Magma Energy, erlent fjármagn, eignarhald ríkisins, almannahagsmunir

Bjarnarflag Ég hef ekkert á móti erlendu fjármagni eða skynsamlegri einkavæðingu. En þegar erlend fyrirtæki gera sig líkleg til þess að sölsa undir sig nýtingarrétt íslenskra auðlinda á kjörum sem varla geta talist annað en afarkostir - þá vil ég spyrna við fótum.

Þegar erlent stórfyrirtæki býðst til að kaupa hlut í HS-Orku  gegn því að Orkuveitan veiti 70% kúlulán (þ.e. afborganalaust lán sem greiðist í lok lánstíma) til sjö ára, á 1,5% vöxtum með veði í bréfunum sjálfum - þá fæ ég ekki séð að erlent fjármagn sé að streyma inn í landið.

Þegar erlent stórfyrirtæki sem hefur fengið 10 ára samning við erlend orkufyrirtæki (sjá hér) með framlengingar ákvæði til annarra 10 ára (samtals 20 ár), vill gera 65 ára samning  við okkur með framlengingarákvæði um önnur 65 ár - alls 130 ár - þá líst mér ekki á blikuna.

 Þegar svona er staðið að tilboðsgerð í nýtingarrétt íslenskra auðlinda, þá finn ég brunalykt og fer að hugsa um útsölur, eins og ég hef bloggað um áður.

 Vissulega verðum við að laða erlenda fjárfesta til landsins - en það er ekki hægt að falbjóða náttúruauðlindir landsins fyrir lítið sem ekkert, jafnvel þó hart sé í ári.

Samkeppni og einkavæðing geta verið góðra gjalda verðar - en þá verða líka að vera eðlileg samkeppnisskilyrði til staðar. Slík skilyrði eru ekki til staðar á Íslandi eins og sakir standa.

Þó ekki væri nema vegna þessa, finnst mér réttlætanlegt að ríkið grípi inn í fyrirhugaða sölu á hlut HS-Orku til Magma Energy, og reyni að ganga inn í tilboðið. Satt að segja held ég það sé ráðlegt eins og sakir standa. En þá sé ég fyrir mér tímabundna ráðstöfun, en ekki varanlegt eignarhald - því ég held að ríkið ætti þá að leitast við að selja hlutinn á ný, á betri kostum en þarna bjóðast.

Ef þessi samningur fer óbreyttur í gegn, er gefið fordæmi fyrir fleiri viðlíka samninga, án þess að nokkur trygging sé fyrir því að arðurinn af auðlindum okkar muni renna inn í þjóðarbúið. Ég held það sé hættulegt íslenskum almannahagsmunum.

Auðlindirnar eru helsta von okkar Íslendinga núna - við megum ekki glutra þeim úr höndum okkar í eftirhruns-örvæntingu. Þetta mál er þörf áminning um þá hættu sem við gætum staðið frammi fyrir ef erlend auðfyrirtæki taka að ásælast auðlindir okkar fyrir lítið verð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæl Ólína,

Veit ekki hvaða skilning þú setur í "stórfyrirtæki", kannski veltutölur eða fjöldi starfsmanna, eins og venja er.

Þá skal upplýst að þetta "stórfyrirtæki" Magma var stofnað 2008, og hefur enn ekki skráð neinar tekjur skv. ft.com marketsdata. 

Orkuframleiðsla sem þeir hafa yfir að ráða telur 11 MW á ári (8MW) net. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 25.8.2009 kl. 15:17

2 Smámynd: Sævar Helgason

70 % kúlulán til 7 ára með 1,5%vöxtum og greiðist upp í einu lagi að 7 árum liðnum. Og veðið er í sjálfum hlutabréfunum. 

Allt hljómar þetta kunnuglega frá tímum hinnar miklu útrásar - sem endaði í kalda koli og ríflega það.

Innlendar væntingar eru að þessi kaupaðili hefji hér framkvæmdir til að nýta auðlindina. Sem sagt að verktakar fái nokkra vinnu í fáein ár. Samningstími við Magma Enrgy er 2x 65 ár eða alls 130 ár.....tveir mannsaldrar..Og arðurinn hverfur úr landi-að mestu.

Við eigum að koma í veg fyrir þennan gjörning og að  ríkissjóður yfirtaki eignarhlutinn sem verið er að föndra með.  Síðan eigum við sjálf að koma orkunni í meiri verðmæti og þá þannig að arðurinn verði miklu meiri fyrir  okkur en virðist í spilunum með þessum viðskiptum við Magma Energy...

Þetta er mín skoðun

Sævar Helgason, 25.8.2009 kl. 15:21

3 identicon

Tek undir með Jenný.

Magma er ekki stórfyrirtæki. Aðstandendur eru hins vegar stórhuga og sjá tækifæri í að krækja í vænan bita af einu flottasta jarðvarmaorkufyrirtæki heimsins fyrir lítið. 

Ef það er ekki talið boðlegt að ríkisfyrirtæki á borð við Rarik að gangi inn í þessi kaup eða að svo illa sé komið fyrir Íslandi að það þurfi að selja á útsölu þá er ég með eina tillögu.

Magma fá hlut í OR í HS orku gegn því að OR fái IPO hlut að sama verðmæti í Magma. OR héldi forkaupsrétti/endurkauparétti á seldum hlut sínum HS orku.  Vel má vera að Magma eigi eftir að verða stórveldi, því ekki að koma þessum vandræða hlut OR í hugsanlegt margfeldi?

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 15:42

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Rétt athugað Jenný - er búin að laga þetta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.8.2009 kl. 15:50

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þessi tímalengd, upp á 65 ár, og hugsanlega önnur 65 ár - er þ.s. er út úr korti.

Það verður að lagfæra þessi lög, og færa 65 árin niður í svona cirka 25 með framlengingarákvæði, um t.d. 10 ár - til viðbótar.

Ég hvet þig Ólína, til að leggja til slíka lagfæringu.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 25.8.2009 kl. 16:00

6 identicon

Takk, Ólína. Ég var að bíða eftir þessum pistli. Koma þessu skilmerkilega til skila sem víðast.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 14:15

7 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Ég tjáði mig um þetta mál á bloggi Skúla Helgasonsar og finnst að sú athugasemd eigi líka erinsi hingað:

"Þú hefðir haft gott af að mæta á Grindavíkurfundinn á þriðjudaginn var Skúli. Mér virðist við lestur á pistli þínum að þú vitir ekki mikið um það svínarí sem er að eiga sér stað við þessa samningagerð. Allt í besta 2007 leyndarstíl þar sem opinberir aðilar beita sér í þágu einkahagsmuna og gegn langtíma hagsmunum almennings.

Allt sem á að kaupa er á niðursettu verði (hlutabréfin í HS Orku) en allt sem kemur á móti (td hlutur í HS Veitu) er metið á uppsprengdu verði. Það er talað um 30 m króna árlegt afgjald fyrir afnot af auðlindinni, sem er barandari, en gert ráð fyrir miklu lægra verði ef dæla þarf vatni niður í jarðveginn, sem er gert nú þegar. Almenningi og hagsmunaaðilum er stillt upp við vegg með því að halda samningnum leyndum og tímafrestir hafðir svo stuttir að engin alvöru umræða getur farið fram.

Ef þú getur nefnt einhver dæmi þess að eignarhald einkaaðila á takmörkuðum auðlindum hafi veitt neytendum betri þjónustu við lægra verði þá er tíminn til þess núna. Ef þú heldur að von sé á miklu nýju fjarmagni inn í landið vegna þessarar sölu þá er tíminn til að skoða það betur núna. En ef þú heldur að núna sé besti tíminn til að afhenda einkaaðilum nýtingarrétt á okkar auðlindum, þá liggja þínir hagsmunir hinu megin borðsins."

Guðl. Gauti Jónsson, 27.8.2009 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband