Með bronsið um hálsinn!
5.3.2007 | 13:23
Er komin heim af Bresa-mótinu í blaki sem fram fór á Akranesi um helgina - með brons um hálsinn! Jebb, hvorki meira né minna.
Þetta var aldeilis hreint frábær helgi. Við Skellurnar frá Ísafirði ókum suður á föstudaginn og skiptum okkur á tvo bíla. Það var leiðinda skafrenningur og þæfingur á Steingrímsfjarðarheiði, og minnstu munaði að þær í hinum bílnum lentu í óhappi efst á heiðinni. Þær óku fram á stóran flutningabíl sem var að hífa upp jeppa sem hafði farið út af (raunar þekki ég ökumann þess bíls, en hann hafði lent út af með a.m.k. eitt barn í bílnum - mildi að enginn slasaðist). Flutningabíllinn var ekki með hazardljósin á, og þar sem þarna var skafrenningur, kóf og lélegt skyggni, mátti engu skakka að þær færu bara beint á flutningabílinn. Þar skall hurð nærri hælum, og mátti ekki á milli sjá hvorum var meira brugðið, þeim eða flutningabílstjóranum. Þetta fór sem betur fór vel, en verður aldrei of oft brýnt fyrir þeim sem vinna á vegum úti að hafa merkingar og forvarnir í lagi - sömuleiðis fyrir ökumönnum að haga akstri eftir aðstæðum.
Jæja, við komumst heilar á húfi í sumarbústaðinn sem við fengum á Birfröst. Á laugardeginum var svo mætt til leiks á Akranesi þar sem konur á öllum aldri (og nokkur karlalið reyndar líka) kepptu af miklum móð. Þarna voru m.a. konur komnar á sjötugsaldur sem stóðu sig eins og hetjur, hreint út sagt. Þær sýndu og sönnuðu að það er ekki allt fengið með líkamlegri snerpu og ungdómi - þetta voru sannakallaðir reynsluboltar með staðsetningar og taktíkina alveg á hreinu. Flottar konur og frábærar fyrirmyndir. Ég hafði búið mig undir að vera mest á varamannabekknum - af því ég er byrjandinn í liðinu. En atvikin höguðu því þannig að ég lék tvo fyrstu leikina (við unnum annan en hinn var jafntefli) og hluta af þeim þriðja (sá leikur tapaðist). Loks kepptum við (ég á varamannabekknum að vísu) um bronsið í deildinni - og unnum. Ligga ligga lá!!
Það var frábært að leggjast svo í heita pottinn um kvöldið og horfa á tunglmyrkvann beint fyrir ofan okkur þar sem við létum fara vel um okkur með verðlaunapeninga um háls og ljúfar veigar við hönd. Enda var glatt á halla fram eftir þessari fallegu nóttu! Vonandi fæ ég einhverjar myndir frá ævintýrum helgarinnar til þess að setja á síðuna einhverntíma á næstu dögum.
Yngsti sonur minn, hann Hjörvar sem er 13 ára, fór líka á keppnismót um helgina - fótboltamót á Akureyri. Hann kom heim með tognaðan lærvöðva blessaður - en samt ánægður. Liðið hans lék fimm leiki, vann tvo leiki og gerði eitt jafntefli. Þegar við mæðgin tókum á okkur náðir í gærkvöldi lagðist hann í bólið sitt blessaður með klakapoka við lærið - vitandi betur en fyrr, að enginn verður óbarinn biskup.
Athugasemdir
Til hamingju Ólína, verst var að vita ekki af þér til taka þátt í þessu með þér, en við vorum auðvitað að opna skrifstofuna á laugardaginn og allt á síðustu mín.. eins og vera ber.
Sjáumst vonandi von bráðar í undirbúningi kosninga!
Bestu kv. Edda á Skaga
Edda Agnarsdóttir, 5.3.2007 kl. 15:35
Til hamingju.
Kv. SigfúsSig.
Sigfús Sigurþórsson., 5.3.2007 kl. 17:30
Það er alltaf gaman að landa titli, það þekki ég, gamla handboltakempan! Gangi ykkur Blíðu vel í leitaræfingunum.
Kveðja,
Ragnheiður D.
Ragnheiður Davíðsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 09:40
Blakið er ótrúlega skemmtilegt og mótið á Akranesi var mjög frábært. Til hamingju með að hafa gengið til liðs við blaklífið og auðvitað til hamingju með bronsið. Sjálf hef ég verið að mjatla við þetta í nokkur ár og hef fengið að vera ótrúlega léleg. Það lagast.
hrafnhildur Lansanum (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.