Reynslan af strandveiðunum

fiskur Nú er lokið tveggja mánaða reynslutímabili strandveiðanna sem samþykktar voru með lagabreytingu á Alþingi fyrr í sumar. Ætlunin var - samkvæmt upphaflegu frumvarpi - að heimila veiðarnar frá 1. júní - 31. ágúst, og meta reynsluna af þeim að því loknu. Málið olli deilum í þinginu, því Sjálfstæðismenn settu sig öndverða gegn frumvarpinu og gerðu hvað þeir gátu til að tefja framgang málsins bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, sem og í umræðum í þinginu. Fyrir vikið varð strandveiðunum ekki komið á fyrr en 1. júlí. Þá voru tveir mánuðir eftir af fiskveiðiárinu og því ljóst að reynslan af veiðunum yrði takmarkaðri en ella.

Lagabreytingin fól það í sér að nú mátti veiða á handfæri 3.955 lestir af þorskígildum utan aflamarkskerfis. Fiskimiðunum við landið var skipt upp í fjögur svæði og ráðherra heimilað að skipta aflaheimildum á einstaka mánuði milli þessara svæða. Skyldi byggt á hlutfallslegri skiptingu byggðakvóta við útdeilingu aflaheimilda, en 2.500 lestum var auk þess skipt jafnt á öll svæðin (625 lestir á hvert svæði).

SmábátarSamkvæmt lögunum var ekki heimilt að fara í fleiri en eina veiðiferð á hverjum degi, fjöldi handfærarúlla var takmarkaður og afli hvers dags skyldi ekki fara yfir 800 kg af kvótabundnum tegundum. Með þessu var leitast við að láta leyfilegt veiðimagn dreifast sem mest á landsvæði og tíma auk þess sem þetta ákvæði átti að hindra að of mikið kapp yrði í veiðunum. Þá var kveðið á um að allur afli sem landað yrði við færaveiðar skyldi vigtaður og skráður hér á landi. 

 Þeir tveir mánuðir sem liðnir eru frá því strandveiðunum var komið á, hafa leitt góða reynslu í ljós. Við lok fiskveiðiársins þann 31. ágúst s.l. höfðu rétt innan við 4000 þorskígildistonn komið að landi. Landanir í sumar hafa verið 7.313 og 554 bátar á sjó. Mest hefur veiðst af þorski (3.397 tonn) en 576 tonn veiddust af ufsa og enn minna af öðrum tegundum.

Eitt af því sem vakti athygli við þessa tilraun sem staðið hefur í sumar, er hversu misjöfn aflabrögðin reyndust milli svæða. Þannig var búið að veiða allt leyfilegt aflamagn á svæði A (norðvestursvæðinu) þegar í byrjun ágúst, á meðan innan við helmingur veiðiheimilda var enn óveiddur á öðrum svæðum. Á norðvestursvæðinu voru langflestir bátar í róðrum, eða 195 samanborið við t.d. 94 báta á svæði B sem nær frá Skagabyggð í Grýtubakkahrepp. Þetta vekur spurningar um sókn á svæðunum í samhengi við aflamarkið og þarf að skoða vel.

Það er þó samdóma álit allra sem til þekkja að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar. Þess sáust skýr merki þegar á fyrstu dögum eftir að veiðarnar hófust. Bryggjur þar sem vart hafði sést maður - hvað þá fiskur - árum saman iðuðu nú skyndilega af lífi. Aftur heyrðist vélahljóð báta í fjörðum kvölds og morgna, fólk að fylgjast með löndunum og spriklandi fiskur í körum.

Háskólasetur Vestfjarða hefur tekið að sér að skila skýrslu um reynsluna af þessum veiðum og verður fróðlegt að sjá hvað hún mun leiða í ljós.

En svo mikið er víst, að strandveiðarnar færðu líf í hafnir landsins - þær glæddu atvinnu og höfðu í alla staði jákvæð áhrif á mannlíf í sjávarbyggðum. Loksins, eftir langa mæðu, fengu íbúar við sjávarsíðuna að upplifa eitthvað sem líkja má við eðlilegt ástand - einhverskonar frelsi eða opnun á því niðurnjörvaða kvótakerfi þar sem mönnum hefur verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendur landsins nema þeir gerðust leiguliðar hjá útgerðum eða keyptu sér kvóta dýru verði.

Tilraunin með strandveiðarnar hefur nú þegar sannað gildi sitt, og því hlýtur endurvakning strandveiða við Ísland að vera ráðstöfun til framtíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

Strandveiðarnar hafa sannarlega verið lyftistöng fyrir þá sem höfðu selt allar veiðiheimildir frá sér. nú sitja þeir með hagnaðin af kvótasölunni og geta veitt fisk eins og áður. já það munar um það að fá endurúthlutun í boði vinstristjórnarinnar.

Fannar frá Rifi, 3.9.2009 kl. 11:22

2 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Ólína flott hjá þér og flott fyrsta skref sem vonandi verður framhald á - svik og prettir verða sennilega til staðar sama hversu menn reyna að verja sig - en það má kanski lágmarka þann ófögnuð með reynslunni - næst þe á næsta ári vonandi sjáum við kanski heilsteyptari sjósókn þe án spilliningar og án öfundsýki sem ég held að sé allt allt of víða

árfam X-D

Jón Snæbjörnsson, 3.9.2009 kl. 11:45

3 identicon

lofsvert framtak sem nauðsyn er að framhald verði á.skapaði fullt af störfum bæði fyrir sjómenn og til lands,einu sem sjá þessu allt til foráttu(að venju) eru sægreyfar og afkomendur þeirra sem telja að verið sé að veiða fisk sem TILHEYRI ÞEIM. nú er næsta skref að ríkið útdeili þeim kvóta sem ríkið væntanlega fær í sýnar hendur af gjaldþrota útgerðarmönnum sem staðið hafa í braski undanfarin ár,þeim kvóta hlítur að verða útdeilt innan þessa strandveiðikerfis sem hefur þegar vakið mikla ánægju innan sjávarbyggðanna....einsog prófessorinn sagði "nú væri gaman að geta bara gefið í og -útdeilt réttlætinu" loksins eitthvað á réttri leið hérlendis.

zappa (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 12:14

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

way to go. það verður munur þegar stjórnmálamenn fá að útdeila kvótanum eftir henti semi og í kjördæmapoti. svona eins og þeir gerðu áður fyrr með togara í sín heimapláss. mikið voru nú góðir tímar þá þegar 400 manna byggðarlag fékk 2 frystitogara.

strandveiðar eru óhagkvæmar fyrir alla aðra en þá sem eiga báta fyrir og veiðitækin. aflinn er of lítill, það eru ofmargir og olían kostar alltof mikið. en það er ekki markmiðið hjá stjórnmálamanni eins og Ólínu. hennar markmið er að nota sjávarútvegin til þess efla vinsældir sínar. alveg sama þótt að það leiði til þess að ríkið þurfi koma að sjávarútvegi með sama hætti og landbúnaði. 

og hverjir eru það sem eiga báta, búnað en eru ekki á veiðum í dag í núverandi kerfum? það eru þeir sem selt hafa frá sér kvótann. þessir sem raunverulega liggja á flatsængum úti á spáni. þeir sem keyptu kvótann af þeim strita við að borga vextina af frystum lánum. því þeir voru svo vitlausir að hugsa sér að fjárfesta í atvinnugreininni og vinna í henni til framtíðar. en það á refsta þeim og verðlauna þá sem komust út úr greininni með því að úthluta þeim aftur aflaheimildum á kostnað þeirra sem ákváðu að reyna að stækka við sig og efla sína eigin litlu útgerð. 

kvótakerfið er hagkvæmasta veiðikerfið sem til er. öll önnur kerfi skapa minni hagnað og áræðanleika við sölu á þessari matvöru. 

ef Ólína vill raunverulega láta eitthvað gott af sér leiða í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar ætti hún að taka á Hafró. Sérstaklega á hugtakinu sem Hafró bjó til sem heitir "veiðanleiki". Ef hún gerir það ekki þá hefur hún engan raunverulegan áhuga á þessum málum og er bara að reyna að tryggja eigin vinsældir. 

Fannar frá Rifi, 3.9.2009 kl. 12:32

5 Smámynd: Sævar Helgason

Strandveiðiheimildin  utan kvótakerfissins  er góð tilraun og opnun á aðgangi sjávarbyggðanna að sínum heimagrunnslóð . 

Það kemur ekki á óvart að líf hafi færst í tilveruna yfir þennan skamma sumartíma sem veiða mátti.  Vonandi er þetta upphafið að auknu frelsi til fiskveiða frá sjávarbyggðunum umhverfis landið. 

Það kemur ekki á óvart hversu vel gekk til með aflann á NV landinu. Þar er nálægð gjöfulla fiskimiða  sem þar ræður. 

En forskot þeirra sem eiga löggilda báta og veiðarfæri fyrir – er mikið.  Þetta er nefnilega mjög kostnaðarsamt að stofna til svona útgerðar- 6-10 milljónir að lágmarki. 

Þeir sem selt hafa kvótann sinn  en ekki bátinn standa mjög vel að vígi.  Vonandi er þessi opnun á vistvænar veiða á grunnslóð – stefnumarkandi  í þá veru að þær myndi forgang til aflaheimilda.  Kostnaður er lítill /kg af fiski og efling sjávarbyggðanna  óumdeilanleg.  

Þegar kvótakerfið alræmda verður endurskoðað núna á næstu mánuðum- þá  þurfa hinar vistvænu veiðar á grunnslóð að verða í fremsta flokki.  Ekki er vafi á að dregin veiðarfæri hafa stórskaðað fiskislóðir umhverfis landið og valdið minnkandi fiskafla.  Vistvæn veiðarfæri er það sem hlýtur að hafa forgang-enda minnstur  kostnaðar/kg af veiddum fiski . 

Ekki standa allir jafnir til þessara strandveiða.   Menn verða að eiga löggiltan bát . Við  þessir sem árum saman höfum stundað  veiðar utan kvóta- svokallaðar frístundaveiðar og erum með  báta sem  eru það litlir að þeir ná ekki löggildingu-sitjum eftir. 

Sjálfur stunda ég svona veiðar frá miðjum janúar og fram á jólaföstu  og hef gert sl 6 árin. Ég fæ enga svona guðsgjöf sem- strandveiðar  - minn bátur er ekki viðurkennt aflafley. 

Ekki get ég selt einn ugga af mínum afla uppí útgerðarkostnað.   Þó stendur útgerðin ágætlega undirsér – matfiskur er dýr.  

En Ólína nú er framundan að breyta kvótakerfinu –þar reynir á þig sem þingmann.  Éf efast ekki um að þú standir þig með sóma.  

Að lokum: mér líst vel á að menntastofnunin á Ísafirði leggi mat á strandveiðarnar.

Sævar Helgason, 3.9.2009 kl. 15:23

6 Smámynd: Fannar frá Rifi

hvernig var það, hversu margir höfðu tekjur af því að leigja báta sína til annarra til að fara í strandveiðikerfið? virkar svona svipað og leigja frá sér kvóta er það ekki?

varðandi vistvænu veiðarnar hjá Sævari. 500 hestafla, yfirbyggður bátur með beitningarvél. flokkast sem smábátur og voru fremstir í flokki áður en smábátar fóru í kvóta. 

síðan kemur stóra málið. uku strandveiðarnar öryggi sjómanna? núna hefur ekkert dauðaslys átt sér stað á sjó í tvö fiskveiði ár. hvað er langt síðan allt var sett í kvóta?

Fannar frá Rifi, 3.9.2009 kl. 16:38

7 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Fannar.

Ég skil alveg hvað þú ert að segja og af hvaða hvötum þú segir það.

En þessi rök þín standast enga skoðun og dæma sig því sjálf.

Ég ætla að bjóða þér reiknilíkan sem við þróuðum fyrir nokkrum árum og við skulum í sameiningu setja inn mismunandi útgerðarflokka með öllu því sem fylgir og sjá svo hver niðurstaðan verður.

Varðandi aflamarkskerfi við stjórn fiskveiða þá lýgur ekki reynsla færeyinga eins og meðfylgjandi linkur býður upp á að kynnast; http://kvotasvindl.blog.is/blog/kvotasvindl/video/7486/

Og hér er ný færsla frá Jóni Kristjánssyni fiskifræðingi sem er mjög vert að skoða; http://fiski.blog.is/blog/fiski/entry/942509/

Níels A. Ársælsson., 3.9.2009 kl. 22:01

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hann Fannar frá Rifi er auðvitað óborganlegur snillingur! Sérlega glöggur á olíukostnað.

Árni Gunnarsson, 3.9.2009 kl. 22:55

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mér finnast það þó meðmæli með strandveiðunum ef Fannar frá Rifi telur það til vinsælda fallið fyrir alþingismann að mæla með þeim.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.9.2009 kl. 23:49

10 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Sæl Ólína. Tilraunin var góð og kom sér vel við núverandi aðstæður að gera hana. Eflaust þarf að sníða af henni einhverja vankanta eins og gengur, en sjálfsagt að halda áfram.

Er ekki tími kominn til að halda fund í Sjávarútvegs og landbúnaðarnefnd til að kynna hvernig til tókst og ekki síður vegna hinna hrímuðu hugmynda landbúnaðarráðherrans um enn eina eignaupptöku bújarða, eða hvað sem á að kalla hugrenningar hans um vistabönd hin nýju? 

Ingimundur Bergmann, 4.9.2009 kl. 09:55

11 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ólína víkur sér fimlega undan því að taka alvöru afstöðu í sjávarútvegsmálum og taka á meinsemdum sem munu halda áfram að vera til staðar, hvort sem kvótakerfið verður til staðar eða eitthvað annað.

Ef þú hefur raunverulegan áhuga á að gera gott, þá áttu að taka á Hafró og veiðanleika hugtakinu sem engin hefur getað útskýrt eða sýnt hvernig virkar. 

og Ólína, það er til mikilla vinsælda að gefa peninga úr ríkisjóði. en er það ráðlegt? 

reyndu nú að svara þessu með veiðanleikann ef þú veist um hvað ég tala. ef þú gerir það ekki þá þarftu greinilega að setjast niður kynna þér þessi mál ekki bara treysta á einhver strák á Bifröst sem veit lítið sem ekkert um sjávarútveg.

Fannar frá Rifi, 4.9.2009 kl. 17:01

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

"Hann er að gefa sig" sögðu sjómennirnir í gamla daga, og af þessu er dregið að tala um "gæftir". Af sama toga er "veiðanleiki" tegundanna, nema hvað "veiðanleiki" er leiðinda orð.

Maður þarf ekki að hafa mikið vit á sjávarútvegi til að skilja hvað í þessu felst, bara þokkalegan skilning á íslensku máli. Hvernig menn nota svo hugtakið er önnur saga.

 Ég þykist vita að útgerðarmenn séu oft óánægðir með veiðiráðgjöf Hafró - eins og við er að búast. Hafró hefur ákveðið hlutverk og það getur stangast á við skammtíma hagsmuni útgerðarinnar. Þetta hlýtur öllum að vera ljóst.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 4.9.2009 kl. 17:43

13 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ólína þú hefur greinilega enga hugmynd um hvað ég er að tala um og greinilegt að þú veist ekkert um hvað Hafró er að gera þegar þeir mæla stofnstærðir á fiskitegundum landsins. Veiðanleiki er ekki bara hugtak. Veiðanleiki er notað af þeim til þess að réttlæt niðurskurð á aflaheimildum og þú tekur undir alveg blind á allt í kringum þig.

ég sé að klapplið þitt og kvótaandstæðingar þora ekki að gagnrýna þig fyrir linkind þína gagnvart hafró og bullinu sem frá þeim kemur.

Fannar frá Rifi, 7.9.2009 kl. 08:44

14 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Jæja Fannar minn - hafðu það gott í dag.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.9.2009 kl. 10:18

15 Smámynd: Fannar frá Rifi

uss. það er bara farið allar leiðir til þess að komast hjá því að svara einni mikilvægustu spurningu í sjávarútvegsmálum dagsins í dag. jæja víst þú vilt bara vera blind og bullar bara eitthvað þá er það þitt mál. því á meðan þú veist ekki hvernig hafró vinnur þá hefuru ekkert til málanna að leggja. 

Fannar frá Rifi, 7.9.2009 kl. 11:29

16 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fannar - til þess að gagnrýna veiðráðgjöf Hafró þyrfti ég að vita betur. Ég þyrfti að hafa aðrar rannsóknir og tölfræði til að bera saman við rannsóknir þeirra. Það hef ég ekki.

Ég virði vissulega þær upplýsingar sjómanna að sjaldan hafi sést eins mikið af þorski á Íslandsmiðum og undanfarin misseri. Hafró viðurkennir þetta líka, og bendir á, að þetta sé bein afleiðing af veiðiráðgjöf undanfarinna ára.

Þú fyrirgefur Fannar minn - en ég er hvorki fiskifræðingur né sjómaður og auk þess ekki alvitur á neinu sviði. Það þýðir ekki að ég hafi "ekki hundsvit" á sjávarútvegi, því það hef ég, enda upp alin að hluta til við sjávarsíðuna. Hinsvegar ætla ég mér ekki þá dul að vaða í veiðiráðgjöf Hafró með stóryrðum á meðan ég hef ekki staðreyndir og haldbær rök.

Þó að þér þyki það sæma sjálfum þér að tala þannig - þá hef ég önnur viðmið í því efni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.9.2009 kl. 11:48

17 Smámynd: Fannar frá Rifi

en samt leggja þeir til minnkandi þorskveiðiheimildir þó þeir viðurkenni að það sé meir af þorski? bíddu bíddu hvernig meikar það sense?

ef þú ert ekki tilbúinn að horfa á með gagnrýnum augum aðferðir og mælingar hafró eða kynna þér þá reynslu sem sjómenn hafa á þeim aðferðum, þá áttu að sleppa því að vera með stór orð um sjávarútveg og einhverjar hugmyndir sem þú telur góðar. 

farðu nú í fríinnu í ferð um kjördæmið og ræddu við kallanna á bryggjunni og spurðu þá út í hafró og togararallið. það er ef þú vilt fá fyrstu handar þekkingu en ekki einhverjar skýrslur samdar af lögfræðingum. 

Fannar frá Rifi, 7.9.2009 kl. 13:30

18 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Víst er meira af þorski - og stofninn fer stækkandi - en hann er þó ekki orðinn eins góður og hann var fyrir 20-30 árum. Markmið Hafró er að koma stofninum í þá stærð sem var þegar best lét, og því telja þeir ekki ráðlegt að höggva í hann áður en því er náð. þetta eru þeirra rök og þau hljóma skynsamlega.

 Ég hef rætt við fjölda sjómanna um land allt og ekki síst í mínu kjördæmi, svo þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að ég heyri ekki þeirra sjónarmið.

Og hættu svo þessum stóryrðum Fannar minn - farðu nú að tala við mig eins og maður, og þá getum við kannski bæði haft gagn af samræðunni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.9.2009 kl. 16:32

19 Smámynd: Fannar frá Rifi

semsagt þá trúir þú á hafró fræðin?

spurðu sjómennina hvernig hafró leggur trollinn. hvernig togararallið fer fram og hvernig netarallið ekki tekið marktækt. hvernig útreikningar eru þannig að vegna þess að það sækir engin lengur beint í þorsk, hann er meðafli, þá kemur út í reikningum þeirra að stofnin sé að minnka. 

þú ert bara í lýðskrumi. lofar að gefa kvóta hægri vinstri og taka af þeim sem eru í útgerð í dag. þú sínir engan áhuga á því að taka á málefnu hafró sem sýnir að þú hefur ekki raunverulegan áhuga á því að taka á meinum sjávarútvegs. 

þú talar oft um ókosti kvótakerfisins. kvótakerfið er bara stjórntæki. Hafró stjórnar því öllu. sókn, lokunum svæða og þá sérstaklega opnun á svæðum. opnun á hryggningar hólfum á meðan enn var hryggning í gangi. bara útaf því að í bókum þeirra stóð að venjulega væri hryggningatímin liðin. tékkuðu ekki á neinu. 

þú ættir kannski að flétta upp á viðbrögðum hafró þegar Síld gekk fyrst inn í Grundarfjörð. þá sögðu þeir það vera bull, þó var meiri síld þar heldur þeir höfðu talið að væri í allri lögsögu Íslands. 

Fannar frá Rifi, 9.9.2009 kl. 16:55

20 Smámynd: Fannar frá Rifi

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/09/09/thegar_a_flotta_undan_ysunni/

ekkert má veiða. já og amen við alsannleik Hafró. 

Fannar frá Rifi, 9.9.2009 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband