Veiðileyfagjaldið ...

Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti. Hreinn hagnaður útgerðarinnar á síðasta ári var 60 milljarðar samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, það jafngildir 22,6% af heildartekjum greinarinnar sem voru 263 milljarðar króna.  Framlegð útgerðarinnar (svokölluð EBIDTA) var 80 milljarðar sem er mun betri afkoma  en 2010  þegar hún nam 64 milljörðum króna. Eiginfjárstaðan batnaði um 70 milljarða milli ára.

 

Þessar jákvæðu fréttir tala sínu máli. Þær sýna okkur hve mikið er að marka harmagrát talsmanna útgerðarinnar sem undanfarin misseri hafa fullyrt að þessi stönduga atvinnugrein myndi líða undir lok, færi svo að veiðigjald yrði lagt á umframhagnaðinn í greininni.  Eins og sjá má af þessum afkomutölum er engin slík hætta á ferðum, nema síður sé.

 

Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá  – þ.á.m. arðgreiðslur útgerðarinnar til sjálfrar sín. Það sem eftir stendur  – umframhagnaðurinn – myndar gjaldstofn fyrir töku  veiðileyfagjalds á greinina alla. Þar fyrir utan geta skuldug útgerðarfyrirtæki sótt um lækkun veiðileyfagjalds – nú og næstu þrjú árin – ef sýnt verður fram á að tiltekið skuldahlutfall stafi af kvótaviðskiptum fyrri ára.  Gert er ráð fyrir að heildarlækkun gjaldtökunnar vegna þessa geti numið allt að tveimur milljörðum króna á þessu fiskveiðiári, þannig að tekjur ríkisins af veiðileyfagjaldi verði nálægt 13 milljörðum króna (hefði annars orðið 15 mia).

 

Það munar um þrettán milljarða í fjárvana ríkissjóð, því nú er mjög kallað eftir framkvæmdum og fjárfestingum til þess að herða snúninginn á „hjólum atvinnulífsins“. 

 

Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast strax í gerð Norðfjarðarganga, og síðan í beinu framhaldi Dýrafjarðarganga/Dynjandisheiðar sem samgönguáætlun gerir ráð fyrir að hefjist 2015 og ljúki eigi síðar en 2018.

 

Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú hægt að veita stórauknum fjármunum til tækniþróunar og nýsköpunar, aukinna rannsókna og styrkingar innviða í samfélagi okkar, eins og fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. 

 

Vegna veiðileyfagjaldsins verður sjávarútvegurinn enn styrkari stoð í samfélagi okkar en verið hefur – raunverulegur þátttakandi í endurreisn atvinnulífs og byggðarlaga  og sannkölluð undirstöðuatvinnugrein í víðum skilningi.

 

En veiðileyfagjaldið er einungis eitt skref – vegferðinni er ekki lokið.

 

Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.  Stjórnvöld mega ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

 

---------------

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Ólína..það er skaðræði að hafa þig á þingi..

Vilhjálmur Stefánsson, 10.1.2013 kl. 10:24

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu, bara sí svona? En það útskýrir margt og minnir okkur á að þar sem Ólína er notfæra sér sjálfa náttúruauðlindina þjóðina, þá ber að skattleggja Ólínu sérstaklega fyrir að hafa þessi ókeypis afnot af þjóðinni, sér til eigin framdráttar; og vel að merkja án þess að hafa fjárfest í neinu nema í sinni eigin kosningabaráttu. Engin skip smíðuð hér og engin skip smíðuð þar. Flotið er bara áfram á flotinu sem aðrir hafa búið til.

Slæmt er fyrir þjóðina að hafa svona fólk á þingi. Það er skaðræði. En að þetta skyldi fara svona, er hreint skemmdarverk.

Þetta hlýtur að fara nálgast heimsmet. Verst er að ekki skuli vera hægt að flytja sjálfa afurðina Ólínu þingmann út.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 10.1.2013 kl. 12:29

3 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Aðeins útgerðin greiðir veiðileyfagjaldið og skv. tölum hagstofunnar fyrir árið 2011 var framlegð fiskveiða 42 milljarðar og hreinn hagnaður fyrir skatta 27 milljarðar.

Fiskveiðar og vinnsla skiluðu árið 2011 saman framlegð upp á 80 milljarða og hagnaði upp á 60 milljarða.

Þessar tölu sem þú notar eru því rangar.

Hvað er umframhagnaður? Er ekki betra að tala um rentu?

Lúðvík Júlíusson, 11.1.2013 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband