Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
Viðsjárvert ástand
29.9.2007 | 11:28
Það er undarlegt að horfa á mann skotinn til bana með þessum hætti - verða vitni að fjörbrotum hans í orðsins fyllstu merkingu. Hann varð á vegi hermanns við róstusamar aðstæður - ljósmyndari að vinna sitt starf.
Ástandið í Búrma hefur farið stigversnandi að undanförnu, en á sér að sjálfsögðu áratuga aðdraganda þar sem lýðræðisöflin í landinu hafa miskunnarlaust verið lamin niður af herstjórninni sem m.a. hefur haldið leiðtoga lýðræðishreyfingarinnar Aung Sang Suu Kuy í stofufangelsi árum saman. Frá því í ágúst s.l. hafa friðsamleg mótmæli verið brotin á bak aftur æ ofan í æ, með vaxandi ofbeldi og mannfelli - en ætla má að ólgan í landinu muni leiða til stjórnarbreytinga um síðir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur - frammi fyrir alþjóðasamfélaginu - gagnrýnt ástandið í Búrma (Mjanmar), og lýst áhyggjum af þróun mála í þar. Það gerði hún í ræðu sinni í gær, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York.
Ýmsir óttast að alþjóðasamfélagið muni snúa sér undan atburðunum í Búrma að þessu sinni. Síðustu fréttir herma þó að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi sent fulltrúa til viðræðna við stjórnvöld þar. Um áhrif þess á atburðarásina verður litlu spáð að sinni - en við getum að minnsta kosti þakkað fyrir að rödd Íslands hefur látið til sín heyra.
Hafi utanríkisráðherra þökk fyrir það.
Mótmæli hefjast á ný í Myanmar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Íslenska fyrir Íslendinga
28.9.2007 | 10:20
Eiga Íslendingar rétt á því að töluð sé íslenska í verslunum og þjónustustofnunum á Íslandi? Um þetta ræddu þau Mörður Árnason og Sigríður Andersen í Kastljósinu í gær.
Var helst á Sigríði að skilja að auðvitað ættu menn engan rétt á neinu svona almennt og yfirleitt. Að minnsta kosti væri ekki sjálfsagt að þeir sem hingað flytja erlendis frá fengju íslenskukennslu á kostnað samfélagsins, enda væri það ekki til siðs í nágrannalöndum okkar.
Þetta er ekki allskostar rétt hjá Sigríði.
Nú veit ég ekki hvernig ástandið er í öllum nágrannalöndum okkar - en ég veit a.m.k. hvernig var fyrir mig og fjölskylduna að flytja til Danmerkur árið 1996. Þar gafst börnunum mínum kostur á sérkennslu í dönsku um leið og skóli hófst um haustið. Þau voru höfð í sérkennslu 6 klst á dag, eða þar til þau voru fær um að setjast í almennan bekk, nokkrum vikum síðar, þá flugmælt á dönsku öllsömul.
Sjálf var ég í doktorsnámi við Kaupmannahafnarháskóla. Um leið og ég skráðist inn í skólann var mér gefinn kostur á þriggja vikna dönskunámskeiði - 8 klst á dag, takk fyrir! Þetta þáði ég - borgaði aldrei krónu - en kom altalandi á götuna eftir þessa meðhöndlun.
Þessar móttökur voru til fyrirmyndar - og af þeim mættu Íslendingar læra, því það er af og frá að hér á landi sé nægilega vel staðið að íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Það þekki ég vel, hafandi verið skólameistari úti á landi og sett þar upp sérstaka nýbúanámsbraut til þess að bæta úr brýnum skorti á menntunarúrræðum fyrir nýja Íslendinga á landsbyggðinni.
Auðvitað eiga Íslendingar rétt á því að töluð sé íslenska í verslunum og þjónustustofnunum. Að sjálfsögðu. Og það á að vera okkur metnaðarmál að búa þannig um hnútana að aðlögun innflytjenda gangi fljótt og vel. Það er engin goðgá að samfélagið sjái um þá hlið málsins - það er jú í samfélagslega þágu að brúa bilið milli innflytjandans og viðtökulandsins sem fyrst.
Atvinnurekendur með metnað eiga síðan að bæta um betur gagnvart því starfsfólki sem kemur erlendis frá - hvort sem um er að ræða störf í byggingarvöruverslun, pípulagningafyrirtæki, ræstingaþjónustu eða á sjúkrahúsi.
Umræðan um tvítyngda stjórnsýslu er angi af þessu. Auðvitað á stjórnsýslan að vera í stakk búin til þess að veita upplýsingar á ensku, þýða eyðublöð og þessháttar. En í öllum bænum, förum ekki að missa okkur í það að íslenska stjórnkerfinu beri skylda til þess að tala önnur tungumál en þjóðtunguna. Á sama hátt er ég lítt hrifin af þeim tiltektum háskólanna að kenna viðskipta- og stjórnunarfræði sín á ensku, eins og nú hefur tíðkast í nokkur ár.
Fyrir tíu árum sat ég tíma í stjórnunarfræðum í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, þar sem kennt var eftir þessari stefnu - þ.e. á ensku. Ekki veit ég hverjum var verið að þjóna. Að minnsta kosti rann mér til rifja að hlusta á misvel mælta kennara reyna að koma námsefninu til skila á öðru tungumáli en sínu eigin - í áheyrn tveggja útlendinga og um 40 Íslendinga sem sátu þessa tíma. Þetta var bara vandræðalegt - hreint út sagt.
Ísland er lítið málsvæði - okkur ber að vernda tungumál okkar og viðhalda því, svo fagurt og sérstætt sem það er. Eitt er að kenna önnur tungumál svo fólk geti lesið erlendar námsbækur og tjáð sig við annarra þjóða fólk. Annað að innleiða framandi tungumál til þjónkunar við aðra en okkur sjálf. Það er eins og að lána Fríkirkjuna sem leikmynd fyrir guðlausa hjónavígslu, líkt og gerðist nýlega.
Stundum verðum við að draga mörk, bæði fyrir sjálf okkur sem aðra. Óttinn við þjóðrembu - eða trúarkreddustimpilinn má ekki verða svo mikill að við týnum sjálfum okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Fyrirsátin í Columbiaháskóla
26.9.2007 | 11:25
Enginn er ég aðdáandi íranskra stjórnvalda - en móttökurnar sem Mahmud Ahmadinejad Íransforseti fékk í Columbiaháskóla í New York í fyrradag vekja undrun mína, jafnvel hneykslun.
Ég horfði á myndband af fundinum á netinu, og verð að segja að formáli Lee Bollingers, rektors Columbiaháskóla að ræðu Ahmadinejads, gekk fram af mér. Hann sagði eitthvað á þá leið að þessum fundi væri ekki ætlað að virða rétt Íransforseta til að tjá sjónarmið sín heldur rétt bandarískra þegna til þess að skilja og skoða hið illa í návígi. Loks klykkti hann út með því að ávarpa gestinn sem lítilmótlegan og grimman harðstjóra.
Já, illt er að eiga móttökur undir slíkum gestgjafa sem Lee Bollingers, rektors Columbiaháskóla. Og mig skal ekki undra þó að bandamenn Írans hafi lýst því yfir að þetta boð til Íransforseta um að sitja fundinn í Columbia hafi verið "fyrirsát". Áheyrendur klöppuðu rektornum lof í lófa, því meir sem hann hæddist að gesti sínum því ákafari urðu fagnaðarlætin. Það var raunalegt að horfa á þetta - og ekki beint akademískt.
Ég get ekki annað en tekið undir með ábendingu rektora sjö franskra háskóla sem sendu Bollinger bréf í gær með tíu spurningum. Ein þeirra laut að stuðningi bandarískra stjórnvalda við Saddam Hussein (þann blóðþyrsta harðstjóra sem hann síðar var sagður) í stríði Íraka gegn Írönum á árunum 1980-1988.
Sömuleiðis er það tvískinnungur og óþarfa fjandskapur af bandarískum stjórnvöldum að meina manninum að heimsækja vettvanginn þar sem tvítyrnið hrundi 11. september 2001. Það er einhver áróðurslykt af því að leyfa honum ekki að votta virðingu þeim sem þar létu lífið.
Satt að segja fær maður þá óþægilegu tilfinningu að nú sé verið að búa til nýjan andstæðing - Saddam Hussein allur - og því þá ekki að snúa sér að Íran? Þar finnst líka olía.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Batnandi mönnum er best að lifa
24.9.2007 | 17:52
Það er undarlegt til þess að hugsa, að ungi, fallegi maðurinn sem ég var að hlusta á í hádeginu í dag skuli hafa svo mörg mannslíf á samviskunni að hann hefur ekki sjálfur á þeim tölu. Að Ishmael Beah, þessi geðþekki, skynsami og ritfæri, ungi maður, skuli hafa líflátið fólk með æðarnar fullar af eiturlyfjum, andlega aðframkominn og gjörsneyddur mannlegum tilfinningum - eins og hann lýsir því sjálfur. Herdrengurinn, einn af mörgþúsund börnum sem lent hafa í sömu sporum, þ.e. að vera tekin, heilaþvegin og þjálfuð með aðstoð eiturlyfja til ómennsku og athafna sem kennd eru við hermennsku.
Það var í senn átakanlegt og gleðiefni að hafa þennan dreng fyrir augunum. Hlusta á hann tala af yfirvegun og skynsemi um þessa ótrúlegu reynslu.
Ishmael er sjálfur lifandi dæmi þess að öllum er viðbjargandi. Jafnvel barn sem virðist hafa verið gjörsneytt sakleysi sínu og mennsku í brjálæði stríðsathafna á sér viðreisnar von - því einhvers staðar undir niðri leynist löngun til mannlegs lífs, mannlegrar reisnar, samviska - kærleikur. Og það var svo sannarlega kærleikur sem bjargaði þessu barni - öðruvísi hefði það glatast heiminum fyrir fullt og allt.
Ishmael Beah er einn af þeim fjölmörgu börnum sem á Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna líf að launa. Samtökin UNICEF hafa unnið ómetanlegt starf fyrir heimsbyggðina, eins og sannast ekki síst á þessum dreng sem gegn vilja sínum var tekinn úr herbúðunum og komið í fóstur og kostaður til mennta - hreinsaður af eiturlyfjum og studdur til nýs lífs. Leiddur til lífsins, í orðsins fyllstu merkingu.
Hann er gleðilegur vitnisburður um það að "batnandi mönnum er best að lifa".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Símainnbrot - óskemmtileg reynsla
21.9.2007 | 22:36
Það virðist vera sem gsm-númerið mitt sé ekki lengur mitt einkanúmer. Í það minnsta hefur óprúttnum aðila tekist að brjótast inn í símann minn - svo undarlega sem það kann að hljóma - og senda úr honum ósmekkleg SMS skilaboð til allra nemenda Menntaskólans á Ísafirði, hvorki meira né minna. Í mínu nafni, á mínu númeri!
Það var heldur óskemmtilegt þegar símhringingarnar byrjuðu fyrr í dag. Undrandi foreldrar og nemendur skólans hringdu í mig linnulaust, ýmist til þess að láta mig vita og vara mig við því hvað væri á seyði - eða til þess að fá staðfest að sendingin væri ekki frá mér. Ég var einfaldlega úti í móa - í orðsins fyllstu merkingu - stödd á björgunarsveitaræfingu skammt austur af Selfossi, með hund í bandi og gjallandi talstöð í brjóstvasanum. Vissi hreint ekki hvaðan á mig stóð veðrið.
Það er óþægileg tilfinning að láta brjótast inn hjá sér með þessum hætti. Að vita til þess að einhver hefur rofið friðhelgina - einkarýmið sem hver og einn vill hafa - til dæmis með því að nota símanúmerið manns, til að gera nánast hvað sem er. Ég meina HVAÐ SEM ER.
Sá sem þetta gerði er ekki bara að nota númerið mitt. Hann er líka líka að falsa gögn með því að senda út eigin hugaróra í annars nafni. Það út af fyrir sig - þegar um er að ræða ósmekkleg skilaboð - er líka aðför að æru manns. Brotið er nefnilega margþætt.
Óneitanlega vekur þessi uppákoma líka spurningar um ábyrgð símans. Ég kaupi númerið af símanum, og ætlast til þess að ég sé eini notandi þess; að síminn verji mig fyrir innbrotum af þessu tagi.
Raunar frétti ég hjá kunningja mínum í dag að einhver brögð hafi verið að því að undanförnu að fölsuð SMS skeyti hafi verið í umferð. Sjálf hef ég ekki næga tækniþekkingu til þess að vita hvernig það má vera - en þá er líka ljóst að fólk getur ekki lengur treyst SMS skeytum sem það fær.
En til þess að gera langa sögu stutta, þá er málið komið í hendur lögreglunnar - og mér skilst að rannsókn miði vel.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Regnmildur dagur ...
20.9.2007 | 08:45
rengmildur logndagur runninn upp. Framundan er akstur um vestfirska vegi með félögum úr björgunarhundasveitinni. Björgunarhundanámskeið á Suðurlandi um helgina. Svo er meiningin að eyða viku í höfuðborginni, m.a. til að hitta nemendur mína í Háskóla Íslands og vera með þeim í vettvangsheimsóknum. Það er MA-námskeiðið "Menning og fræði í útvarpi" sem krefst nærveru minnar - en það er að öðru leyti kennt í fjarnámi, þ.e. ég kenni í gegnum fjarfundabúnað héðan frá Ísafirði, nemendur sitja á fjarfundi í Reykjavík. Við ætlum að heimsækja safnadeild Ríkisútvarpsins á miðvikudag, en á laugardag í næstu viku mun Leifur Hauksson taka á móti mannskapnum og leiða um völundarhús útvarpstækninnar eins og honum einum er lagið. Fyrir utan þetta hlakka ég til að hitta "stóru" börnin mín - Sögu og Pétur - á Framnesveginum og vera með þeim í nokkra daga - enda veit ég að það væsir ekkert um bóndann og "litla" barnið vestur á Ísafirði á meðan. Þeir munu sjálfsagt láta fara vel um sig feðgarnir. Svo ætla ég auðvitað að reyna að hitta Dodda minn, Erlu Rún og Daða Hrafn ömmustrák. En semsagt, ég býst ekki við að ég bloggi mikið fyrr en eftir helgina - "sjáumst" þá vonandi hress og kát. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
... og "negri sást í Þistilfirði"
18.9.2007 | 16:57
Athyglisverð fyrirsögn hjá mogganum: "Náttúrufræðingur fær fálkaorðuna". Ætli það hafi sumsé aldrei gerst áður? Vantar bara formálann: "Sá fágæti viðburður hefur nú átt sér stað að ...."
Hmmm. Minnir mig á fyrirsögn sem eitt sinn birtist í íslensku dagblaði svohljóðandi "Negri sást í Þistilfirði" - átti raunar að vera "hegri" en stafir víxluðust og útkoman varð þessi .
Jack Ives er raunar vel þekktur fyrir rannsóknir sínar hér á Íslandi - mogganum hefði verið alveg óhætt að setja nafnið hans í fyrirsögn.
Náttúrufræðingur fær fálkaorðuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
"Grunnhyggni og gusugangur" kvenna?
16.9.2007 | 22:59
Auðvitað er það grunnhyggni og gusugangur í þeim stöllum /..../ að greiða atkvæði gegn þessari tillögu" segir yfirlæknir á Ísafirði í nýlegri grein á bb.is sem hann nefnir "Þeir gusa mest sem grynnst vaða" . Þessi ágæti yfirlæknir á það til að blanda sér í opinbera umræðu þegar mikið liggur við - og þá jafnan ef honum finnst halla á Sjálfstæðisflokkinn. Er ekki nema gott um það að segja þegar menn taka til máls um það sem heitast brennur hverju sinni - en kvenfyrirlitningin sem birtist í þessum ummælum er þessleg að manni fellur eiginlega allur ketill í eld.
Maður hefði haldið að á því herrans ári 2007 myndi ofangreind afstaða til kvenna heyra sögunni til í opinberri umræðu. En því er víst ekki að heilsa. Það finnast enn karlmenn - í góðum starfi, á besta aldri - sem niðurlægja konur með niðrandi ummælum um vitsmuni þeirra og skapferli, hvort sem það er nú viljandi gert eða ekki. Hvers vegna? Því get ég ekki svarað, en víst er að umræddar konur eru annarrar skoðunar en yfirlæknirinn í byggðamálum. Skal engan undra, þær eru í öðrum stjórnmálaflokki, auk þess að vera KONUR (og það bara fjandi klárar og skeleggar konur, svo ég segi nú eins og er).
Lesendur góðir - sjáið þið fyrir ykkur að karlmaður í góðri stöðu á góðum aldri myndi skrifa um "grunnyggni og gusugang" annars karlmanns á svipuðu reki og róli í lífinu Nei, það er augljóslega enn verk að vinna í kvennabaráttunni, þó að mannsaldrar hafi liðið á þeirri vegferð, og komið sé fram á 21 öld.
Verk að vinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Of léttar spurningar?
14.9.2007 | 21:40
Jæja, var að horfa á ÚTSVAR, nýja spurningaþáttinn á RÚV. Mér fannst þetta skemmtilegur þáttur og fjarri því að spurningarnar væru "allt of léttar" eins og þáttastjórnendur sögðu oftar en einu sinni (full oft fannst mér).
Þetta voru ekkert "allt of léttar" spurningar. Hins vegar voru svarendur býsna vel að sér, og gaman að fylgjast með því hve jafnt var á með liðunum.
Ef þessi þáttur á að höfða til almennra sjónvarpsáhorfenda, þá eru þessar spurningar við hæfi. Þokkalega vel upplýstir sjónvarpsáhorfendur þurfa að hugsa sig um - vita margt, en alls ekki allt. Fjölskyldur og vinahópar geta samsamað sig liðunum. Þau eru þannig samsett að það er líklegt að hópurinn sem situr í stofunni viti í sameiningu álíka mikið og hvert keppnislið. Það er einmitt það sem gerir þætti sem þessa skemmtilega - og þess vegna er Gettu betur keppni framhaldsskólanna farin að fjarlægjast almenna áhorfendur. Því miður.
En hehumm-öööö - ég fylgdist að sjálfsögðu með af athygli þar sem ég er ein þeirra sem á að þreyta kapps í þessum þætti innan tíðar. Vill til að ég hef með mér góða liðsmenn, Ragnhildi Sverrisdóttur blaðamann og Halldór Smárason framhaldsskólanema og Gettu-betur áhugamann með meiru.
Ef spurningarnar verða í sama dúr og í þættinum í kvöld, má segja að heppni ráði nokkru um það hvernig fer eftir fyrstu umferð. Úr því sem komið er held ég að áherslur þáttarins þurfi að halda sér út fyrstu umferð - svo má þyngja róðurinn í þeirri næstu. Það er mín skoðun
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Ástin læknar allt
14.9.2007 | 11:37
Þetta er hugljúfasta saga sem ég hef lesið lengi - og sætasta mynd sem ég hef séð.
Vesalings litli apaunginn, aðeins 12 vikna gamall, missti móður sína og var að veslast upp úti í náttúrunni þegar honum var bjargað og komið fyrir á dýraspítala í Goangdong héraði í Kína. Hann var svo aðframkominn af ástleysi að hann sýndi ekki batamerki og var að dauða kominn.
Þá birtist hvíta dúfan - sem líka var sjúklingur á dýraspítalanum - og varð honum til huggunar. Nú eru þau óaðskiljanleg, og sá litli tekinn að braggast.
Þetta gæti verið barnasagan í ár. Frásögnin í heild sinni er HÉR
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)