Draumalandið Hafnarfjörður
1.4.2007 | 17:33
Ég er ánægð með niðurstöðu kosninganna í Hafnarfirði, en ég hef svolitlar áhyggjur vegna þess hve mjótt var á munum. Það er alltaf erfitt - fyrir báða aðila - þegar niðurstaða næst með mjóum mun. Ég held hins vegar að Hafnfirðingar hafi tekið rétta ákvörðun þarna.
Það er svolítið skemmtileg tilviljun að fyrir fáum dögum var ég á sýningunni Draumalandið í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Ég hafði fyrirfram velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum handritshöfundi myndi takast að koma boðskap bókarinnar í leikrænan búning - en bókina las ég mér til óblandinnar ánægju fyrir allnokkru. Ég bjóst því ekki við neinu sérstöku þegar ég mætti í Hafnarfjarðarleikhúsið - og var svona eins og við því búin að finna til einhverskonar vonbrigða eins og stundum gerist þegar maður fer á bíómynd sem gerð er eftir bók. En það voru óþarfa áhyggjur. Í stuttu máli sagt átti ég frábært kvöld þarna og tek hér með ofan fyrir handritshöfundi, leikurum og öðrum aðstandendum verksins. Þau komust hjá því að festast í einstrengingshætti - gerðu létt grín að ýmsum hliðum málsins, m.a. umhverfisverndarsinnum og mótmælendum ekkert síður en virkjunarsinnum og hinum óupplýsta almenningi sem veit vart í hvorn fótinn skal stigið. Undir öllu niðaði hinsvegar þungur tónn sem engan lætur ósnortinn.
Það er uggvænlegt til þess að hugsa að íslensk stjórnvöld skuli hafa falboðið erlendum stóriðjufyrirtækjum landið; boðið upp á 30 terawattstundir ef stóriðjufyrirtækin vildu bara láta svo lítið að koma og virkja hér. Það er umhugsunarefni að öll íslenska þjóðin notar einungis þrjár terawattstundir - en Kárahnjúkavirkjunin ein og sér framleiðir fjórar. Já það eru undarleg stærðarhlutföll sem skyndilega eru komin inn í umræðuna - og ekki nema von þó að við, venjulegar manneskjur, eigum stundum erfitt með að átta okkur á þeim viðmiðunum sem viðhafðar eru.
Nei, það er engin sátt um stóriðjustefnuna á Íslandi. Þó svo að kosningin í Hafnarfirði hafi að forminu til snúist um deiliskipulag, er niðurstaðan engu að síður skilaboð til stjórnvalda um hug almennings í stóriðjumálum.
Ef stjórnvöld ættu að standa við stóru orðin um að hér megi virkja 30 terawattstundir á ári, þyrfti að virkja nánast allt sem rennur á Íslandi, þ.á.m. Gullfoss og Dettifoss. Ekki amalegt loforð upp í ermar komandi kynslóða. Úff!
Sem betur fer held ég að þjóðin sé búin að fá nóg af stóriðjuframkvæmdum. Umfang Kárahnúkavirkjunar kom flatt upp á íslenskan almenning - jafnvel hörðustu virkjunarsinna setti hljóða daginn sem Jökla þagnaði. Ósættið um þá framkvæmd hefur nánast skipt þjóðinni í tvennt - og til hvers? Til þess að skapa 1,5% af mannafla þjóðarinnar atvinnu í álveri?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Facebook
Athugasemdir
Já einmitt, allir inn í álverin. Það er þá atvinnusköpun í lagi Það mun ekki veita af að flytja inn erlent vinnuafl til þess að manna stóriðju framtíðarinnar á Íslandi.
Örn Bjarnason (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 00:08
Einhvernvegin fer um mig hrollur eftir þessar kosningar. Um leið og búið er að landa þeim byrjar áróðurinn og umræður um nýjar virkjanir og ný álver þ.e. Helguvík sem verður örugglega engin kosning um því þar ræður Árni ríkjum og allir samningar klappaðir og klárir og svo kom röddin frá hinum um virkjun í Þjórsá í næstu andrá og greinilegt að þar á að vaða yfir fólk! Þetta gerist strax í kjölfar þessara glæsilegu kosninga sem eru ekki bara sögulegar vegna íbúalýðræðis heldur líka vegna þess að það voru fleiri sem kusu núna en í síðustu sveitarstjórnarkosningu í Hafnarfirði. Aðalforsíðufrétt Moggans í dag er að þetta sé verst áfall álversins í Straumsvík og undir fyrirsögnin "Löggjafinn þarf að setja ramma og skýrari reglur um íbúskosningar" Þetta er ekki spurning um aðgerðirnar gagnvart kosningum af þessum toga heldur framsetningin á forsíðu Moggans.
Edda Agnarsdóttir, 2.4.2007 kl. 12:04
Já ég er sammála þér Edda, þetta er að verða eins og í Villta Vestrinu... Það er bara ekkert annað en meira Ál sem kemst inn í hausinn á landanum virðist verða.. Ég er ekki alveg að átta mig á þessu. Hvað er eiginlega í gangi?
En ég á mér draum... fallegan og friðsælan draum.. Þar sem menn og dýr lifa í sátt við hvert annað, náttúruna og atvinnulífið í þessu landi. Er ekki sagt að draumarnir séu byrjunin á raunveruleikanum..?
Björg F (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 15:37
Það er ekki svo mikið sem 1,5 % af mannafla þjóðarinnar sem fær vinnu í og við þetta álver. Störf í landinu eru 160.000. 0,25 % af því eru 400 starfsmenn.
Pétur Þorleifsson , 4.4.2007 kl. 18:56
Ég þakka þarfa ábendingu frá Pétri Þorleifssyni um fjölda þeirra sem geta fengið vinnu í álveri. Ég var að tala um öll þau störf sem álitið er að muni falla til í álverum þegar núverandi áform um uppbyggingu og stækkanir álvera hafa náð fram að ganga (sem vonandi verður ekki). Það mátti hinsvegar skilja orð mín sem svo að ég væri eingöngu að tala um álverið í Reyðarfirði. Hárrétt athugað hjá Pétri.
Kær kveðja til ykkar allra
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.4.2007 kl. 19:55
Orðin umhverfi og umhverfismál. Nú þýða þessi orð aðeins tvennt:virkjun og álver. Uppistöðulón er glæpur glæpanna. Mest öll rök og fullyrðingar eru ýkt þvaður. Til dæmis .Þeir eru að “SÖKKVA LANDINU”, “SÖKKVA HÁLENDINU” “EYÐILEGGJA LANDIД,”NAUÐGA LANDINU”,”SPILLA NÁTTÚRUNNI” “ÉG SKAMMAST MÍN FYRIR AÐ VERA ÍSLENDINGUR “AÐ DREPA MÓÐIR VORA ER EKKI GOTT “ “ OG AUSTFIRÐINGAR GETA BARA GERT EITKVAÐ ANNAД Þessi síðasta setning sögð af fyrverandi forseta er sú ruddalegasta hingað til.
Stór hópur íslendinga hefur það fyrir íþrótt að níða niður atvinnuvegi landsins
Snorri Hansson, 8.4.2007 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.