Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Hvað gengur ríkisskattstjóra til?
17.9.2009 | 13:21
Ég verð að viðurkenna að framganga ríkisskattstjóra gagnvart forráðamanni IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustunnar ehf. vekur mér ugg í brjósti. Að ríkisskattstjóri skulu á opinberum vettvangi viðra "grunsemdir" sem hann hefur um "upplýsingastuld" gagnvart nafngreindum einstaklingi, er umhugsunarefni. Sérstaklega í ljósi þess að tengslanetið sem Jón Jósef Bjarnason er að vinna hefur að geyma upplýsingar sem tvímælalaust hljóta að koma almenningi við og vera til mikils gagns fyrir þá sem rannsaka hagsmuna- og krosseignatengslin á íslenskum fjármálamarkaði.
Ekki hefur neitt komið fram í fjölmiðlum sem bendir til þess að þarna sé verið að miðla upplýsingum sem eigi að fara leynt að lögum. Þvert á móti.
Hvaða tilgangi þjónar það þá þegar ríkisskattstjóri í sérstakri fréttatilkynningu vekur athygli á óskyldum atriðum sem einungis eru til þess fallin að rýra traust á þeim sem um er rætt? Ég er ekki undrandi þó að nefndur Jóns Jósef telji vegið að mannorði sínu, eins og fram kom í hádegisfréttum. Ég fæ ekki séð hvað það kemur málinu við þó að IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustan hafi ekki skilað ársreikningi til embættis ríkisskattstjóra.
Vill ekki ríkisskattstjóri upplýsa okkur Íslendinga um alla þá sem ekki hafa skilað embættinu ársreikningi undanfarin þrjú ár?
Fram hefur komið að Jón Jósef greiddi fyrir aðgang að þeim upplýsingum sem hann notast við. Hann gerði skýra grein fyrir því hvað hann hygðist fyrir og í hvaða tilgangi. Þær upplýsingar sem út úr gagnavinnslunni koma eiga ríkt erindi við jafnt almenning sem stjórnmálamenn - að ég tali nú ekki um þá sem rannsaka eiga hrunið. Hafi Persónuvernd eitthvað við þessa gagnavinnslu að athuga hlýtur hún að gera sínar athugasemdir. Hefur hún gert það? Það er ekki eins og þetta mál hafi farið leynt.
Nei, þessar tiltektir ríkisskattstjóra skjóta skökku við - og vekja áleitnar spurningar. Hvaða hagsmuna er verið að gæta með þessu?
------------------------
PS: Ég efast ekki um að ríkisskattstjóri fer að lögum í embættisverkum sínum - en það hefði hann líka gert þó umræddar "grunsemdir" hefðu ekki verið viðraðar opinberlega.
Grunaður um upplýsingastuld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Spennan eykst: Prófkjörinu lýkur í dag og hér eru leiðbeiningar :-)
8.3.2009 | 09:52
Í dag er 8. mars: Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Vonandi mun þessi dagur færa okkur konum drjúga uppskeru - það væri vissulega gaman. Nú er spennan í hámarki í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. Rafrænni kosningu lýkur kl. 16 og þá kemur í ljós hverjir hafa haft erindi sem erfiði í baráttuna.
Ég hef fengið allmargar fyrirspurnir frá kjósendum varðandi rafkosninguna. Þeir sem ekki hafa heimabanka verða að mæta hjá næsta umboðsmanni og fá afhent lykilorð sem þeir kvitta fyrir. Þeir geta svo valið hvort þeir kjósa hjá umboðsmanni eða taka lykilorðið heim og kjósa í eigin tölvu.
Hér er skrá yfir umboðsmenn í kjördæminu ásamt símanúmerum. Á Ísafirði er umboðsmaðurinn Benedikt Bjarnason og hann verður til staðar í kosningamiðstöð okkar í Langa Manga, s. 825-7808.
Ég veit að sumir hafa lent í baksi með lykilorðið í heimabankanum og hér eru leiðbeiningar um það. Athugið að lykilorðið kemur ekki í formi skilaboða í heimabankann heldur þarf að fara í rafræn skjöl (t.d. hjá Kaupþingi) eða netyfirlit (t.d. í Íslandsbanka).
Ég hef að undanförnu bloggað um mín helstu áherslumál, til dæmis hér og hér.
Svo sjáum við hvað setur. Nú er frost og fjúk hérna á Ísafirði, þannig að margir eru sjálfsagt fegnir því að geta bara kosið í rólegheitunum í eigin tölvu.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Svo margt hefur gerst ...
17.11.2008 | 23:21
Nú hefur bara svo margt gerst síðustu dægur að móttakarinn í mér er brunninn yfir. Hann tekur ekki við meiru í bili. Lítið bara yfir nýliðna viku:
10. nóv. seint um kvöld: Bjarni Harðarson missir frá sér tölvupóst á alla fjölmiðla með bréfi tveggja Framsóknarmanna til Valgerðar Sverrisdóttur og ljóstrar þar með upp um eigin áform um að koma þessu nafnlaust á framfæri í bakið á Valgerði. Landsmenn taka andköf.
11. nóv. Bjarni segir af sér þingmennsku. Andköf halda áfram.
12. nóv. Forseti Íslands lætur ummæli falla á fundi með fulltrúum nágrannaþjóða sem verða þess valdandi að menn sitja klumsa undir ræðuhöldunum. Norski sendiherranns sér ástæðu til að senda heim sérstaka greinargerð um uppákomuna. Landsmenn líta hver á annan.
14. nóv. Sjálfstæðismenn ákveða að flýta landsfundi fram í janúar og skipa nefnd um Evrópumál sem á að skila af sér fyrir landsfundinn. Sama dag ...
14. nóv. leggur ríkisstjórnin fram aðgerðaáætlun til bjargar heimilunum í landinu. Maður er rétt farinn að fletta í gegnum aðgerðalistann þegar næsta stórfrétt dynur yfir.
15. nóv. Framsóknarflokkurinn heldur þann "magnaðasta" miðstjórnarfund sem framsóknarmenn hafa setið, svo vitnað sé í bloggskrif eins þeirra. Á þessum fundi verða þau stórtíðindi að flokkurinn tekur stefnuna til Evrópu. Hart er deilt á forystuna og af fundinum heyrast hróp og köll gegnum luktar dyr. Loft er lævi blandið. Sama dag ...
15. nóv. mótmæla 6-8 þúsund manns á Austurvelli - hafa aldrei verið fleiri - Alþingishúsið er þakið eggjarauðum og klósettpappír.
16. nóv. Ríkisstjórnin kynnir samkomulag í Ísbjargar deilunni. Ekki er fyrr búið að taka hljóðnemana úr sambandi og kalla til aðjúnkta, dósenta og lektora til að tjá sig um málið en ...
17. nóv. að morgni dags: Gert er uppskátt um þá 27 liði sem felast í umsókn okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrst berast af þessu lausafregnir (skúbb hjá DV ), en síðar um daginn heldur ríkisstjórnin blaðamannafund og opinberar það sem í umsókninni felst. Aftur eru kallaðir til aðjúnktar, dósentar og lektorar til að leggja mat á umsóknina. Þeir hafa ekki fyrr opnað munninn en ...
17. nóv. kl. 15:00: Guðni Ágústsson segir af sér þingmennsku og formennsku í Framsóknarflokknum. Hann er búinn að fá svo gjörsamlega nóg að hann heldur ekki einu sinni blaðamannafund - svarar ekki spurningum, heldur afhendir þingforseta bréf og segir sig frá öllu saman. Ætlar ekki að tjá sig í bráð. Þingheimur situr agndofa - bloggheimur þagnar ... um stund.
Það eru takmörk fyrir því sem hægt er að leggja á einn bloggara á einni viku. Nú er upplýsingaflæðið orðið svo mikið að "tölvan" er einfaldlega frosin - hún tekur ekki við meiru, og skilar ekki fleiru frá sér í bili.
Hreinsun stendur yfir - en það er bloggstífla á meðan. Ég bið lesendur að sýna biðlund á meðan þetta ástand varir.
Tölvur og tækni | Breytt 18.11.2008 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þarfasti þjónninn, félaginn, hljóðfærið ...
17.5.2008 | 11:42
Það er svo undarlegt að hugsa til þess á hve örskömmum tíma tölvan - þetta litla tæki (núorðið) - hefur náð að skipa sér sess í lífi manns. Tölvan er orðin miðpunktur alls sem gerist.
Í vinnunni er hún þarfasti þjóninn. Hún er glugginn út í heim. Samskiptatækið við vini og vandamenn. Hljóðfærið sem ég hamra á tregatóna um andvökunætur og gleðisöngva á góðum dögum. Já, þó skömm sé frá að segja þá hefur tölvan (nánast) tekið við af píanóinu og gítarnum sem sálusorgari og gleðigjafi. Í stað þess að slá á strengi er ég farin að hamra á tölvu til þess að tjá hugsanir mínar, ljóðasmíð og fleira. Tölvan er orðin helsti tengiliðurinn við lífið. Hún er "félaginn" - hljóðfærið - síminn!
Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Svo, til að kóróna skömmina, er hún líka farin að taka sér sess sem hálfgildings persóna. Þessi sem ég er að vinna á núna, er svolítið farin að þreytast. Hún er farin að hiksta og þrjóskast við - vera lengi að sumum hlutum. Og þá finn ég hvernig óþolinmæðin og ergelsið byggist upp gagnvart henni smátt og smátt. Já, ég viðurkenni það bara - ég er farin að TALA við tölvuófétið! Æ, vertu nú ekki að þreyta mig þetta - reyndu nú að moðast í gegnum þetta! Tuldra ég stundum. ÞÚ ætlar þó ekki að fara að frjósa núna!
Svo suma daga er hún eins og hugur manns - lætur allt renna þýðlega í gegn og er bara draumur í dós (í orðsins fyllstu). Þá erum við vinkonur - og ég strýk henni mjúklega í þakklætisskyni þegar ég loka henni. Finn að mér er hlýtt til hennar.
Nú er ég farin að strjúka henni líka áður en ég opna hana - svona til að blíðka hana aðeins áður en við byrjum - það virkar ..... stundum
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
GSM-samband á Ströndum - en hvað með Ísafjarðardjúp?
3.2.2008 | 12:32
"Ekkert minna en bylting hefur orðið í útbreiðslu GSM-sambands á Ströndum og á siglingaleiðum og miðum á Húnaflóa eftir að Vodafone kveikti á langdrægum GSM-sendi á Steinnýjarstaðafjalli ofan við Skagaströnd" segir á fréttavef Strandamanna nú um helgina. Þeir eru harla kátir yfir þessu Strandamenn, sem vonlegt er. Við þetta kemur inn GSM-samband víða á Ströndum þar sem sjónlína er yfir á Skaga. Sendirinn dregur um 100 km en um 50 km eru í loftlínu frá Skagaströnd að Gjögri.
Gott - ég óska Strandamönnum til hamingju.
En hvenær skyldi röðin koma að Ísafjarðardjúpi sem enn er sambandslaust að mestu? Nýlega fór þungaflutningabíll þar út af fyrir skömmu í vonskuveðri. Ökumaðurinn vissi ekki hvar hann var staddur, svo mikill var snjóbylurinn. Hann taldi það guðsmildi að hafa þó náð símasambandi. Venjulegur farsími hefði ekki náð sambandi á þessum slóðum. Komið hefur fyrir að bílar hafa lent í óhöppum þarna og farþegar og ökumenn þurft að bíða tímunum saman eftir aðvífandi aðstoð, vegna þess að ekki er hægt að hringja eftir hjálp.
Ekki er ýkja langt síðan bæjarstjórinn í Bolungarvík mátti dúsa dágóða stund með börn í aftursætinu hjá sér eftir bílveltu á Steingrímsfjarðarheiði - hann náði ekki farsímasambandi - og því hreinasta mildi að ekki höfðu orðið umtalsverð slys á fólki við óhappið.
Þetta er umhugsunarefni fyrir alla þá sem málið varða: Fjarskipafyrirtæki og -yfirvöld.
*
PS: Ég tók mér það bessaleyfi að birta þessa mynd af strandir.is - það fylgir því miður ekki sögunni hver tók hana.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Breytingar breytinganna vegna
26.11.2007 | 22:50
Ég þekkti mig ekki hér á moggablogginu þegar ég opnaði það í morgun. Nýtt útlit! Ömffff? Af hverju alltaf að vera að skipta um alla hluti? Moggasíðan var bara flott eins og hún var.
Kannski er ég að verða íhaldssöm með aldrinum - en stundum fæ ég á tilfinninguna að menn séu að breyta bara til þess að breyta. Það eru alltaf að koma einhverjar tækninýjungar sem eiga að vera eitthvað flottari og betri en það gamla. Svo kemur upp úr kafinu að þær eru ekkert betri - kannski flottari, en ekki betri. Og alls ekki endingarbetri. Enda er það sjálfsagt ekki markmiðið. Hvaða tilgangur væri í því að finna upp nýja hluti ef þeir entust svo von úr viti? Það þarf auðvitað að halda söluhringiðunni gangandi.
Og svo er þetta með vefsíðurnar sem alltaf er verið að breyta. Til bóta? Ekki endilega - þær bara breyta um útlit. Ef eitthvað er til vitnis um stöðnunarfóbíu þá eru það vefsíðurnar. Ég hef a.m.k. enn ekki séð dæmi um betra viðmót eða skemmtilegri notkunarmöguleika á þeim fréttasíðum sem tekið hafa á sig nýtt útlit að undanförnu - mbl.is þar á meðal.
Já, mér fannst gamla síðan betri - og flottari. Eeeeeeen .... ég jafna mig.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Símainnbrot - óskemmtileg reynsla
21.9.2007 | 22:36
Það virðist vera sem gsm-númerið mitt sé ekki lengur mitt einkanúmer. Í það minnsta hefur óprúttnum aðila tekist að brjótast inn í símann minn - svo undarlega sem það kann að hljóma - og senda úr honum ósmekkleg SMS skilaboð til allra nemenda Menntaskólans á Ísafirði, hvorki meira né minna. Í mínu nafni, á mínu númeri!
Það var heldur óskemmtilegt þegar símhringingarnar byrjuðu fyrr í dag. Undrandi foreldrar og nemendur skólans hringdu í mig linnulaust, ýmist til þess að láta mig vita og vara mig við því hvað væri á seyði - eða til þess að fá staðfest að sendingin væri ekki frá mér. Ég var einfaldlega úti í móa - í orðsins fyllstu merkingu - stödd á björgunarsveitaræfingu skammt austur af Selfossi, með hund í bandi og gjallandi talstöð í brjóstvasanum. Vissi hreint ekki hvaðan á mig stóð veðrið.
Það er óþægileg tilfinning að láta brjótast inn hjá sér með þessum hætti. Að vita til þess að einhver hefur rofið friðhelgina - einkarýmið sem hver og einn vill hafa - til dæmis með því að nota símanúmerið manns, til að gera nánast hvað sem er. Ég meina HVAÐ SEM ER.
Sá sem þetta gerði er ekki bara að nota númerið mitt. Hann er líka líka að falsa gögn með því að senda út eigin hugaróra í annars nafni. Það út af fyrir sig - þegar um er að ræða ósmekkleg skilaboð - er líka aðför að æru manns. Brotið er nefnilega margþætt.
Óneitanlega vekur þessi uppákoma líka spurningar um ábyrgð símans. Ég kaupi númerið af símanum, og ætlast til þess að ég sé eini notandi þess; að síminn verji mig fyrir innbrotum af þessu tagi.
Raunar frétti ég hjá kunningja mínum í dag að einhver brögð hafi verið að því að undanförnu að fölsuð SMS skeyti hafi verið í umferð. Sjálf hef ég ekki næga tækniþekkingu til þess að vita hvernig það má vera - en þá er líka ljóst að fólk getur ekki lengur treyst SMS skeytum sem það fær.
En til þess að gera langa sögu stutta, þá er málið komið í hendur lögreglunnar - og mér skilst að rannsókn miði vel.195 bloggvinir á tómri síðu!
24.4.2007 | 00:02
Ótrúlegt - kíkið á þetta - galtóm bloggsíða en 195 bloggvinir komnir samt! Á tóma síðu. Þetta er sko húmor í lagi.
Annað hvort er Steini Briem ótrúlega vel kynntur úti í samfélaginu - sem getur auðvitað vel verið, þó mér finnist það ólíklegt (með fullri virðingu fyrir manninum) - eða bloggvinaæðið hefur keyrt um þverbak. Og það er mín niðurstaða.
En ég semsagt fékk tilboð frá þessum ágæta "bloggara" um að gerast bloggvinur fyrir nokkrum dögum. Þar sem ég er svolítið kresin á þá sem ég kalla vini mína opnaði ég að sjálfsögðu síðuna hans til að sjá hvað hann væri að blogga áður en ég samþykkti hann sem vin. Halló! Þar var þá ekkert - en löng runa af bloggvinum. Ég ákvað að hinkra og hef verið að kíkja á síðuna af og til, svona til að sjá hvort ekki kæmi eitthvað inn. En ekkert gerist. Steini Briem fær 80-90 heimsóknir á hverjum einasta degi, á síðu sem ekkert er inni á, og bloggvinum fjölgar dag frá degi. Í kvöld voru þeir orðnir 195.
Þetta er BARA frábært - eins og börnin segja.
Trúað gæti ég að þarna sé verið að gera tilraun með það hversu marga bloggvini er hægt að fá án þess að nokkuð sé á bak við það. En hvort sem það er tilfellið eða ekki - þá er niðurstaðan athyglisverð. AFAR athyglisverð.
Ég kaupi þennan húmor.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)