Dómar utan dómsala

baugsmal

Ég get ekki orða bundist vegna fyrirsagnar á mbl.is um Baugsmálið í dag, svohljóðandi: "Sigurður Tómas: Framburður Jóns Ásgeirs ekki trúverðugur".

Nú er ég ekki ein af þeim sem hef mótað mér fasta skoðun á sekt eða sakleysi þeirra manna sem hafa verið sóttir til saka í Baugsmálinu - læt dómstólum það eftir. Málið er augljóslega viðamikið og flókið.  Þess vegna blöskrar mér stundum umfjöllun fjölmiðla um þetta mál - einkum fyrirsagnir á borð við þessa hér, þar sem fullyrt er að framburður Jóns Ásgeirs sé ekki trúverðugur. Vissulega sér maður nafn saksóknarans ásamt tvípunkti framan við fullyrðinguna. En allir sem hafa unnið í blaðamennsku (ég þar á meðal) þekkja að uppsetning fyrirsagna hefur áhrif á lesendur. Þess vegna er framsetningu frétta og fyrirsagna oft ætlað að hafa skoðanamótandi áhrif.

Þessi fyrirsögn er skoðanamyndandi. Hún fjallar um nafnþekktan mann og trúverðugleika hans fyrir dómi - áður en dómur er fallinn. Nú er auðvitað ekkert launungarmál að Jón Ásgeir er ein aðalpersóna Baugsmálsins. En hann á að fá sanngjarna meðferð í fjölmiðlum ekkert síður en fyrir dómstólum.

 Annars velti ég því fyrir mér hvað sé að verða um hlutleysisskyldu fréttamiðla - mér finnst hún vera á hröðu undanhaldi. Það er mjög miður - því ábyrgð fjölmiðla er mikil, ekki síst þegar æra manna og lífsafkoma er annars vegar.

 

Látum dómstólum eftir að dæma - það er ekki viðeigandi að reka mál á mörgum vígstöðvum samtímis.


mbl.is Sigurður Tómas: Framburður Jóns Ásgeirs ekki trúverðugur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Staðan er auðvitað þannig í þessu máli að Mogginn hallast að sekt Baugsmanna, en 365-miðlarnir hallast að sakleysi þeirra. Þetta er einsog með fótboltann, það er bara spurning með hvaða liði þú heldur. Þitt lið hefur alltaf einhverjar málsbætur. Þannig virkar þetta mál a.m.k. á mig, og marga fleiri, sem höfum enga reynslu af því að vinna í fjölmiðlum.

Guðmundur Örn Jónsson, 26.3.2007 kl. 11:37

2 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Sæl.

Er algerlega sammála þér. Í prinsippinu er þetta afleitt. Og úr því að þú ert svona hörð á grundvallaratriðum þá hlýtur þú líka að geta verið óánægð með hvernig vörnin hefur ítrekað ráðist að persónum embættismanna og rannsakenda í málinu í stað þess að stunda þær varnir sem alla jafna duga venjulegu fólki. Með þeirri aðferðafræði hefur þeim tekist að fá lögreglu og nú síðast saksóknara og meira að segja hæstaréttardómara til þess að koma fram og verjast í í fjölmiðlum. Sem er fullkomlega fráleitt.

Í stað þess að verjast eins og ég og þú myndum gera það þá hafa Jón Ásgeir og félagar flutt inn ákveðna tegund varna sem bófar í Ameríku hafa notað lengi. Og dregið þetta mál ofan í svaðið. Og þá hefur það verið léttvægt fundið að ráðast að persónum og níða niður af þeim æruna.

 Kv.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 26.3.2007 kl. 11:58

3 identicon

 

Ólína.....MBL er að birta FRÉTT um munnlegan málflutning saksóknara þar sem dregið er saman helstu atriðin eins og það horfir við honum.....síðan tekur verjandi við og dregur saman helstu atriði eins og það horfir við honum....

Fréttin er því bara algerlega rétt og á fullan rétt á sér þar sem þetta er meginröksemd saksóknara í munnlegum málflutning þ.e. að Jón Ásgeir sé ótrúverðugur.....

Sem frv.blaðamaður hlýtur þú því að leiðrétta þessa hneykslan þína...ekki satt ???

Um hvað átti fréttin annars að vera ???

Jón Björnsson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 14:59

4 identicon

Ætli Ólína sé ekki bara í Baugsliðinu og sé hneyksluð þess vegna..... ;-)

Einar (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 15:10

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Viðbrögð við þessu bloggi hér að ofan eru athyglisverð - umhugsunarverð í raun og veru. Málið virðist framkalla mikið ofstæki með ótrúlegasta fólki. Ég hef nú þegar fengið nokkur "hate-mail" á símann minn ásamt skilaboðum um "bull og kjaftæði", "lágmark að þú kynnir þér ..." o.s.frv.

 "Svo má böl bæta að benda á annað verra" segir máltækið. Viðbrögðin við blogginu hafa því miður verið flest í þeim dúr. Ég hef bara engan áhuga á að fjalla um þetta mál þannig. 

Spurningin er heldur ekki um það hvort "fréttin" átti rétt á sér, eins og mér virðist Jón Björnsson álíta. Að sjálfsögðu er þetta mál fréttnæmt, og gangur þess fyrir dómstólum vekur áhuga almennings. Það eru hin einhliða efnistök fréttarinnar sem ég er að gagnrýna - og það atriði ættu menn að geta rætt reiðilaust.

Ég vil ekki rugla þeirri umræðu saman við efnisatriði málsins, hugsanlega sekt eða sýknu sakborninga. Það er allt annað umræðuefni - og hvorki á mínu valdi né Moggans að kveða upp úr um ábornar sakir eða trúverðugleika sakborninga og vitna.  

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.3.2007 kl. 15:28

6 identicon

Ég er hjartanlega sammála þér Ólína - viturlega mælt.

Erna (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 15:41

7 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Ólína Þorvarðardóttir! Reyndu að skilja réttargang í réttarríki. Það sem fréttin fjallar um er lokaræða saksóknara.

Síðar halda verjendur sínar lokaræður og sennilega verða þær margar, því það er heill her verjanda, og mjög

sennilega verð fréttirnar margar og miklar, enda veitir ekki af að lofa þá sem fyrir dómi eru.

Leifur Þorsteinsson, 26.3.2007 kl. 16:26

8 identicon

 

Ólína....þú virðist ekki skilja þetta vinan......saksóknari er að flytja LOKARÆÐUNA sína þar sem um samantekt HANS málflutnings kemur fram.

MBL var að birta fréttina um það....LOKARÆÐU saksóknara áður en málið fer í dóm.

Þessi setning hérna er því bara excuse me, fyrir fyrrum blaðamenn eins og þig bara bull og vitleysa: 
"Það eru hin einhliða efnistök fréttarinnar sem ég er að gagnrýna".

Einhliða efnistök felst í því að það er BARA saksóknari sem fær að tala núna í LOKARÆÐU sinni.  

Alveg eins og það verða bara VERJENDUR sem fá að tala þegar þeir flytja LOKARÆÐUR sínar.

Ef þú skilur þetta ekki núna...láttu vita og ég skal útskýra þetta aftur...

MBL mun pottþétt einnig birta LOKARÆÐA verjanda þar sem samsæri, falsaðir tölvupóstar o.fl. mun eflaust koma fram....

Ertu að skilja þetta núna ?

Siggi Sveins (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 18:11

9 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég ætla mér ekki að  blanda mér í meðferð fréttamiðla af málsmeðferð Baugsmálsins.Það sem mestu máli skiptir  þegar málsmeðferð fyrir dómstólum lýkur,er að fram fari þá sérstök rannsókn á tildrögum að upphafi málsins , er varðar meintar grunsemdir um bein samskipti  milli forsætisráðhr.og tengiliða hans við ríkislögreglustj.Meðan þessi þáttur Baugsmálsins er ekki upplýstur að fullu,stendur eftir,að framkvæmdavaldið hafi haft bein áhrif  á  frumrannsókn málsins.Þannig mun það standa í hugum almennings og skaða varanlega virðingu Ríkislögreglustjóraembættisins og reyndar Ríkissaksóknara líka.

Kristján Pétursson, 26.3.2007 kl. 18:35

10 Smámynd: Júlíus Valsson

Þetta er réttmæt athugasemd hjá þér. "Ríkið" er auðvitað búið að ákveða niðurstöðuna í þessu máli. Ertu vikilega búin að gleyma Hafskipsmálinu?

Júlíus Valsson, 26.3.2007 kl. 19:24

11 identicon

,,Ólína....þú virðist ekki skilja þetta vinan......"

Er þetta viðeigandi máti ad ávarpa manneskju með doktorsgráðu  á, vinurinn?

Lena (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 19:42

12 identicon

LENA:  Ólína er kjarnyrt kona og segir sína meiningu umbúðalaust eins og landsmenn þekkja.

Líkt og fleiri besserwisserar tekur hún yfirleitt ekki sönsum fyrr en maður endurtekur sig aftur og aftur með rökum sem eru einfaldlega sterkari en hennar rök fyrir því að þetta sé einhliða fréttaflutningur og hneyksli eins og hún segir....

Bæði stöð2 og RÚV fjölluðu um LOKARÆÐU saksóknara í kvöldfréttum áðan....er það líka einhliða fréttamennska ?

Ólina er mikið krútt hinsvegar eins og bæjarstjorinn í Kópavogi og því kalla ég hana vinan.....eða eins og maður segir á ensku "Baby".....

Siggi Sveins (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 20:02

13 Smámynd: AK-72

Finnst eins og margir skilji ekki hvað Ólína er að segja. Hún er eingöngu að benda á að hvernig fyrirsögnin er sett fram eins og lokadómur yfir framburði Jóns Ásgeirs. Ef við skoðum mismun á fyrirsögnum þá er hjá RÚV.is orðuð svona:Framburður Jóns Ásgeirs sagður ótrúverðugur.

Þarna er ekki látið eins og þetta sé stóri sannleikur heldur eins og að þarna séu orð sem einhver aðili segir en ekki sé vitað hvort þau séu sönn eður ei.

Fyrrisögn Moggans minnir meir á DV-fyrirsagnirnar og slúðurblaðamennsku finnst mér og má kannski koma með dæmi sem ekki tengist Baugs-málinu um mun á fyrirsögnum:

Nonni er tekinn með kóflösku og er sagður hafa stolið henni af Sigga en ekki er vitað hvort það sé satt eða ekki.  Daginn eftir birtir Mogginn fyrirsögnina Siggi:Nonni stal kók! en RÚV segir: Siggi segir Nonna hafa stolið kók!  Þetta er bæði rétt en ef fólk setur sig í hlutleysisgír og hættir að hugsa um Baugs-málið, hvað segir hvor fyrirsögn okkur um meintan stuld Nonna?

Er reyndar svo sammála Ólínu með hlutleysi fjölmiðla að manni finnst maður verða minna og minna var við það í mun fleiri málum en þessum. 

AK-72, 26.3.2007 kl. 23:13

14 identicon

Þarna Ólína er ég þér sammála. Og hvað með fyrirsögnina; Geir H Haarde telur stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vera versta kostin... really??? þessi fyrirsögn hefur verið hér á fréttavef mbl.is aftur og aftur.. og fréttin er?

Annars hitti ég Geir og Frú á flugvellinum í Bergen ekki fyrir svo löngu.. Þau eru nú bara ótrúlega sweet þau hjónin.. verð bara að láta það fylga með.. þó að hann Geiri oftnoti orðið kaupmáttur. 

Megi þið eiga fjörlegar blogg stundir..

Björg F (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 01:06

15 identicon

Eg finn til med thvi folki sem tharf ad verja sig i fjolmidlum. Sama hver a i hlut. Eg finn enn frekar til med theim embaettismonnum sem meiga ekki verja sig i fjolmidlum an thess ad verda daemdir vanhaefir af domstolum.

 Eg finn lika til med thvi folki sem neitar ad lita efnislega a domsmal en gerir thau ad politisku bitbeini likt og Samfylkingin hefur gert baedi Oliumalid og Baugsmalid.

Eg finn gridarlega til med folki sem hefur latid fjolmidla Baugsmanna glepja rettarvitund sina. Baugsmalid snyst ekkert um thad hvort framin hafa verid logbrot eda ekki hja meirihluta thjodarinnar vegna arodurs fjolmidla 365. Finnst ther thad allt i lagi? Ad fair raedi um alvoru theirra brota sem akaeruvaldid hefur dregid fram med rannsoknum i morgum londum. Hvad med vitnin sem hafa stutt thann grun ad um alvarleg logbrot er ad raeda? Vitni sem sjalf attu hluta ad mali?

Baugsmenn hafa fengid talsvert plass i fjolmidlum til thess ad verja sig Olina. Eda? Eru theirra fjolmidlar a odru plani en mbl.is t.d.? Ekkert hef eg heyrt fra ther vardandi thaer arasir sem folk hefur matt lifa vid ur theim grimmasta ranni.

En thad vonandi kemur thegar thu litur a akaerurnar og synir thann dug og dad ad thora ad mynda ther skodanir a theim akaerum og sleppir umfjollun allar fjolmidla um malid.

Thad kemur ad thvi er thad ekki? Ad thu lesir efnislega akaerur saksoknara um malid og myndir ther skodun a thvi sem thar stendur svart a hvitu. Hitt er lyskrum af verstu gerd og haefir ekki folki eins og ther og fleirum sem sifellt segja. Eg hef ekki myndar mer skodun....En... Thad er skodun lika.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 07:07

16 identicon

 

AK-72.....þú segir að fyrirsögn MBL að ofan sé í DV stíl þegar MBL vitnar í Saksóknara og hefur eftirfarandi fyrirsögn:

"Sigurður Tómas: Framburður Jóns Ásgeirs ekki trúverðugur".

 RÚV hefur þessa fyrirsögn:

Framburður Jóns Ásgeirs sagður ótrúverðugur.

Annars vegar vitnar MBL í saksóknara á undan fyrirsögninni þannig lesendur sjá strax hver segir þetta...RÚV segir hinsvegar bara beint að jón ásgeir sé sagður ótrúverðugur án þess að vitna í neinn aðila.

Þú fyrirgefur en er þér alvara þegar þú segir að þetta sé verra hjá mbl og einhliðafréttaflutningur eins og Ólina segir ?

Fær kræing átlád....

Jón Björns (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 09:57

17 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jæja, nú finnst mér nóg komið af æsingi og gífuryrðum.

Menn geta frýjað mér vits, kalla mig "vinu" og belgt sig eins og þeim sýnist - það breytir ekki skoðun minni á framsetningu umræddrar fréttar.

 Við Jónínu Benediktsdóttur vil ég aðeins segja þetta: Ég er ein fárra Íslendinga sem hafði fyrir því að lesa upphaflegar ákærur ríkissaksóknara í Baugsmálinu frá orði til orðs - það voru tvær eða þrjár opnur í morgunblaðinu, ef ég man rétt. Ég varð ekki hissa þegar þeim var flestöllum vísað frá dómi. Það sem eftir stendur eru vandmeðfarin efnisatriði sem ég treysti mér ekki til að úrskurða um að svo stöddu, enda hef ég ekki verið viðstödd sjálf réttarhöldin. Þú mátt kalla það dugleysi Jónína - ég kalla það heilbrigða skynsemi og tel að aðrir en ég hafi gerst sekir um lýðskrum og áróður í þessu máli. Það þarf ekki lengi að lesa ýmsar athugasemdir hér fyrir ofan til þess að sjá það.

 Annars ætla ég ekki að eyða frekar orðum í þetta að svo stöddu . Ég vil þakka þeim sem hafa lagt gott til umræðunnar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 27.3.2007 kl. 11:13

18 identicon

 

þú tekur engum rökum ólina.....stendur við að MBL sé með einhliða fréttaflutning þegar það vitnar í nafn saksóknara og ummæli hans í lokaræðu sinni í fyrirsögn.

 Það væri hægt að skilja þetta ef MBL hefði sagt þetta ÁN nafns saksóknara...en líkt og aðrir skaphundar stendur þú við þetta....

 ég er svona lika....bít í mig og hvika oftast ekki...enda erfiður í umgengni...kannski er þarna kominn skýringin á því ólína að það er alltaf eitthvað vesen í kringum þig hvort sem er í skólum eða annarsstaðar....likt og ég....Problem-makers we are my dear....

Bestu kveðjur, Siggi Sveins

Siggi Sveins (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 11:54

19 identicon

Þetta er hálfvitaleg umræða - Ólína, þú ættir að loka athugasemdasíðunni NÚNA.

Vala (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 12:02

20 identicon

Jál, Ólína þú átt ekki að sitja undir svona rugli - þetta bögg gengur ekki og er heldur ekki og á ekkert skylt við heilbrigða umræðu.

Örn (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 12:07

21 identicon

 

Ólína....þú hlýtur þá að vera yfir þig hneyksluð á þessari fyrirsögn hjá Baugsmi'linum visir.is......algerlega EINHLIÐA fréttaflutningur skv.þessari fyrirsögn en þar segir að brot í Hafskipsmálinu séu sakleysisleg í samanburði við baugsmenn:

http://visir.is/article/20070327/FRETTIR01/70327042

Séra Björn (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 12:51

22 Smámynd: AK-72

Jón Björns, það breytir engu um þó nafn saksóknara sé á undan því fyrirsögnin er þannig framsett sem upphrópun og virkar þannig að enginn vafi leiki á fullyrðingu hans. Þetta er mun sterkari og ákveðnari fyrirsögn sem maður sér yfirleitt hjá götublöðum.

Hin fyrirsögnin frá RÚV er mildari og gefur til kynna að þar sé fullyrðing sem ekki er vitað hvort sé sönnuð eður ei. 

Þegar ég les þessar fyrirsagnir þá myndi maður grípa yfileitt fyrirsögn fyrri fréttarinnar án þess að taka eftir nafni, líkt og margir gera. Í Dv-fyrirsögnum kom oft þannig að með minni stöfum var sagt t.d. Lögregla rannsakar lögfræðing: og svo kom flennifyrirsögn STAKK MILLJÓNUM UNDAN!

Og ég held nú að það sé ansi augljóst að Morgunblaðið sé ekki hlutlaus aðili þegar kemur að þessu máli, eða finnst þér það trúverðugt til hlutleysis að ritstjóri sem m.a. ákveður fyrirsagnir, sé þáttakandi í upphafi málsins og vitni fyrir rétti í sama máli? 

AK-72, 27.3.2007 kl. 14:36

23 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Þetta er alveg réttmæt athugasemd hjá Ólínu og fyrirsögn RÚV er augljóslega vandaðri og hlutlausari en fyrirsögn Morgunblaðsins.

Það verður gaman að sjá hvort að Morgunblaðið kynnir málflutning verjenda með sama hætti og þessa fullyrðingu saksóknarans.

 P.S. Fréttin um það að Geir hugnaðist ekki ríkisstjórn vinstri flokkanna var líka alger ekki-frétt, eins Björg bendir hér á. Hvað er næst? Yfirlæknir SÁÁ segir að brennvín sé slæmt? Vífilfell hugnast ekki að Ölgerðin nái ráðandi hlut á gosmarkaðnum? Eða hvað?

Svala Jónsdóttir, 28.3.2007 kl. 10:05

24 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæl Ólína, ég vil bara segja að mér þykir leiðinlegt ef að við sem erum að blogga; deila okkar sjónarmiðum,  eigum það yfir höfði  að verða fyrir persónulegu skítkasti eða niðurlægjandi athugasemdir eins og þú hefur verið að fá frá einstaka einstaklingum.  Sem betur fer er meirihluti bloggara vandað og vel gefið fólk sem hefur gaman að því að skiptast á skoðunum og heldur sig við málefnin. Ég vona að þetta hrekji þig ekki úr bloggsamfélaginu, mér þætti það mikill missir. 

Kolbrún Baldursdóttir, 28.3.2007 kl. 20:12

25 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Skýr og auðskilin framsetning hjá Ólínu og afar auðvelt að taka undir með henni um að ekki er hægt fyrir utanakomandi sem ekki hefur aðgang að hinum miklu gögnum málsins og framburðum vitna og ekki er lögfróður að taka afstöðu til sektar eða sakleysis um þau atriði sem ákært er fyrir, - og með þeim hætti sem ákært er.

Það virðist hins vegar felstum enn auðveldara að setja sig í dómara- og hneykslunarstellingar í þessu máli til að fussu-sveija í hvora áttina sem er.

Helgi Jóhann Hauksson, 29.3.2007 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband