjórnmálum. Ekkert að því.
Vala (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 19:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.