Færsluflokkur: Spaugilegt

Fæst orð bera minnsta ábyrgð ... en ég stend nú samt með Dorrit

dorrit Gamla máltækið að fæst orð beri minnsta ábyrgð hefur sannað gildi sitt á Bessastöðum undanfarna sólarhringa. Það er slæmt þegar forseti landsins er borinn fyrir óábyrgum ummælum á alþjóðavísu, hvort sem þau eru tekin úr samhengi eður ei. Nú held ég það sé ráð fyrir forsetaembættið að draga aðeins úr fjölmiðlasamskiptum á þessum viðkvæmu tímum, enda ljóst að fjölmiðlar, jafnt innlendir sem erlendir eru með blóðbragð á tungu yfir öllu sem sagt er þessa dagana.

Ég gat þó ekki að mér gert að skella upp úr við frásagnir af viðureign þeirra forsetahjóna frammi fyrir erlendum blaðamanni sem sagt var frá í gær. Alveg sá ég þau í anda: Ólaf ábyrgan og virðulegan að reyna að ræða alvarlega stöðu lands og þjóðar; Dorrit óþreyjufulla og trúlega hundleiða á þessum formlegheitum að reyna að komast inn í umræðurnar. Hún fór að leika við hundinn. Hann rökræddi við blaðamanninn (grunlaus um þann úlfaþyt sem á eftir fylgdi).  Pex og hjónametingur. 

 En, gott fólk? Hversu mörg miðaldra hjón geta ekki séð sjálf sig í svipuðum sporum, þó við aðrar aðstæður sé? 

Dorrit er góð fyrir það að vilja brjótast út úr formlegheitum. Ég stend með  henni í því að segja það sem henni býr í brjósti. Um leið get ég vel skilið Ólaf Ragnar að vilja halda aðeins aftur af henni. Hún er jú forsetafrú. Þau hafa bæði nokkuð til síns máls. Wink

En þessi uppákoma milli þeirra hjóna sýnir okkur umfram allt að þau eru manneskjur af holdi og blóði eins og við hin - fólk með taugar og tilfinningar. Það vill stundum gleymast.


mbl.is Viðtalið tekið úr samhengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástþóri bannað að mótmæla á fundi með mótmælendum

asthor_magnusson_a_birosagon Í fyrsta skipti sem ég skelli upp úr yfir frétt úr kreppunni var þegar ég sá sjónvarpsfréttina um uppákomuna í Iðnó þegar Ástþór Magnússon steðjaði þangað inn í jólasveinabúningi og var umsvifalaust kastað út af fundarmönnum. Þarna voru saman komnir grímuklæddir aktívistar ásamt lögreglu og almennum borgurum að ræða mótmælaaðferðir og virðingu fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi þeirra sem meðal annar aðhyllast "beinar aðgerðir" í mótmælum.

Skyndilega var friðurinn rofinn. Jólasveinninn mættur - hó hó hó! Með fullan poka af kærugjöfum til stjórnvalda.

Fundarmenn litu hver á annan  Errm og í sömu andrá sameinuðust hugir viðstaddra í einni ákvörðun: Út með manninn! 

Já, hvahh?  Hann bað ekki einu sinni um orðið - það eru nú einu sinni fundasköp!!

Þessar "beinu aðgerðir" Ástþórs féllu greinilega ekki í kramið.  Ég meina, hver vill miðaldra kall í jólasveinabúningi inn á alvarlegan fund með alvöru aktívistum í svörtum fötum með lambhúshettur og skýlur fyrir andliti? Út með manninn! Hann er ekki einu sinni töff. Tounge

Þið verðið bara fyrirgefa - en þetta var óborganleg uppákoma. Og þó að Ástþóri sé ekki skemmt (sjá hér) og öðrum fundarmönnum augljóslega ekki heldur ef marka má bloggskrif ýmissa í dag - þá skellihló ég. Skelli, skellihló. Devil 

Kannski var það vegna flensunnar - ég er auðvitað með fullan hausinn af kvefi og gæti þess vegna verið með óráði.

Á þessum síðustu og verstu tímum er auðvitað bannað að brosa. Halo

 


Höfum nokkur hugtök á hreinu

kyr2Nú þegar talað er um nauðsyn þess að gera upp við hugmyndafræði kapítalismans og nýfrjálshyggjunnar er eins gott að hafa nokkur hugtök á hreinu. Cool

 

SÓSÍALISMI: Þú átt 2 kýr. Þú gefur nágranna þínum aðra þeirra.

KOMMÚNISMI: Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar og gefur þér mjólk.

FASISMI:  Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar og selur þér mjólk.

NASISMI:  Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar...og skýtur þig svo.

SKRIFRÆÐI: Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar, skýtur aðra þeirra, mjólkar hina og hellir svo allri mjólkinni.

HEFÐBUNDINN KAPÍTALISMI:  Þú átt 2 kýr. Þú selur aðra þeirra og kaupir naut. Þú stofnar kúabú. Þú hagnast vel, selur kúabúið og sest í helgan stein.

SÚRREALISMI: Þú átt 2 gíraffa. Ríkið krefst þess að þú farir í harmonikkunám.

BANDARÍSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú selur aðra þeirra og þvingar hina til að gefa af sér mjólk á við fjórar kýr. Þú ræður svo sérfræðing til að komast að því hvers vegna hún datt niður dauð.

ÍSLENSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú selur 3 þeirra til fyrirtækis á opnum markaði með veði í gervifyrirtæki mágs þíns, gengur svo frá yfirtöku með vísan í skráningu á markaði þannig að þú færð allar 4 kýrnar tilbaka og skattaívilnanir vegna einnar til viðbótar. Afurðarétturinn af kúnum 6 er færður yfir á fyrirtæki í Karíbahafinu, en leynilegur meirihlutaeigandi þess selur þér aftur réttinn að öllum 7 kúnum. Samkvæmt ársskýrslu á fyrirtækið nú 8 kýr, með eigendarétti að einni til viðbótar. Þú selur eina kú til þess að þóknast ónefndum stjórnmálamanni og átt þá níu kýr. Rétturinn að nautinu er seldur almenningi í hlutafjárútboði.

FRANSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú ferð í verkfall, skipuleggur mótmæli og tefur umferð...vegna þess að þú vilt eiga þrjár kýr.

JAPANSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú endurhannar þær þannig að þær verða tíu sinnum minni, en framleiða tuttugu sinnum meiri mjólk. Þú markaðssetur svo nýja teiknimyndahetju, "Kúmann", sem nær miklum vinsældum um allan heim.

Jamm .... þennan fékk ég sendan í dag. Mikið til í þessu.


Farin af landi brott ...

kraka.jpg ... til Póllands. Sit nú og bíð þess sem verða vill varðandi flugáætlunina, brottförinni var seinkað um fjóra tíma.

Ég var svo heppin að eiga svolítinn gjaldeyri inni á reikningi sem ég hef nú kroppað út úr bankanum. Það er auðvitað undarlegt að þurfa að standa auðmjúkur á svip með farseðla í hönd og biðja um að að taka út sína eigin peninga. En svona er þetta nú samt.

Ef ég hefði ekki átt þessa aura, hefði ég auðvitað ekkert farið í þessa ferð, því ekki dettur manni í hug að kaupa gjaldeyri eins og á stendur. En ... við vorum fyrir löngu búin að borga sjálfa ferðina, þannig að ... við ætlum bara að skella okkur. Verðum í Kraká.

Það er ágætt að yfirgefa landið í nokkra daga núna - komast í burtu og sjá eitthvað annað en fallandi útvalsvísitölur, gröf yfir gengissveiflur og fréttir af atvinnuleysi og verðbólgu. Segi það satt.

Ætla að vera í bloggfríi á meðan - en þið sem kíkið inn á síðuna mína getið dundað ykkur við að skoða þessa upprifjun Kastljóssins á útrásarævintýrinu (smellið hér).

Svo er bara um að gera að berja sér á brjóst og minnast þessa að um æðar okkar rennur blóð stoltra bænda, sjómanna og víkinga aftur í aldirnar. Við kreppum hnefana þegar á móti blæs, bönkum á brjóstkassann ... og svo ... banka - kreppa - banka - kreppa ... Smile

 


Góð viðskipti

Hann var glaður í bragði bóndinn þegar hann kom heim einn daginn og tilkynnti frúnni að nú hefði hann gert góð viðskipti. "Ég seldi tíkina og fékk milljón fyrir hana!"

Konan, hálf hvumsa: "Seldirðu tíkina?"

Hann: "Jebb"

Hún: "Og hvar er milljónin?"

Hann, hróðugur á svip, dregur fram tvo litla kettlinga: "Hérna sjáðu. Tveir kettir - fimmhundruð þúsund hvor!"

 

kettir_330440

 


Hin nýja hagspeki

Ef þið hefðuð lagt 100.000 krónur í að kaupa hlutabréf Nortel fyrir einu ári síðan væri verðmæti bréfanna í dag um 4.900 krónur.

Hefði sama fjárfesting verið lögð í Enron væri sú eign í dag um 1.650 krónur.

Hefðuð þið keypt bréf í World Com fyrir 100.000 krónur væri minna en 500 kall eftir.

Hefði peningurinn hins vegar verið notaður til að kaupa Thule-bjór fyrir einu ári síðan þá hefði verið hægt að drekka hann allan og fara síðan með dósirnar í endurvinnslu og hafa um 21.400 krónur upp úr því.

Þegar ofangreint er athugað virðist vera vænlegur kostur fyrir fjárfesta að drekka stíft og endurvinna! 

 

 

Smile

 

Þennan fékk ég frá vinkonu minni í dag - það má nú brosa út í annað.


Smellin vísa um síðustu atburði

Grin

Hárfínt sagan hefur breyst

hún er oss í fersku minni,

en Davíð kanske gekk full geyst

frá Golíat að þessu sinni.

Þessa vísu fékk ég senda í tölvupósti í morgun - höfundur vill ekki láta nafn síns getið,  en hún mun vera ættuð frá Egilsstöðum. Sel það ekki dýrara en ég keypti.


Ég er stjórnsamur strumpur

Papa_Smurf Ég stóðst ekki mátið og tók strumpaprófið sem allir eru að taka núna. Og það er engum blöðum um að fletta, ég er stjórnsamur strumpur, Papa Smurf: Þessi sem stjórnar og ræður, vill öllum vel, hefur stundum þungar byrðar að bera en leitast við að bæta heiminn og njóta þess einfalda og fagra. Jammm ... ég er engill í mannsmynd Halo bara svolítið stjórnsamur engill. Wink

Hvenær skyldi heimurinn átta sig á þessu - hvílíkt gull ég er ?? 

Prófið endilega sjálf - það er gaman að þessu. Smile


Óboðleg líkamsræktartæki - tilvalin fyrir landsbyggðina!?

thjalfun Þessi frétt birtist á visir.is nú skömmu fyrir hádegi:

 „Orkuveita Reykjavíkur auglýsir til sölu í Morgunblaðinu í dag fjöldann allan af líkamsræktartækjum. Um er að ræða gömul tæki sem fyrirtækið keypti notuð þegar nýja húsið var tekið í notkun. Tilvalið fyrir fólk á landsbyggðinni" segir Sigrún A. Ámundadóttir hjá Orkuveitunni /.../ Sigrún segir að tækin séu mörg hver komin til ára sinna og séu ekki boðleg líkamsræktarstöðvum í Reykjavík. „Þetta eru engu að síður tæki sem stöðvar úti á landi geta boðið sýnum viðskiptavinum, við gerum nefnilega minni kröfur úti á landi," segir Sigrún en öll tækin verða seld í einu lagi.“

Hmmm ... líkamsræktartæki sem þykja "ekki boðleg" lengur ... nema landsbyggðafólki. FootinMouth

 


Gauksi í stuði

Þegar maður hefur ekkert að skrifa um - er bara pakksaddur og alsæll á jólanótt eftir góða samveru með ættingjum og vinum - þá skellir maður bara inn einum léttum svona rétt fyrir svefninn. Þessi er reyndar ómótstæðilegur - og með taktinn á hreinu.

Páfagaukur í stuði - kíkið á þetta. Cool


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband