Kvótamálin og vegferðin framundan

Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

 

Fyrsta skrefið í þá átt að rjúfa eignamyndun útgerðarinnar á aflaheimildum og tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af fiskveiðiauðlind sinni var stigið með setningu laga um veiðigjald síðastliðið vor. Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá.  Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti, hreinn hagnaður hennar var 60 milljarðar á síðasta ári en heildartekjur 263 milljarðar. Veiðileyfagjaldið mun á þessu fiskveiðiári gefa 13 milljarða króna í ríkissjóð. Það munar um minna þegar sárlega er þörf á að styrkja samfélagslega innviði eftir hrunið. Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast í viðamiklar samgönguframkvæmdir á borð við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, veita atvinnulífinu innspýtingu með framkvæmdum, fjárfestingum, rannsóknum og þróun.

 

En vegferðinni er ekki lokið. Síðara skrefið, breytingin á sjálfri fiskveiðistjórnuninni, hefur ekki verið stigið enn.

 

Með kvótafrumvarpinu sem nú bíður framlagningar er opnað á það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði. Frumvarpið gerir ráð fyrir tímabundnum nýtingarleyfum gegn gjaldi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með svokölluðum leigupotti, sem verður opinn  og vaxandi  leigumarkaður með aflaheimildir  og óháður núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir úr fjötrum þess leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði. Þær munu eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða úr leigupottinum sem verður í upphafi 20 þúsund tonn en mun vaxa með aukningu aflaheimilda. Þar með yrði komið til móts við sjálfsagða kröfu um aukið atvinnufrelsi og nýliðun.

Frumvarpið sem nú bíður uppfyllir ekki alla drauma okkar sem vildum sjá breytingar á fiskveiðistjórnuninni til hins betra. Það er málamiðlun og málamiðlanir geta verið erfiðar. Engu að síður er það skref í rétta átt – skref sem ég tel  rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.  Hér er það mikið í húfi fyrir byggðarlög landsins og tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi að krafan um „allt eða ekkert“ getur varla talist ábyrg afstaða. Hún getur einmitt orðið til þess að ekkert gerist.

 

Og þá yrði nú kátt í LÍÚ-höllinni – en dauft yfir sveitum við sjávarsíðuna.

 

----------------

Þessi grein birtist sem kjallaragrein í DV í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband