Færsluflokkur: Menning og listir

Veggjakrot og veggjalist - enn og aftur

Nú þegar borgarlandið er að koma undan snjó og hvarvetna blasir við rusl og drasl eftir lægðirnar að undanförnu hefur vaknað umræða um borgarumhverfið. Af því tilefni langar mig að endurvekja nokkurra ára gamla umræðu um veggjakrot og veggjalist.

 Ég hef áður gert að tillögu minni að Reykjavíkurborg geri tilraun með að ná sáttum við veggjakrotara og veggjalistamenn. Sáttin felist í því að sett verði stór spjöld - svona á stærð við húsgafl - á völdum stöðum í borginni. Þessi spjöld verði til afnota fyrir þá sem þurfa að fá útrás fyrir skreytilist sína með spreybrúsanum, hvort sem það eru veggjalistamenn eða veggjakrotarar en á þessu tvennu, veggjalist og veggjakroti, er nefnilega allverulegur munur.

 Veggjakrot er náskylt þeirri frumstæðu þörf hunda og ýmissa rándýra að merkja veggjakrotsér svæði og óðul. Hópar og klíkur sem ganga á milli hverfa og svæða setja merki sitt við útjaðrana og tilkynna þar með "hér var ég" - sem þýðir "þetta á ég". Þessi tegund veggjakrots er afar hvimleið, enda eirir hún engu, hvorki íbúðarhúsnæði né opinberum byggingum, strætisvagnaskýlum, girðingum eða auglýsingaspjöldum. Þeir sem láta undan þessari þörf láta sig engu varða eigur annarra - þeir vaða bara yfir með sínar merkingar í fullkomnu skeytingarleysi.

graffitiSvo er það veggjalistin sem ég vil kalla svo. Myndlistarverkin sem mörg hver eru tilkomumikil og falleg þó þau komi úr úðabrúsum. Þessi myndverk geta verið prýði sé þeim fyrirkomið á réttum stöðum. Víða sér maður slík verk á auðum brandveggjum eða illa hirtu atvinnuhúsnæði þar sem þau eru beinlínis til bóta (þó ekki sé það nú alltaf).

Þess vegna vil ég nú leggja þetta til við borgaryfirvöld - að listamönnum götunnar verði hreinlega boðið upp á að fá útrás fyrir sprey- og merkiþörfina einhversstaðar annarsstaðar en á húsveggjum og strætóskýlum. Það er aldrei að vita nema eitthvað sjónrænt og skemmtilegt gæti komið út úr því. Spjöldin þyrftu auðvitað að vera í öllum hverfum borgarinnar, jafnvel víðar innan hvers hverfis. En hver veit nema þau  myndu hreinlega lífga upp á umhverfið og fegra það. Húseigendur gætu þá áhyggjulausir hirt um eigur sínar án þess að eiga það á hættu að þær séu eyðilagðar með spreybrúsa daginn eftir.

 Þessi tillaga er í mínu boði og þiggjendum að kostnaðarlausu ;-)


Dýravelferð í siðvæddu samfélagi

blidahvolpurein05 (Medium) Dýr eru skyni gæddar verur. Sú staðreynd mun fá lagastoð í nýrri  heildarlöggjöf um dýravelferð sem nú er til meðferðar í þinginu, verði  frumvarp þar um samþykkt fyrir þinglok.  Markmið laganna er að „stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt“ eins og segir í markmiðsgrein frumvarpsins.

 

Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd þingsins þar sem ég hef tekið að mér að vera framsögumaður málsins, vinna að framgangi þess og mæla fyrir þeim breytingum sem nefndin telur rétt að gera á málinu í ljósi athugasemda og ábendinga sem borist hafa úr ýmsum áttum. Góð sátt náðist í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu.

 

Gelding grísa og sumarbeit grasbíta 

Eitt af því sem hreyfði mjög við umsagnaraðilum í meðförum málsins, var að frumvarpið skyldi gera ráð fyrir því að heimilt væri að gelda grísi yngri en vikugamla án deyfingar. Sjónvarpsáhorfendur hafa nýlega séð svipaða umræðu endurspeglast í þættinum „Borgen“ þar sem aðbúnaður á dönskum svínabúum var mjög til umræðu. Þá hafa dýraverndarsamtök og dýralæknar einnig beitt sér mjög fyrir því að tryggja að grasbítar fái ekki aðeins útivist á grónu landi yfir sumartíman, heldur einnig nægjanlega beit, svo þau geti sýnt sitt eðlislæga atferli, þ.e. að bíta gras. Á þetta einkum við um kýr í tæknifjósum, sem dæmi eru um að komi sjaldan eða aldrei út undir bert loft.

 

Skemmst er frá því að segja að atvinnuveganefnd tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytingar á frumvarpinu  í þessa veru. Nefndin leggst gegn  lögfestingu þeirrar undanþágu að gelda megi ódeyfða grísi, og leggur auk þess til að grasbítum sé tryggð „beit á grónu landi á sumrin.“

Þá leggur nefndin til þá breytingu á ákvæði um flutning dýra að skylt sé  „við flutning og rekstur búfjár að dýr verði fyrir sem minnstu álagi og hvorki þoli þeirra né kröftum sé ofboðið“. Enn fremur verði ráðherra skylt að setja nánari reglur um aðbúnað dýra í flutningi, t.d. um hleðslu í rými, umfermingu, affermingu, hámarksflutningstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé. Þá skal einnig hert á reglum um aðferðir handsömun dýra, vitjun um búr og gildrur og aðbúnað dýra í dýragörðum.

Tilkynningaskylda og nafnleynd 

Nefndin sá einnig ástæðu til þess að herða á tilkynningaskyldu vegna brota gegn dýrum. Með hliðsjón af barnaverndarlögum leggur nefndin til að sambærilegt nafnleyndarákvæði og þar er að finna, auk sérstakrar skyldu dýralækna og heilbrigðisstarfsfólks dýra að gera viðvart ef meðferð eða aðbúnaði er ábótavant. Gengur sú skylda framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

 

Nefndin ákvað að skerpa á refsiákvæðum frumvarpsins. Viðurlög geta verið dagsektir, úrbætur á kostnað umráðamanns, stöðvun starfsemi, vörslusvipting dýra og haldlagning, bann við dýrahaldi og fangelsisvist.

   

Með áorðnum breytingum tel ég að ný heildarlöggjöf um dýravelferð sé til mikilla bóta. Nýleg en sorgleg dæmi um vanhirðu og illa meðferð dýra sanna best þörfina fyrir skýran lagaramma, gott eftirlit og markvissa stjórnsýslu um dýravelferðina.

 

Dýr eru skyni gæddar verur. Það segir margt um siðferði samfélags hvernig búið er að dýrum sem höfð eru til nytja; að þau fái að sýna sitt eðlilega atferli og að þau líði hvorki skort né þjáningu sé við það ráðið. Nýting dýra og umgengni mannsins  við þau á að einkennast af virðingu fyrir sköpunarverkinu.


Klisjukennd mynd um undarlegt fólk undir jökli

snaefellsjokullFór að sjá tvær myndir á kvikmyndahátíðinni í Háskólabíói í kvöld. Stuttmyndina Melt (Bráðnun) sem er sannkallað listaverk, myndatakan, tónlistin og hugmyndin. Falleg og sterk upplifun.

Seinni myndin var ekki jafn heilsteypt: Dularmögn Snæfellsjökuls eftir franskan höfund - hvers nafn ég ekki man. 

Myndin er klisjukennt safn af frásögnum fólks um dularreynslu sína í námunda við jökulinn. Hún er tekin í þoku. Jökullinn sjálfur sést aldrei nema sem málverk, teikning eða ljósmynd, og því augljóst að kvikmyndagerðarmennirnir hafa ekki tafið lengi á Snæfellsnesinu - a.m.k. ekki nógu lengi til þess að jökullinn hreinsaði af sér.  Inn á milli frásagna af orku jökulsins og huldum vættum hans voru leikin undarlega uppstillt tónlistaratriði sem áttu að magna upp einhverja tilfinningu fyrir menningarrótum þessarar furðulegu þjóðar sem myndin sýndi - en stungu í stúf við allt annað. 

Útlendingar sem sjá þessa mynd sannfærast um að Íslendingar séu stórundarlegt fólk sem sjái huldar vættir í stokkum og steinum, trúi staðfastlega á geimverur, og syngi framandlega fimmundarsöngva í tíma og ótíma, gjarnan íklætt síðum kuflum með ennisband um höfuð, berjandi skinntrommur í flæðarmáli eða inni í helli, milli þess sem þeir undirbúa heimsóknir geimvera eða knýja á kletta og steina í von um að upp lokið verði fyrir þeim.  

Þið vitið ... klisjan sem Björk blessunin innleiddi hér um árið, án þess að ég vilji nú hnýta í þá ágætu konu ... klisjan sem fer í mínar fínust þjóðfræðitaugar, en ég átta mig líka á að þýðir lítið að rökræða við útlendinga, svo innprentuð er þessi ímynd orðin í hugarþel þeirra sem koma hingað til að leita að séríslenskum einkennum.
Blogga kannski meira um þessa brengluðu þjóðarímynd síðar .... og þá í öðru samhengi.


Kvæðamannafélagið Iðunn 80 ára

freya Kvæðamannafélagið Iðunn er 80 ára í dag, en það var stofnað 15. sept. 1929. Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið að viðhalda og kenna íslenskan kveðskap og vísnagerð, safna kvæðalögum og varðveita þar með þessa merkilegu menningarhefð okkar Íslendinga sem rekja má langt aftur í aldir.

Nafn félagsins vísar til gyðjunnar Iðunnar. Hún gætti eplanna sem æsir átu til að viðhalda æsku sinni. Nafnið hæfir vel félagi sem varðveitir og heldur lífi í aldagamalli hefð.

Ég hef verið félagi í Iðunni í mörg ár, var varaformaður þess um tíma, og á margar góðar minningar frá skemmtilegum félagsfundum. Þá var oft glatt á hjalla, með kveðskap og leiftrandi ljóðmælum sem flugu milli manna. Þarna hafa margir ógleymanlegir hagyrðingar stigið á stokk í gegnum tíðina, snillingar á borð við Sveinbjörn Beinteinsson, Andrés Valberg, bræðurna Hákon og Ragnar Aðalsteinssyni, o.fl. Sömuleiðis hafa sprottið þar upp frábærir listamenn í kveðskap, menn á borð við Steindór Andersen sem hefur lagt einna drýgstan skerf til lifandi kveðskaparlistar af núlifandi Íslendingum. 

Þegar félagið fagnaði 75 ára afmæli sínu árið 2004 voru gefnar út 100 kvæðastemmur af silfurplötum Iðunnar ásamt veglegu riti með nótum að kvæðalögunum öllum og ritgerðum um íslenska kvæðahefð og rímnakveðskap. Silfurplötur Iðunnar nefndist þessi merka útgáfa sem er einstök í sinni röð og mikið þing.

Nú fagnar Iðunn áttræðisafmæli. Ég verð fjarri góðu gamni, og verð því að láta mér nægja að vera með í anda. En héðan úr Skutulsfirðinum sendi ég félögum mínum hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni dagsins -  það er braghenda:

Iðunn, til þín æsir sóttu æskuþróttinn.
Eplin rjóð í öskju þinni
yndi bjóða veröldinni.

Enn við þráum ávextina' af eski þínum,
af þeim lifna ljóð á vörum,
lífsins glóð í spurn og svörum.

Áttræðri þér árna viljum allra heilla.
Megi ljóðsins mátar finna
máttugan kraftinn epla þinna.


Þrenn Grímuverðlaun fékk dóttirin: Þeir fiska sem róa!

Humanimal09Það gladdi mitt meyra móðurhjarta að sjá þrenn Grímu-verðlaun renna til sýningarinnar Húmanimal í kvöld - ég tala nú ekki um þegar Saga dóttir mín tók við einni styttunni sem danshöfundur. Heart Hún tók við þeim verðlaunum í fullri hógværð ásamt Möggu vinkonu sinni, sem líka fékk verðlaun sem dansari ársins. Báðar tóku skýrt fram (og það með réttu) að hópurinn allur ætti þessar styttur sem þær héldu á.

Já, þær voru sannarlega bæði þakklátar og örlátar á þessari sigurstundu - vildu ekki eiga neitt einar - hugsuðu til félaga sinna - deildu gleðinni og heiðrinum með fleirum. Fallegar og rétt þenkjandi ungar konur. Sannkallaðir listamenn.

Annars var ég að verða úrkula vonar um að ég kæmist á afhendingarathöfnina í tæka tíð. Strandveiðifrumvarpið sem ég hef haft framsögu um sem starfandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar kom svo seint inn til þriðju umræðu í þinginu að sjálft við lá að ég missti af Grímu-athöfninni. Loks þegar málið var komið á dagskrá og menn voru stignir í pontu til að þenja sig yfir því, var klukkan að verða sjö. 

Í brjósti mér toguðust á ólíkar tilfinningar: Löngunin til að fara eina ferðina enn í umræðurnar og reka nokkrar rangfærslur ofan í mótherjana - hinsagasvegar löngun móðurinnar til að samgleðjast dóttur sinni sem var að fá fjölda tilnefninga fyrir listrænt framlag, og var hugsanlega að fara að taka við verðlaunum (sem kom á daginn).

Eins og oft áður varð móðurhvötin pólitíkinni sterkari. Ég ákvað því að blanda mér ekki frekar í umræðuna - taldi mig hafa sagt í gær allt sem segja þurfti um málið - lét taka mig út af mælendaskrá og ... stakk af! Blush Og viti menn: Þingheimur komst af án mín þessar mínútur sem eftir lifðu fundarins. Það hefði dóttir mín svosem gert líka á þessari gleðistundu, en ég hefði ekki viljað missa af því að vera viðstödd. 

Það er af Strandveiðifrumvarpinu að segja að umræðunni lauk í kvöld, en frumvarpið með áorðnum breytingum kemur til atkvæðagreiðslu á fimmtudagsmorgun. Því er ljóst að strandveiðarnar munu ekki hefjast á þjóðhátíðardaginn, úr því sem komið er.

Mottó dagsins er enn sem fyrr: Þeir fiska sem róa!


mbl.is Utan gátta fékk flest verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lóan er komin. Gleðilega páska!

Loan Það er sólarglenna og hæglætisveður hér á Ísafirði þennan páskamorgun. Í gær sást til heiðlóu á Holtsodda í Önundarfirði. Hrossagaukur sást í Haukadal í Dýrafirði og æðarkóngur við Höfða.

 Já, vorið er á næsta leiti - og vonandi fylgir því betri tíð fyrir land og lýð.

Aldrei fór ég suður hátíðin stóð fram eftir nóttu og við heyrðum daufan óminn berast yfir bæinn þegar við fórum að sofa í gærkvöld. Það virtist vera góð og vandræðalaus stemning í kringum tónleikana. Þegar ég kíkti var Hemmi Gunn að rifja upp gamla takta við mikinn fögnuð. Salurinn var troðfullur út úr dyrum.

Húsið hjá mér er fullt af gestum um hátíðarnar. Tvö barnanna minna komu að sunnan ásamt tveimur vinum sínum fyrr í vikunni. Hér hafa líka verið nætur gestir í tengslum við kosningastarfið, þannig að hér er hvert fleti skipað, eins og oftast um þetta leyti. Bara gaman af því.

Sjálfsagt munum við skella okkur á skíði seinna í dag. Svo verður kíkt á kosningamiðstöðina, og eldað eitthvað gott í kvöld. Smile

Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska kæru lesendur og vinir!

 


Frábær ritdómur - móðurhjartað þrútið og heitt

Humanimal09 (Medium) Um helgina frumsýndi hópur ungra listamanna nýtt dansleikverk í Hafnarfjarðarleikhúsinu sem nefnist Húmanímal. Dóttir mín Saga var þátttakandi í þessu verki sem Páll Baldvinsson gefur hæstu einkunn í ritdómi sem birtist í Fréttablaðinu í dag.  Móðurhjartað sló ört og ótt við lestur ritdómsins eins og nærri má geta. Hann er svo frábær að ég stenst ekki freistinguna að birta hann hér:

Það er vissulega erfitt að draga sýninguna Húmanímal í dilka: stundum er hún hrein myndlist, stundum dramatískt samtal sem hverfist í tvídans, raddtilraun eða söngatriði, erótísk slagsmál, kyrrstæður sólódans án hreyfingar: hún er tilraunakennd hreyfing sem er bæði skopleg og sársaukafull, tvíræð en tilfinningaþrungin. Verkið er unnið í hópi en samt með leikstjórum, einfaldlega hugsað í rými með færanlegri dýpt tveggja veggbrota sem geta lifnað við á óvæntan og undurfagran máta.

Það var yndislega gaman að sjá verkið skríða fram, finna fjölbreytnina kveikja undrun og hrífast með í einfaldleika kyndugra hugmynda sem klæddust holdi og hreyfingu og stundum röddum. Þau hafa verið heppin krakkarnir sem standa að sýningunni að ná utanum svo óskyld konsept sem eru fyrst og fremst sjónræn og koma þeim í svo glæsilega heild. Þau eru misjafnlega á sig komin: Álfrún slíkt múltitalent að mann undrar það, Jörundur að þreifa sig inn á ný svið, Margrét nánast himnesk í sínum makalausa bakskúlptúr og víkur ekki undan erfiðum orðaleik undir lok verksins. Saga dýrslega líkamleg, Dóra tvíbent í ræðu sinni um hvatirnar og Friðgeir fáránlega þurr í erótískri útlistun á ertisvæðum kvenlíkama. Og allt er þetta borið fram af hispursleysi, taktskynjun og alvarlegri nálægð svo undrum sætti. Allt framkvæmt af fullnustu og slíkum krafti að aðdáunarvert var.

Víst gerir grunnhugmynd um liti og áferð búninga og leikmyndar mikið og hljóðheimurinn samsvarar fullkomlega tínslu hugmynda í atburðarásina.

Þetta var bara gaman og furðulegt og fallegt og maður ók glaður heim úr Firðinum. Það er á slíkum stundum að maður þakkar fyrir Leiklistarráð og það þrekfólk sem smíðar stórkostlega sýningu úr litlu. Og hina ungu og óreyndu leikstjóra sem binda pakkann saman að lokum.

Svo mörg voru þau orð.

Það er svolítið gaman að því að slá kjördæmapólitísku eignarhaldi á sýninguna. Það er nefnilega þannig að tveir frambjóðendur Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi eiga "börn" í þessari sýningu. Það erum við Ragnar Jörundsson sem skipar 6. sæti listans og er faðir Jörundar Ragnarssonar. 

Jebb ... og nú slær móðurhjartað - þrútið og heitt. InLove


Í dag tók lítil stúlka til máls ...

Í dag tók lítil stúlka til máls og mannfjöldinn klappaði henni lof í lófa. Hún var vel máli farin og falleg lítil stúlka - kannski verður hún stjórnmálamaður einn daginn. En þessi litla stúlka með fallega nafnið er afar reið og áhyggjufull. Hún hefur meiningar um frammistöðu stjórnmálamanna, viðveru þeirra í vinnunni, ábyrgð þeirra á kreppunni og margt fleira.

Það tók á mig að sjá þetta reiða barn tala á fjöldasamkomu fyrir fullorðna. 

Nú spyr ég mig hvort ég hefði viljað sjá mitt eigið barn í þessum sporum - átta ára gamalt. Hjarta mitt svarar því neitandi. Höfuðið sömuleiðis. Svar höfuðsins á ég auðveldara með að rökstyðja, það er einfaldlega þetta: Allir sem starfa með börnum og fyrir þau hafa lögbundna skyldu til að sýna þeim "virðingu og umhyggju" og taka ævinlega mið af hag þeirra og þörfum í hvívetna. Það á ekki að leggja meira á barn en aldur þess og þroski leyfir.

Þegar átta ára gamalt barn er sett fyrir framan mikinn  mannfjölda sem fagnar reiðiorðum þess með klappi og fagnaðarlátum - þá má kannski segja að verið sé að sýna sjónarmiðum þess virðingu. En hvað með þroska barnsins og tilfinningar? Hefur átta ára gamalt barn gott af því að vera virkur þáttakandi á mótmælafundi sem haldinn er vegna bágra efnahagsaðstæðna og kreppu?

Dimmblá litla upplýsti að pabbi hennar hefði hjálpað henni með ræðuna. Það þýðir að hann  hefur rætt málið við hana - enda mátti heyra á máli hennar skoðanir og viðhorf sem barn finnur ekki upp hjá sjálfu sér heldur meðtekur frá öðrum. Dimmblá litla er uppfull af erfiðum, neikvæðum tilfinningum vegna stöðunnar í samfélaginu.  Átta ára gamalt barn í þeirri stöðu hefur augljóslega ekki verið verndað fyrir reiði og áhyggjum á þeim erfiðu tímum sem nú fara í hönd.

Því miður.

Woundering

PS: Ég sé að ég er ekki ein um þessa skoðun - bendi ykkur á að lesa líka bloggfærslur Jennýjar Önnu og Þorleifs Ágústssonar

 


Látum ekki æsingafólk hindra friðsamleg mótmæli

motmaeli Þessa dagana eru sjálfsagt margir hikandi við að taka þátt í mótmælum af ótta við ryskingar og ófrið eins og urðu á gamlársdag. Það væri þó afar slæmt ef nokkrir hávaðaseggir yrðu til þess að hrekja fólk frá því að nota lýðræðislegan rétt sinn til friðsamlegra mótmæla.

Ég vil að minnsta kosti ekki láta æsingalið sem vinnur eignaspjöll og meiðir fólk ráða því hvort ég sýni hug minn í verki. Sem betur fer sýnist mér fleiri sömu skoðunar því enn mætir fólk á Austurvöll í þúsunda tali.

Fyrsta mótmælastaðan á Ísafirði átti sér stað í dag, og mættu á annað hundrað manns sem tóku sér mótmælastöðu á Silfurtorginu klukkan þrjú. Það verður að teljast góð mæting í ljósi þess hvernig til mótmælanna var stofnað. Engin formleg fréttatilkynning, engin auglýsing - heldur sms-skeyti, símtöl, tölvupóstar og blogg.

Ætlunin er að mæta framvegis vikulega klukkan þrjú á Silfurtorgi. Kannski verður einhver dagskrá næst - það var ekkert slíkt að þessu sinni. Bara þögul mótmælastaða. Ég hef fulla trú á því að þetta sé upphafið að öðru og meiru.


Ferðahrakningar um jól

hridarvedurNepalIs Það hefur ekki verið flogið hingað á Ísafjörð síðan 21. desember. Hvassviðri og éljagangur dag eftir dag, og varla hægt að segja að birti á daginn.

Fólkið mitt kom með seinna fluginu á sunnudag þannig að ég get ekki kvartað. En mér verður óneitanlega hugsað til þeirra fjölmörgu sem hafa ekki komist heim um þessi jól eða lent í hrakningum við það. Sjálf þekki ég mætavel slík vandræði af jólaferðalögum vestur á firði - þetta er jú sá tími sem veður gerast vályndust.

Minnisstæðust er mér ferðin sem við Siggi maðurinn minn, Doddi sonur minn og heimilistíkin Snotra, fórum með varðskipinu Tý árið 1980 vestur á Ísafjörð. Við Siggi vorum þá ungir námsmenn í Reykjavík með fimm ára gamalt barn og stefndum vestur til fjölskyldunnar um hátíðarnar. Ekki hafði verið flogið vestur í fjóra daga, komin Þorláksmessa, og búið að aflýsa flugi þann daginn. Í þá daga sat maður einfaldlega á flugstöðinni meðan verið var að athuga flug því ekki var komið textavarp og því síður farsímar. Á flugvellinum myndaðist oft heilmikil stemning, fólk kynntist og tók tal saman um veðurútlit og færðina m.m., en þetta voru þreytandi setur í reykfylltri flugstöðinni innanum óróleg börn, kvíðið fólk og farangur.

Jæja, en þar sem búið var að aflýsa flugi þennan Þorláksmessudag tyr-a-fullu (Medium)brugðum við á það ráð, sem stundum dugði í þá daga, að athuga með ferðir varðskipa. Og viti menn, einhverjir þingmenn þurftu að komast vestur og (þeirra vegna) hafði verið ákveðið að senda skip. Það var pláss fyrir okkur um borð, svo við rukum út í leigubíl og báðum hann að aka í loftköstum niður á höfn. En öldungurinn sem tinaði undir stýrinu taldi nú ýmis tormerki á því, og sennilega hefur engin ökuferð tekið lengri tíma frá Miklubraut að Reykjavíkurhöfn. Þegar þangað var komið var verið að leysa landfestarnar, og við bókstaflega stukkum yfir borðstokkinn úr öðru skipi sem lá við hliðina.

Þetta var skelfileg sjóferð - hún tók 26 tíma. Þegar Siggi og Doddi voru búnir að kasta upp öllu því sem þeir höfðu innbyrt, og lágu hálf meðvitundarlausir í koju sá ég mitt óvænna og fór upp í brú. Þar eyddi ég nóttinni að mestu milli þess sem ég gáði að þeim - og fyrir vikið varð ég ekki sjóveik. Annars urðu nánast allir sjóveikir í þessari ferð. Fólk lá hvert um annað þvert, magnvana af uppköstum og ógleði.  Meira að segja hundurinn ældi. Messadrengurinn, kokkurinn, já allir nema fjórar manneskjur: Skipstjórinn, 1. stýrimaður, þingmaður einn sem þarna var farþegi og ég - MOI! 

En þegar skipið lagði að bryggju á Ísafirði um hádegisbil á aðfangadag var skollið á blíðalogn. Og þar sem við stóðum á riðandi fótum og  horfðum yfir fjörðinn, sáum við hvar flugvélin renndi sér tígullega niður á flugvöllinn hinumegin fjarðarins ... FootinMouth

 

KubburOddurJonsson

Þessa fögru mynd tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði á lognkyrrum vetrardegi


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband