Aukið heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum
21.1.2013 | 13:53
Í afskekktu fámennu þorpi á Grænlandi - sem allt eins gæti verið hér á Íslandi - veikist barn skyndilega með vaxandi höfuðverk, uppköst og hækkandi hita. Það hafði verið að leika sér fyrr um daginn og í ærslum leiksins hafði það fallið fram fyrir sig og fengið kúlu á ennið. Er samhengi milli höfuðhöggsins og veikindanna, eða er barnið með umgangspestina sem er farin að stinga sér niður í byggðarlaginu? Barnið er flutt á næsta sjúkrahús í nálægu byggðarlagi þar sem hægt er að taka röntgenmynd af höfði þessi. En læknirinn er ungur og óreyndur, myndgæðin ekki þau bestu sem völ er á, og hann þarfnast sérfræðiálits. Með tilkomu tölvutækninnar á hann þess kost að senda myndina fjarstöddum sérfræðingum til nánari greiningar - vegalengdir skipta þá ekki máli, heldur reynir nú á gæði tölvusambandsins og gagnaflutningagetuna. Enn fremur reynir á það hvort lagaumhverfi viðkomandi sjúkrastofnana heimilar slíka gaqnaflutninga og gagnvirka upplýsingagjöf, jafnvel á milli landa.
Þetta er eitt dæmi af mörgum hugsanlegum um gagnsemi þess að auka heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum, ekki aðeins á sviði fjarlækninga, líkt og í dæminu hér fyrir ofan, heldur einnig á sviði sjúkraflutninga, þjálfunar starfsfólks eða innkaupa á dýrum búnaði eða lyfjum sem stórar stofnanir gætu sameinast um og náð þannig niður kostnaði. Málið snýst um gagnsemi þess að taka upp aukið heilbrigðissamstarf milli landa og stofnana - að auka heilbrigðisþjónustu með samlegð og samstarfi en lækka um leið tilkostnaðinn eftir föngum.
Þetta var umfjöllunarefni nýafstaðinnar þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fram fór á Ísafirði 14.-17. janúar síðastliðinn. Þangað mættu um 40 vestnorrænir og norskir stjórnmála-, háskóla- og fræðimenn til að ræða samstarfsmöguleika milli Íslands, Grænlands og Færeyja í heilbrigðiskerfi Vestur-Norðurlanda.
Markmið ráðstefnunnar var að veita innsýn í heilbrigðiskerfi vestnorrænu landanna þriggja, á hvaða hátt þau eru ólík og greina hvaða vandamálum þau standa frammi fyrir auk þess að rannsaka hvaða tækifæri felist í auknu samstarfi landanna. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru ráðherrar heilbrigðismála auk sérfræðinga og stjórnenda í heilbrigðisstofnunum landanna þriggja.
Meðal umræðuefna var hvort hægt sé að skapa sameiginlegan heilbrigðismarkað á svæðinu þar sem hvert land sérhæfir sig í ákveðnum hlutum og þjónusti allt svæðið.
Þrýstingur á hagkvæmni í rekstri heilbrigðiskerfa á Vesturlöndum eykst ár frá ári. Samhliða gera íbúar í velferðarsamfélögum kröfu um góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu. Eftir því sem þrýstingurinn á sparnað verður meiri samhliða kröfum um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, hljóta stjórnmálamenn og fagfólk í okkar heimshluta að velta fyrir sér möguleikum þess að auka hagkvæmni reksturs heilbrigðiskerfa. Á þetta sérstaklega við um fámenn lönd þar sem tilkostnaður við sómasamlega heilbrigðisþjónustu er tiltölulega mikill en þörfin á auknu öryggi þjónustunnar jafnframt brýn.
Er skemmst frá því að segja að ráðstefnan tókst í alla staði vel. Þarna gafst kærkomið tækifæri fyrir pólitískt og faglegt samráð þar sem allir hlutaðeigandi leiddu fram hugðarefni sín, skiptust á hugmyndum og reyndu að finna lausnarfleti. Af framsöguerindum og þeim umræðum sem sköpuðust má glöggt ráða að sóknarfærin eru mörg og vilji meðal fagfólks og stjórnmálamanna að nýta þau sem best. Fundarmenn voru á einu máli um að miklir möguleikar felist í því að efla enn frekar en orðið er samstarf landanna á þessu sviði til hagsbóta fyrir íbúana ekki síður en opinber fjármál í löndunum þremur.Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.