Klisjan um kvendyggðina
12.9.2009 | 11:39
Í Sigurdrífumálum Eddukvæða er sagt frá því þegar Sigurður Fáfnisbani reið á Hindarfjall og vakti upp af dásvefni valkyrjuna Sigurdrífu, sem lá þar í skjaldborg sinni, umlukin vafurloga. Hún hafði hjálm á höfði, íklædd brynju sem var svo rammgerð að Fáfnisbaninn þurfti að rista hana af með sverði sínu. Við það brá hún sínum langa svefni, reis upp af beði og heilsaði degi:
Heilir æsir.
Heilar ásynjur.
Heil sjá hin fjölnýta fold.
Mál og manvit
gefið okkur mærum tveim
og læknishendur meðan lifum.
Síðan setjast þau tvö, valkyrjan og hetjan. Hún kennir honum rúnir þær sem ráða þarf til sigurs, lækninga, lífsnautna og gæsku. Að lokum biður hann hana um holl ráð sem hún leggur honum í lokaþætti kvæðisins og ráðleggur honum þar að sýna baráttuhug og þegja ekki við mótgerðum.
Sjálf er Sigurdrífa brynjuð herklæðum, varin inni í skjaldborg, umlukin vafurloga. Þær eru því margar hindranirnar sem Fáfnisbaninn þarf að yfirstíga til þess að eiga samneyti við valkyrjuna. Maður hefði haldið að fyrir innan allar þessar varnir myndi hann kannski komast í tæri við hin helgu vé kvenleikans - eitthvað viðkvæmt og mjúkt, huggandi, vaggandi og blítt - það hefði a.m.k. verið í anda klisjunnar um kvenleikann. En hvað finnur Sigurður? Stolta bardagahvöt, hugmóð og vitræn rök.
Það er athyglisvert að sjá þarna, í fornu kvæði, hermannlega hugmyndafræði flutta fram af konu sem leggur hetjunni lífsreglurnar. Hún varar hann beinlínis við þeim konum sem "sitja brautu nær" og "deyfa sverð og sefa." Hetjan á að berjast - hún á ekki að láta bifast af úrtölum og gráti kvenna. Um leið biður hún guðina um "mál og manvit" handa þeim tveim sem þarna sitja "og læknishendur meðan lifum".
Hver er eiginlega Sigurdrífa? Fyrir hvað stendur hún og hver væri hennar samnefnari í samtímanum?
Sigurdrífa er í senn hermaðurinn og læknirinn, stjórnmálaskörungurinn, stjórnandinn, hugsjónakonan. Henni hugnast illa ákveðnir þættir í fari kvenna, sjálf er hún þó samnefnari fyrir allt sem kvenlegt getur talist í fornum sið. Hún býr yfir þekkingu völvunnar og kynngi valkyrjunnar sem hún helgar lífi og lækningu. Hún er líka kennari, sérfræðingur, ráðgjafi.
Sigurdrífa kemur oft upp í huga minn þegar ég þarf að hlusta á margtuggnar klisjur um konur, eðli þeirra og einkenni. Ætli Sigurdrífa hefði komið sér vel á kvennavinnustað? Hvernig hefði hún rekist í stjórnmálaflokki eða í samstarfi við aðrar konur?
Klisjurnar um kveneðlið er víðar að finna en í hugmyndafræði og orðræðu karla. Þær eru oft rauður þráður í gegnum orðræðu kvenna, ekki síst þeirra sem kenna sig við kvennabaráttu og kvenréttindi. "Konur eiga að standa saman" heyrist oft sagt, "konur með konum" og annað í þeim dúr. Sjálf er ég marg sek um klisjur af þessu tagi. En það er að renna upp fyrir mér að slíkar tilætlanir eru hreint ekkert skárri heldur en tuggurnar um að "konur séu konum verstar" og að "köld séu kvennaráð".
Ein er sú klisja sem tröllriðið hefur kynjaumræðunni undanfarin ár, og það er klisjan um hina "kvenlegu stjórnunarhætti" -- en það hugtak ber að skilja sem "góða stjórnunarhætti". Í hugtakinu felst krafa um valddreifingu, en ekki endilega um dreifingu ábyrgðar, því stjórnandinn verður jú alltaf að standa klár á ábyrgð sinni og þar með mistökum annarra starfsmanna. Krafan felur það eiginlega í sér að kvenstjórnandi sé vinkona, ráðgjafi, móðir og þjónn, allt í senn og með þessum meðulum er ætlast til þess að hún ái árangri.
Sjálf hef ég aldrei verið aðnjótandi nokkurs sem kalla mætti kvenlega stjórnunarhætti, og hef ég þó oft unnið með og undir forystu kvenna. Ég hef bara kynnst góðum eða lélegum stjórnendum á mínum ferli.
En hví skyldi það eiga að vera dyggð að vera kona? Hvers vegna erum við konur svona kröfuharðar við sjálfar okkur, og hver við aðra að ætlast til þess að við séum alltaf í einhverju alltumlykjandi móður- og systurhlutverki gagnvart öllu og öllum, sérstaklega öðrum konum? Ekki voru þær það fornkonurnar, gyðjurnar, völvurnar, læknarnir og húsfreyjurnar sem við lesum um í fornbókmenntum. Þær sögðu fyrir um veðurfar og forlög, höfðu búsforráð á bæjum, hvöttu eiginmenn, bræður og syni til dáða og læknuðu svo mein þeirra að orrustu lokinni. Það var ekki þeirra hlutverk að "deyfa sverð og sefa" hvorki í vörn né sókn - eða koma sér vel við aðrar konur. Nei, þær áttu ekki að koma sér vel, heldur reynast vel.
Kvenpersónur fornsagnanna voru til á eigin forsendum "máls og manvits", eins og Sigurdrífa er hún heilsaði degi og goðheimi öllum á Hindarfjallinu forðum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Heimspeki, Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:00 | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru svo sannarlega orð í tíma töluð, og þótt fyrr hefði verið.Á þjóðlegum nótum.Vonandi kemur þú þessum skoðunum þínum til skila í íslenskum stjórnmálum og á Alþingi.Þær eru svo sannarlega í anda Hallgerðar Langbrókar, Ólafar ríku, Þuríðar Sundafyllir Auðar Djúpúðgu og margra fleiri. Þú hefur allta,f verið óhrædd við að fara þær slóðir sem þú hefur talið bestar.Ég er ekki sammála þeim öllum og tel að sumar þeirra séu ekki góðar fyrir umbjóðendur þína, en ég virði þær að sjálfsögðu.
Sigurgeir Jónsson, 12.9.2009 kl. 12:24
„"Konur eiga að standa saman" heyrist oft sagt, "konur með konum" og annað í þeim dúr. Sjálf er ég marg sek um klisjur af þessu tagi. En það er að renna upp fyrir mér að slíkar tilætlanir eru hreint ekkert skárri heldur en tuggurnar um að "konur séu konum verstar" og að "köld séu kvennaráð".“
Flott grein hjá þér Ólína. Sama hvort við ræðum um stjórnendur, alþingismenn (konur eru líka menn, munum það), eða „bara“ húsmæður og aðrar mæður, systur frænkur og dætur, þá á aldrei að dæma gott eða slæmt á grundvelli kynferðis. Þetta tvennt er bara algjörlega óháð. Við sjáum oft góða stjórnendur sem eru karlkyns. Líka slæma. Nákvæmlega það sama á við um konurnar. Þær eru heldur ekki allar hæfar þótt margar séu það. Amen.
Magnús Óskar Ingvarsson, 12.9.2009 kl. 13:25
Fyrst ber nú að þakka þér ágæta hugleiðingu Ólína.
þrennt kemur upp í hugann við fyrsta lestur.
1. Má ekki segja að líksamningur þeirra gilda sem einkennir boðun Sigurdrífu sé að finna í persónu Hallgerðar Langbrókar? Og allir vita hvernig þeim reiddi af sem hennar ráðum og stundum vélum, fylgdu.
2. Er það tilviljun að eina fjárfestingafélagið sem ekki fór illa út úr hruninu var Auður Capital sem hefur þetta að segja um markmið sín; "Við höfum hagnað að leiðarljósi, en okkur er ekki sama hvernig við högnumst. Við höfnum því viðhorfi að velja þurfi á milli fjárhagslegs arðs og samfélagslegs arðs, við teljum mikilvægt að velja bæði."
3. Þá er þessi pistill merkilegur í ljósi þeirra umræða sem átt hafa sér stað í tengslum við ákvörðun kyngerðar og kynvitundar, mest í sambandi við íþróttafólk upp á síðkastið. - Hvorum megin, ef um "megin" er yfirleitt að ræða, falla umrædd gildi í því sambandi?
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.9.2009 kl. 14:09
Þakka þér fyrir góða grein og vangaveltur. Þarna setur þú hlutina í skemmtilegt samhengi og tengir frábærlega saman nútíma og fornaldir, raunveruleika og skáldskap. Oft virðist myndin skerpast þegar stækkunarglerinu er beint á þennan hátt og það tókst þér frábærlega upp með að þessu sinni. Lykilorðið er jafnrétti og það hefur stundum gleymst.
Helgi Kr. Sigmundsson, 12.9.2009 kl. 14:39
Takk fyrir athugasemdir ykkar.
Ég tek undir það með Svani að Sigurdrífa og Hallgerður standa ekki fyrir sömu gildin, að því undanskildu að báðar eru sjálfstæðar og stoltar konur. Önnur biður um "læknishendur meðan lifum" á meðan hin neitar um hárleppinn og kveður þar með upp dauðadóm yfir þeim sem hún þó unni mest. "Þeim var ég verst er ég unni mest" sagði líka önnur kona.
Konur fornsagnanna eru ekki einsleitar verur - ekkert frekar en konurnar í nútímanum.
Varðandi fjármálastefnu Auðar Capital, þá held ég að það fjármálafyrirtæki hafi staðið sig vegna stefnu sinnar - og vera kann að sú stefna sé á einhvern hátt "kvenlegri" en stefna annarra fjármálafyrirtækja. Ég myndi þó einfaldlega segja að sú stefna hefði verið betri því hún var manneskjulegri. Svo getum við velt því fram og til baka hvort það hefur með kynferði stjórnendanna að gera.
En kynferðið er ekkert garantí fyrir ákveðnum stjórnunaraðferðum. Það er nú það sem ég vildi sagt hafa.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.9.2009 kl. 14:53
Ég leyfi mér nú að efast um ást Hallgerðar á Gunnari bónda sínum.
Árni Gunnarsson, 12.9.2009 kl. 22:53
skemmtilegur pistill - takk fyrir
halkatla, 13.9.2009 kl. 10:21
Sæl Ólína. Skemmtilegur og afar fróðlegur pistill hjá þér. Ég er hjartanlega sammála þér með þessar klisjur og það að setja konur í ákveðna umgjörð sem þær eru svo dæmdar útfrá. Auðvitað eru konur misjafnar eins og karlar. Ég sé ekki hvernig kynvitundin eða hneigðin kemur inn í þetta því hún leggst nú í báðar áttir ekki satt. Stefna Auðar Capital er bara minni áhætta en í öðrum fjárfestingarsjóðum og það er alltaf valmöguleiki allsstaðar. Mesti capitalisti sem ég hef heyrt í stjórnaði þar síðast þegar ég vissi. Af hverju skyldi Hallgerður elska bónda sinn Árni? Hefur það ekki komið fram að hann gagnaðist henni illa og lítilsvirti. Gat hann ekki reddað sér með hárlufsu af Njáli eða sonum hans sem hann unni svo mjög, karluglan. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 13.9.2009 kl. 11:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.