Sól á fjörðum sindrar

Vebjarnarnupur Í dag hefur veðurblíðan leikið við okkur Vestfirðinga - það var ekki amalegt að horfa yfir lognkyrran og sólgylltan fjörðinn snemma í morgun.  Morgnarnir eru alltaf fallegastir, finnst mér.

Á svona degi er vel við hæfi að taka bloggfrí - verðskuldað bloggsumarfrí. Wink

Ég veit ekkert hvenær ég má vera að því að koma inn aftur - það kemur bara í ljós.

Á meðan læt ég standa ljóðið sem varð til hjá okkur mæðgum - mér og mömmu - þegar við heimsóttum Rauðasandinn í fyrrasumar, sælla minninga. Þá var veðurblíða líkt og nú þegar andinn kom yfir okkur. Þetta var afraksturinn:

Sól á fjörðum sindrar.
Sveipar gullnum ljóma
ljóssins tíbrá, tindrar
tún í fullum blóma.

Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.

Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.

Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lýður Árnason

Sæl, Ólína.  Fallegt ljóð ykkar mæðgna og dótturinni vonandi innblástur til afneitunar á Ísbjargarbullinu.

Kveðja úr Sollinum, LÁ

Lýður Árnason, 8.7.2009 kl. 00:19

2 identicon

Alltaf er það jafn áhugavert að sjá hvernig sumt fólk notar hvert einasta tækifæri til að sýna öðrum hve dónalegt það getur verið.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 8.7.2009 kl. 09:43

3 Smámynd:

Takk fyir þessa yndislegu færslu og ljóð !

, 8.7.2009 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband