Dýravelferð í siðvæddu samfélagi

blidahvolpurein05 (Medium) Dýr eru skyni gæddar verur. Sú staðreynd mun fá lagastoð í nýrri  heildarlöggjöf um dýravelferð sem nú er til meðferðar í þinginu, verði  frumvarp þar um samþykkt fyrir þinglok.  Markmið laganna er að „stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt“ eins og segir í markmiðsgrein frumvarpsins.

 

Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd þingsins þar sem ég hef tekið að mér að vera framsögumaður málsins, vinna að framgangi þess og mæla fyrir þeim breytingum sem nefndin telur rétt að gera á málinu í ljósi athugasemda og ábendinga sem borist hafa úr ýmsum áttum. Góð sátt náðist í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu.

 

Gelding grísa og sumarbeit grasbíta 

Eitt af því sem hreyfði mjög við umsagnaraðilum í meðförum málsins, var að frumvarpið skyldi gera ráð fyrir því að heimilt væri að gelda grísi yngri en vikugamla án deyfingar. Sjónvarpsáhorfendur hafa nýlega séð svipaða umræðu endurspeglast í þættinum „Borgen“ þar sem aðbúnaður á dönskum svínabúum var mjög til umræðu. Þá hafa dýraverndarsamtök og dýralæknar einnig beitt sér mjög fyrir því að tryggja að grasbítar fái ekki aðeins útivist á grónu landi yfir sumartíman, heldur einnig nægjanlega beit, svo þau geti sýnt sitt eðlislæga atferli, þ.e. að bíta gras. Á þetta einkum við um kýr í tæknifjósum, sem dæmi eru um að komi sjaldan eða aldrei út undir bert loft.

 

Skemmst er frá því að segja að atvinnuveganefnd tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytingar á frumvarpinu  í þessa veru. Nefndin leggst gegn  lögfestingu þeirrar undanþágu að gelda megi ódeyfða grísi, og leggur auk þess til að grasbítum sé tryggð „beit á grónu landi á sumrin.“

Þá leggur nefndin til þá breytingu á ákvæði um flutning dýra að skylt sé  „við flutning og rekstur búfjár að dýr verði fyrir sem minnstu álagi og hvorki þoli þeirra né kröftum sé ofboðið“. Enn fremur verði ráðherra skylt að setja nánari reglur um aðbúnað dýra í flutningi, t.d. um hleðslu í rými, umfermingu, affermingu, hámarksflutningstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé. Þá skal einnig hert á reglum um aðferðir handsömun dýra, vitjun um búr og gildrur og aðbúnað dýra í dýragörðum.

Tilkynningaskylda og nafnleynd 

Nefndin sá einnig ástæðu til þess að herða á tilkynningaskyldu vegna brota gegn dýrum. Með hliðsjón af barnaverndarlögum leggur nefndin til að sambærilegt nafnleyndarákvæði og þar er að finna, auk sérstakrar skyldu dýralækna og heilbrigðisstarfsfólks dýra að gera viðvart ef meðferð eða aðbúnaði er ábótavant. Gengur sú skylda framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

 

Nefndin ákvað að skerpa á refsiákvæðum frumvarpsins. Viðurlög geta verið dagsektir, úrbætur á kostnað umráðamanns, stöðvun starfsemi, vörslusvipting dýra og haldlagning, bann við dýrahaldi og fangelsisvist.

   

Með áorðnum breytingum tel ég að ný heildarlöggjöf um dýravelferð sé til mikilla bóta. Nýleg en sorgleg dæmi um vanhirðu og illa meðferð dýra sanna best þörfina fyrir skýran lagaramma, gott eftirlit og markvissa stjórnsýslu um dýravelferðina.

 

Dýr eru skyni gæddar verur. Það segir margt um siðferði samfélags hvernig búið er að dýrum sem höfð eru til nytja; að þau fái að sýna sitt eðlilega atferli og að þau líði hvorki skort né þjáningu sé við það ráðið. Nýting dýra og umgengni mannsins  við þau á að einkennast af virðingu fyrir sköpunarverkinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband