Hvert er þá öryggi aldraðra á hjúkrunarheimilum?
20.11.2012 | 15:59
Málefni hjúkrunarheimilisins Eirar vekur margar áleitnar spurningar.
Hér er um að ræða sjálfseignarstofnun sem rekin er á dagpeningum frá ríkinu. Stofnun sem hefur tekið við háum greiðslum frá skjólstæðingum sínum og ríkinu - en meðhöndlað þá fjármuni eins og þeir væru ráðstöfunarfé stjórnenda, e-s konar risnu fé fyrir vini og vandamenn þeirra sem treyst var fyrir þessum fjármunum. Örlætisgjörningur" er orðið sem Ríkisendurskoðun notar yfir þann gjörning. Ekki er ég viss um að aðstandendur íbúa Eirar myndu velja það orð. Verður mér þá hugsað til aðstandenda gamla mannsins sem kom með 24 mkr í ferðatösku fyrir fáum árum til þess að greiða fyrir íbúðina sem hann fékk að flytja inn í á Eir. Síðan greiddi hann 63 þús. kr. mánaðarlega fyrir að fá að búa þar.
Þetta ógeðfellda mál hlýtur að verða rannsakað frekar og óhugsandi annað en að stjórn heimilisins segi af sér, eða verði látin segja af sér, sjái hún ekki sóma sinn í því að víkja sjálf.
En þetta mál vekur áleitnar spurningar fyrir okkur alþingismenn, sem varða öryggi, eignastöðu og réttindi aldraðs fólks sem dvelur á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins.
Í þinginu í dag beindi ég þeim tilmælum til formanns velferðarnefndar Alþingis, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að taka málefni hjúkrunarheimilanna upp með heildstæðum hætti í velferðarnefnd þingsins. Það þarf að endurskoða og fara vel yfir það fyrirkomulag sem nú viðgengst varðandi framlag aldraðra til búsetu- og dvalarréttinda á þessum heimilum. Fólk greiðir háar fjárhæðir í upphafi, og þarf auk þess að sæta upptöku lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun. Þess eru dæmi að fólk missi nánast öll fjárforráð við það að fara inn á slík heimili. Þetta er gert í nafni öryggis" og umönnunar" sem reynist svo ekki betra en dæmið um Eir sannar.
Það er kominn tími til að endurskoða mál þessi í heild sinni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Lífstíll, Mannréttindi | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.