Sjávarplássin lifna við

Smábátar Loksins sér maður aftur líf færast yfir bryggjurnar hér fyrir vestan. Bátarnir komu inn í gær eftir fyrsta strandveiðidaginn. Þeir voru kampakátir karlarnir þar sem þeir stumruðu yfir körunum fullum af spriklandi fiski.

Hjá einum var drukkið "strandveiðikaffi" til að halda upp á þessi tímamót.

Já, loksins eftir langa mæðu eru menn aftur frjálsir að því að sigla bátum sínum út á miðin og taka þar á handfærin allt að 800 kg á dag, án þess að kaupa eða leigja til þess sérstakan kvóta.

Loksins skynjar maður eitthvað sem líkist "eðlilegu" ástandi - einhverskonar frelsi eða opnun. Fram til þessa hefur mönnum verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendurnar, nema þeir gerðust leiguliðar hjá kvótaeigendunum - eða keyptu sér kvóta dýru verði. Undanfarið hefur lítill sem enginn kvóti verið fáanlegur, svo það hefur ekki verið um marga möguleika að ræða.

Já, nú eru sannarlega tímót. Og ég er glöð yfir því að hafa getað veitt þessu máli lið inni í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þaðan sem frumvarpið var afgreitt fyrir skömmu.

Loks er aftur líf í höfnum,
landa bátar afla úr sjó.
Mergð er nú af mávi og hröfnum
mikil yfir fsikislóg.

Vonandi eru strandveiðarnar komnar til að vera.


mbl.is 22 tonn af þorski á fyrsta degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

þú ert nú meiri hræsnarinn Ólína. Þú talar um óréttlætið hjá þeim sem selja kvótann frá sér en svo fagnar því þegar lög eru sett til þess að hleypa þeim sömu aftur ókeypis inn í greinina. Því það er stór hluti þeirra sem fara í þetta. þeir sem hafa selt kvótann frá sér og vilja komast ókeypis inn á kostnað þeirra sem hafa viljað stunda útgerð og halda lífi í byggðum landsins.

Fannar frá Rifi, 29.6.2009 kl. 22:08

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Kæri Fannar - ekki svona úrillur. Ef maður selur hús eru engin lög sem banna honum að byggja nýtt. Það eru engin lög sem geta bannað þeim sem selt hafa kvóta að fara í strandveiðar.

Þeir eru þó áreiðanlega fleiri sem fagna strandveiðunum vegna þess að þær glæða atvinnulíf og afkomumöguleika fjölmargra í sjávarbyggðum. Þær opna fyrir það að menn geti farið á skakið án þess að spyrja kóng eða prest - án þess að leigja sér kvóta af einhverjum útgerðarmanninum.

Þetta er framfaraspor - og það var sannarlega gaman að sjá brosið á köllunum þegar þeir komu með fyrsta aflann að landi í gær.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.6.2009 kl. 22:25

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæl Ólína. Ég verð að segja að það er margt til í því sem Fannar segir. Það er svolítið eins og að gefa útrásarvíkingunum aftur bankana, þegar búið er að rétta þá við og samþykkja að óbreyttur almúginn borgi reikninginn. Ég fagna því þó að ungir menn geti byrjað á grunni og byggt upp úthald á sínum forsendum. Það hefði verið betra að færa allan pakkann á auðlindasjóð og fara leið okkar Frjálslyndra og taka tillit til þeirra sem hafa fjárfest til að auka við og veiða eigin kvóta og leyfa þeim að halda honum. Verðmætin myndu þá liggja í bátum og búnaði auk kvóta með veiðiskyldu. Framsalið var auðvita stórslys á sínum tíma. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 29.6.2009 kl. 23:09

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

jahá samkvæmt Fannari og Kolbrúnu þá voru þá smábátasjómenn sem áttu allan kvótan.. þvílíkir andans snillingar eruð þið. 

Sammála þér Ólína þetta tel ég að muni glæða landið von og lífi eftir dauða og eyðileggingu kvótatímans.. 

Óskar Þorkelsson, 29.6.2009 kl. 23:53

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Eitt lítið zkref...

Steingrímur Helgason, 30.6.2009 kl. 00:03

6 Smámynd: Sigurbrandur Jakobsson

Skárra er það nú lífið Fannar. Ég hef verið búsettur á Vestfjörðunum nýlega og séð með eiginn augum hvernig kerfið er búið að leika flesta staði þar. Staðir sem einusinni blómstruðu af lífi eru að verða að draugabæjum. Vonand, er þessi litla tilraun til þess fallinn að kveikja aftur líf og von sem víðast um landið, og gæti ég valið milli þess að búa í Rifi (Hellissandi) og á norðanverðum Vestfjörðum, yrði það síðast nefnda ofan á.

Hvað varðar það að menn sem seldu eða leigðu frá sé séu að komast frítt inn aftur, þá er það gott dæmi um sleggjudóma þess ófróða. Ég seldi sem dæmi frá mér krókaleyfisbát langt undir verði til að fara í skóla og keypti svo aftur bát nokkrum árum seinna, en þá var bara orðið ómögulegt að komast aftur inn nema með því að setja sig rækilega á hausinn strax í upphafi. Af þeim bát sem ég á núna hefur aldrei verið seldur kvóti, ég keypti hann af aðila sem hafði verið að stækka við sig, og flutti kvótan á þann stærri og seldi mér svo þann minni kvótalausan. Ég tók lán til að fjármagna kaupin á bátnum, og hef að mestu leiti orðið að standa undir því sjálfur, vegna þess að verkefni fyrir hann hafa orðið af skornum skammti þar til nú. Því finnst mér svona tal um ókeypis aðgang, mjög ógeðfellt, og bera þeim sem það viðhafa viðhorf öfundar. Því vísa ég slíku til föðurhúsana.

Ólína og félagar, þið eruð að stíga stór skref fyrir landsbyggðina. Hafið kæra þökk fyrir. 

Sigurbrandur Jakobsson, 30.6.2009 kl. 00:13

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er sammála hverju orði í þessum ágæta pistli. Þetta er frábært og lofsvert framtak. 

Athugasemdir um að "menn hafi selt sig út úr greininni" byggja á þeim misskilningi að fiskveiðiauðlingin sé einkaeign.

Fiskveiðiauðlindin er endurnýjanleg  og á ekkert sameiginlegt með gjaldþrota bönkum sem voru byggðir á froðu.

Sigurður Þórðarson, 30.6.2009 kl. 11:52

8 Smámynd: Sigurður Þórðarson

 Ég er ekki oft sammála Jóni Frímann en á því eru sannarlega undantekningar sbr:

"Við eigum að ganga af virðingu við náttúrununa. Enda lifum við af henni eins og önnur dýr á Jörðinni."

Eins og talað úr mínu hjarta.

Takk.

Sigurður Þórðarson, 30.6.2009 kl. 12:04

9 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Ég er nú ekki sammála Sigurði að þessu sinni um að fiskveiðiauðlindin sé endalaust  endurnýjanleg og tel að við séum að ganga frá stofnum með því að veiða ekki nóg þannig að stofnar eru að þorna upp.

Bankakerfið er engin froða Sigurður. Við getum ekki án þess verið og leggjum allt kapp á að endurbyggja það sem búið er að eyðileggja fyrir okkur með græðgi og heimsku.

Með kveðju Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 30.6.2009 kl. 18:07

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kolbrún hefur lýst því yfir að hún sé ekki sammála mér um að fiskveiðiauðlindin sé (endalaust) endurnýjanleg. 

Jæja, þá er best að ég jafni metin og lýsi því yfir að ég sé ekki sammála Kolbrúnu um að stofnarnir séu að þorna upp.

Ég treysti mér hinsvegar ekki í rökræðu við fyrrum bankastjóra um bankakerfið.

Sigurður Þórðarson, 30.6.2009 kl. 20:47

11 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Sigurður. Það er skynsamlegt hjá þér að hleypa mér ekki í gang með umræðu um bankakerfið . Varðandi þorskstofninn og fleiri nytjastofna þá er kannski  ofsagt að hann sé að þorna upp í dag en þú tókst vonandi eftir að ég sagði að hann væri ekki endurnýjanlegur endalaust. Ég trúi því að svo fari ef við breytum ekki stýringunni sem nú er í gangi. Leyfi mér að benda á þennan pistil Kristins Péturssonar kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 30.6.2009 kl. 23:41

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæl Kolbrún, ég viðurkenni fúslega að ég stend þér ekki á sporði í þekkingu á bankamálum. Hef nú samt unnið ýmis störf til sjós og lands s.s. við veiðar og þurrkun á fiski, einkum á Vesturlandi, á árum áður.

Sú var tíðin að maður þurfti að veiða fiskinn fyrst áður en maður þurrkaði hann. Ég vil nú samt ekki rengja þig um þetta en velti fyrir mér hvort þetta misræmi stafi af því að þið Kristinn eruð bæði uppruninn af NA-horninu eða  af almennt breyttum starfsháttum?

Sigurður Þórðarson, 1.7.2009 kl. 09:08

13 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sigurður takk fyrir svarið. Þú getur séð á ferilskrá minni sem er undir höfundamynd (Ólína kenndi mér þá  tækni forðum ) að ég hef ekki alltaf setið við skrifborð. Ég hef unnið í fjöldamörg ár í fiski og ég held bara öll störf í frystihúsi nema forstjóri og verkstjóri. Einnig við síldarsöltun, beitningu og rækjupillun.  Ég er nú að tala um að við séum, með óstjórn í fiskveiðum, að ganga nærri stofnunum og ef ekkert verður að gert þá drepst hann,þurrkast út, sveltur til bana.... er þetta nógu skýrt.. Ágætur fiskifræðingur sagði á fundi sem ég sat að enginn gæti talið fiskana í sjónum og víst er að sjómenn tala um fullt hafið af fiski og nóg sé til af honum. Ég er ekki að efast um það en verður það endalaust ef fiskurinn étur undan sér? Ég held að ágreiningur okkar, ef einhver er, sé sá að þú ert að tala um að þurrka fisk en ég að þurrka upp fiskistofna. Smá munur á því. Skreið og lífríkið í sjónum er svona , já svona fyrir og eftir dæmi. Hafðu það sem allra best hvað sem þú fæst við til lands og sjávar. Allt gott sem kemur að norðan  bæði ég og Kristinn kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 1.7.2009 kl. 10:01

14 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæl Kolla mín, þið Kristinn meinið sem sagt að fiskurinn þurrkist út ef hann fær ekki nóg að borða og drekka. Það "meikar sens" og ég legg til að Jón Bjarnason stofni embætti forðagæslumanna við sjávarsíðuna. Kristinn kæmi örugglega sterklega til greina ef hann sækti um.

Sigurður Þórðarson, 1.7.2009 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband