Súðavíkurgöng
5.4.2013 | 08:17
Í janúar varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að leggja fram fyrsta þingmálið sem flutt hefur verið á Alþingi um ný jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Fékk ég til liðs aðra þingmenn Norðvesturkjördæmis sem eru meðflutningsmenn mínir á þingsályktunartillögu um að Súðavíkurgöng verði næstu jarðgöng á eftir Dýrafjarðargöngum. Lagt er til að jafnhliða verði efldar snjóflóðavarnir á Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíðum allt þar til jarðgangagerðinni er lokið. Er þá einkum horft til stálþilja, víkkunar rása og grjótvarnarneta.
Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð þeirra sem þurfa að komast landleiðina að og frá Ísafirði, Bolungarvík, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri yfir vetrarmánuðina. Íbúar Súðavíkur þurfa enn fremur að sækja mest alla grunnþjónustu til Ísafjarðar um þennan veg. Í því ljósi má furðu sæta að Súðavíkurgöng skuli aldrei hafa komist inn á samgönguáætlun og að aldrei skuli hafa verið flutt þingmál þar um fyrr en nú.
Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga fyrir þinglok og það voru vonbrigði. Það verður því verkefni þingmanna kjördæmisins á næsta kjörtímabili að tryggja framgang málsins. Ekki mun skorta stuðning heimamanna, því undirtektir hafa verið mjög góðar hér á heimaslóðum. Það sáum við til dæmis þegar hópur fólks kom saman á Súðavíkurhlíðinni í gær til áréttingar kröfunni um jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Við það tækifæri var hrundið af stað undirskriftasöfnun á netinu á síðunni www.alftafjardargong.is þar sem skorað er á stjórnvöld að hefja rannsókn og undirbúning að jarðagangagerðinni hið fyrsta. Á síðunni er réttilega minnt á að þjóðvegurinn um Súðavíkurhlíð í Álftafirði og Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði er talinn einn hættulegasti vegur landsins. Þetta kom átakanlega glöggt í ljós í ofviðrinu sem gekk yfir Vestfirði skömmu fyrir síðustu áramót þegar fjöldamörg snjóflóð féllu á þessari leið á fáeinum dögum, m.a. úr 20 af 22 skilgreindum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð. Tepptust þar með allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Aðstæðurnar sem þarna sköpuðust eru með öllu óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum.
Vestfirðingar verða að standa vel saman í samgöngumálum sínum - það hefur reynslan kennt okkur. Nægir að nefna Dýrafjarðargöng. Þau voru talin brýnasta jarðgangaframkvæmdin á fyrstu jarðgangaáætlun vegagerðarinnar fyrir mörgum árum, en voru við upphaf þessa kjörtímabils komin aftur til ársins 2022 á þágildandi samgönguáætlun. Sem fulltrúi í samgöngunefnd þingsins gekk ég í það ásamt fleiri þingmönnum kjördæmisins að koma Dýrafjarðargöngum aftur á dagskrá og fá þeim flýtt. Það tókst og samkvæmt núgildandi áætlun á þeim að ljúka 2018. Má þakka það einarðri samstöðu í þingmannahópi Norðvesturkjördæmis, því hún skipti sköpum. Nú er brýnt að frá þessu verði hvergi hvikað.
Á framkvæmdatíma Dýrafjarðarganga ((2015-2018) þarf að nota tímann vel og undirbúa næstu brýnu samgöngubót - þá samgöngubót sem mikilvægt er að verði næst í röðinni. Það eru Súðavíkurgöngin.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Samgöngur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.