Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Nú er ráðskonurass á minni

matvorur Í gær setti ég frystikistuna í samband í fyrsta skipti í fjögur ár. Já, hún hefur blessunin fengið að sofa þyrnirósarsvefni í geymslunni hjá mér allan þann tíma.

Þar sem ég síðar um daginn raðaði í kistuna og skápana hjá mér slátri, súpukjöti, mjölvöru, sykri og fleiru sem möl og ryð fá að vísu grandað seint um síðir, en geymist engu að síður vel við góð skilyrði í frosti og köldum búrgeymslum - þá upplifði ég gamla og næstum gleymda tilfinningu frá því ég var með fullt hús af börnum, efnalítill námsmaður. Það er þessi djúpa, frumstæða þægindatilfinning sem fylgir því að hlaða forðabúrið fyrir veturinn og vita af mat á heimilinu.

Þetta gerði ég árum saman meðan börnin voru lítil. Þá var tekið slátur á hverju hausti og hlaðið niður heilu og hálfu skrokkunum af spaðkjöti, soðinni kæfu, rabarbarasultu og berjasaft. Á haustin keypti maður inn mjölvöru og sykur - bakaði svo og matreiddi til vetrarins. Svo dró maður fram prjónana og prjónaði hosur, vettlinga, húfur, trefla og peysur af hagsýnni vinnugleði.

Aldrei gleymi ég þó blessuðu litla folaldinu sem varð búbjörg fjölskyldunnar eitt haustið á mínum fátækustu námsárum. Frown

Ég hef aldrei getað borðað hrossakjöt að neinu gagni - enda hef ég hingað til átt hross að reiðskjótum og félögum. En þarna  bjuggum við fimm í 36 fermetra íbúð á stúdentagörðum. Við vorum við svo blönk, ungu hjónin, að ég þáði kjöt af nýslátruðu folaldi.

Það barst barst mér í svörtum plastpoka skömmu síðar - svo nýslátrað að það rauk upp úr pokanum þegar ég opnaði hann. Sick Mig sundlaði af velgju - enda ófrísk að fjórða barni og frekar klígjugjörn. Í fyrsta skipti á ævinni féllust mér hendur - og það gerist nú ekki oft.

Grátandi tók ég upp símann og hringdi í mömmu. Hún brást mér ekki. Tók við öllu kjötinu heim til sín, breytti sínu eigin eldhúsi í kjötvinnslu, söng og trallaði fram eftir degi á meðan hún hjó í spað, hakkaði, snyrti og matbjó kjötið. Afhenti mér það svo fallega unnið daginn eftir með bros á vör, og saman komum við því fyrir í frystikistunni.

Þetta blessaða folald varð okkur mikil búbót. Það var matreitt í buff, steikur, gúllas og glás og var vitanlega herramannsmatur að flestra áliti.

En húsmóðirin sagði fátt: Settist að matborði. Hugsaði um litla barnið í móðurkviði sem þyrfti næringuna sína, og leyndi söltum tárum sem þrýstu sér fram í augnkrókana um leið og hún stakk gafflinum í safaríkan bita.

folald

Æ - "það er saurlífi að matreiða hross!"


Góð hugmynd

Evra-AlvaranCom Það er góð hugmynd að nýta eignir lífeyrissjóðanna erlendis til þess að hlaupa undir bagga með íslenskum fjármálamarkaði. Fullyrt hefur verið að eignir lífeyrissjóðanna séu vel ríflega sú upphæð sem ríkið er að kaupa á 75% hlut í Glitni. Ef lífeyrissjóðirnir myndu losa þessar eigur sínar erlendis fengist væn gjaldeyrisinnspýting í hagkerfið.

Þessari hugmynd var komið á framfæri í athugasemd hér á síðunni hjá mér í fyrradag (sjá hér) og hún síðan rökstudd betur á bloggsíðu Benónýs Jónssonar (sjá hér).

Það er gaman að sjá að þeir sem hafa blandað sér í bloggumræðuna að undanförnu - meðal annars hér á síðunni minni - skuli hafa fingurinn á púlsinum og vera svo vel í takt við hugleiðingar og ráðgjöf málsmetandi aðila þessa dagana.


mbl.is Mætt snemma til funda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fellur stjórnin líka?

Fellur gengi, fellur náð,
fellur kusk á ríka.
Falla lauf og fimbulráð.
Fellur stjórnin líka?

Orðrómur um yfirvofandi stjórnarslit er ekki til þess fallinn að róa mann eins og á stendur. Nóg er nú samt.

Best að anda núna í gegnum aðra nösina og út um hina - eins og í jóganu.


Bíddu við ... ??

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hvetur alla hluthafa til að samþykkja boð íslenska ríkisins um kaup á 75% hlut í bankanum - og fagnar nú ummælum forsætisráðherra og Seðlabankastjóra um að hag viðskiptamanna Glitnis verði borgið þar með.

Er þetta örugglega sami Þorsteinn Már og sá sem ég sá í Kastljósi fyrir fáum dögjum titrandi af bræði yfir því að ríkið skyldi hafa lýst vilja til að kaupa bróðurpartinn í Glitni? Þá talaði hann um "mistök lífs síns" að hafa gengið á fund Seðlabankans - eða var Kastljóssviðtalið kannski mistök?

Þorsteinn Már hefur kannski verið vansvefta þann daginn - en þessi kúvending er vægast sagt furðuleg.

Það er eitthvað á bak við þetta. Errm


mbl.is Hvetur hluthafa Glitnis til að samþykkja tilboð ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smellin vísa um síðustu atburði

Grin

Hárfínt sagan hefur breyst

hún er oss í fersku minni,

en Davíð kanske gekk full geyst

frá Golíat að þessu sinni.

Þessa vísu fékk ég senda í tölvupósti í morgun - höfundur vill ekki láta nafn síns getið,  en hún mun vera ættuð frá Egilsstöðum. Sel það ekki dýrara en ég keypti.


Eldhúsdagsumræðurnar, óráðsjal um stjórnarslit og fleira fallegt

skidi-ReykjavikIs Ég er ein af þessum vel menntuðu, dugmiklu Íslendingum sem bý í ægifögru umhverfi - þessi sem þeir voru að tala um í eldhúsdagsumræðunni í kvöld. Mér skilst að ég - og við öll sem þessi lýsing á við um - séum von Íslands um þessar mundir.

Af hverju líður mér þá ekki eins og styrkri stoð? Crying Kannski vegna þess að ég hef ástæðu til að draga í efa að mannauðurinn í landinu fái notið sín við núverandi aðstæður. Það er alvarlegt atvinnuleysi yfirvofandi samhliða öðrum vandamálum. "Heimili landsins loga nú rafta á milli" sagði Guðni Ágústsson - eða heyrði ég það ekki rétt - í heimsósóma prédikuninni sem gekk með eldglæringum af munni hans núna áðan?

Já - staðan er vandasöm. Og ekki bætir úr skák að hlusta á æðrutal af þessu tagi. Það máttu þó aðrir þingmenn eiga, að þeir stilltu sig að mestu um skrum - allir nema Guðni. Hann tvinnaði saman hrakspám og svipuhöggum. Það er ekki góð blanda þegar hvetja þarf til dáða. Nei, Guðni minn.

Annars leið mér undir eldhúsdagsræðunum eins og það væri verið að tala til mín á stríðstímum. Og sú líking er ekki fjarri lagi - Kreppan er að skella á. Það er staðreynd, ekki kenning.

Þess vegna er það ekkert yfirborðstal að biðja menn um samhug og samstillt átak til að takast á við vandann. Oft var þörf, en nú er nauðsyn. Því furða ég mig hálfpartinn á því að  Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, skuli í alvöru leggja það til að Samfylkingin rjúfi ríkisstjórnina, knýi fram  kosningar eða myndi nýja stjórn strax með núverandi stjórnarandstöðu til þess að hægt verði að setja Davíð af sem Seðlabankastjóra.

Þetta er óráðshjal. Nóg er nú samt þó við bætum ekki stjórnleysi og ringulreið við þann vanda sem fyrir er.

Nei, nú verða menn að halda kúlinu.


Smjörklípa Davíðs: Þjóðstjórnin!

David60 Nú, þegar Davíð Oddsson Seðlabankastjóri situr undir vaxandi ámæli fyrir yfirsjónir og hagstjórnarmistök Seðlabankans í alvarlegu árferði - skellir hann smjörklípu á nefið á fjölmiðlum til þess að drepa umræðunni á dreif. Sem við var að búast. Smjörklípan að þessu sinni er: Þjóðstjórn!

Takið eftir því að þetta er ekki einu sinni haft eftir honum beint - ó, nei. Hann á að hafa andað þessu út úr sér á lokuðum fundi. Tvisvar! Spunameistararnir hvísla þessu hljóðlega í eyru fjölmiðlamanna og álitsgjafa - og eitt augnablik eru tekin andköf! Tvisvar í sömu vikunni? Þjóðstjórn!

Hægan, hægan. Davíð er ekki lengur forsætisráðherra. Skoðanir hans á þjóðmálum eru okkur óviðkomandi. Við höfum stjórnvöld með styrkan meirihluta til þess að stýra þjóðarskútunni - Davíð á að standa vaktina í Seðlabankanum. Hann á meðal annars að gæta að gjaldeyrisinnstreyminu - súrefni efnahagslífsins. Hefur Davíð verið að gera þetta?

Nei - eins og menn hafa bent á síðustu daga, þá hefur Seðlabankinn ekki hirt um að gera gjaldeyrisskiptasamninga eins og seðlabankar annarra Norðurlanda, hafa gert. Hann missti af þeirri lest, virðist vera, og hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni að styrkja gjaldeyrisvaraforðann nægjanlega. Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins skýtur föstum skotum á Davíð fyrir þetta í dag.

Hagfræðiprófessorinn Þorvaldur Gylfason er ómyrkur í máli í grein í sama blaði, þar sem hann segir Sjálfstæðisflokkinn vera eins og uppstoppaðan hund í bandi Seðalbankastjórans.

Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins vandar Davíð ekki kveðjurnar á bloggsíðu sinni:  „Það er við völd í landinu ríkisstjórn með mikinn meirihluta. Aftur á móti eru við völd menn í Seðlabankanum sem mótuðu þá efnahagsstjórn sem við búum við," segir Guðmundur réttilega.

Ljóst er að ráðherrum ríkisstjórnarinnar er lítið um þessar meiningar Davíðs gefið. Það var til dæmis auðheyrt á Össuri í hádegisútvarpinu að honum er ekki skemmt, ekkert frekar en menntamálaráðherra sem líka hefur tjáð sig um málið.

Og lái þeim hver sem vill: Nóg er nú samt að Davíð skuli hafa sest undir stýri með forsætisráðherrann í framsætinu hjá sér og fjármálaráðherrann í aftursætinu á sunnudagskvöldið. Sú ógleymanlega sjón er nokkuð sem spunameistararnir munu illa fá við ráðið í bráð.

Þannig, að það mátti reyna að skella fram hugmyndum um þjóðstjórn. Aldrei að vita nema kötturinn myndi gleyma sér við smjörklípuna.

En það mun ekki gerast að þessu sinni. Stjórn landsins er með styrkan meirihluta manna sem eru að gera það sem þeir geta til að halda þjóðarskútunni á floti - í samráði við formenn þingflokka eftir því sem efni eru til hverju sinni. Þeirra hlutverk er að stjórna landinu.

Davíð væri nær að standa vaktina sem Seðlabankastjóri - og halda vöku sinni betur en verið hefur.


mbl.is Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... þá voru flestir hvergi!

Nú þarf að bjarga heimilunum, og það strax - segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasmtakanna í grein sem hann skrifar á heimasíðu samtakanna. En mér kemur í hug vísan góða (og napra) eftir Friðrik Jónsson:

Heimsins brestur hjálparlið,
hugur skerst af ergi.
Þegar mest ég þurfti við
þá voru flestir hvergi.

Annars kann ég ekki glögg deili á höfundi vísunnar  - held þó að hann að þetta sé Friðrik Jónsson frá Halldórsstöðum í Reykjadal. Gaman væri að fá athugasemd frá einhverjum sem veit þetta.


mbl.is „Nú þarf að bjarga heimilunum og það strax“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr kreppunni í hundana - stutt björgunarhundaæfing

 Skutull5man Í kvöld skrapp ég á stutta björgunarhundaæfingu. Það var kærkomin hvíld frá öllu krepputalinu að fara bara í útigallann og arka með lambhúshettu á höfði og hund í bandi upp hlíð.

Það var fámennt en góðmennt á æfingunni - við vorum bara tvö, ég og Skúli félagi minn sem vorum mætt að þessu sinni. Hann með Patton sinn, ég með Skutul minn - báðir bráðefnilegir Border-Collie hundar. Heima sat Blíða mín eftir, helsærð yfir því að vera ekki tekin með. Frown Ýlfrið í henni fylgdi mér út að bíl þegar ég lagði af stað með þann stutta.

 Jæja, fyrst æfðum við Skutul. Skúli faldi sig á bak við stóran stein í hlíðinni. Skutull var svoTeymið sendur af stað, þvert á vindáttina. Hann hljóp sem fætur toguðu uppi í hlíðina og leitaði vel - datt fljótlega inn í lyktina og hljóp þá til Skúla þar sem hann gelti strax nokkrum sinnum og fékk leik að launum, þar til ég kom móð og másandi á eftir honum. Hann tók þrjú svona rennsli, og gekk mjög vel í öll skiptin - enda áhugasamur og óhræddur að hlaupa út frá mér til að leita. 

Patton Patton (hér sjáið þið hann) er kominn mun lengra en Skutull, enda löggiltur björgunarhundur með B-próf. CoolHann er yfirferðarmikill og leitar stór svæði. Ég faldi mig fyrir hann, og meiningin var að láta hann leita undan vindi nokkurn spöl til að reyna svolítið á hann, stýra honum svo í átt að lyktarsvæðinu og leyfa honum þá að finna mig.

En Patton lét ekki plata sig. Hann var ekki fyrr kominn út úr bílnum en hann þaut af stað og rakleitt til mín. Skipti engu þó að Skúli reyndi að kalla á hann til baka - Patton lét það sem vind um eyru þjóta, enda kominn í lykt. Hann vísaði á mig með glæsibrag - og var stoltur af frammistöðu sinni, enda ástæða til.

Í seinna leitarrennslinu tókst að láta hann leita svolitla stund áður en hann vísaði á mig. Það gerði hann með sama öryggi og fyrr. Mjög flott hjá honum.

Já, þetta gekk vel. Svolítil föl á jörðu og nokkur snjókorn í lofti, annars milt veður. Það var gott að draga að sér hreina loftið. Og þó ætlunin hefði verið að hugsa um eitthvað annað en fjármáladramað sem skekur samfélagið, þá tókum við auðvitað svolitla spjalltörn um málið. Nema hvað. Wink

Jamm ... Hér sjáið þið svo hina vösku Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Myndirnar voru teknar í fyrravetur og vor.

Skálavikuheidi08

BHSI-ISO


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband