Þjóð í öngum

Þjóðin er í öng. 

Bjarni BenHvernig skyldi þeim vera innanbrjósts á þessari stundu formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, flokkanna sem bera höfuðábyrgð á því hvernig komið er, en láta eins og þeim komi afleiðingarnar ekki við? Ætla ekki að samþykkja Icesave samninginn "í núverandi mynd" eins og Bjarni Benediktsson orðaði það.

Sigmundur DavíðVikum og mánuðum saman hafa þeir þvælst fyrir Ice-save samkomulaginu með öllum tiltækum ráðum og haldið málinu í gíslingu. Já, þeir hafa hagað sér eins og slökkviliðsstjórinn sem hefur verið rekinn en getur ekki unnt slökkviliðinu að vinna sitt verk, heldur skrúfar fyrir vatnið á brunahönunum, til þess að sýna fram á að hann hefði getað unnið verkið einhvernveginn öðruvísi. Á meðan brennur húsið.

Óliku er saman að jafna framgöngu þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem lagt hafa nótt við dag að bjarga því sem bjargað verður af því að þeim er annt um þjóðina (ekki bara flokkinn, eins og hinum tveimur). Þau hafa mátt róa á móti andófi og áróðursskrumi stjórnarandstöðunnar af ábyrgð og festu. Þau hafa jafnvel mátt kljást við ístöðuleysi ákveðinna stjórnarliða sem líftóran hefur verið hrædd úr.

stjornAldrei hafa þau þó gripið til sterkra orða eða lýðskrums. Þau svara hverri spurningu af háttvísi og alvöru. Aldrei hafa þau hlaupið í persónulegt orðaskak. Nei, þau hafa staðið eins og stólpar upp úr þessu umróti öllu, haldið stillingu sinni og yfirvegun eins og sannkallaðir leiðtogar. Það fróma orð myndi mér þó aldrei til hugar koma um þá félaga Bjarna Ben og Sigmund Davíð.

En nú er ljóst - sem við máttum vita - að Íslendingar hafa enga stöðu gagnvart öðrum þjóðum í augnablikinu. Við erum einfaldlega álitin ójafnaðarmenn í augum umheimsins: Þjóð sem ekki vill standa við skuldbindingar sínar; þjóð sem ekki er treystandi; þjóð sem ól af sér kynslóð fjárglæframanna, hannaði fyrir þá vettvang til að athafna sig á, þar sem þeir gátu látið greipar sópa um fjármálakerfið og  narrað saklausan almenning til þess að leggja fé inn á reikninga, m.a. Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi.

GeirHaarde (Small)Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra lýsti þvi yfir í haust að allir innistæðueigendur myndu fá greiddar innistæður sínar í íslenskum bönkum. Sú yfirlýsing var bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Halda menn virkilega að þau orð hafi aðeins getað gilt um suma en ekki aðra? Annað hvort eiga innistæðueigendur rétt á endurgreiðslum úr íslenskum bönkum eða ekki. Svo einfalt er það og skiptir engu hvort um er að ræða Íslendinga, Breta eða Hollendinga. 

Málið snýst ekkert um það að "borga skuldir óreiðumanna" heldur að standa við alþjóðlegar og siðlegar skuldbindingar gagnvart innistæðueigendum í íslenskum bönkum.

Á meðan við ekki göngum frá Icesave samkomulaginu, fáum við enga aðstoð. Það erum við Íslendingar sem erum álitin óreiðumenn í augum umheimsins. Það vill enginn við okkur tala á meðan við sýnum engin merki þess að bæta ráð okkar.


mbl.is Stjórnvöld halda í vonina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að við hefðum bara axlað ábyrgð á skuldum upp á 300-1000 milljarða á háum vöxtum, veði í öllum eigum ríkisins og með styttri greiðslutíma en fyrirsjánlegt er að við ráðum við!!

Þá stæðum við ekki frammi fyrir þeirri hörmung að lán sem ekki á að nota strax frestaðist um einhverja mánuði.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 12:49

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Seðlabankinn hefur reiknað út greiðslugetu okkar í þessu sambandi, og komist að þeirri niðurstöðu að við getum staðið undir þessum samningi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.7.2009 kl. 13:00

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ósköp á þessi ríkisstjórn bágt.  Stjórnarandstaðan flækist svo illilega fyrir henni, að hún kemur engum málum í gegnum þingið. 

Hingað til hafa ríkisstjórnir verið með starfhæfan þingmeirihluta og ekki þurft að reiða sig á stuðning stjórnarandstæðinga, til þess að fá sín mál afgreidd.

Þú segir að ekki sé nóg með að veslingarnir Jóhanna og Steingrímur þurfi að kljást við þessa stjórnarandstöðudólga, heldur bætir við:  "Þau hafa jafnvel mátt kljást við ístöðuleysi ákveðinna stjórnarliða sem líftóran hefur verið hrædd úr. "

Það skyldu þó ekki vera hinir ýmsu lögspekingar og hagfræðingar, sem hafa verið að hræða blessaða stjórnarliðana? 

Svoleiðis einelti er auðvitað óþolandi.

Axel Jóhann Axelsson, 31.7.2009 kl. 13:00

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Ekkert fé er til í bönkunum í dag til að greiða Íslenskum fjármagnseigendum það fé sem þeir eiga þar inni. Samþykki Alþingi hins vegar Icesave þá vita þeir að Íslenska þjóðin verður skattlögð út í eitt til að þeir endurheimti sitt fé.

Hafni Alþingi hinsvegar Icesave samningnum þá skapast hjá þessum aðilum mikil óvissa. Verði samið um Icesave upp á nýtt og ríkið ábyrgist bara þessar 20.887 evrur þá mun það sama væntanlega yfir Íslenskar og erlendar kennitölur ganga. Margir Íslenskir aðilar sem telja sig eiga mikið fé inni í bönkunum, þeir munu þá tapa miklu fé.

Þess vegna eru það svo margir hér heima sem vildu keyra Icesave nánast umræðulaust í gegnum þingið og að þingmenn fengju sem minnst af gögnum um málið. Þetta átti bara að samþykkja.

Icesave samningurinn gengur nefnilega ekki bara út að gera upp við Breta og Hollendinga. Hann gengur út á að Alþingi staðfesti loforð Geirs Haarde frá því í haust að allar innistæður hér heima væru að fullu tryggðar af ríkinu, óháð fjárhæð. Þar lofaði Geir upp í ermina á sér með ekkert umboð frá Alþingi og tóma banka á bak við sig.

Margir þeirra sem nú berjast sem harðast fyrir því að þjóðin samþykki Icesave eiga tugi ef ekki hundruð milljóna frysta inni í bönkunum. Hvernig var t.d. með ráðuneytisstjórann fyrrverandi í fjármálaráðuneytinu? Seldi hann ekki hlutabréf sín í Landsbankanum tveim dögum fyrir hrun fyrir 130 milljónir? Hvar ætli það fé sé geymt? Á bankabók? Ef Alþingi staðfestir ekki Icesave og þar með loforð Geirs þá getur ráðuneytisstjórinn átt von á því að tapa því öllu nema sem svarar 20.887 evrum sem gera um 3,5 milljón.

Eiga menn eins og Indriði H Þorláksson og Svavar Gestsson háar fjárhæðir frosnar inni í bönkunum? Hvað með "sérfræðingana" í Seðlabankanum sem eru einu aðilarnir á Íslandi sem fullyrða að þjóðin geti borgað Icesvase og gefa sér ótrúlegar forsendur eins og að það fáist 75% upp í eignir Landsbankans, eiga þeir háar fjárhæðir bundnar þarna inni?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 31.7.2009 kl. 13:09

5 identicon

Ég held að þú vitir það jafn vel og aðrir að þessir útreikningar Seðlabankans voru hlægilegir.

Bankinn einfaldlega gaf sér þær forsendur sem hann þurfti um heimtur úr þrotabúinu, gengisþróun krónu og punds, hagvöxt, útflutning og annað til þess að láta dæmið ganga upp.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 13:10

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ekki er ég þess umkomin að rengja útreikninga Seðlabankans, þó að þú þykist vera það Hans.

Ég, eins og aðrir, verð einfaldlega að reiða mig á áreiðanleika þeirra stofnana og sérfræðinga sem leitað er til um mál ef þessu tagi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.7.2009 kl. 13:41

7 identicon

Ég efast um að þú getir fundið nokkurn sérfræðing sem er tilbúin að verja það af einhverri alvöru að spá um gengi pundsins eftir 10 ár sé eitthvað sem maður geti reitt sig á.

Þegar menn gera svona mat eiga þeir að reikna bæði bestu og verstu niðurstöðu og reyna að gefa mynd af því hvar á því bili líklegast er að hlutirnir lendi og þá hverjar líkurnar eru.

Þegar menn einfaldlega reikna sig að þeirri niðurstöðu að þetta gangi með því að velja sér forsendur sem engin leið er að þekkja þá er það ekki trúverðugt.

Annars mæli ég með því að þú farir yfir hagspár Seðlabanka Íslands (eða annarra seðlabanka) nokkur ár aftur í tímann. Þá yrðir þú ekki jafn hikandi við að taka hagspám með eðlilegum fyrirvara. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 13:58

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það sem mér finnst verst í þessu máli er að það er ekki hægt að reiða sig á einn eða neinn, menn eru of ósammála og tvísaga til að hægt sé að trúa nokkru.

Ásdís Sigurðardóttir, 31.7.2009 kl. 13:58

9 Smámynd: Agla

Ásdís talar fyrir munn margra þegar hún talar um hve efitt sé að trúa nokkru af því "okkur" er sagt.

Því miður finnst mér núverandi ríkisstjórn hafi vanmetið og vanrækt upplýsingaþjónustuskyldur sínar við þjóðina mjög alvarlega.                        Blaðamannafundir þeirra  gætu verið haldnir af fyrrverandi ríkisstjórn.Þeir eru hvorki fleiri að tölu né betur fallnir til að fræða okkur almenning um þann vanda eða hugsanleg úrræði sem stjórnin er að glíma við fyrir okkar hönd.

Mér finnst þessi skortur á upplýsingum mjög alvarlegt mál í lýðveldisríki sem hefur lélega fjölmiðlaþjónustu.                                              

Eiginlega er ég svolítið undrandi á ykkur þingmönnum um að hafa, að því er virðist, ekki gert neina alvöru tilraun til að bæta upplýsingaþjónustu stjórnvalda við okkur "fólkið í landinu".

Agla, 31.7.2009 kl. 15:28

10 Smámynd: Hrönn Ríkharðsdóttir

Ég er þeirrar skoðunar að neyðarlögin sem sett voru í haust hafi leitt okkur í þær ógöngur sem við erum nú í. Í lögunum kemur fram að það eigi að borga íslenskum innistæðueigendum og þar með var fjandinn laus. Ef aftur í móti lögin hefðu kveðið á um að allir innistæðueigendur í íslenskum bönkum (bæði hérlendis og erlendis) fengju greiddar 20887 evrur þá hefðu mál þróast með öðrum hætti og við sætum ekki uppi með ICESAVE-samningana í dag.

Hitt er svo annað mál og á ábyrgð hvers stjórnmálamanns fyrir sig hvort og hvernig hann treystir þeim samningi sem liggur fyrir Alþingi. Það eru vöflur á mörgum, þar með talið mér, sem er nú einlægur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar.

Hrönn Ríkharðsdóttir, 31.7.2009 kl. 16:51

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég er sammála þér Hrönn varðandi yfirlýsinguna sem gefin var um innistæðurnar í haust. Það hefði verið skynsamlegra að miða einfaldlega við lögbundið hámark innistæðna - þá væri margt öðruvísi en það er í dag.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.7.2009 kl. 17:05

12 Smámynd: Haukur Nikulásson

Við, sem getum horft yfir flokkspólitískar tilfinngar, sjáum bara þetta:

Núverandi stjórn er að eyðileggja það sem fyrri stjórn var búinn að eyðileggja!

Haukur Nikulásson, 31.7.2009 kl. 17:13

13 Smámynd: Hrönn Ríkharðsdóttir

Það hefur reynst þrautin þyngri að vinna sig út úr þeim vanda sem við blasti og gerir enn. Þeir flokkar sem sátu í ríkisstjórn til ársins 2007 geta ekki spilað sig fría við leit að lausn. Þeir vita betur en flestir aðrir hvað það þýðir að vera í ríkisstjórn (þ.e. með meirihluta á Alþingi) og bera ábyrgð. Sú ábyrgð hverfur ekki með einhverjum dularfullum hætti við það eitt að vera ekki lengur í ríkisstjórn.

Við hefðum öll gott af því að horfa þvert á flokkpólítískar línur öðru hverju. Um það erum við sammála, Haukur. Og það þarf að eiga við um alla flokka jafnt.

Hrönn Ríkharðsdóttir, 31.7.2009 kl. 17:25

14 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Ólína, mæli með bókinni Falið Vald.

Gunnar Skúli Ármannsson, 31.7.2009 kl. 18:02

15 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Held að þessir tveir ættu að sjá sóma sinn í því að sýna samstöðu með fólkinu sem er að moka flórinn eftir þeira flokka -og vera menn að meiri.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 31.7.2009 kl. 18:05

16 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég sé fyrir mér að þeir Bjarni og Sigmundur eru að reyna að skrúfa frá vatninu en Samfylkingin heldur að þeir séu að reyna að skrúfa fyrir af því að hún veit ekki í hvora áttina á að snúa.

Ég sé ekki speki í því Ólína að við eigum að borga bara af því að seðlabankinn segir að við getum eða af því að Geir Haarde sagði að við myndum gera það þvert á móti mörgum af okkar fremstu lögfræðingum sem segja að við eigum að freysta þess að fá samningsdrögunum breytt. 

Högni Jóhann Sigurjónsson, 31.7.2009 kl. 18:18

17 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Við sjáum bara hvernig það er núna, meira að segja Norðurlöndin draga lappirnar með að aðstoða okkur meðan við ekki samþykkjum. Högni, hvað viltu gefa okkur langan tíma til að freista þess að breyta samningnum?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 31.7.2009 kl. 18:30

18 Smámynd: Agla

Líflegt spjall eins og vanalega hjá þér Ólína.

Sjálfri finnst mér athugasemdir  10 og 11 sérlega athyglisverðar. Ég veit ekki hvaða grein "Neyðarlaganna" þær vísa til.

Ég hélt að samkvæmt lögum væru  inneignir reikningshafa  hjá einstökum íslenskum bönkum tryggðar upp að 20.887 evrum (ca 4,2 milj. ísl króna)  og að þjóðerni reikningshafa eða útibúið sem reikningurinn væri í skipti engu.

Agla, 31.7.2009 kl. 19:53

19 identicon

Af hverju ætti að samþykkja IceSave ÁÐUR en búið er að fangelsa og frysta eigur fyrrum eigendur og stjórnendur Landsbankans sem eru landráðamenn?

Það er engin sanngirni að almenningur taki á sig þessar byrðar á meðan auðrónarnir ganga enn lausir. Reynið að gera hlutin í réttri röð.

Babbitt (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 20:17

20 Smámynd: Ragnheiður

Mér tekst ekki að bera þetta traust til seðlabankans, til þess eru forsendurnar of lausar í reipunum. Ég er hrædd um að við komum ekki til með að ráða við þetta- en hver er hinn kosturinn og hvernig virkar hann þá ? Ég reyni að kynna mér þetta eftir föngum en álitin eru of mörg, hagsmunir álitsgjafanna standa líka í vegi fyrir því að mér finnist allir álitsgjafar trúverðugir.

Skelltu þér svo í mýrarboltann Ólína, það er minnsta drullusvaðið sem íslenskum þingmanni stendur til boða eins og sakir standa.

Kær kveðja vestur

Ragnheiður , 31.7.2009 kl. 20:24

21 Smámynd: Jón Sveinsson

Ef þessi stjórn væri stjórnað af fólki sem hugsaði um fólkið í landinu ,Myndi hún senda nýtt fólk til að semja við BRETA og Hollendinga, En ekki skrifa undir plögg sem er níðings samningur sem Svafar og kó komu með, Sem sagt Þjóðar skömm Jóhönnu og Steingríms.

Jón Sveinsson, 31.7.2009 kl. 20:47

22 identicon

"Ég, eins og aðrir, verð einfaldlega að reiða mig á áreiðanleika þeirra stofnana og sérfræðinga sem leitað er til um mál ef þessu tagi."

Nú er það vitað að Seðlabankinn eins og aðrar ríkisstofnanir eru meira og minna óstarfhæfar vegna pólitískra mannaráðninga undanfarinna áratuga og þar eru ekki hæfustu serfræðingar þjóðarinnar við stjórn.  Þú ætlar þér samt að vera þingkona og hlýta ráðum þeirra gagnrýnislaust.  Það mundi ég ekki gera í þínum spourm Ólína, því þingmenn þurfa að skilja hvað er í gangi og ef þeir gera það ekki fer illa!

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 21:08

23 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Hildiguinnur, eins og þarf.

Þetta eru samningsdrög sem skrifað er undir með fyrirvara og okkar færustu lögfræðingar mæla með að ekki verði skrifað undir, Indifencehópurinn hefur unnið mikkla rannsóknarvinnu og sagt að sé farin rétt leið þá sé samningnum hvorki hafnað né hann samþykktur heldur sé eins og hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum einfaldlega sest niður aftur og farið í gegnum samningsdrögin og menn reyni að nálgast sjónarmið hvers annars.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 31.7.2009 kl. 21:16

24 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæl dr. Ólína.

Lögfræði ESB/EES er ekki á þínu fræðasviði eins og ljóslega má sjá af pistlinum þínum.

Þá er Obama forseti bandaríkjanna fróðari en þú um hvers vegna efnahagshrunið varð. Þetta má sjá þegar hann var að setja flókinn efnahagslegan hlut í einfaldan búning svo að almenningur skildi hann. Hann sagði eitthvað á þennan veg : Hugsið ykkur bara,  maður keypti sér íbúð í Kaliforníu og það varð bankahrun á Íslandi !  

Obama lét sér ekki detta í hug að segja það Bush að kenna að Lehmans brothers féll, enda var það ekki honum að kenna, þó það hafi gerst á „hans vakt“ eins ómur úr frægri setningu hljómar. Þannig tala samt þú og margir aðrir eins og þessi pistill þinn sannar.

Tökum okkur orð Stormskers í munn þegar hann sagði að við skyldum kenna Davíð um það sem væri honum raunverulega að kenna eins og síðari heimsstyrjöldin og morðið á John Kennedy.

Stefán Már Stefánsson lagaprófessor mun vera sá lögspekingur á Íslandi sem þekkir reglur og lög Evrópusambandssins/EES hvað best. Hann ásamt öðrum góðum lögmanni, Lárusi Blöndal hrl., hefur skrifað einar 5 greinar þar sem þeir rekja það hverjar skuldbindingar eru í lögum og reglum um bankastarfsemi á þessu svæði og bankarnir störfuðu eftir undir árvökulu arnarauga ráðherra bankamála honum Björgvini.

Þeir hafa lagt fram skír rök fyrir því að engin skuldbinding er á íslenska skattgreiðendur umfram það sem er til í innistæðutryggingasjóðnum. Það gildir jafnvel þó að í ljós kæmi að bankarnir hefðu vanrækt að greiða sinn hlut í sjóðinn.

Sömuleiðis komast þeir með lagarökum sínum að því að þó svo að hér hafi verið ákveðið að við greiddum úr sjóðum skattgreiðenda til að bæta íslenskum innistæðueigendum upp í topp innistæður sínar, gerir okkur ekki heldur skuldbundna við þá bresku eða hollensku.Þessi rök þeirra hefur enginn hrakið með neinum lögskýringum, ekki frekar en þú dr. Ólína í þessum tilvitnaða pistli þínum.

Það eina sem hefur heyrst gegn þeim eru upphrópanir slagorðasmiða.Þetta segir okkur að við getum róleg farið að ráðum Davíðs Oddssonar frá því í upphafi, að við, skattgreiðendur, eigum ekki að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum sem þeir stofnuðu til í gegn um einkafyrirtæki sín.

Þeir sem telja sig eiga kröfu á íslenska skattgreiðendur sækja auðvitað þá kröfu sína í gegn um dómstóla. Það er lögvarinn réttur þeirra eins og kemur fram í grein sem Jón Steinar Gunnlaugsson dómari skrifaði á dögunum í Morgunblaðið.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 31.7.2009 kl. 21:36

25 Smámynd: Sævar Helgason

Siðferðishnignun þessarar þjóðar á upphaf sitt í varnar "samstarfi" okkar við BNA sem stóð í heilan mannsaldur. Við fengum öllu okkar framgengt gagnvart alþjóðasamfélaginu- Keflavíkurstöðin var vopnið sem notað var allan þennan tíma. Hótanir um lokun Keflavíkurstöðvarinnar var beitt alveg miskunnarlaust af okkar hálfu til að knýja á um allskyns fríðindi og undanþágur gagnvart erlendum aðilum okkur í vil.  Þessir tíma eru liðnir - en hugarfarið er ennþá við líði - einkum innan þeirra flokka sem mest græddu á veru varnarliðsins - við vitum hverjir þeir eru....  Nú er umheimurinn að sýna okkur - alveg vægðarlaust - að við erum ábyrg gerða okkar og verðum sjálf að standa við okkar skuldbindingar.... Það er hin mikla breyting  sem margir eru vakna upp við... Við eigum bara einn kost - samþykkja ICE-Save samninginn og það nú þegar...

Sævar Helgason, 31.7.2009 kl. 23:07

26 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sævar :  Þú ert orðinn það roskinn sem á grönum má sjá að þú talaðir ekki svona ef þú héldir að þú þyrftir að bera þennan kostnað með okkur hinum áður en þú hverfur til feðra þinna.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 31.7.2009 kl. 23:13

27 Smámynd: Sævar Helgason

Þú sem skrifar undir dulnefni hugleysingjans "Predikarinn"  

Það veit enginn hver grefur hvern.  Ungir hverfa héðan og gamlir hverfa héðan. Meðan við lifum er okkar réttur að hafa skoðanir á nútíð og framtíð. Einnig eigum við börn og barnabörn-foreldra-vini o.s.frv.  Þannig að athugasemd þín er - bull....

Sævar Helgason, 31.7.2009 kl. 23:27

28 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sævar : Ekki meira bull en það að þú vilt hneppa afkomendur þína og annarra sem og vini þína o.s.frv.  í skuldafjötra ánauðar alveg án þess að blikna þó að lög og reglur alþjóðasamfélagsins sem og okkar gera okkur ekki skuldbundin til að gera það ?

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 31.7.2009 kl. 23:31

29 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Ömurlegur pistill Ólína - Samfylkingin á mikla sök á Icesave og ekki skil ég að það að Icesave"samningurinn" sé nokkur björgun. 

Helga Þórðardóttir, 1.8.2009 kl. 00:07

30 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Ef aftur í móti lögin hefðu kveðið á um að allir innistæðueigendur í íslenskum bönkum (bæði hérlendis og erlendis) fengju greiddar 20887 evrur þá hefðu mál þróast með öðrum hætti og við sætum ekki uppi með ICESAVE-samningana í dag"

Eg get tekið undir að mál hefðu eflaust þróast eitthvað öðruvísi en - afhverju sætum við ekki uppi með icesavesamningana ?

Hvernig átti trygginarsjóður eða stjónvöld að greiða erlendum innstæðueigendum um 700 milljarða ? (í erlendri mynt)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.8.2009 kl. 00:09

31 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Hér er fróðleg lesning :

Júlíus BjörnssonJúlíus Björnsson

16.7.2009 | 01:45

Hversvegna ríkið ber ekki ábyrgð á innstæðum innlánara í fjármálastofnunum Meðlimaríkja EU eða aðildarríkja að EU efnahagsvæðinu? Tilskipun EU frá um 1994 svarar  undir hvaða kringumstæðum ríkinu ber slíkt ekki með Málsgrein tveggja "conditional" [skilyrði, aðstæður] setninga, sem hefjast á þar eð [= þar sem] og úr því að [= fyrst].

Bein þýðing tekið tillit til setningafræði og lögfræði merkinga er að kröfu réttaríkisins Franska vel skilgreind og auðskiljanleg málsgrein:

Þar eð þessi tilskipun getur EKKI skuldbundið meðlimaríkin eða lögmæt yfirvöld þeirra hvað varðar innlánara,

úr því að þau hafa séð um stofnun eða opinbera viðurkenningu eins eða fleiri kerfa

sem ábyrgjast innistæðurnar eða lánastofnanirnar sjálfar

og

sem tryggja skaðabæturnar eða vernd innlánaranna

í aðstæðum sem þessi tilskipun skilgreinir;     

Samanber franska lagatextann:

Considérant que la présente directive NE peut avoir pour effet d'engager la responsabilité des États membres ou de leurs autorités compétentes à l'égard des déposants,

dès lors qu'ils ont veillé à l'instauration ou à la reconnaissance officielle d'un ou de plusieurs systèmes

garantissant les dépôts ou les établissements de crédit eux-mêmes

et

assurant l'indemnisation ou la protection des déposants dans les conditions définies par la présente directive;

Hver er ábyrgur á meintri þýðingu sem fylgir er stór spurning í ljós þess misskilnings hún hefur leitt til hjá miður lærðum. 

Tilskipun þessi getur EKKI gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 1.8.2009 kl. 00:12

32 Smámynd: Katrín

mér þykir þú skauta all-liðlega yfir þætti Samfylkingarinnar...man ekki betur að sá flokkur hafi verið í stjórn við bankahrun með sjálfan bankamálaráðherrann og ráðherra utanríkis..hvorir tveggja miklir talsmenn Alþjóðafjármálamiðstöðvar á Íslandi. 

En ,,hver á sökin" er leikur sem ég hef lítinn áhuga á en hins vegar þætti mér leikurinn ,,hver er lausnin fyrir fólkið í landinu" vera afar spennandi en er því miður ekki í boði ennþá...menn uppteknir við annað...

Katrín, 1.8.2009 kl. 00:19

33 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Þetta er einhver mesta della sem ég hef lesið frá þér. Talandi um að sjá ekki skóginn fyrir trjám og allt það. Meirihlutann af líftíma Icesave var það þinn flokkur og Björgvin G sem fóru með bankamálinn. Formaðurinn þinn sem blessunarlega hefur ekkert spurst til í langan tíma ber ekki minni ábyrgð en þeir tveir sem þú telur upp. Hvernig þú afgreiðir þetta og skautar yfir ykkar þátt segir mest um þig sjálfa, og þær ranghugmyndir sem fylla kollinn á þér þessa dagana.

Ingólfur H Þorleifsson, 1.8.2009 kl. 00:50

34 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Fyrrverandi formaður svo allt sé rétt.

Ingólfur H Þorleifsson, 1.8.2009 kl. 00:52

35 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Ólína,

þú veltir fyrir þér hvernig arftökum í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum líði. Sjálfsagt svipað og börnum foreldra sinna, finnst það skítt ef þau frömdu afglöp en bera enga beina ábyrgð á því. 

Samfylkingin ber í raun mesta ábyrgð. Hún gagnrýndi stefnu D og B hástöfum á sínum tíma. Því getum við sagt að Samfylkingin vissi betur, hún hafði komist nær sannleikanum en D og B. DB flokkarnir voru sokknir í sína eigin sjálfsblekkingu en Samfylkingin lét í það skína að hún vissi betur og skyldi svo sannarlega berja í brestina. Hvað gerði hún svo eftir að hún komst í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Skellti sér í sukkið án þess að blikna. Það eru púra svik. Eina sem þið hafið boðið íslenskri alþýðu upp á er umsókn um aðild að ESB. Til að koma því baráttumáli ykkar á koppinn hafið þið selt landið, þið hafið kastað fyrir róða allri gagnrýnni hugsun. Veltið ekki fyrir ykkur skuldastöðu þjóðarinnar. Hamist við að láta samlanda ykkar taka á sig ómæld lán. Skuldasúpu sem mun leiða þjóðina til örbirgðar. Lestu nú bókina Falið Vald og farðu að kveikja á perunni kæra Ólína.

Gunnar Skúli Ármannsson, 1.8.2009 kl. 00:53

36 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Predikari, nei þetta er eigi áhugaverð lesning.  Þetta er rugl.

þú skalt lesa hvernig Bretarnir leggja málið sirkabát upp:

http://www.island.is/media/frettir/28.pdf

Og þessu ætlið þið gegn með hvað? Að nóg hafi verið að hafa tóman sjóð en að borga - það hafi verið meira eða minna aukaatriði!

Þvílíkt malbik.

(Reyndar taka bretarnir þetta atrið sérstaklega fyrir og velta fyrir sér frá nokkrum hliðum.  En málið í heild á sér miklu fleri hliðar.    Bretarnir geta eiginlega bara pikkað það eða það atriði úr sem þeir vilja.  Þeir eru með öll trompin á sinni hendi!  Öll trompin. 

Eina fræðilega vangaveltan sem er uppi, er í rauninni: Hvernig hefði þetta þróast ef ísland hefði ekki ábyrgst krónu af íslenskum innstæðum.  Ef allar innstæður íslendinga hefðu þurkast út sem sagt.  Hvað þá.)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.8.2009 kl. 00:59

37 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Ó Ólína hve einfalt það er að kenna öðrum um, hví fór fyrrum formaður SF í sáttaferð á fund LÍÚ greifanna á sínum tíma greifa sem vörðuðu vegferðina að núverandi ástandi ?

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.8.2009 kl. 02:10

38 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Íslendingar verða að borga IceSave til að eiga einhvern möguleika til að öðlast traust nágrannaþjóða og fjármálaheimsins aftur.

Ef menn vilja gera þetta að lögfræðilegu álitamáli eingöngu má sjálfsagt finna ýmsar lagatæknilegar leiðir til að reyna að sleppa.

Það breytir ekki því að íslenska ríkið undirgekkst þá skyldu að koma á fót innistæðutryggingarsjóði sem dygði til að tryggja innstæður. Sparifjáreigendum var sagt að innstæður þeirra væru tryggar bæði af Landsbankanum og íslenskum yfirvöldum. Þá þýðir ekki að koma núna og segja að við meintum ekkert með þessu.

Þar fyrir utan vita báðir aðilar að við erum borgunarmenn fyrir láninu nema eitthvað óvænt komi upp á næstu árum.

Nefna má þrjú atriði sem hvert um sig gæti gert okkur auðvelt að borga IceSave:
- Mikil fjárhagslegur ávinningur af ESB inngöngu myndi gera meira en duga til að borga IceSave á nokkrum árum.
- Fyrning kvóta og uppboð á veiðikvótum myndi skila 30 miljörðum á ári í auðlindarentu sem myndi duga fyrir IceSave á 10-15 árum. Fram að þessu hefur þessi renta runnið til útrásaræfintýra kvótagreifa og einkaneyslu þeirra. (sjá nánar á http://www.uppbod.net)
- 1000 MW virkjun sem seldi rafmagn um sæstreng til Evrópu myndi greiða fyrir IceSave á10-15 árum.

Ef IceSave er ekki samþykkt gæti hafist langt þref um nýjan samning eða enn lengri bið eftir niðurstöðu alþjóðadóms á meðan endurreisn Íslands væri í biðstöðu og fyrirtækjum blæðir út. Fjárhagstjónið sem hlytist af því gæti auðveldlega orðið margfaldur IceSave reikningurinn.

Finnur Hrafn Jónsson, 1.8.2009 kl. 02:17

39 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Ég leyfi mé að rengja útreikninga Seðlabankans. Bankans sem sagði í fleiri ár að "allt væri í góðu lagi". Ég leyfi mér að rengja staðhæfingar þínar, ef ég má vitna í þín orð ágæta Ólína, að Seðlabankinn hafi "komist að þeirri niðurstöðu að við getum staðið undir þessum samningi. Þetta er með ólíkindum.

Síðan eitt til: Orð Geirs Haarde eru ekki bindandi. Ólíkt páfaúrskurðum, páfabúllunum, eru forsætisráðherrar ekki yfir gagnrýni hafnir. Þeir geta gert mistök og þá er ekki annað að gera en að leiðrétta mistökin. Ísland er ekki í neinni stöðu núna að vera gjafmilt og "bjóða öllum á barnum" í evrópska samfélaginu. Tími velvildar mót ESB er horfinn fyrir löngu síðan, eða þá er ESB byrjaði að bregða fæti fyrir okkur.

Baldur Gautur Baldursson, 1.8.2009 kl. 09:03

40 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Sæl Ólína,

Ef þú hefur lesið grein Evu Joly í morgun þá vonandi sérðu ljósið í þessu hörmulega Icesave máli. Þannig ættirðu frekar að hrósa þeim sem þú lastar hér í bloggi þínu, fyrir að hafa komið í veg fyrir að Íslendingar verði kúgaðir með þeim samningi sem Svavar Gestsson kom með heim. Sjá einnig blogg mitt í morgun.

Kveðja, JBL

Jón Baldur Lorange, 1.8.2009 kl. 12:41

41 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Það er ótrúleg blinda - að ég segi ekki rangsleitni - af mörgum sem hér hafa talað, að hvítþvo þá flokka sem hér er um rætt (Sjálfstæðislfokk og Framsóknarflokk).  Kenna mér svo um að beina sökinni frá Samfylkingunni. Er þá bannað að tala um staðreyndir? Má ekki ræða ábyrgð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks af því Samfylkingin var í ríkisstjórn með þeim fyrrnefnda í 18 mánuði?

Það er fjarri mér að firra Samfylkinguna ábyrgð. Forysta Samfylkingarinnar hefur heldur ekki firrt sig ábyrgð. Þvert á móti, er Samfylkingin nú að vinna björgunar og rústastarfið í þrotabúi Sjálfstæðisflokksins. Það er staðreynd.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hinsvegar firra sig ábyrgð. Þeir ætla ekki að koma nálægt björgunarstarfinu. Vei þeim, sem þannig "axla ábyrgð" sína.

Svo vil ég taka það skýrt fram að ég hika ekki við að henda út meinfýsnum og ómálefnalegum athugasemdum, sérstaklega ef þæpr koma frá nafnleysingjum

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.8.2009 kl. 14:45

42 Smámynd: Landfari

Grundvallarmiskilnigur þinn Ólína liggur í því að halda að þessi samningur sé það haldreipi sem dregur okkur upp úr skítnum.

Þvert á móti er hann það reipi sem fjörtar okkur um langa framtíð og bindur hendur okkar og fætur þannig að við fáum ekkert að gert  ef eitthvað kemur uppá.

Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að ekkert rigni næstu 15 árin þannig að fenið sem við erum í þorni á tímabilinu og við höfum aftur fast land undir fótum. Líkurnar á því eru hverfandi þó að auðvitað eigi maður aldrei að segja aldrei ef maður vill vera óhóflega bjartsýnn.

Það er svo út í hött að halda því fram að við ein séum ábyrg fyrir því hvernig fór. Fjármálaeftirlit Hollands og Bretlands vísa frá sér allri ábyrgð og segjast ekkert hafa getað gert. Það er einfaldlega rangt. Þeir stöðvuðu Glitni í að leika sama leikinn. Það fyrrir hinsvegar ekki íslenska fjármálaeftirlitið ábyrgð en þar var Samfylkingarmaðurinn Jón Sigurðsson á toppnum. Fyrirfram hefði ég treyst honum öðrum mönnum betur í þetta verkefni en svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Staðreyndin virðsit vera sú í dag að við værum miklu betur stödd ef við hefðum hreinlega ekki haft neitt fjármálaeftirlit hérna.

Ég á erfitt með að trúa því að jafn greind manneskja og þú ert geti verið svona blind. Ertu búin að lesa greinina hennar Evu í Mogganum? 

Þessi pistill þinn fær mig til að velta vöngum yfir hvort þú sért fyrst og fremst að hugsa um eigin hagsmuni, þá flokksins og svo þjóðarinnar. Ég hef séð svo margt betra eftir þig en þennan kattarþvott. Við vorum bankamálaráðherra sem ekki ræddi við seðlabaknasjóra á annað ár á miklum umbreytingartímum í íslensku fjármálalífi. Hvað var hann eiginlega að gera? Hvað var formaður stjórnar fjármálaeftirlitsins að gera allan þenna tíma, annað en skrifa lofræður um banakana í dreifibréf þeirra, meðan Sjóvá var að "gambla" með bótasjóðinn sinn.

Æ, jú auðvitað, þetta er allt Davíð nokkrum Oddsyni að kenna. Ég var bara alveg búinn að gleyma því. En bíddu nú við. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu tók við völdum var brýnasta maíð að koma Dvíð þessum frá Seðlabankanaum.  Hvað hefur breyst við brotthvarf hans? Styrktist krónan? Lækkuðu stýrirvextir? Fækkaði gjaldþrotum heimila og fyrirtækja?

Ég get alveg tekið undir með þér að Steingrímur og Jóhanna hafa staðið sig vel í því sem þau eru að gera. Eini gallinn, og hann er stór, er að þau eru bara ekki að gera rétta hluti.

Landfari, 1.8.2009 kl. 16:23

43 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Rústabjörgun - öllu má nú nafn gefa.  Mannréttindabrotin í sjávarútvegi halda áfram í sjávarútvegi og verið er að kvótasetja tegundir sem ekki næst að veiða s.s. úthafsrækjuna.

Jóhanna og Steingrímur J. eru á fullu í að hylma yfir bankaglæpum. Starfmaður Steingríms, kúlubankastjórinn Finnur Sveinbjörnsson heimtar ritskoðun þegar ógeðið kemst upp á yfirborðið.

Ólína í hvaða liði ert þú?

Sigurjón Þórðarson, 1.8.2009 kl. 16:34

44 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég er a.m.k. ekki í liði með þeim sem gera hróp að björgunarmönnum úr öruggu skjóli "andstöðunnar" þar sem enginn þarf að axla ábyrgð og allir geta verið besservisserar án þess nokkurn tíma að þurfa að standa við stóryrði sín.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.8.2009 kl. 22:40

45 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Oft er þess nú krafist að fólk segi sig frá verkum og axli þannig ábyrð, mér hefði fundist það best varðandi annsi marga í Samfylkingunni.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 1.8.2009 kl. 22:44

46 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Aðeins meira: Ólína þú talar eins og Ingibjörg Sólrún gerði í haust það voru meira og minna VG liðar sem voru að mótmæla og að við værum ekki þjóðin.

Fólk er ekki að kalla neitt í skjóli einhvers, fólk er reitt og þegar þingmenn sem eru í SF, Sjálfstæðis og Framsókn fara í gömmlu skóna og reyna hvert í kapp við annað að nýða af hinum skóinn þá sjáum við eftir atkvæðum okkar hvert af öðru, það er bara ekki flóknara en það Ólína að þið eruð ekki að standa ykkur og eigið að axla ábyrðina og koma ykkur frá svo hægt sé að bjarga því sem bjargað verður.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 1.8.2009 kl. 22:56

47 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Högni - hvernig vilt þú að ég "axli ábyrgð"?? Ég settist á þing í maímánuði, bauð  mig til starfa fyrir þjóð mína og er að gera mitt besta.

Við erum kannski ekki sammála ég og þú - en ég hef mína eigin skoðun - ígrundaða skoðun sem ég yfirvega á hverjum einasta degi.

Ég horfi á hluti í samhengi. Því miður hefur borið of mikið á því undanfarið að hlutir hafa verið teknir úr samhengi.

Hafðu þína skoðun í friði fyri mér - en ekki væna mig eða aðra  nýja þingmenn um að vera ekki að "axla ábyrgð", því það er einmitt það sem við erum að gera (fyrir aðra).

Og höfum eitt alveg á hreinu.  Þú skalt ekki tala eins og ég sé ekki hluti af minni þjóð. Því síður hefur þú leyfi til að gera mér upp orð eða hugsanir. Ég hef aldrei talað eða hugsað á þann hátt að einhverjir í þessu landi séu ekki þjóðin.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.8.2009 kl. 23:24

48 identicon

hvernig væri nú að heimta að þjófarnir sem tæmdu bankana skiluðu peningunum aftur, núna vitum við eftir birtingu leyniskjala þjófsnautana hverjir fengu alla peningana okkar.

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 01:55

49 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Er ekki SDG búinn að vera jafn lengi á þingi og þú. Hann kom inn í Framsókn mjög snökkt í vor. Er ekki ykkar ábyrgð álíka mikil.

Ingólfur H Þorleifsson, 2.8.2009 kl. 09:49

50 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Flokkur hans hefur verið ólíkt lengur í stjórn með sjálfstæðisflokknum en aðrir flokkar, og ber því - ásamt sjálfstæðisflokknum - höfuðábyrgð á þeirri frjálshyggju- og græðgisvæðingu sem reið hér húsum í samfélaginu og olli hruninu. SDG væri nær að vinna með stjórnvöldum að lausn mála eins og nú er ástatt, og sýna þar með ábyrgð og umhyggju fyrir þjóð sinni, heldur en að haga sér eins og hann gerir.

Menn geta axlað ábyrgð með málflutningi sínum og afstöðu - með því að hlaupast ekki undan merkjum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.8.2009 kl. 11:12

51 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er greinilegt að Ólína er þegar öllu er á botnin hvolft nokkuð sátt við stjórnvöld sem hún styður í svokölluðu "endurreisnarstarfi" í ríkisbönkunum og áframhaldandi mannréttindabrotum í sjávarútvegi.

Það er nú eins og það er og lítið við því að segja.

Sigurjón Þórðarson, 2.8.2009 kl. 11:33

52 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég hélt Sigurjón að við værum sömu skoðunnar í sjávarútvegsmálum, þ.e. mótfallin núverandi kvótakerfi og óréttlætinu sem af því hefur hlotist. Veit ekki betur en að ég og sá flokkur sem ég tilheyri séum nú að stíga skref í þá átt að afnema þetta kerfi - það hefur kannski farið framhjá þér.

Þér er kannski meira í mun að sverta mig (eða Samfylkinguna) en að ræða hér af rökvísi um það málefni sem til umræðu er?

Við öðru hefði ég þó búist af fyrrverandi alþingismanni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.8.2009 kl. 12:41

53 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Og enn styrkist trú mín á það að Samfylkinginn hafi verið stofnuð 1 febrúar 2009 og hafi bara ekki verið til fyrir þann tíma.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 2.8.2009 kl. 12:44

54 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ólína topparnir í Samfylkingunni áttu að fara frá, þannig hafið þið SF fólk krafist þess í gegnum tíðina að þær ríkisstjórnir í það og það skiptið axli ábyrgð og segi af sér.

Það sem er verið að kalla eftir núna er það sama og þið kölluðuð eftir að ríkisstjórnin taki til hendinni og geri eitthvað annað en að bíða eftir kosningum um ESB, það verður fellt. Ólína þið ráðið ekkert við verkefnið og því fyr sem þið farið frá því fyr verður hægt að fara að vinna.

Að bera ábyrgð er eitt Ólína en að vera er annað og svo stór hluti af Samfylkingarfólki er á kafi í sukkinu að þið eigið ekki að kalla mjög hátt.

Ólína mín ég sá strax í gegnum skrif þín í haust og hætti mjög fljótlega að taka þátt í þeim umræðum sem þú komst á til þess eins að koma þér upp kjósendum á þing í gegnum Samfylkinguna, en eins og þú skrifaðir til að byrja með um hrunið og þáverandi þingmenn hélt fólk greinilega að þú ætlaðir Fram með einhverju af nýju framboðunum og taka þátt í því að fá allt upp á borðið, en svo geriðrðu lítið annað en að reyna að nýða af þingmönnum annar flokka skóinn.

Og vert þú ekki að telja mig þann aumingja að vera að kalla eitthvað að ónýtri ríkisstjórn í skjóli einhverra "andstöðunnar" eins og þú gerir hér að ofan ég kalla samkvæmt minni skoðun og þú ert þingmaður, þauðst þig Fram til verka fyrir þjóðina og einhverja aðra og enn og aftur gastu ekki slegið á lykklaborði öðruvísi en að þóknast flokksapparatinu og skotið á aðra þingmenn, og á meðan þú ert í vinnu fyrir mig geri ég kröfur til þín og þó að þú sért kaftfor þegar á því þarft að halda þá skal ég segja þér að þú vilt frekar sjá skrif mín hér enn að heyra í mér í síma.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 2.8.2009 kl. 12:57

55 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Högni minn - ég veit ekkert hvaða flokk þú styður, og mér kemur það ekkert við. Ég vinn fyrir þig eins og alla aðra kjósendur, því það er mitt hlutverk. En í starfi mínu sem þingmaður verð ég að vinna eftir minni bestu samvisku. Svo mikið veit ég, og samvisku minni mun ég hlýða, þó ég sé vissulega tilbúin að hlusta á bæði þig og aðra. En ég læt ekki stjórnast af neinu nema mínu eigin hyggjuviti og samvisku - til þess var ég kosin á þing, sjáðu.

Ég hef aldrei dregið dul á það að ég væri Samfylkingarkona - ekki heldur þegar hrunið varð. Ég veit ekki hvað þú hefur lesið í orð mín, en ég hef alltaf talað frá eigin brjósti og fylgt sjónarmiðum jafnaðarstefnunnar.

Þessi eiginleiki minn hefur stundum komið mér í koll  en svona er ég nú bara, hvort sem þér líkar betur eða verr.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.8.2009 kl. 13:23

56 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Högni Jóhann Sigurjónsson, 2.8.2009 kl. 13:25

57 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Seðlabankinn hefur reiknað út greiðslugetu okkar í þessu sambandi, og komist að þeirri niðurstöðu að við getum staðið undir þessum samningi.

Ég hefði talið að kona í þinni stöðu ætti að geta séð í gegnum þessa "fancy" útreikninga seðlabanka Íslands, þar sem búið er að gefa sér fáránlegar forsendur.

Ég vona að þetta sé ekki það sem maður má búast við af þessari ríkistjórn að ef það er birt eitthvað fínt kökurit í excel þá er allt gott og blessað, skiptir engu máli hvað það segir eða hvernig það var fengið út, sérstaklega þar sem það er ekkert mál að búa til liggur við hvaða útkomu sem er ef maður notar "réttu" forsendurnar!

Halldór Björgvin Jóhannsson, 2.8.2009 kl. 14:19

58 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ólína ég hef ekki orðið var við þetta skref .  Ég veit ekki betur en að trillan hans Ása í Sandgerði sé enn innsigluð og að stjórnvöld hafi ekki enn komið á móts við þá Erling Svein Haraldsson og Örn Snævar Sveinsson. 

Ég hitti Erling á sundmóti um daginn og þá kom fram að stjórnvöld Samfylkingar og Vg hefðu ekki einu sinni rætt við þá félaganna um hvernig þau ætluðu að koma á móts við álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Á sama tíma berst kvittur út úr bönkunum um milljarða afskriftir á skuldum greifanna.

Sigurjón Þórðarson, 2.8.2009 kl. 15:23

59 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Sæl Ólína,

Málefnalegur pistill.  Ég er sammála þér að Steingrímur hefur komið á óvart.  Ég hafði miklar efasemdir um hæfni hans til að gegna fjármálaráðuneytinu en sem betur fer hefur honum tekist allvel í afskaplegra erfiðri stöðu.  Ég sé ekki neinn annan stjórnmálamann í hinum flokkunum sem væri yfirgnæfandi betri.

Steingrímur er orðinn sannur "realpolitik" sinni sem er einmitt það sem við þurfum nú.   Icesave er ömurlegt mál og samningurinn ekki góður en við erum þar sem við erum og getum ekkert annað.

Það þýðir ekkert að vera í einhverri kjánalegri innanlandspólitík þegar efnahagsleg framtíð landsins er í veði.  Þeir sem segja nei við Icesave hafa engin plön, það er málið.  Þeir haga sér eins og í rússneskri rúllettu.  Allt gæti reddast en það er möguleiki að allt fari á versta veg með ófyrirsjáanlegu atvinnuleysi, fátækt og landflótta.  Það er gjörsamlega óábyrgt af okkar stjórnmálamönnum að spila með framtíð landsins á þennan hátt sérstaklega hjá þeim sem eiga að vita betur.

Með því að samþykkja Icesave eyðum við þessum tortímingar möguleika.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 2.8.2009 kl. 18:57

60 Smámynd: Óskar Þorkelsson

það er greinilegt eftir lesturinn á andsvörum manna og kvenna hér að fólk vill horfa framhjá þeim sem virkilega bera ábyrgðina til þess eins að skítabletturinn á FLOKKNUM þeirra sjáist síður...

góður pistill Ólína.

Óskar Þorkelsson, 2.8.2009 kl. 21:45

61 identicon

Ólína mig lagar að spyrja einar spurninga sem á að vera auðvelt að svara fyrir þig, Hún er þessi.

 Er það eina leiðin til samstarfs stjórnar og stjórnarandstöðu að stjórnarandstaða samþ. allt sem frá stjórn komi athugasendalaust ? 

Er ekki bara að tala um þetta mál hér mér hefur fundist á málflutningi þínum í mörgum málum að núverandi ríkistjórn sé yfir gagnrýni hafin. 

Ásgeir Ingvi Jónsson (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 01:41

62 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ásgeir, þetta er eimitt mín tilfinning, sjáðu sem dæmi hvernig Óskar skrifar hér fyrir ofan hann hefur aldrei komið með neitt annað þetta bara í mismunandi útgáfum.

Ásgeir, þetta er þannig í þinginu að það eina sem þingmaður þarf að vita til að geta greitt atkvæði er hvoru megin frá kom tillagan.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 3.8.2009 kl. 13:34

63 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Högni ertu að setja út á mín skrif eða einhvers annars ?  Því ef þú ert að agnúast út í það að ég segi að þingmenn og stuðningsmenn þeirra horfi framhjá ábyrgð sinna flokka til að komast hjá því að skíturinn þeirra komist á yfirborðið.. þá sé ég ekki betur en að þú sért mér sammála í síðustu setningu þinni:

 Ásgeir, þetta er þannig í þinginu að það eina sem þingmaður þarf að vita til að geta greitt atkvæði er hvoru megin frá kom tillagan.

Kannski fellur þú í flokkinn sem ég tala um... 

Óskar Þorkelsson, 3.8.2009 kl. 13:50

64 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég hef lengi talað fyrir auknu og bættu samstarfi milli stjórnar og stjórnarandstöðu - og það er af og frá að uppskriftin að því hvort mér finnist talla góð sé að hún komi frá stjórnarliðinu. 

Þannig er það alls ekki - hvað svo sem einhverjum kann að "finnast".  Slíkt væri heimskulegt. En því miður þá er stjórnarandstaðan full oft í þeim stellingum, finnst mér, að dæma allt út í hafsauga sem kemur frá stjórninni vegna þess að þau telja það skyldu sína sem stjórnarandstæðinga. Þannig er það nú bara - því miður.

Það þarf tvo til að dansa tangó.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.8.2009 kl. 14:18

65 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

 "tillaga" á þetta nú að vera (ekki "talla") ;)

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.8.2009 kl. 14:18

66 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Óskar,það er greinilegt eftir lesturinn á andsvörum manna og kvenna hér að fólk vill horfa framhjá þeim sem virkilega bera ábyrgðina til þess eins að skítabletturinn á FLOKKNUM þeirra sjáist síður...  Þú lítur greinilega svo á Samfylkingin sé yfir gagnrýni hafin, er einn af þeim sem hef verið að derra mig hérna (hefði reyndar viljað sjá Ólínu fara Fram með einhverjum af nýju framboðunum) og hef ekki hinn minnsta áhuga á að horfa framhjá neinum sem bera ábyrð í hruni bankanna og enn síður að það sé skítablettur á einhverjum af flokkunum, en ég tek undir með hverjum sem segir að allir fjórflokkarnir séu meira og minna innvinnklaðir í sukkið í kringum bankahrunið.

Ég er alls ekki að agnúast út í skrif þín heldur nefndi þau sem dæmi fyrir því hvernig Samfylikngarfólk og VG fólk talaði áður til fyrri ríkisstjórna en í dag eru þessir sömu flokkar hafnir yfir alla gagnrýni í augum sama fólks.

Óskar ég hika ekki við að setja út á það sem mér finnst athugavert hvort heldur það er hjá meirihlutanum eða minnihlutanum og hef alltaf gert og ætla að gera áfram stundum er það réttmætt en stundum er það á misskilningi byggt og er bara hreinntbull sem þá vellur yfir tennurnar í mér, en tvískynnung sýni ég ekki vísvitandi og haltu endilega áfram að smjaðra fyrir stjórnarmeirihlutanum einhver verður að sýna þeim stuðning, þeim fer víst fækkandi og ekki af engu.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 3.8.2009 kl. 17:51

67 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég er ekki í samfylkingunni Högni svo ég er ekki að skilja þig.

Óskar Þorkelsson, 4.8.2009 kl. 00:49

68 Smámynd: Landfari

Óína, hvað finnst þér um greinina hennar Evu og viðbrögð Hrannars við henni?

Landfari, 4.8.2009 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband