Frábær stemning á fundinum - en stjórnarþingmanna var saknað
12.3.2007 | 11:31
Já, það var synd að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins skyldi sjá sér fært að mæta til þessa frábæra borgarafundar sem við héldum á Ísafirði í gær. Að þeir skyldu ekki senda einhvern fulltrúa þingliðsins til fundarins, t.d. varaþingmann, til þess að bera fundinum kveðju og sýna á einhvern hátt að þeir vildu deila með okkur áhyggjum af stöðu mála. Ó, nei.
Þeir vöktu hrópandi athygli með fjarveru sinni - jafnvel reiði - og satt að segja held ég það sé verst fyrir þá sjálfa að hafa ekki sýnt þessu meiri umhyggju.
En það var ánægjulegt að sjá mætingu annarra þingmanna og rétt að geta þeirra sem komu (í stafrófsröð):
Anna Kristín Gunnarsdóttir, Guðjón Arnar Kristinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhann Ársælsson, Jón Bjarnason og Kristinn H. Gunnarsson.
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra var löglega forfallaður eins og þjóð veit, og bað fyrir kveðju á fundinn. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lét vita af því að hann yrði staddur erlendis en hann myndi kynna sér umræður fundarins og ályktun. Sigurjón Þórðarson lét einnig vita af eðlilegum forföllum. Vestfirðingarnir Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson svöruðu ekki fundarboði.
Jæja, en Vestfirðingar létu sig ekki vanta - húsið var troðfullt upp í rjáfur. Og hafi einhver verið í vafa um hug íbúanna og vilja þeirra í málefnum svæðisins, þarf ekki að velkjast í vafanum lengur. Þvílík rífandi stemning!
Margt var rætt og lagt til mála. Upp úr stóð að mínu viti þetta: Háskóli á Ísafjörð, tafarlausar samgöngubætur með jarðgöngum suður um, úrbætur í fjarskiptum og lækkun flutningskostnaðar. Þetta eru þau úrræði sem ganga þarf í strax! Það er jafn ljóst að nú láta íbúar sér ekki lengur lynda loðmulluloforð um eitthvað sem sé handan við hornið eða "á áætlun", kannski árið 2018. Neibb - nú vilja menn ekki fleiri orð, heldur efndir!
Á fundinum var samþykkt ályktun sem ég læt fylgja hér fyrir neðan. En fundurinn skoraði líka á nærstadda þingmenn að hittast strax og móta sameiginlegar tillögur um úrbætur í málefnum Vestfjarða. Var því vel tekið, og afráðið þarna á staðnum að boða þingmenn svæðisins til fundar kl. 13:00 í dag.
Guð láti gott á vita - það verður fylgst með því hvað út úr þessu kemur.
En hér kemur sumsé ályktun fundarins:
Opinn borgarafundur, haldinn í Hömrum á Ísafirði sunnudaginn 11. mars 2007, skorar á fulltrúa Vestfirðinga á alþingi og í sveitarstjórnum, hvar í flokki sem þeir standa, að taka höndum saman, leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um þau brýnu úrlausnarefni sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum hér á Vestfjörðum. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld standi við marg- ítrekuð loforð og stefnumótun um uppbyggingu Ísafjarðar sem eins af þremur byggðakjörnum utan höfuðborgarsvæðisins. Ennfremur að þessu svæði verði settar sanngjarnar leikreglur með ákvörðunum um nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum, tilfærslu opinberra starfa og eðlilegt aðgengi að fjármagni. Mikið vantar á að þetta landsvæði njóti jafnræðis á við aðra landshluta varðandi samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi. Beinir fundurinn því til frambjóðenda stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi að mæta til kosningabaráttunnar nú í vor með haldbærar tillögur um framtíð byggðar á Vestfjörðum. Við köllum eftir samstöðu þings og þjóðar gagnvart þeim vanda sem Vestfirðingar standa nú frammi fyrir.
Stjórnvöld standi við margítrekuð loforð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta var glæsilegt framtak hjá ykkur - til hamingju Ólína! Þú stjórnaðir fundinum af skörungsskap og festu, framsögurnar voru málefnalegar og umræður sömuleiðis. Mikil stemning. Nú er bara að vona og sjá hvort blessaðir þingmennirnir meina eitthvað af því sem þarna kom fram.
Sigga (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 13:05
Ekki er maður ánægður með sína menn að mæta ekki:( en ég vona að þeir kynni sér málið og svari kallinu.
En hafið prófað að hafa samband við Ómar og co.?
Þau eru með allt á hreinu hvernig á að rífa upp atvinnu á grænan hátt. Það hefur að vísu farið allt púður í að tala niður til landsbyggðarfólk með með að vera á móti því sem þó kom á endanum þó biðin hafi verið orðin löng.
Ómar kom þó með nokkrar beittar hugmyndir um jólaveina byggð upp á öræfum í stað virkjunar og maraþonar keppnir um fallgönginn. Kanski að þið getið notað eitthvað af þessum hugmyndum hans:)
Baráttu kveðjur
óskar (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 14:12
"Ekki eru til haldbetri bönd og afltaugar mannlegs samfélags en gagnkvæm hjálpsemi."
Oddur Einarsson og Sveinn Pálsson eru skrifaðir fyrir þessu orðtaki og passar einkar vel við þá baráttu sem þið heyið á Vestfjörðum. Til hamingju með fundinn!
Edda Agnarsdóttir, 12.3.2007 kl. 15:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.