Heildræn meðferð - heilsubót eða kukl?
29.11.2012 | 16:45
Þingsályktunartillaga - sem ég er meðflutningsmaður að - um að kannaðar verði forsendur þess að niðurgreiða heildræna meðferð græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu, hefur vakið augljósan áhuga í samfélaginu, jafnvel hörð viðbrögð hjá sumum. Eitt dæmi er þessi vanhugsaða fordæming á heimasíðu Vantrúar þar sem því er haldið fram að umræddir þingmenn - Guðrún Erlingsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og undirrituð - séum að leggja það til að ríkið "niðurgreiði skottulækningar" eins og það er orðað svo smekklega.
Verði hin ágæta þingsályktunartillaga okkar þriggja samþykkt gerist einfaldlega þetta:
Skipaður verður starfshópur með fulltrúum frá embætti landlæknis, Sjúkratrygginga Íslands, Bandalagi íslenskra græðara, ríkisskattstjóra og velferðarráðuneyti. Sá hópur metur það í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um gagnsemi heildrænnar meðferðar græðara hvort efni standi til þess að bjóða fólki upp á niðurgreiðslu slíkrar meðferðar - hvort sem hún er þá liður í t.d.
- eftirmeðferð (td eftir krabbameinsmeðferð, áfengismeðferð eða dvöl á geðsjúkrahúsi svo dæmi sé tekið)
- stoðmeðferð við aðrar læknisfræðilegar/hefðbundnar meðferðir (t.d. stuðningur við kvíðastillandi meðferð, meðferð við þunglyndi eða vegna meðferðar langvinnra, álagstengdra sjúkdóma)
- eða sjálfstæð meðferð vegna óskilgreindra heilsufarslegra vandamála sem læknavísindin ráða jafnvel ekki við með hefðbundnum aðferðum.
Heildrænar meðferðir hafa átt vaxandi fylgi að fagna undanfarna áratugi sem liður í almennri heilsuvakningu og auknum skilningi læknavísindanna á því að sjúkdómar eru sjaldnast einangrað fyrirbæri, heldur afleiðing samverkandi þátta í lífi fólks: Lifnaðarhátta, andlegs álags, erfða o.s.frv.
Náttúrulækningafélag Íslands reið á vaðið á síðustu öld með stofnun heilsuhælisins í Hveragerði, þar sem fólk fær einmitt heildræna meðferð við ýmsum kvillum t.d. eftir skurðaðgerðir eða lyfjameðferðir: Slökun, nudd, leirböð, hreyfingu, nálastungur o.fl.
Verði þessi starfshópur skipaður má vænta þess að hann muni líta til þeirra rannsókna og annarra gagna sem fyrir liggja um gagnsemi slíkra meðferðarúrræða, ræða við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk og leita álits þeirra.
Fyrir nokkrum árum spratt upp mjög heit umræða um ágæti eða gagnsleysi höfuðbeina og spjaldhryggjameðferðar. Fram á sviðið þrömmuðu læknar sem höfðu allt á hornum sér í því sambandi. Þá skrifaði ég þessa grein á bloggsíðu mína sem mér finnst raunar eiga fullt erindi inn í þessa umræðu enn í dag.
Meginflokkur: Heilbrigðismál | Aukaflokkar: Lífstíll, Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:49 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef miklar áhyggjur af tvennu sem þú sagðir í Kastjósi, aðallega vegna þess að það gengur gegn hugmyndum mínum um það hvernig gott er að mynda sér skoðanir á málum og taka síðan ákvarðanir út frá skoðunum.
Í fyrsta lagi er það sem hú hefur eftir vinkonu þinni um að hún hafi sparað sér 80 þús. kr. á einu ári með því að nota heildrænar læknisaðferðir í stað hefðbundinna lyfja.
Hér er, að þinni sögn í Kastljósi, þingsályktunartillaga byggð að hluta til á persónlegri reynslu einnar manneskju.
Til þess að ákveða hvort eitthvað eigi möguleika á að virka fyrir stóran hóp fólks er nauðsynlegt að rökin á bak við það komi vegna rannsókna á stórum hópi fólks. Helst rannsókna sem gerð eru með vísindalegri aðferð. Jafnvel stór skoðannakönnun myndi vera til bóta hér.
Getur verið að þessi meðflutningskona þín sé á þeirri skoðun að eitthvað sem virkar fyrir hana hljóti að virka fyrir alla? Hvernig kemst hún annars á þá skoðun að sparnað hennar sé hægt að margfalda, samfélaginu til hagsbóta?
Í öðru lagi voru það orð þín "Það er ekki mitt hlutverk sem alþingsimanns að leggja mat á gildi rannsókna (um lækningagildi heildrænna heilsumeðferða)"
Hvað er það sem kemur í veg fyrir að þú getir lagt mat á rannsóknir? Það er hægt að lesa þær (í heilu eða útdrætti), skoða gögnin sem þær eru byggðar á og velta fyrir sér hvort hægt sé að draga ályktanir af niðurstöðum þeirra. Sumir eru meiraðsegja búnir að því fyrir mann, með rökstuðningi. Fyrir mér eru þetta allt góðar og gildar leiðir til að mynda sér skoðanir og ég sé ekki afhverju alþingismenn geta ekki gert slíkt. Er ég hér að misskilja eitthvað?
Ég skal játa það fúslega að persónulega er ég stuðningsmaður þess að nota vísindalegar aðferðir til að komast að því hvort eitthvað virkar eða ekki. Vísindaleg aðferð hefur sínar takmarkanir, ekki síst vegna þess að það er ekki hægt að skoða og mæla alt (hvernig á að mæla ást?), hvað þá gera tilraunir á öllu.
Ég hjó eftir því í viðtalinu að þér gremst ætlaður tilgangur vísindanna að sanna allt. Vissulega leitast vísindin við að sanna sem mest, en það er yfirleitt byrjað að vinna með vísindalegar niðurstöður töluvert áður en að það er búið að fullsanna eitthvað. Ég held reyndar að fátt vísindafólk myndi fást til að segja að eitthvað sé fullsannað.
Stundum komumst við að því að vísindin sem við vorum að vinna með duga ekki lengur til að fá ásættanlega niðurstöðu. Þá er ekkert annað en að prófa eitthvað annað og þá eru oft komnar nýjar kenningar sem hægt er að byrja að vinna eftir.
En ef að það á að komast að einhverri nothæfri niðustöðu með vísindalegri aðferð þá verður að afla gagna með vísindalegri aðferð.
Að mínu mati hafa einstaklingar fullan rétt til að mynda sér skoðanir byggt á öðru en vísindalegri aðferð, t.d. innsæi, trúarlegum ritum ofl. Jafnvel það að taka upp skoðanir annarra gagnrýnislaust.
Hinsvegar þegar kemur að því að framkvæma hluti sem geta haft áhrif á annað fólk, þá þurfa framkvæmdaaðilar að vera búnir undir það að þurfa að gefa hinu fólkinu skýringar á því hversvegna þeir vilji fara út í þessar framkvæmdir. Rök sem koma að undirlægi rannsókna og gagna munu að öllu jöfnu virka á stærri hóp en röksemdir byggðar á tilfinningum og innsæi, að því gefnu að samfélagið sé samsett úr einstaklingum með ólíkar lífsreynslur og skoðanir.
Það liggja mjög lítil rök á bakvið flestum þeirra aðferða sem flokkast undir heildræn vísindi. Það þyðir ekki endilega að þau hafi ekki jákvæð áhrif,eldur bara það að það hefur ekki tekist að sýna fram á það með vísindalegum hætti. Þessvegna hafa þessar aðferðir ekki fengið skjól í læknavísindunum.
Nú er ég enginn sérfræðingur í þessum aðferðum. Sú eina sem ég hef lesið mér ýtalega til um er hómópatía (smáskammtalækningar). Þar hefur allur vafi verið tekin af um að sú lækningaaðferð er vita gagnslaus. Allar röksemdir um ágæti smáskammtalækninga eru "anecdotal", engar rannsóknir sýna fram að kosti SSL umfram hin frægu "placebo" áhrif. Auk þess eru kenningarnar á bak við SSL 200 ára gömul fjarstæðukennd fantasía um "minni" vatns og það að áhrif einda í vatni haldi sér þótt eindirnar séu löngu horfnar. SSL er án nokkurs vísindalegs vafa skottulækning í orðsins fyllstu og bestu merkingu.
Eini jákvæði punkturinn er að "lyfin" eru algerlega meinlaus, sé unnið eftir ýtrustu skilmálum SSL.
Það verður aldrei hægt að meina fólk að leita sér lækninga eftir óhefbundnum leiðum en með því að niðurgreiða skottulækningar SSL þá er verið að eyða tíma og peningum fólks (og ríkis) til einskis og í raun auka líkurnar á að fólk fái ekki bót meina sinna.
Gísli Einarsson, 4.12.2012 kl. 01:59
Sæll Gísli, og takk fyrir innlegg þitt (sem ég sé því miður þetta seint, þar sem ég kem ekki svo oft inn á moggabloggið).
Við erum sýnist mér sammála um velflest. Gildar rannsóknir eru auðvitað forsenda vísindalegrar þekkingar, og sé vel að verki staðið leiðir rannsóknarniðurstaða A alltaf til rannsóknartilgátu B, og koll af kolli.
En það er ekki alltaf hægt að krefjast vísindalegra sannana fyrir öllum hlutum, því ekki hafa allir hlutir verið rannsakaðir til hlítar. Það er það sem ég er að benda á.
Varðandi sparnað fyrir einstaklinga og samfélag af því að leita heildrænna heilsulausna, þá er mér ekki kunnugt um neinar vísindarannsóknir sem sanna eða afsanna slíkt. En er þeirra þörf í því tilviki? Eða dugir kannski bara góður rökstuðningur byggður á almennri skynsemi, eða vottaðri reynslu fjölda manns sem hefur leitað á vit óhefðbundinna lækninga til þess að losna frá verkjum og vanlíðan sem hefðbundin læknisfræði átti engin svör við? Sjáum við ekki ekki gildi þess - ef við hugleiðum það - að manneskja geti lifað án lyfja og án verkja? Sjáum við ekki sparnaðinn í því fyrir samfélagið að verjast tilraunakenndum lyfjagjöfum og ómarkvissum innlögnum, jafnvel aðgerðurm vegna lífstílssljúkdóma, vegna offitu, áunninnar sykursýki, vefjagigtl, síþreytu, þunglyndis ... svo ég nefni nokkra sjúkdóma sem læknar ráða illa við en hægt er að verjast (eða í öllu falli milda) með heildrænum aðferðum t.d. þeim aðferðum sem græðarar beita. Margt hjúkrunarfólk og jafnvel læknar beita líka heildrænum aðferðuml, eða vísa á aðra sem gera það - einmitt vegna þess að þetta fólk VEIT að læknisfræðin á ekki svar við öllu, og það er dýrt að kljást endalaust við einkenni frá óþekktri orsök.
Ég held að almenn skynsemi hljóti að segja okkur hvaða þýðingu þetta hafi.
En sem stjórnmálamaður get ég ekki hætt mér út á þá braut að fella dóma um gildi rannsókna, þó ég geti vissulega myndað mér skoðun og lesið mér til. Umrædd þingsályktunartillaga miðar að því að fá þetta rannsakað/metið af til þess bærum aðilum.
Hér er um að ræða þingsályktunartillögu en ekki lagafrumvarp. Á þessu tvennu er munur. Þingsályktun hefur ekkert lagagildi, en þegar hún hefur verið samþykkt er hún einfaldlega ákvörðun sem alþingi tekur um feril máls, og því eru þingsályktanir gjarnan settar fram í aðdraganda lagasetningar - sem getur svo tekið mörg ár. Við erum m.ö.o. að hreyfa málinu, opna umræðuna. Lengra er ekki gengið.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 6.12.2012 kl. 20:54
Takk fyrir svarið Ólína, alltaf gaman að geta rætt svona hluti milliliðalaust. Ég er sammála því að við sjáum hlutina örugglega mjög svipað og ég held við séum sammála um það að vísindalegar rannsóknir séu af hinu góða hvort sem þær leiða til gallharðra sannanna eða ekki. Það sem ég skynja samt hjá þér er nokkuð sem ég hef fundið fyrir hjá mörgu folki, það er það að vera tilbúið að setja vísindin til hliðar í ákveðnum málum oft einmitt á þeim rökum að fyrst að vísindin hafi ekki svar við öllu þá þurfi ekki alltaf að beita þeim. Eins og ég sé vísindi þá hafa þau ekki endilega það takmark að "sanna það" að það sé hægt að sanna allt. Þetta er bara ákveðin aðferðafræði og þegar beiting hennar skilar árangri á einhverju sviði þá er yfirleitt haldið áfram að beita sömu aðferðafræði.
Vísindaleg aðferð hefur verið notuð til að rannsaka áhrif heildrænnar meðferðar og niðurstöðurnar lofa ekki góðu fyrir heildræna meðferð, því rannsóknirnar eru nánast aldrei þeim í hag. Ekkert endilega mikið í óhag heldur en niðurstaðan er yfirleitt sú að það er ekki hægt að sýna fram á mælanlegan árangur.
Það er varla hægt að sakast við iðkendur heildrænnar meðferða ef þeir kjósa að líta algjörlega fram hjá þessum rannsóknum þar sem niðurstöðurnar eru þeim ekki í hag. Hver vill horfast í augu við það að vinna manns sé í besta falli gagnslaus og skaðlaus. Í stað rannsókna og gagna er oft talað um "vottaða reynsu" (testimonials) og þú talar um "almenna skynsemi". Ég nota sjálfur ekki þetta hugtak, því að mér vitandi hefur skynsemi ekkert endilega alltaf vinninginn yfir óskynsemi í mannlegri hegðun. .
Það eru til fjöldamargar mögulegar skýringar á því afhverju fólk hefur fengið bót meina á sama tíma og það kynnist óhefbundnum lækningum. Til þess að geta fundið út hver er rétta skýringin þarf meira en reynslusögur einstaklinga, jafnvel þótt þeir telji hundruðum. Þúsundir eða jafnvel milljónir einstaklinga geta haft algerlega rangt fyrir sér. Mannkynssagan er full af dæmum um það.
Til að geta sagt til með einhverri vissu um orsakasamband þarf helst að rannsaka ýtarlega og þá getur vísindalega aðferð komið að góðu gagni. Ég er algerlega sammála þér að læknisfræðin stendur á gati á mörgum stöðum, en heildræn meðferð hefur yfir heildina litið skilað margfalt minni árangri en læknisfærðin til þessa. Geðlæknisfræðin og sálfræðin eru mikið yngri fög og eiga enn eftir langt í land með að ná sama árangri og læknisfræðin, en þetta tosast allt saman í rétta átt, þrjú skref áfram og eitt til baka. Eflaust er á mörgum stöðum verið að fara í vitlausa átt, en sagan sýnir að þá láta þau fræði bara undan og deyja út.
Heildrænu fræðin eru svo oft byggð á ofboðslega veikum grunni, kenningum sem kannski hljóma vísindalega og virðast byggð á einhverjum fræðum en eru í raun bara uppspuni. Það að einhver aðferð hafi verið stunduð í áratugi eða árhundruðir segir ekkert til um það hvort að hún hafi eiginlegan lækningmátt. Það eru svo margar mögulegar skýringar á því hvað það er sem heldur slíkum fræðum við. Mér finnst þú vera komin út á mjög hálan ís þegar þú segir að heildrænar aðferðir virki vel á offitu, sykursýki, vefjagigt, síþreytu og þunglyndi. Það eru einfaldlega engin gögn til sem styðja það, aðeins sögur einstaklinga "anecdotal evidence".
Eins og ég hef sagt áður þá eru smáskammtalækningar í raun eina heildræna meðferðin sem ég hef kynnt mér eitthvað. Þeir sem aðhyllast smáskammtalækningar hafa annað hvort ekki kynnt sér þá gagnrýni sem beinist að þeim eða þá að þeir kjósa að líta fram hjá gagnrýninni. Hvorutveggja ber vott um slæmar aðferðir til að mynda sér álit. Það er ekki hægt að sýna fram á virkni smáskammtalækninga og það er hægt að sýna fram á að þær virki ekki. Það verður ekki mikið einfaldara. Það er ekki hægt að sópa vísindalegum rökum undir teppi þegar það hentar. Eflaust er til fullt af fólki sem telur að SSL hafi bætt líðan þess og jafnvel læknað. Þetta fólk hefur einfaldlega rangt fyrir sér og það eru aðrar ástæður fyrir batanum. Það er búið að sýna fram á það með vísindalegum hætti að SSL hefur enga virkni umfram "placebo" áhrifin.
Ástundun SSL hefur á heildina litið lítið að færa okkur í leitinni að lækningu. Mögulega eru margir sem stunda SSL gott fólk sem er gott að fara til með vandamálin sín. Það býr yfir samúð, skilningi og alúð sem mögulega er skortur á í hefðbundna kerfinu. Það verður aldrei til of mikið af samúð, skilningi og alúð í samfélaginu en það læknar ekki líkamlega kvilla sem hafa lífrænar orsakir.
Ég hugsa að með tilkomu "lífsstílssjúkdómanna" sem eru væntanlega að verða samfélaginu þungur fjárhagslegur baggi ofan á allan mannlega kostnaðinn, fari læknavísindin að snúa sér meira að forvörnum, og þá í samvinnu við fleiri fræðigreinar eins og mannfræði, samfélagsfræði og hagfræði. Ef það reynist mikið ódýrara að byrgja brunnin heldur en að hífa holdvott barnið upp úr honum þá hugsa ég að sú leið verði farin meira í framtíðinni. Lyfjafyrirtækin gætu streittst á móti slíkri þróun en á endanum er þetta því miður yfirleitt spurning um peninga.
Að lokum (ef þú ert ennþá að lesa
) þá skil ég ekki ennþá hvað þú átt við með að "fella dóma um gildi rannsókna". Rannsóknir skila af sér gögnum sem síðan eru notuð til að styðja við kenningar t.d. um orsakasambönd. Hverjir eru það sem fella dóma um gildi rannsókna ef að stjórnmálamenn geta það ekki? Ertu þá í raun að segja að þu þurfir að vera opinberlega hlutlaus í garð rannsóknarniðurstaða?
Gísli Einarsson, 12.12.2012 kl. 01:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.