Ekki lögbrot heldur hneyksli

Grund  Landssamtök eldri borgara hafa dregið til baka yfirlýsingu um að úthlutanir heilbrigðisráðherra úr framkvæmdasjóði aldraðra hafi verið lögleysa. Þar með þagnaði umræðan um hríð - og það var afleitt - því svo virtist sem ekki væri lengur ástæða til þess að gera athugasemdir við úthlutanir úr sjóðnum. En það er eitt að saka einhvern um lögbrot, annað er að gagnrýna verk hans. Og víst er að úthlutanir úr framkvæmdasjóði aldraðra eru hreint ekki hafnar yfir gagnrýni þó að yfirlýsingar um lögbrot gangi of langt.

Ég var því fegin að lesa grein eftir Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þar sem vakin var athygli á því hvernig fjármunum sjóðsins hefur verið ráðstafað undanfarin ár.  Úthlutanir úr framkvæmdasjóði aldraðra hafa verið með eindæmum undarlegar.  Allskyns styrkir - sem vandséð er hvernig tengjast öldrunarmálum - hafa verið veittir úr sjóðnum, m.a. til listrænna verkefna. Ekki nóg með það, heldur hefur sjóðurinn verið látinn kosta kynningu á stefnumálum heilbrigðisráðherrans í öldrunarmálum.  Þá hafa eldri borgarar réttilega gagnrýnt að fjármunir sjóðsins skuli hafa runnið til reksturs hjúkrunarheimila en ekki framkvæmda, sem auðvitað stingur í stúf við yfirlýstan tilgang sjóðsins.

Nei, það er alveg ljóst að framkvæmdasjóður aldraðra hefur ekki verið notaður eins og til var ætlast. Við erum því ekki að tala um lögbrot - heldur hneyksli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Garðar Cortes var búin að "gleyma" að hann hefði sníkt pening og lofað í staðinn að syngja á elliheimilum. Sagði hann ekki einhversstaðar að henn hefði ekki þegið peningana ef hann hefði vitað hvaðan þeir komu.....

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 3.4.2007 kl. 11:59

2 identicon

Jamm, og síðan fékk eitthvert tölvuhugbúnaðarfyrirtæki í borginni einhverja aurana úr sjóðnum. Spurning hvernig það fer að skila sínu til aldraðra? Vonandi eru menn líka músíkalskir á þeim bænum .

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 12:40

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þetta mál er svo ótrúlegt, að maður skilur illa þögnina sem um þetta ríkir. Svo glotta menn bara við tönn eins og ekkert hafi verið sjálfsagðara. "FRAMKVÆMDASJÓÐUR ALDRAÐRA", fer tilgangur sjóðsins framhjá einhverjum? Lögreglukórinn og óperan? Það er eitthvað mikið að, sem því miður virðist bara halda áfram að vera að. 

Halldór Egill Guðnason, 3.4.2007 kl. 12:55

4 Smámynd: Katrín

Menn eru einnig búnir að gleyma að þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp var gjald í framkvæmdarsjóð fellt þar inní.  Það dugði ekki til og því var gjaldið sett á aftur sem nefskattur.  Við eru því að tvígreiða í sjóðinn sem notaður er til úthlutnar á gæluverkefnum sitjandi ráðherra

Katrín, 3.4.2007 kl. 13:17

5 identicon

Tek undir það sem Halldór segir.. maður skilur ekki þögnina? Það er alveg á tæru að ef fjölmiðlar standa sig hér eftir og fylgjast með öllum útlhlutunum úr sjóðnum þá á gæluverkefnum ráðherra eftir að snarfækka..

Sérstaklega vekur það furðu að  fjármögnun á "upplýsingabæklingum" ráðuneytisins hafi verið tekin úr framkvæmdarsjóði aldraðra.. Bíðið.. hver er tengingin þar á milli?

Annars þá kom nú kórinn um daginn á hjúkrundardeildina sem ég er að vinna á og sungu fyrir íbúanna í hálftíma. Þau stóðu sig mjög vel, þrátt fyrir mikið plássleysi.. Helmingurinn af deildinni er lokaður og ætlaður alzheimer.. Að koma heilum kór + 24 einstaklingum og merihlutinn í hjólastól fyrir í einni lítilli stofu var ekki bara bara. En allir skemmtu sér vel 

Björg F (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 15:51

6 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Við skulum muna hvaða flokkar komu því á að taka fé úr framkvæmdasjóði aldraðra og setja það í rekstur hjúkrunarheimila og sérstök verkefni eins og skemmtanir á hjúkrunarheimilum. Það voru nefnilega kratar og íhaldið í Viðeyjarstjórninni. Undanfarin ár hafa meiri fjármunir farið til byggingaframkvæmda fyrir aldraða en sem nemur tekjum framkvæmdasjóðsins. Það er fáránleg bókhaldsaðferð, sem ber að afnema, að taka hluta framkvæmdafjár úr framkvæmdasjóði en annan hluta beint af fjárlögum, en Siv og Jón á undan henni hafa skilað meiru í framkvæmdir en sem nemur þessum sjóði.

Gestur Guðjónsson, 3.4.2007 kl. 18:03

7 Smámynd: Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

Meðferðin á sjóðnum er lögleg en siðlaus. Það er ekki rétt hjá Gesti að heimildin til að taka fé úr sjóðnum sé frá Viðeyjarstjórninni. Hún er frá 1990, þá var Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Guðmundur Bjarnason heilbrigðisráðherra. Það átti að vera tímabundin heimild.

Ég hef spurt þrisvar á Alþingi um sjóðinn og það eru mjög fróðlegar upplýsingar sem koma fram í þeim svörum sem ég fékk frá ráðherranum. Þið getið kynnt ykkur þau á vef Alþingis undir þingmál. Það er ekki aðeins að farið hafi verið frjálslega með fé úr sjóðnum, heldur er búið að eyða gögnum um úthlutanir, svo ekki er hægt að fá upplýsingar um það hverjir fegnu styrki úr honum fyrir 1997. Ég hef tekið málefni sjóðsins upp á Alþingi nokkrum sinnum og það er ótrúlegt að fyrst nú hafi ósóminn náð eyrum fólks.

Nú bíða 400 hjúkrunarsjúklingar í brýnni þörf eftir plássi á hjúkrunarheimili, 70 aldraðir eru fastir inni á Landspítala í bið eftir hjúkrunarrými, sumir hafa beðið yfir eitt ár og hátt í 1000 manns dvelja í þvingaðri samvist í herbergi með ókunnugum á hjúkrunarheimilum. Ekkert nýtt hjúkrunarpláss bættist við árið 2006 og framkvæmdirnar í ár voru aðeins ein skóflustunga!

Í ljósi ástandsins í hjúkrunarmálum aldraðra og meðferðarinnar á sjóðunum ættu stjórnvöld að skammast sín.

Takk Ólína,  fyrir að vekja máls á málefnum Framkvæmdasjóðsins.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, 3.4.2007 kl. 20:55

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hafðu þakkir Ólína fyrir að halda þessari umræðu í gangi. Eitt af verstu meinum í okkar samfélagi er þessi vonda tilhneiging "að þegja við öllu röngu". Löglaust eða bara siðlaust?, einu gildir. Bakvið er siðblindan, mannfyrirlitningin og tómlætið í garð þeirra sem beinlínis eru hæddir af þeim fulltrúum fjárveitingavaldsins sem hafa gengist undir hagsmunavörslu fyrir þann þjóðfélagshóp sem byggði undirstöðurnar fyri mannlíf velsældar í þessu landi.

Árni Gunnarsson, 3.4.2007 kl. 23:12

9 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ásta Ragnheiður, ekki þakka Ólínu.! Hvað ætlar ÞÚ að gera? Ert að minnsta kosti á þingi og hefur ítök til einhvers þessu til leiðréttingar. Árangurinn....? Púff.... enginn.

Halldór Egill Guðnason, 4.4.2007 kl. 01:53

10 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ásta. Þetta er rétt hjá þér. Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Framsókn með stuðningi Samtaka um kvennalista samþykktu þessa breytingu 1989, ekki Viðeyjarstjórnin. Viðmælandi minn sem ég byggði þetta á hefur einfaldlega ekki haft rétt fyrir sér og reglugerd.is hefur verið niðri. Ég biðst forláts. Viðeyjarstjórnin hafði sem sagt öll þau ár sem hún sat til að leiðrétta þetta, en gerði ekki. Svo virðist sem ekki séu til gögn um hvernig þessu fé var skipt í tíð þeirrar ríkisstjórnar, en ég get fullyrt að með þeim milljarði sem var lagður til málaflokksins 2003 þeirrar áætlunar sem nú er búið að koma í gegn og endurbyggingar Vífilsstaða sé þessi ríkisstjórn búin að borga til baka og vel það sem til rekstrar hefur farið úr framkvæmdasjóðnum. Gleymum ekki að búið er að ákveða að hætta að taka rekstrarfé úr framkvæmdasjóði aldraðra. Það gerðu þeir Sighvatur og Guðmundur Árni ekki, heldur Siv Friðleifsdóttir.

Gestur Guðjónsson, 4.4.2007 kl. 14:28

11 identicon

Já en var það ekki Sif sem gerði bæklinginn og lét framkvæmdarsjóðinn kosta hann?.. (áróðurs bæklingur Framsóknar fyrir kosningar en hún kallaði "upplýsingabækling um stefnu heilbrigðisráðuneytisins í málefnum aldraðra")

Endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál..

Björg F (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 16:21

12 identicon

Halló, hefur þessi framkvæmdasjóður ekki stjórn? Hvurs lags er þetta?  Sem betur fer er búið að laga þetta en mér skilst að það hafi enginn notað heimildina í botn nema Viðreisnarstjórnin. Og hverjir áttu svo að skammast sín?

Anna (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband