Tíu spurningar og svör um Ice-save

Að undanförnu hafa streymt inn til mín fjölmargar spurningar og athugasemdir varðandi Ice-save samninginn. Ég hef verið að vinsa úr þessu efni þau meginatriði sem ég sjálf hef viljað ígrunda betur og afla nánari upplýsinga um, m.a. með því að senda fyrirspurnir til frumvarpshöfunda og starfsmanna stjórnsýslunnar. Í tilefni þess að nú stendur yfir í þinginu fyrsta umræðan um ríkisábyrgðina í Ice-save málinu, þá vil ég nú deila með ykkur, lesendur góðir, þeim svörum sem ég hef fengið við tíu spurningum. Svörin læt ég birtast hér óbreytt:

1)  Vaxtagreiðslur af Icesave láninu munu koma úr sjóðum ríkissjóðs en ekki af sölu eigna Icesave. Reglan er sú að vextir eru ekki forgangskröfur í þrotabú. Hví skyldu þá aðrir kröfuhafar  samþykkja að hærri fjárhæð en sem nemur höfuðstól innlánskrafna sé ráðstafað af sölu eigna Landsbankans?
 
Svar: Það er rétt að vextir af kröfu á hendur fjármálafyrirtæki í slitameðferð eru eftirstæðar kröfur eftir úrskurðardag, sem er í tilviki Landsbankans 22. apríl 2009. Hins vegar ber að líta á það að eignir Landsbankans bera vexti, sem verða að eignum búsins og er deilt út til kröfuhafa, þar á meðal Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og þar með lækkar sú fjárhæð sem fellur á Tryggingarsjóð og íslenska ríkið. Það er heldur ekki hægt að tala um að 5.5% af 700 milljörðum falli á ríkissjóð. Hafa verður í huga að gert er ráð fyrir að úr búi Landsbankans verði úthlutað eignum á þessu sjö ára tímabili. Gert er ráð fyrir að þessar greiðslur til forgangskröfuhafa hefjist strax og kröfulýsingu er lokið og gengið hefur verið frá því hver röð kröfuhafa er og að greiðslur verði inntar af hendi a.m.k. einu sinni á ári á næstu 7 árum. Það er því langt frá því að öll upphæðin beri vexti í 7 ár.

Áætlanir hafa verið gerðar um að 75-95% af kröfum forgangskröfuhafa fáist greiddar og þó að vextir falli á íslenska ríkið er ljóst, ef þessar spár ganga eftir, að ríkið mun aðeins greiða lítinn hluta af heildarupphæðinni.

Loks er rétt að taka fram að ef hagstæðari kjör bjóðast er hægt að greiða lánið upp hvenær sem er án kostnaðar, en vandséð er að hægt sé að fá hagstæðari kjör með föstum vöxtum núna.


2) Því hefur verið haldið fram að ekki verði ekki hægt að greiða út af reikningum (vegna sölu eigna og innflæðis fjármuna Landsbankans) inn á lánin frá Bretum og Hollendingum í nóvember 2009, heldur mun seinna. Ástæðan sé  að  þó svo að lýsingafrestur verði liðinn í þrotabúið sé líklegt að einhverjir kröfuhafar muni láta á lagasetninguna reyna fyrir dómstólum og fá lögbann á greiðslu til einstakra kröfuhafa á grundvelli laganna fyrr en dómur er fallinn.  Fær þetta staðist?

Svar: Slitastjórn hefur þegar gefið út innköllun vegna kröfumeðferðar í greiðslustöðvun. Kröfulýsingarfrestur hefur verið ákveðinn 6 mánuðir frá fyrri birtingu innköllunar, eða til 30. október 2009. Eftir að kröfulýsingarfresti lýkur skal slitastjórn gera skrá um þær kröfur sem lýst er. Jafnframt skal slitastjórn taka afstöðu til einstakra krafna og upplýsa um þá afstöðu í kröfuskránni.

Eftir að kröfulýsingarfresti lýkur skal slitastjórn gera skrá um þær kröfur sem lýst er. Jafnframt skal slitastjórn taka afstöðu til einstakra krafna og upplýsa um þá afstöðu í kröfuskránni. Kröfuhafi sem ekki unir afstöðu slitastjórnar til kröfu sinnar þarf að lýsa yfir mótmælum. Slitastjórn skal reyna að jafna ágreining sem kann að koma upp á fundinum. Takist það ekki skal haldinn sérstakur fundur með þeim sem hlut eiga að máli og ef ekki tekst að jafna ágreining þar skal slitastjórn vísa málinu til héraðsdóms. 

Eftir kröfuhafafund slitastjórnar er slitastjórn heimilt að greiða viðurkenndar kröfur að hluta eða að fullu skv. 6. mgr. 102. gr. laganna. Það er háð ákveðnum skilyrðum. Í fyrsta lagi má eingöngu greiða viðurkenndar kröfur. Í öðru lagi þarf að tryggja að eignir bankans dugi til að greiða öllum hliðsettum kröfuhöfum jafn háa greiðslu í hlutfalli við kröfufjárhæðir. Í þriðja lagi þarf að gera ráð fyrir að fjármunir séu til staðar til að greiða kröfur sem ekki hefur endanlega verið leyst úr ágreiningi um. Með lagabreytingu nr. 61/2009 var bætt svofelldu bráðabirgðaákvæði við lögin: ,,Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 102. gr. er skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem naut heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009 , um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, heimilt, á tímabilinu frá gildistöku laga þessara og þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna á grundvelli 6. mgr. 102. gr., að greiða skuldir vegna launa, þ.m.t. laun í uppsagnarfresti, og vegna innlána sem veittur var forgangsréttur með 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð."

Það er því ekkert í lögum sem segir að þeir megi ekki greiða laust fé út strax, en það er háð mati skilanefndar hverju sinni hvað mikið er til af fjármagni og hvað hægt er að greiða.

3)      Ef þetta verður raunin, hversu hár verður þá reikningurinn sem fellur á íslenska skattgreiðendur, án möguleika á að fá það bætt í gegnum eignir Icesave?

Svar:Það er ekki vitað á þessari stundu hve mikið fæst úr búi Landsbankans og því erfitt að segja hver endanleg tala verður. Í lánasamningum er miðað við að 75% af heildarfjárhæðinni fáist úr búi LÍ. Skilanefndin hefur spáð 83% endurheimtu og breska ráðgjafafyrirtækið CIPFA breskum ráðleggur sveitarfélögum sem áttu fé á þessum reikningum að miða við 95%.

4)  Verðmat á eignunum er  óljóst og hleypur á 10% til eða frá - eru þetta viðunandi skekkjumörk til svo langs tíma?  

Svar: Vísað er til svars við spurningu 3. Ekki er vitað um heimtur úr búi LÍ, en vonast að þær nái yfir stærstan hluta þessara skuldbindinga.

5)  Fullyrt hefur verið að fyrir hverjar 2 krónur sem innheimtast upp í þessar forgangskröfur fari 1 kr til að greiða niður lán Íslands við Breta og Hollendinga og 1 kr fari beint til þeirra þjóða.  Við séum þannig ekki að ábyrgjast eingöngu greiðslu upp á lögboðnu hámarki innlánstryggingasjóðanna, heldur einnig allt sem viðkomandi stjórnvöld greiddu umfram það.  Ef 1000 milljarðar fáist fyrir eignir Landsbankans, þá muni einungis 500 milljarðar fara til greiðslu þess láns sem ríkið ætlar að taka, hinir 500 milljarðarnir renni beint til Breta og Hollendinga til móts við það sem þær þjóðir greiddu umfram 20,000 evra hámarkstryggingu. Hverju er hér til að svara?

Svar:Heildarfjárhæð innstæðna á Icesave reikningunum í Amsterdam-útibúi Landsbankans við hrun bankans í október var 1.674.285.671 evrur. Þar af voru innstæður undir 20.887 evrum samtals 1.329.242.850 evrur, sem falla á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Eftir standa 345.042.821 evrur sem eru utan ábyrgðar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Hollensk yfirvöld (Seðlabanki Hollands, DNB) greiddu innstæðueigendum út innstæður upp að 100.000 evrum og bera þeir kostnað vegna þessa að því marki sem það er umfram lágmarkstrygginguna og fæst ekki úr þrotabúi Landsbankans. Alls áttu 469 innstæðueigendur innstæður umfram 100.000 evrur, samanlagt nemur sú upphæð 40 milljónum evra. Þessir innstæðueigendur eiga forgangskröfu í bú Landsbankans, en verða að bíða skiptaloka til að sjá hvert tap þeirra verður.
    Heildarfjárhæð innstæðna á Icesave reikningum í London-útibúi Landsbankans við hrun bankans í október nam 4.526.988.847 pundum. Þar af eru a.m.k. 2.176.988.847 pund utan ábyrgðar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Um helmingur innstæðna London-útibúsins hefur því verið greiddur út af breska innstæðutryggingarsjóðnum og breska ríkinu. Breski tryggingarsjóðurinn (FSCS) greiddi innstæðueigendum upp að 50.000 pundum. Breska ríkið greiddi svo afgang innstæðnanna, þannig að almennir breskir innstæðueigendur hafa fengið innstæður sínar greiddar að fullu. Vegna þessara útgreiðslna á breska ríkið kröfu á þrotabú Landsbankans, en mun sjálft bera þann hluta sem ekki fæst úr búinu.
    Lánasamningarnir snúa aðeins að almennum innlánseigendum (e. retail deposits), þ.e. innlánum einstaklinga. Heildsöluinnlán (e. wholesale deposits), þ.e. innlán flestra fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana, standa utan tryggingakerfa Bretlands og Hollands og falla því ekki undir lánasamningana. Í hópi þessara innlánseigenda eru mörg sveitarfélög og líknarsamtök. Fjárhæðir heildsöluinnlána í London-útibúi Landsbankans voru í október 2008 544.553.275  pund og fjöldi innlánseigenda var á annað hundrað. Í Amsterdam-útibúinu voru um 30 heildsöluinnstæðueigendur. Fjárhæð innlána þeirra var 250.133.293  evrur. Þessir innlánseigendur njóta íslenskrar lágmarkstryggingar (20.887 evrur) og munu fá greitt úr þrotabúi Landsbankans eins og aðrir forgangskröfuhafar eftir því sem skiptum vindur fram.

Það er því langt frá því að Ísland beri allar byrðar varðandi Icesave. Það er hins vegar eðlilegt að allar kröfur sem byggjast á innstæðum njóti sömu rétthæðar í búi LÍ og því eiga þessir aðilar jafnstæðar kröfur á hendur LÍ.

6) Enn er óljóst hvaða eignir íslenska ríkisins eru aðfararhæfar komi til greiðslufalls.  Lögspekingar eru á öndverðum meiði í þessu máli - en ætti sú óvissa ekki einmitt að nægja til þess að hafna þessum samningi og fá nákvæmlega úr því skorið hvaða eignir eru undir og hverjar ekki?

Svar: Í báðum samningum er ákvæði um að rísi ágreiningur um efni þeirra skuli um slíkt fara eftir breskum lögum. Það er venja í alþjóðlegum lánasamningum að um ágreining gildi annað hvort lög þess ríkis sem veitir lánið eða bresk lög, sem skýrist af stöðu London sem alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar. Það varð að samkomulagi milli aðila að um bæði hollenska og breska lánasamninginn giltu bresk lög og bresk lögsaga. Í því felst að hægt er að bera ágreining um túlkun og framkvæmd samninganna fyrir breska dómstóla, eða aðra dómstóla sem hafa lögsögu, en þá ber jafnframt að leggja bresk lög til grundvallar.

Íslenska ríkið nýtur að þjóðarétti friðhelgisréttinda í lögsögu annarra ríkja. Þessi friðhelgisréttindi stæðu í vegi fyrir lagalegri úrlausn deilumála vegna samningsins ef ekkert væri að gert. Það er föst venja í lánasamningum milli ríkja að víkja slíkum friðhelgisréttindum til hliðar. Dæmi um slíkt er að finna í MTN lánaramma ríkissjóðs, en síðustu ár hafa flest erlend lán ríkissjóðs verið tekin á grundvelli þess samnings. Slík ákvæði hafa eðli málsins samkvæmt eingöngu gildi þar sem friðhelgi er til staðar, þ.e. í lögsögu erlendra ríkja. Án slíks fráfalls væri ekki hægt að stefna máli, né reka það, fyrir umsömdum dómstóli.

Með þessum ákvæðum falla tryggingarsjóðurinn og Ísland frá hugsanlegum friðhelgisrétti í lögsögu annarra ríkja. Slíkt fráfall réttinda á einnig við um eignir tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins erlendis. En þess ber auðvitað að geta að nær óþekkt er að ríki beiti hvert annað fullnustuaðgerðum af því tagi að gengið sé að eigum skuldara. Ástæða er til að árétta að eignir utanríkisþjónustunnar eru varðar af ákvæðum Vínarsamningsins um stjórnmálatengsl og að samkvæmt breskum lögum eru seðlabankar erlendra ríkja sérstakir lögaðilar og verður því ekki gengið að eignum þeirra nema skuldbindingar hvíli beint á þeim. Seðlabankinn er ekki aðili að þessum samningum og getur því ekki orðið ábyrgur fyrir þeim skuldbindingum sem í samningunum felast. Ákvæði þessi hafa sem slík engin áhrif að innanlandsrétti og fela því ekki í sér sjálfstæðar heimildir til handa lánveitendum til að ganga að eigum íslenska ríkisins á Íslandi. Um það efni gilda almennar reglur, þar með talið undantekningar vegna eigna sem eru órjúfanlegur þáttur í rækslu hlutverks íslenska ríkisins sem fullvalda ríkis.

7) Þá er óljóst hver á að vera umsýsluaðili með þeim eignum sem ganga eiga upp í skuldina.  Ef það á að vera skilanefnd Landsbankans, þá er hún ekki í vinnu fyrir íslenska ríkið heldur fyrir kröfuhafa.  Í ljósi þess að innlánseigendur eru að fullu tryggðir með því frumvarpi sem leggja á fram, þá er skilanefndin í raun og veru í vinnu fyrir alla hina kröfuhafana.  Skilanefnd verður því uppálagt að fá eins hátt verð fyrir hverja einustu eign, á meðan ríkið myndi vilja selja eignir út á föstu verði eins fljótt og vera má (ríkið myndi vita hvaða verð nægði, og myndi reyna að fá það verð eins fljótt og mögulegt væri til að greiða niður skuld við Breta og Hollendinga eins hratt og hægt er til að lágmarka vaxtakostnað). Er ekki hætt við því að þar sem aðrir kröfuhafar munu ekki njóta andvirðis sölunnar nema umfram það fasta verð, muni þeir leggja áherslu á að flýta sér hægt og fá sem allra hæsta verð fyrir eignina, sér í lagi ef vextir af Icesave láninu eru ekki forgangskrafa í bú Landsbankans? Er ekki kominn þarna upp mögulegur hagsmunaárekstur sem bitnar á skattgreiðendum?

Svar: Ljóst er að það er skilanefnd Landsbankans sem er vörsluaðili eigna LÍ samkvæmt lögum. Þeim verður ekki breytt um þetta. Skilanefnd á samkvæmt lögum að gæta hagsmuna allra kröfuhafa. Það verður ekki séð að hagsmunir íslenska ríkisins og Tryggingarsjóðs séu aðrir en annarra kröfuhafa. Þessir aðilar vilja fá sem hæst verð fyrir eignirnar, en ekki að þær verði seldar strax á brunaútsölu.


8) Óttast menn ekki lagalega óvissu um það hvort neyðarlögin  frá í október fái staðist fyrir alþjóðlegum dómstólum? Má ekki teljast líklegt að einhverjir kröfuhafa vilji láta reyna á lögin fyrir dómstólum og niðurstaðan geti orðið  Íslandi í óhag því afleiðingarnar af því að dæma það löglegt að riðla kröfuröð eftir á myndi hafa það í för með sér að allir lánasamningar í veröldinni væru í uppnámi?

Svar: Ganga verður út frá því að neyðarlögin standist stjórnarskrá og alþjóðlega samninga sem Ísland er aðili að. Ef niðurstaðan verður önnur verður að skoða stöðu Íslands heildstætt því svo margt annað en þetta væri þá í uppnámi.


9) Ef svo fer að dæmt verði í máli á þann veg að lagasetningin hafi verið óheimil, verður íslenska ríkið þá  ekki bæði að virkja ríkisábyrgðina að fullu til að standa við þann samning sem staðfesta á og bera skaðabótaskyldu fyrir óheyrilegar fjárhæðir?

Svar: Þessari spurningu er erfitt að svara - ganga verður út frá því að neyðarlögin standist stjórnarskrá og ekki hægt að gefa sér annað á þessari stundu.


10)   Hvað myndi gerast ef við hreinlega neituðum að staðfesta þetta plagg og færum fram á að samið yrði upp á nýtt?   Myndu Bretar og Hollendingar ekki -  hvort sem þeim myndi líka betur eða verr - þurfa að vinna með okkur í að koma eignum Landsbankans hæsta mögulega verð á hverri eign og þannig ná sínum fjármunum til baka?

Svar:Slíkt myndi leiða til algerrar einangrunar Íslands í alþjóðlegum fjármálasamskiptum og fyrir þjóð sem byggir velferð sína á greiðum útflutningsviðskiptum er slíkt einfaldlega ekki valkostur. Þess fyrir utan verður að hafa í huga að Ísland er eitt af nánustu samstarfsríkjum ESB-ríkjanna á grundvelli EES-samningsins. Í aðild Íslands að EES felast bæði rík réttindi og ríkar skyldur. ESB-ríkin hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslands eru í Icesave málinu. Virði Ísland að vettugi umræddar skyldur sínar á innri markaði sambandsins er ljóst að þátttaka þess í EES getur verið í uppnámi.

Lokaspurningin er þá hvort hægt sé að ná samningum um betri skilmála fyrir þeim heildarlánum sem hér eru tekin. Ef samningar yrðu opnaðir aftur fæli það í sér að báðir aðilar kæmu óbundnir til samninga að nýju. Bretar og Hollendingar myndu ekki síður reyna að sækja betri niðurstöðu heldur en Ísland. Samningaviðræður myndu í besta falli taka einhverja mánuði. Allur dráttur á lokaafgreiðslu þessa máls er dýru verði keyptur fyrir Ísland vegna tengsla þess við allt endurreisnarstarf íslensks efnahagslífs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæl Ólína.

Af því að ég hef nú svo oft skammast hér á síðunni þinni þá verð nú samt að hæla þér alveg sérstaklega fyrir þessa ítarlegu og vel fram settu greinargerð sem þú hefur greinilega lagt mikið á þig til þess að setja þig ítarlega inní og greina okkur almenningi svo skilmeirklega frá hér á heimasíðu þinni. Alveg á mjög skiljanlegu mannamáli.

Hvaða álit og hver sem skoðun okkar er á þessu ICESAVE máli, þá eru þessi vinnubrögð þín sem þingmanns þjóðarinnar alveg til fyrirmyndar.

Svona eiga alvöru þingmenn að vinna og þú hækkar um mörg prik fyrir þessi opnu og vönduðu vinnubrögð.

Hafðu kærar þakkir og gangi þér vel að komast að sem skástri niðurstöðu í þessu erfiða máli. 

Gunnlaugur I., 2.7.2009 kl. 16:10

2 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Ólína þetta eru ágæt svör en snerta ekki kjarna málsins.  Ef þið ætlið að samþykkja ríkisábyrgðina verður að vera einhver minnsta von um við getum greitt.  Gætir þú svarað eftirtöldum spurningum fyrir mig?

  • Hvernig á að ná nægum afgangi á viðskiptum við útlönd að 7 árum liðnum til að standa undir afborgununum og vöxtum?
  • Hvernig á að viðhalda þeim árangri í 8 ár til að tryggja að ekki verði greiðslufall?
  • Hvernig ætlar ríkið að ná í sinn hlut öllum tekjuafgangi af viðskiptum við útlönd til þess að hafa þann gjaldeyri sem þarf til að greiða af samningum?
  • Hvernig á að greiða af öðrum skuldbindingum ríkissjóðs, sveitarfélaga og fyrirtækja á sama tíma og greitt er af IceSave samningnum?
  • Hvert verður gengi krónunnar ef ríkið, sveitarfélög og fyrirtæki berjast um allan gjaldeyri sem til fellur til þess að standa við sýnar skuldbindingar?

G. Valdimar Valdemarsson, 2.7.2009 kl. 17:38

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Þetta er góð samantekt og hin fínasta færsla.

Við spurningu 5 koma líka ágætar viðbótarupplýsingar, þó svarið sjálft sé aðeins í þremur síðustu línunum. Gott mál.

Spurningum 8 og 9 virðist enginn getað svarað enn sem komið er, enda mjög flókið mál. Við verðum bara að vona það besta.

Kannski galli við færsluna (það má alltaf setja út á eitthvað) að vita ekki hvaðan svörin koma. Reyndar segir í inngangi að þau séu m.a. frá frumvarpshöfundum og starfsmönnum stjórnsýlunnar.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að mesti glansinn fer af færslunni í svari 10. Það hljómar eins og Fréttablaðsviðtal við Þórólf Matthíasson, sem spáir "algerri einangrun" ef ríkisábyrgð er ekki veitt fyrir samningnum óbreyttum. Það er ekki trúverðugt nema menn gangi út frá því að Bretar og Hollendingar séu að leita hefnda en ekki lausna og réttlætis. Er það ekki ólíklegt í vestrænum réttarríkjum á 21. öld?  

Haraldur Hansson, 2.7.2009 kl. 17:39

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk kærlega fyrir þessa samantekt, sem er upplýsandi en ekki tæmandi.

Ég sakna þess t.d. að ekki hefur verið reynt að sýna fram á að a) Að Íslandi beri lagaleg skylda til að borga Icesave.  b) Að Ísland geti borgað Icesave. 

Stuðningsmenn samkomulagsins virðast ekki hafa áhyggjur af því að þeir geri Ísland gjaldþrota með því að samþykkja ríkisábyrgðina og vísa til endurskoðunarákvæða ef Bretar eða Hollendingar óska þess.

En hversu líklegt er að Bretar og Hollendingar sýni einhverja miskunn síðar með óvefengjalega kröfu, þegar þeir að sögn stuðningsmanna frumvarpsins eru þess albúnir að fara strax í hefndaraðgerðir, t.a.m. einangrun Íslands, þrátt fyrir lagalega veikan eða umdeildan grundvöll þeirra í dag.

Sigurður Þórðarson, 2.7.2009 kl. 20:12

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir hófstillt viðbrögð.

Spurningarnar sem koma fram hér í athugasemd G. Valdemars eru þó þess eðlis að þeim getur enginn svarað. Kemur sólin upp á morgun? Ég segi já - en auðvitað veit ég ekkert um það.

Sigurður biður mig að sýna fram á það að Íslandi beri lagaleg skylda til að borga Ice-save. Það væri langt mál að rekja hér í athugasemd, stutta útgáfan er þessi:

Ice-save reikningarnir voru á ábyrgð Landsbankans á Íslandi (ekki dótturfyrirtækja bankans erlendis, eins og t.d. Edge reikningar Kaupþings). Fyrir vikið ber Tryggingasjóður innistæðna sömu ábyrgð á Ice-save reikningunum og ef um innlendar innistæður væri að ræða. Samkvæmt lögum eru það ríflega 20.800 evrur á hvern reikning (á þávirði ca 3 mkr íslenskar).

Það flækti hinsvegar málið að íslensk stjórnvöld höfðu lýst því yfir (og stóðu við það) að innistæður íslenskra reikningshafa væru tryggar upp í topp (ekki bara að 3 mkr eins og lög gera ráð fyrir). Þessi yfirlýsing hefði getað komið okkur í koll gagnvart Ice-save reikningunum, en sem betur fer vorum við ekki hönkuð á þessu.

Varðandi svarið við 10. spurningu - þá kann að vera að einhverjum finnist það óþægilegt að lesa þá hrakspá. Ég er hinsvegar hrædd um að hún sé sönn engu að síður.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.7.2009 kl. 20:35

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk Ólína,

Ég veit að þessi lagagrundvöllur er ekki einhlýtur ég er búinn að lesa það lögmenn hafa skrifað um þessi mál. Maður freistast til að taka meira mark á sérfæðingum í Evrópu- og þjóðarrétti en öðrum lögmönnum. Það hefur helst talið veikja málstað Íslands að ríkisvaldið hafi ekki staðið sig í stykkinu varðandi eftirlit, neyðarlögin og síðar óheppilegar yfirlýsingar íslenskra ráðamanna, sem gefnar voru í fátinu sem varð við hrunið og þrýsting.

Gegn þessu getum við telft fram því að hvergi í lögunum er þess getið að ríkið beri ábyrg á tryggingasjóðnum. Að um galla í löggjöfinni hafi verið að ræða. Kerfishrun hafi orðið og löggjöfin hafi aldrei gert ráð fyrir því að það gæti orðið og engar varnir nokkurs lands hefðu við það ráðið. Þá hefur verið bent á að beiting hryðjuverkalaganna hafi aukið tjónið. 

Þessar röksemdir, með og móti, eru allar huglægar  og ekki hægt að fullyrða hvernig lyktir yrðu á málaferlum.  Það hefur mótað mína afstöðu í þessu að færustu sérfræðingar á Íslandi (Stefán  Már og Elvíra) telja að málsbætur Íslands séu mjög miklar og þar með vinningslíkur í málaferlum. Auðvitað er best að semja en samningsniðurstaðan þarf þá að enduspegla okkar hagsmuni og málsástæður. 

Að þessu sögðu viðurkenni ég  fúslega að í þessu máli er enginn góður kostur.

Sigurður Þórðarson, 2.7.2009 kl. 21:33

7 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Takk fyrir þetta Ólína, skilmerkilegt og þarft innlegg í umræðuna.

Það er þó eins og þú brennir út í spurningu 7 og eftir það eru svörin, ja... 

Það er fótur fyrir áhyggjunum sem felast í spurningu 7 og vaxtagreiðslurnar af Icesave láninu einn helsti óhróðurinn í því máli öllu.

Í spurningu 8 er verið að vísa til alþjóðalaga og hún stendur eftir ósvöruð ef að stefnt er til alþjóðadómstóls.

Af hverju er erfitt að svara 9? Ég skal svara og svarið er já.

10 - hérna ferðu út í ömurlegan popúlisma kæra Ólína. Þetta er hreinlega ekki satt; er ekki skrýtið að þú svarar spurningu 9 þannig að erfitt sé að svara en 10 fær mjög ákveðið svar - ég er ekki einn um það að halda því fram að þeirri spurningu sé mun verr að svara.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 2.7.2009 kl. 22:19

8 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég  hefði kannski átt að taka skýrar fram að þessi svör eru birt hér "beint af skepnunni" ef svo má segja, þ.e. eins og þau koma af lyklaborði þeirra sem ég spurði.

Að svörunum eru fleiri en einn höfundur. Sama er að segja um spurningarnar sem eru í raun samantekt úr því sem ég hef fengið frá almenningi.

Ég ákvað að birta bæði spurningarnar og svörin hér - til umhugsunar fyrir þá sem eru að velta þessu máli fyrir sér, þ.á.m. sjálfa mig. Mér er ljóst að það eru mun fleiri spurningar til og sjálfsagt líka röksemdir bæði með og á móti.

Enn er tími til stefnu - það er fyrir mestu að velta málinu fyrir sér frá sem flestum hliðum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.7.2009 kl. 22:45

9 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Hvað hefur greiðslugeta ríkissjóðs með sólaruppkomu að gera?  Eru spurningarnar svo óþægilegar að þú hirðir ekki um að svara þeim málefnalega?

Ætlar þú að segja mér Ólína að ríkisstjórnin hafi ekki lagt mat á greiðslugetu Íslands eftir 7 ár og lagt niður fyrir sér hvernig tryggja eigi að við getum staðið við samninginn?

Er ykkur þingmönnum skítsama um það hvort við getum borgað eða ekki?

G. Valdimar Valdemarsson, 2.7.2009 kl. 22:58

10 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

G. Valdimar - vertu kurteis.

Ríkisstjórnin metur það svo að Ísland hafi greiðslugetu eftir 7 ár til að standa við þær skuldbindingar sem í samningnum felast. Hvað heldur þú? Heldur þú að það sé ætlunin að keyra landið í greiðsluþrot?

Markmiðið með þessum samningi er að bjarga þjóðinni út úr þrotabúi frjálshyggjunar. Endurreisa efnahagslífið. Út á það gengur þetta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.7.2009 kl. 23:41

11 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hvort sem frumvarpið verður samþykkt eða fellt verður þjóðin að taka afleiðingunum. Þess vegna er brýnt að reyna að skapa þjóðarsamstöðu. Samninganefnd sem hefur alla þjóðina á bak við sig er í sterkri stöðu. 

Sigurður Þórðarson, 3.7.2009 kl. 07:52

12 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Ólína ég hef ekki séð neina tilraun gerða til að sína fram á að ríkið getið staðið við þessar skuldbindingar.  Það virðast engin gögn til um mat á greiðslugetunni eða hugmyndir um það hvernig við getum staðið við þennan samning. 

Ég trúi því ekki að  þingmenn stjórnarinnar sem ætla að samþykkja samninginn geri það án þess að fyrir liggi skotheld áætlun um það hvernig standa á við hann.  Og sé slík áætlun til hversvegna er hún þá ekki kynnt almenningi í landinu?  Ef hún er aftur á móti ekki til þá eru menn í vondum málum og vinnubrögðin skelfileg.

Heiðursmen skrifa ekki upp á lán nema að þeir ætli og geti borga það. 

G. Valdimar Valdemarsson, 3.7.2009 kl. 10:16

13 Smámynd: Garún

Já já...ég er alveg litlan í þessu máli maður.  Eina sem mér finnst um þetta mál er nafnið er skrítið....Ice Save....Finnst það einhvern veginn vitlaust nafn.  Annars treysti ég öðrum fyrir því sem ég hef ekki vit á og held áfram að moka holu í garðinum mínum. 

Garún, 3.7.2009 kl. 14:07

14 Smámynd: Einar Þór Strand

Ólína þetta er mjög flott færsla hjá þér, en grundvallar atriðið er að við áttum að fara með þetta í dómsmeðferð. Því þó það hefði kostað okkur 4 - 5 ára þegningar þá gefur samningurinn okkur takmarkaðan frið í 7 ár og síða veruleg vandamál næstu 50. 

Ef við hefðum neitað að borga IceSave þá hefðu nokkrir hlutir unnist.

a) ESB hefði neyðst til að endurskoða sína löggjöf um banka og koma enni þannig fyrir að hún væri með ábyrgð sem næði yfir allt starfsvæðið og væri með þrautaábyrgð sambandsins ekki einstakra ríkja.

b) Hugsanlega hefðum við líka náð því fram að hagfræðin hefði þurft að fara í naflaskoðun því það er hún sem fræðigrein sem er ábyrg fyrir að hafa búið til þetta kerfi sem núna er hrunið.

c) Með því að neita að borga hefðum við hugsanlega náð því fram að þjóðir heims hefðu farið í heildar skoðun á því hvort fjármálakerfið eigi að þjóna þeim fáu ríku eða þeim mörgu smáu.

Að lokum ein spurning sem ég vona að þú reynir að svara.

Í lokuðu hagkerfi þar sem allir hafa sitt lífsviðurværi af vinnu fyrir einn atvinnurekanda, hvað má hann hafa mikinn hagnað?

Einar Þór Strand, 3.7.2009 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband