Hver er þá staða Icesave málsins?
2.9.2009 | 13:50
Hver er þá staðan í Icesave málinu eftir að Alþingi samþykkti ríkisábyrgðina með fyrirvörum? Staðan er sú að samningur sá sem undirritaður var í vor, er óbreyttur, og verður það nema Bretar og Hollendingar sætti sig ekki við fyrirvarana sem settir hafa verið.
Það sem hefur gerst í meðförum þingsins er hins vegar þetta:
Alþingi hefur samþykkt ríkisábyrgðina á Icesave samningnum með skilyrðum. Þingið hefur með öðrum orðum kveðið upp úr um það hvaða skilning beri að leggja í ríkisábyrgðina á grundvelli samningsins. Skilningur og þar með skilmálar þingsins eru m.a. þessir:
- Að greiðslur vegna samningsins fari ekki fram úr greiðsluþoli þjóðarinnar og haldist í hendur við landsframleiðslu. Þannig verði tekið tillit til erfiðra og fordæmalausra aðstæðna eftir bankahrunið á Íslandi
- Að ekki verið gengið að náttúruauðlindum Íslendinga.
- Að Íslendingar geti látið reyna á málstað sinn fyrir dómtólum.
- Að ríkisábyrgðin falli niður 2024.
- Að Alþingi geti ákveðið hvenær sem er að fram fari endurskoðun á lánasamningunum við Breta og Hollendinga. Alþingi hefur eftirlit með framkvæmdinni og fjármálaráðherra ber að veita þinginu árlegt yfirlit um hana.
Þetta eru veigamiklir fyrirvarar sem settir eru af þingsins hálfu fyrir ríkisábyrgðinni. Þeir eru til mikilla bóta þar sem þeir eru í reynd lagalegt, efnahagslegt og pólitískt öryggisnet fyrir okkur. Auk þeirrar verndar sem fyrirvararnir veita, telur lánshæfismatsfyrirtækið Moodys að þeir muni styðja við sjálfbærni ríkisfjármála hér á landi og jafnvel hafa jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þá er ekki talið ólíklegt að fleiri ríki muni fylgja fordæmi Íslendinga og setja þak á skuldagreiðslur, eins og bent hefur verið á.
Minn skilningur er sá að fyrirvararnir við ríkisábyrgðinni breyti ekki samningnum sjálfum og feli því heldur ekki í sér gagntilboð til Breta og Hollendinga. Um þetta geta menn þó deilt, og úr því fæst ekki skorið fyrr en í ljós kemur hvort Bretar og Hollendingar sætta sig við fyrirvarana.
Það hlýtur að ráðast á allra næstu dögum.
Annað sem hefur gerst í meðförum þingsins á þessu máli er ekki minna um vert. Það er aukið sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það sjálfstæði birtist ekki hvað síst í efnistökum þessa veigamikla máls í nefndum þingsins. Sú breiða samstaða sem náðist um fyrirvarana í fjárlaganefnd er m.a. til vitnis um þetta. Má segja að þar hafi sannast máltækið "fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott" - því þrátt fyrir allt hefur þetta erfiða og fordæmalausa mál leitt til betri vinnubragða á Alþingi Íslendinga.
En nú spyrjum við að leikslokum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:37 | Facebook
Athugasemdir
Það var mjög gott að fá þessa fyrirvara. Ég heyrði að Stefán Már Stefánsson hefði talað fyrir þessari leið. Svo hefur maður heyrt að það sé ekki öruggt að fyrirvararnir haldi fyrir breskum dómstólum, þó þeir séu skotheldir hérlendis. Hvernig var það mál kannað?
Sigurður Þórðarson, 2.9.2009 kl. 14:06
Þetta var allt saman kannað í samráði við lögfræðingaherdeildir stjórnsýslunnar. En í þessu sem öðru er ekkert öruggt, svo við verðum bara að bíða og sjá.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.9.2009 kl. 14:35
Nú tæpri viku tala máttar(stjórn)völd í Bretaveldi og Hollandi varlega.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 18:03
Sæl Ólína. Mig langar vita hvort hægt sé að lesa Iceslave samninginn einhverstaðar á veraldarvefnum.
Kv. Sigurvin Guðmundsson
Sigurvin Guðmundsson, 2.9.2009 kl. 18:10
Bretar og Hollendingar, hafa ekki enn gefið sitt svar.
Persónulega, er ég sammála því, að fyrirvararnir séu gagntilboð til Hollendinga og Breta.
Ef ég á að þora að spá, þá er mín sú spá eftirfarandi:
Hollendingar og Bretar, muni ekki samþykkja fyrirvara Alþingis, en að þeir muni ekki heldur lísa lánið gjaldfallið eða samninginn ónýtan.
Þess í stað, muni þeir bjóða Íslendingum til að senda nýja samninganefnd, til að semja um fyrirvarana.
Ég held nefnilega, að þeir séu vel með á nótunum með, að skuldastaða Íslands, sé erfiðari, en ljóst var þegar samninganefndin undirritaði samninginn, fyrr í ár.
Samningar, muni sennilega snúast um, að ná samstöðu um akkúrat hver skulda-staða og þar með, greiðslu-geta Íslands sé. Út frá því, er hægt að reikna út, hvað Ísland getur tekið á sig af viðbótarbyrðum í formi Icesave samingins.
Ég hef alltaf haldið fram, að það sé Bretum og Hollendingum í hag, að bjóða upp á nýja saminga,,,fremur en að, eins og hefur verið haldið fram, að setja allt í frost.
En, að sjálfsögðu þurfum við að sýna ákveðinn samingsvilja, til að sá sveigjanleiki þeirra komi fram.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 2.9.2009 kl. 18:51
Sigurvin:
Icesave samingurinn -
Samingurinn við: Holland
Samningurinn við: Bretland
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 2.9.2009 kl. 18:53
Hefur ekki alltaf legið alveg ljóst fyrir að þetta ICESAVEsamningsmál er póitíkst milliríkjamál ?
Það var grunnlagt þegar efnahagskerfi heimsins virtist vera að hrynja. Neyðarmál.
Auðvitað hefur einnig legið ljóst fyrir að við Íslendingar verðum að gangast við ábyrgð. Alþjóðasemfélagið krefst þess. Við höfum orðið þess mjög vör. Allt er fast í okkar utanríkisfjármálum - þar til viðurkenning liggur fyriri - með þessum ICESAVE samningi.
Nú þegar er rykið sem þyrlaðist upp í haust tekið að falla- viðhorfin eru að breytast - okkur í vil.
Klárlega greiðum við lítið af þessum heildarreikningi. Tíminn vinnur með okkur.
En gaman hefur verið að fylgjast með heimaöldu lögspekingunum og hagtæknunum belgja sig út vegna málsins- á heimavelli.
Væntanlega verður framsetning þjóðarinnar við samningin samþykkt af Bretum og Hollendingum- aðalatriðið er að við höfum gengist við ábyrgð...
Þetta finnst mér.
Sævar Helgason, 2.9.2009 kl. 19:24
Aðrar þjóðir virða það að gengist sé við ábyrgð. Í þessum löndum býr aldeilis ágætt fólk sem skilur stöðuna.
En að þverskallast við ábyrgð er síðasta sort ef réttlæti á að hafa eitthvað að segja. Ég ber ekki mikla virðingu fyrir fólki sem ekki vill taka ábyrgð.
Þannig er annað fólk líka í þessum löndum. Sumir hérlendis vilja bara ekki viðurkenna stöðuna og horfast í augu við raunveruleikann.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 2.9.2009 kl. 19:37
Mér lýst ágætlega á þetta allt saman og er nú þegar byrjaður að krefja bankann minn um svipuð kjör og skilmálarnir gera ráð fyrir.
Eftir að hafa heyrt ca 25 sinnum ræðu xD um að nú væri um alveg nýjan samning að ræða, sem ætti ekkert skylt við samninginn sem Svavar gerði, hélt ég að það væri formáli þeirra að því að axla snefil ábyrgðar og samþykkja málið. Ekki síst með vísun til þess að mér heyrðist á ÖLLUM að xD hefði unnið samviskusamlega að gerð þessara skilmála. Mér heyrðist xD í raun vera að halda því fram að þetta væri þeirra eiginn samningur.
Og svo sátu þeir hjá.
Getur þú Ólína, eða einhver annar, gefið mér innsýn í þetta mjög svo framandlega hugsanamynstur?
Guðl. Gauti Jónsson, 2.9.2009 kl. 20:48
Þetta er bara gamla góða ákvarðanafælnin - sú hin sama og kom okkur á kaldan klakann. Aumingjaskapur var þetta kallað á íslensku hér áður og fyrr (meðan orð höfðu merkingu).
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.9.2009 kl. 21:14
Einhver Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður gerðu alvarlegar athugasemdir við þennan samning. Þér fannst ekki mikið til koma hér á blogginu, enda miklu betur að þér í lögum en Ragnar. Hvernig stóð á því að tekið var tillit til athugasemda Ragnars við fyrirvarana og það sérstaklega tekið fram bæði af meirihluta og minnihluta?
Tókst þér ekki að sannfæra þingið með lagalegum rökum þínum? Léstu bóka mótmæli þín við þessum atriðum sem Ragnar kom inn í fyrirvarana?
Sigurður Þorsteinsson, 2.9.2009 kl. 23:16
Sigurður - það voru málsmetandi lögfræðingar sem voru ósammála Ragnari Hall í veigamiklum atriðum. Mér sem öðrum var kunnugt um athugasemdir þeirra og ég fjallaði á einhverju stigi málsins um þær. Þannig er nú einu sinni unnið í þinginu, það er hlustað eftir rökum fólks, bæði meðrökum og mótrökum.
Mikið hefur þú annars leiðinlegan tón í öllum þínum athugasemdum. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þú kemur hér inn aftur og aftur, fyrst þér er svo mjög í nöp við síðuhöfundinn. Þér virðist fyrirmunað að leggja nokkuð inn í umræðuna annað en skæting og skæting og meinsemi.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.9.2009 kl. 09:41
Staðan í Icesave-málinu er afspyrnu slæm ! Alþingi er ekki aðeins búið að nauðga skulda-klafanum á þjóðina, heldur er allt framhaldið lagt í hendur Breta og Hollendinga. Þeir eiga völ eftirfarandi kosta, eins og kemur fram á bloggi mínu: http://altice.blog.is/blog/altice/entry/941691/
Þar segi ég: Nú eiga Bretar og Hollendingar þrjá kosti, hið minnsta og okkar er bara að bíða og vona:
Ég er því sammála Ólínu, að samningurinn hefur illu heilli hlotið samþykki á Alþingi. Nákvæmara er auðvitað að segja, að ábyrgð hafi verið samþykkt á honum. Nú snýst málið um skilyrðin og það eru Bretar og Hollendingar sem ráð hvað um þau verður. Mig grunar að Aþingi sé ekki hátt skrifað hjá þessum fyrrverandi "vinaþjóðum" okkar og því getum við ekki búist við að skilyrðunum verði sýnd mikil virðing.
Það sem er auðvitað blóðugast í þessu máli, er að okkur ber ekki skylda til að taka ábyrgð á Icesave-reikningunum. Um er að ræða hreina fjárkúgun og eins og flestir vita, leiðir eftirgjöf fyrir kúgunum ávallt til enn frekari kúgana. Þessar fyrrverandi "vinaþjóðir", munu því í framtíðinni beita okkur kúgunum, hvenær sem þeim gefst tækifæri.
Hin veruleika-firrta Icesave-stjórn á eftir að leiða okkur í enn frekari ógöngur með ESB-áráttu sinni. Nærsta mál er gjaldmiðillinn og þar eigum við eftir að fá lamandi byltur. Jóhanna sér ekkert nema ESB-aðild og Evru, sem leiðir til 10-15 ára áframhaldi á sambúðinni við Krónuna. Sagt er að við séum nú þegar langt komin með að eyða láninu frá AGS í viðhald Krónunnar.
Ef við leggjum ekki Krónunni og "torgreindu peningastefnunni", munu efnahags-hremmingar okkar bara halda áfram. Þetta er grátlegt því að frábær kostur er í boði, þar sem er "fastgengi undir stjórn Myntráðs". Þessu hafna Sossarnir, eins og öðru sem til framfara horfir.
Einblínt er á samfylkingu með nýlenduveldum Evrópu. Jafnvel þegar Sjálfstæðisflokkurinn var að semja skilyrðin fyrir Samfylkinguna, töluðu Sossarnir um glæsilega samfylkingu. Samfylkingin er samfylking draumóranna, sem öllum öðrum birtist sem martröð. Staðan í Icesave-málinu er því afspyrnu slæm !
Loftur Altice Þorsteinsson, 3.9.2009 kl. 10:54
Ólína
Það er stór munur á rökræðum og kappræðum. Hér á blogginu og á Alþingi hefur þú valið þér kappræðuformið. Það er þitt val. Framgangan er slík það þú hefur á þínu fyrsta þingi verið fyrst þingmanna verið sökuð um að beita einelti á þinginu. Í stað þess að rökræða það sem farið er yfir rök og gagnrök, þá eru málin afgreidd með því að vísa í það að einhverjir aðrir hafi sagt eitthvað annað.
Það er ákveðin framganga sem kallar á sérstaklega sterk viðbrögð það er kappræða með hroka. Viðkomandi sem notar slíkan málflutning kallar oft á átök. Ég minnist t.d. á þátt þar sem átti að fjalla um afskrifaleið Framsóknarflokksins. Margir töldu að sú leið væri frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, en hann hafði fengið til sín hagfræðiráðgjafa og komið fram með hugmyndina. Í þáttinn var mættur einnig einn af okkar virtustu hagfræðingum Tryggvi Herbertsson. Skólastýran að vestan gat nú alveg blásið allar svona hagfræðihugmyndir af því hún hafði gluggað í gögn kvöldið áður.
Ólína þú verður að meta hvort málflutningur þinn í gegnum árin, hefur kallað á sprengingar eða ekki.
Þegar Icesavesamningurinn var lagður fyrir þingið voru það þingmenn úr þingliði VG sem komu í veg fyrir að hinn helmingur VG og Samfylkingin eins og hún lagði sig gæti keyrt málið í gegnum þingið án fyrirvara. Svo koma hluti þingmanna fram og segir að það hafi einnig verið bullandi ágreiningur um málið meðal þeirra. Sá ágreiningur var bara afgreiddur í þingflokknum. Sjálfsagt í anda þess að allar umræður eigi að vera svo lýðræðislegar og fyrir opnum tjöldum.
Svo kom þingið að málinu og fór yfir þennan gallaða samning. Skilyrði og fyrirvarar sem settir voru, eru að sjálfsögðu breyting á samningum. Í honum er gert ráð fyrir ríkisábyrgð, en hún er ekki veitt nema með alvarlegum fyrirvörum. Þess vegna er nú verið að fá Breta og Hollendinga til þess að fallast á þá breytingu, eða þá fyrirvara.
Eftir það sem á undan gegnið er það óvenju ósvífið að einn þingmaðurinn leyfi sér að skrifa blogg um að engar breytingar hafi verið gerðar á samningum. Það er eins og að ulla á þingið og 80% þjóðarinnar sem vildi fella þennan samning.
Sigurður Þorsteinsson, 4.9.2009 kl. 08:00
Sigurður - þetta er afar ónákvæmur og óvandaður málflutningur. Sérstaklega geri ég athugasemd við það þegar þú segir:
"Framgangan er slík það þú hefur á þínu fyrsta þingi verið fyrst þingmanna verið sökuð um að beita einelti á þinginu."
Þetta er alvarlegri ásökun en svo að ég geti setið undir henni þegjandi, og nú skalt þú færa rök fyrir þínu máli. Hver hefur sakað mig um einelti í þinginu? Gegn hverjum? Af hvaða tilefni? og á hvaða vettvangi?
Ég þekki þig ekki nokkurn skapaðan hlut, en af því sem þú hefur skrifað hér í athugasemdirnar hjá mér er deginum ljósara að þú ert ekki orðvandur maður. Sannleikurinn þvælist ekki fyrir þér, eins og sjá má af ofangreindri tilvitnun sem er uppspuni þinn og hugarburður frá rótum.
Sjálfur ert þú svo blindaður af eigin fordómum að þú sérð ekki hroka þinn og ósannsögli. Ímyndar þér sjálfsagt að rógburður þinn og sögurburður sé einhverskonar rökræða.
Það er oft auðveldara að sjá flísina í auga náungas en bjálkann í sínu eigin.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.9.2009 kl. 13:39
Sigurður #14
Þú skrifar:
"Hér á blogginu og á Alþingi hefur þú [Ólína] valið þér kappræðuformið."
Þetta kemur mér spánskt fyrir sjónir þar sem ég met Ólínu mikils fyrir að vera ávallt málefnaleg. Það er einmitt grundvallar atriði því hver getur áttað sig á skoðunum þeirra sem ekki eru málefnalegir. Maður getur auðvitað haft álit á málflutningi þeirra, þ.e. hvernig þeir flytja mál sitt, en það er allt annar hlutur.
Og þetta með eineltið, kappræðurnar og hrokann sýnist mér allt vera bæði órökstutt og ómálefnalegt.
Guðl. Gauti Jónsson, 4.9.2009 kl. 22:25
Ólína Það vakti verðskuldaða athygli fjölmiðla og almennings þegar Birgitta Jónsdóttir þingmaður Borgarahreyfingarinnar vakti athygli á því að einelti viðgengist á vinnustaðnum Alþingi. Það vissu allir sem á hlustuðu að hún átti við ferli þegar Ásmundur Daði Einarsson sagði frá því að hann hafi verið beittur óeðlilegum þrýstingi og jafnvel fengið hótanir varðandi framgang hans í ESB málinu á þingi. Ásmundur ætlaði að fara eftir sannfæringu sinni, en ofbauð svo framgangan að hann ákvað að stimpla sig út þann daginn, hætta við að taka vera meðflutningsmaður tillögu, og hvíla sig á Alþingi þann daginn.
Hverjir voru meintir gerendur Ólína? Fyrst lágu þingmenn og ráðherrar VG og Samfylkingar undir grun. Þá kom Ásmundur fram og sagði að hótunin hafi ekki komið úr eigin flokki. Þá situr þinglið Samfylkingarinnar eitt eftir.
Í þessari umræðu fékk framganga eins þingmanns gagnrýni frá Borgarahreyfingunni. Þingmaðurinn Ólína Þorvarðardóttir með hlátrasköllum og frammíköllum. Þú hefur að vísu mótmælt að hafa hlegið en frammíköllunum hef ég ekki séð þig mótmæla.
Ég er í hóp sem m.a. fjallar um einelti. Þetta mál kom upp og kallaði á miklar umræður. Við vorum einhuga um að þessi samskiptahættir á vinnustað gætu flokkast undir einelti. Það er líka hluti af eineltinu að koma í veg fyrir að á málum sé tekið.
Þegar rifja upp þetta mál á Alþingi þá munu þrjú nöfn koma upp í hugann hjá fólki, Birgitta Jónsdóttir fyrir að benda á að samskiptahættir hafa viðgengist á Alþingi sem flokkast gætu undir einelti. Ásmundur Daði Einarsson fyrir það að stíga fram og segja frá þessum vinnubrögðum og síðan Ólína Þorvarðardóttir fyrir að vera sökuð um að hæða umræðuna með frammíköllum og hlátri.
Þingmenn eru þjónar þjóðarinnar en ekki drottnarar. Davíð Oddsson tók a.m.k. í seinni tíð gagnrýni afskaplega óstinnt upp, ég tel það hafa skaðað lýðræðislega umræðu mikið. Held að það hafi stafað af valdaþreytu, en ekki síður að um hann safnaðist hjarðlið sem jarmaði af fögnuði yfir hverju því sem frá honum kom. Það var til stórskaða. Þá kom hrokinn sem kallaði á andstöðu gegn honum. Við almenningur eigum því að veita þingmönnum og ráðherrum aðhald, það er hlutverk okkar. Þess vegna gagnrýni ég þig. Gagnrýni framgöngu þína og það sem frá þér kemur, en það hefur ekkert með neina persónulega óvild að gera eins og lesa má úr skrifum þínum. Slík óvild er ekki til staðar.
Kann ágætlega þegar fólk talar hreint út, og jafnvel kjaftfort. Þegar þú sem Alþingismaður segir menn fara með ósannsögli þá er áhugavert að fá fram hjá þér rökstuðning.
Gauti, þér þykir vænt um Ólínu og ég geri enga athugasemd við það. Ólína hefur valið sér kappræðuformið og ég held að það sé meira framboð af einstaklingum sem vilja starfa á þingi, en eftirspurn. Hún er hins vegar á sínu fyrsta ári á Alþingi og ég met Alþingismenn af þeim málum sem þeir koma fram með og vinna að á þingi. Fyrsta árið er yfirleitt aðeins til þess að koma sér inn í mál, því verður Ólína frekar dæmd af verkum sínum á næsta ári.
Sigurður Þorsteinsson, 5.9.2009 kl. 08:26
Sigurður veit mæta vel að ég hef fyrir löngu hrakið þær ásakanir Þórs Saari að ég hafi gert lítið úr eineltisræðu Birgittu í þinginu með framíköllum eða hlátri. Þar fór Þór með ósannindi, eins og sjá má skýrt og greinilega ef skoðað er þetta þetta myndbrot hér .
Sigurði kýs hins vegar að hafa mótrök mín (og þar með sönnunina) að engu (sbr. "þú hefur að vísu mótmælt hlátrinum en ekki framíköllunu") og heldur bara áfram að ata mig auri eins og ekkert hafi í skorist. Kannski í þeirri trú að lygin verði sannleikur sé hún bara sögð nógu oft.
Svo dylgjar hann hér um að ég sé hinn meinti eineltisgerandi gagnvart Ásmundi Daða Einarssyni - þvílíkt endemis bull og hugarburður.
Ég gef ekkert fyrir málflutning Siguðar Þorsteinssonar - hann hefur sjálfur valið sér kappræðuformið en ekki rökræðuna. Það er hans ákvörðun - en málflutningur hans dæmir sig sjálfur.
Menn sem nota dylgur og hálfsannleika til þess að sverta mannorð saklauss fólks (leggja það í einelti) eru ekki velkomnir inn á þessa bloggsíðu.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.9.2009 kl. 18:44
Ólína þér ferst vel að vitna í bókina góðu.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.