Hinar hljóðu hamfarir

Ísafjordur-vetur  Náttúruhamfarirnar sem gengu yfir norðanverða Vestfirði árið 1995 voru þungt högg fyrir byggðarlagið. Þær dundu yfir á einni nóttu og afleiðingarnar voru öllum ljósar. Enda vafðist ekki fyrir landsmönnum, stjórnvöldum og öllum sem vettlingi gátu valdið að rétta fram hjálparhönd. Samtakamáttur og samhugur þjóðarinnar allrar varð þess valdandi að heimamönnum tókst að endurreisa tvö byggðarlög, nánast úr rústum.  Það sem hefur verið að gerast í atvinnumálum hér á svæðinu undanfarna áratugi eru annarskonar hamfarir. Það eru hinar þöglu hamfarir sem ekki blasa við í fljótu bragði þar sem þær hafa átt sér stað á löngum tíma. Þess vegna hefur heldur ekki verið risið upp að heitið geti, hvorki í vörn né sókn.   

Linsoðinn froskur í vatni. 

Hlutskipti vestfirskra byggða hefur eiginlega verið hið sama og frosksins sem soðinn er rólega í vatninu. Hann áttar sig ekki á því hvað er gerast vegna þess að hann sjálfur hitnar með vatninu, verður máttfarinn og soðnar svo til bana.  Lítum á hver þróunin hefur verið: 

1)       Íbúum hefur fækkað um 25% á 25 árum.

2)       Útgerð og fiskvinnsla eru ekki svipur hjá sjón eftir að margumrædd “hagræðing í sjávarútvegi” náði fram að ganga á landsvísu í kjölfar óréttláts kvótakerfis. Af níu togurum sem gerðir voru út frá norðanverðum Vestfjörðum á áttunda áratugnum eru 2 eftir (mætti með góðum vilja segja 3).

3)       Hagvöxtur á svæðinu hefur verið neikvæður á sama tíma og hann hefur verið jákvæður í öðrum landshlutum (nema Norðurlandi vestra). Til dæmis var hagvöxtur Vestfirðinga -6% en +29% á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1998-2004.

4)       Flest sveitarfélögin á Vestfjörðum berjast í bökkum og hafa neikvæða rekstrarstöðu.

5)       Vegakerfi landshlutans er enn ófrágengið og sum svæði enn ekki komin í vegasamband að heitið geti. Samkvæmt nýrri samgönguáætlun er enn 2-3 ára bið eftir bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur, og enn lengri bið fyrir suðurhluta svæðisins.

6)       Flutningskostnaður er  hærri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum, lætur nærri að hann sé um 30-40% hærri en á Akureyri, svo dæmi sé tekið.

7)       Menntunarstig er lágt miðað við aðra landshluta.   

Samstöðuskortur  

Þrátt fyrir þetta hefur ekki tekist að mjaka ráðamönnum svæðsins, hvorki á þingi né í sveitarstjórnum, til þess að sameinast um þau baráttumál sem mestu skipta fyrir byggðarlagið. Því miður hafa varðhundar stjórnmálaflokkanna í heimabyggð einatt komist upp með að hlaupa í skotgrafirnar og vefja mál í flokkspólitískar þrætur, þegar veigamikil mál ber á góma. Það er tími til kominn að velunnarar þessa svæðis taki saman höndum, teygi sig hver í átt að öðrum yfir skotgrafirnar, og beiti sér í sameiningu fyrir björgun þessa byggðarlags.Annar vandi er stefnuleysið, til dæmis eins og það hefur birst í samgöngumálum. Ég leyfi mér að nefna ákvörðun og nýafstaðin fagnaðarlæti yfir Óshlíðargöngum sem skyndilega eru komin framfyrir Arnarfjarðargöng – bráðnauðsynlega samgöngubót sem beðið hefur verið eftir árum saman - á samgönguáætlun.  

 Gleðisöngskrafan 

Og svo er það gleðisöngskrafan. Þá sjaldan eitthvað næst fram er fjöldanum skipað að fagna – hátt og lengi, í nafni jákvæðrar umræðu. Annars eru menn sakaðir um “niðurrif”, hvorki meira né minna. Menn skulu kvaka og þakka hvað lítið sem gerist. Þessi gleðisöngskrafa er orðin að svipu sem svífur yfir höfðum íbúa á Vestfjörðum, því ekki má ræða það sem miður fer eða “skaða ímynd svæðisins” með því að tala um vandamálin eins og þau eru. Jæja, ég er búin að fá nóg af því að þegja – ég tek ekki þátt í þessari vitleysu lengur. Gleðisöngsveitin verður að horfast í augu við þá staðreynd að ímynd Vestfjarða hefur beðið hnekki! Hvenær sem samgöngur ber á góma, hvenær sem starfsemi er lögð niður eða hagvaxtartölurnar eru rifjaðar upp, þá er ímyndarvandi á ferðum fyrir Vestfirði. Það er líka ímyndarvandi á ferðum þegar ótíðindin eiga sér stað beint í kjölfar fagnaðarláta af litlu tilefni, beint ofan í lofsyrði um “uppsveiflu” og “framfarir” sem lítil eða engin innistæða reynist svo fyrir. Þetta er grafalvarlegt mál.   

Stökkvum upp úr! 

Þegar þessi orð eru skrifuð skín sól á snæviþakin fjöllin umhverfis Ísafjörð. Djúpið blasir við mér út um gluggann fagurblátt og glitrandi í sólskininu. Ég vil búa hér – hér líður fjölskyldu minni vel, hér er gott fólk og fallegt umhverfi. Það er til nokkurs að vinna að berjast fyrir framtíðinni á þessum fallega stað.  En, ég vil ekki vera linsoðinn froskur í potti fullum af hálfvelgjuloforðum og skammtímalausnum. Þetta landssvæði hefur skapað þjóðarbúinu verðmæti, verið undirstaða sjávarútvegs og þar með þjóðartekna. Nú er röðin komin að okkur að fá almennilega vegi sem eru samanburðarhæfir við það sem gerist í öðrum landshlutum; strandsiglingar og jarðgöng undir Dynjandis- og Hrafnseyrarheiði til þess að lækka flutningskostnað og tengja saman byggðarlög. Síðast en ekki síst þurfum við Háskóla á Ísafjörð! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín

Velkomin í bloggheima Ólína.  Gott að þú minntist á háskólann.  Það þarf að minna á hverjir það voru sem stóðu gegn því máli og þar með gegn sókn Vestfjarða.  Sjálfstæðismenn sjá um sína

Katrín, 26.2.2007 kl. 19:02

2 identicon

Herzlich willkommen!

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 09:09

3 identicon

Voru sjnóflóðin á Flateyri í Súðavík og á Seljalandsdal fyrirsjáanleg?

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 10:44

4 identicon

Frábær pistill Ólína - og löngu tímabært að taka málefni Vestfjarða upp með þessum hætti. Meira svona!

Vala (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 14:57

5 identicon

Frábær pistill frá Vestfjörðum. Gott fyrir okkur sunnan heiða að fá þetta svona "beint í æð" Sannalega tímabært að fá svona hressandi yfirlit frá landsbyggðinni.

Bæði kjarngott og hollt.  Vænti þess að fá meira þessu líkt frá Vestfjörðum, þeim stórbrotna landsbyggðakjarna.

Sæavar Helgason (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 15:45

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Já gott hjá þér að ræða þetta!  Ég minnist þess þegar seinna snjóflóðið féll táruðumst við á kaffistofu Landsímans og allt varð hljótt!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 27.2.2007 kl. 16:30

7 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Seint það gleymist, og góður penni ert þú Ólína.

Kv. SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 28.2.2007 kl. 03:25

8 Smámynd: Karl V. Matthíasson

Þessi orð er sönn það hefur verið hryggilegt að horfa upp á hrunið sem eru ekkert annað en í megindráttum afleiðingar kvótakerfisins. Við höfum séð hvað háskóli getur breytt gríðarlega miklu fyrir byggðir og því tek ég heils hugar undir Háskólann á Ísafirði. Umhverfið býður upp á óendanlega möguleika til slíkrar starfsemi.  T.d. Rannsóknarsetru Háskólans á Ísafirði í sjávarfiskaeldi, skeldýrarækt og margt margt fleira.

Viltur vera bloggvinur?

Kalli Matt

Karl V. Matthíasson, 1.3.2007 kl. 01:30

9 Smámynd: Katrín

Var á kynningu háskólanna í MÍ í dag.  Vakti mig til umhugsunar að á Hólum í Hjaltadal þar sem  nú er HÁSKÓLI er boðið upp á nám í fiskeldi.  Man ég ekki landafræðinna rétt að Hólar séu ,,inni í landi?"   Hefði þótt eðlilegra að sjá slíkt nám í boði við Háskóla Vestfjarða á Ísafirði...

Katrín, 1.3.2007 kl. 18:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband