Svar mitt við áskorunum dagsins

Í dag hefur rignt inn í póstkerfið mitt fjöldaáskorunum vegna Ice-save samningsins sem var til umræðu á Alþingi í dag. Þetta eru staðlaðar bréfasendingar sem  sendar eru með skipulögðum hætti, sumir senda aftur og aftur og fara ekki dult með, því þær sendingar eru merktar áskorun 2, áskorun 3 o.s. frv.

Ég hef brugðist þannig við þessum sendingum að svara þeim með rökstuðningi fyrir afstöðu minni í málinu. Því miður virðist það ekki nægja sumum sem halda áfram að senda mér áskorun sína í sífellu. Þeir leggja augljóslega meira upp úr því að fylla pósthólfið mitt, en að koma sjónarmiðinu á framfæri eða kalla eftir svörum.

Þannig að nú er ég hætt að senda svör. Kemst einfaldlega ekki yfir það að skrifa fleirum, enda er ég búin að missa yfirsýn yfir það hverjir eru að senda í fyrsta, annað eða þriðja sinn.

Svar mitt er á þessa leið:

Ég lít svo á að íslensk stjórnvöld séu nú að róa lífróður fyrir íslenska þjóð, og ég er tilbúin að aðstoða þau við þann róður af öllum mínum kröftum. Eftirköstin af efnahagshruninu verða ekki auðveld - það vissum við. Nú er komið að skuldadögunum. Við eigum enga leið út úr hruninu aðra en að moka, og
það verða allir að hjálpast að við þann mokstur, hvort sem þeir bera ábyrgð á hruninu eða ekki.

Ég er ekki sátt við það að þurfa að taka á mig lífskjaraskerðingu og hækkun lána í framtíðinni vegna þessa ástands, enda ber ég enga ábyrgð á því frekar en þú. En við erum ein þjóð, og við verðum að takst á við þetta sem þjóð. Ekki bara okkar sjálfra vegna heldur barnanna okkar vegna og barnanna þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert. Ég trúi því að þær aðgerðir sem nú eru í gangi, miði einmitt að því að bjarga. Þess vegna styð ég þær heilshugar og mun greiða atkvæði með þeim. Ég gæti ekki samvisku minnar vegna setið hjá, og þaðan af síður greitt atkvæði gegn, því ég trúi því að með Ice-save samningnum hafi verið kastað til okkar líflínu sem muni ráða úrslitum um það hvort við eigum okkur viðreisnar von sem þjóð. 
 

Dómstólaleiðin er að mati fjölmargra lögfræðinga ekki fær fyrir okkur - þeir bjartsýnustu segja hana afar áhættusama. Í því ljósi, sé ég enga aðra leið en þá sem  nú er verið að fara. Lánið er okkur hagstætt, 5,5% vextir  og sjö ára greiðslufrestur í upphafi, meðan verið er að ná eignum Landsbankans upp í
skuldir. Svartsýnustu spár segja að eignirnar muni duga fyrir 75% af láninu, þeir bjartsýnustu tala um 95%.

Með fullri virðingu fyrir skoðunum annarra - þá mun ég í þessu máli hlýða mínni eigin samvisku eins og Þingmannseiðurinn kveður á um að mér beri að gera. Ég mun ekki láta undan þrýstingi frá hvorki stjórn né stjórnarandstöðu, og mun ekki láta æsingslega og óábyrga umræðu villa mér sýn í þessu máli. 

Hér er of mikið í húfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Sæl Ólína, við komumst líklega ekki hjá því að borga þetta þó þetta sé líklega með öllu óborganlegt. En endilega förum varlega í "endurreisn" stórubólu við verðum að byggja eitthvað traustara en hana.

Kv.

Ólafur Eiríksson, 8.6.2009 kl. 23:55

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Síðan hvenær eru þolendur farnir að greiða "sektina" fyrir glæpamanninn?

Arinbjörn Kúld, 9.6.2009 kl. 00:13

3 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Það hefur, Arinbjörn, verið nánast regla frá því að nútíma bankakerfi komst á laggirnar fyrir öldum síðan.

Nútíma bankakerfi er reyndar óvenju framarlega í þessum efnum.

Ólafur Eiríksson, 9.6.2009 kl. 00:22

4 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ólina

Ef þessi samningur verður samþykktur  verður örbyrgð í landinu enda féll krónan stax

Skuldirnar verða helmingi hærri miðað við landsframleiðslu heldur en á Argentínu þegar þeir lýstu sig gjaldþrota og síðan bætast vextirnir við 100 milljónir á dag

Svona lítur eignasafnið út

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 9.6.2009 kl. 00:28

5 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég er að borga innan við 4% af mínum erlendu lánum í vexti og ekki eru þau ríkistryggð.

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 9.6.2009 kl. 00:30

6 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Getur þú ekki skilið það að þessi gjörningur ykkar að skrifa undir þessa Icesave samninga (þumalskrúfu) vil ég meina erum við Íslendingar alls ekki sátt við.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 9.6.2009 kl. 03:06

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

það eru að ég held 16 þúsund núna búin að skrá sig í facebook hópinn á móti þessari lausn. Ég veit ekki hve margir kjósendur eru í landinu en þetta er stór hópur þeirra. það er nú allt í lagi að kynna sér sjónarmið þessa hóps.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.6.2009 kl. 03:47

8 Smámynd: Tóti Sigfriðs

Sælar ÓlínaMér hefur virst það að þú leggir þig fram til að svara þeim fyrirspurnum sem að settar eru fram hér á síðu þinni og þess vegna vona ég að þú getir svarað örfáum í viðbót.               Það hafa komið fram þau sjónarmið að þessi samningur sé tilkominn að miklu leiti vegna hótanna frá ESB.                                                                                    

                                           
                                      
                                              Nú eru það margar fleiri spurningar sem brenna á mér og sjálfsagt fleirum, en látum þetta duga.                                          Með kærri kveðju                                       

        Tóti Sigfriðs, 9.6.2009 kl. 10:09

        9 Smámynd: Tóti Sigfriðs

        þar sem bloggið hefur verið eitthvað að stríða mér þá komu spurningarnar ekki með í fyrri færslu.

        Biðst ég afsökunar á því og mun reyna að lagfæra þetta

        Virðingarfyllst

        Þórður

        Tóti Sigfriðs, 9.6.2009 kl. 10:11

        10 Smámynd: Tóti Sigfriðs

        Hér koma svo spurningarnar sem áttu að vera þarna í færslu númer 9.

        Getur þú persónulega ábyrgst að þessi samningur sé EKKI gerður með þessum hætti til að liðka fyrir ykkur að komast inn í ESB?

         

        Finnst þér ásættanlegt að við setjum okkur í hrikalegar skuldir og hugsanlegt gjaldþrot sem sjálfstætt ríki, til að verja gallaða stefnu ESB í bankamálum?

         

        Finnst þér persónulega í lagi að við sem þjóð beygjum okkur eftir hótunum og þvingunum frá svokölluðum vinum okkar?

         

        Er það að þínu áliti góð vísbending um frekara samstarf innanborðs í ESB, sú framkoma sem ESB hefur sýnt okkur með fyrrgreyndum hótunum?
         
        Ég vona að þetta komist til skila og bíð svara þinna

        Tóti Sigfriðs, 9.6.2009 kl. 10:14

        11 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

        Hvaða rök má bjóða fólki sem ekki vill hlusta á nein rök. Hvaða skýringar er hægt að leggja fram fyrir þá sem engar skýringar vilja. Ef að það sem sést skrifað á blogginu er raunsannur þverskurður af  skoðunum fólks um Icesave samningana, er það víst að mjög margir láta stjórnast af reiði frekar en yfirvegun. En verst er að mikil pólitík hefur hlaupið í málið og nú keppast landsfeðurnir og mæðurnar við að rugla almenning í ríminu og kenna hver öðrum um hvernig komið er.

        Sumir tala um landráð og að þjóðin hafi verið hneppt í slíkan skuldaklafa að við komandi kynslóðum blasi ekkert annað en þrældómur og ánauð. Gífuryrðin eru óhófleg og alls ekki í neinu samræmi við tilefnið. Bent hefur verið á að á sjö árum sé hægt að vinna sig út úr skuldunum og nota til þess eignasafnið sem Landsbankinn, móðurfélag Icesave átti. Þegar hefur komið í ljós að þær eignir séu umtalsverðar og nokkuð öruggar. 50 milljarðar hafa þegar verið innheimtar af því og  renna þær til að greiða niður höfuðstól lánsins.

        Þeir sem vilja ekki að ríkið standi við samkomulagið og neiti að greiða það sem breska ríkið lánaði  til að endurgreiða flestum sem Icesave skuldaði, tilgreina aldrei neinar aðrar lausnir. Bara, að borga ekki, er ekki lausn. 

        Að bjóða Bretum eignasafn Landsbankans sem fryst var í Bretlandi sem fullnaðargreiðslu mundi aldrei vera ásættanlegt fyrir Breta. Í vegi standa fyrst og fremst ýmsar reglur ESB um bankaviðskipti. Ef við "neitum bara samt"  mundi fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn sem báðar lofuðu að greiða, verða úthrópaðir um heiminn sem ómerkingar. 

        Í kjölfarið mundi Ísland ekki fá lán hjá Rússum, ekki hjá AGS (samkomulag við Breta var skilyrði) og ekki hjá neinu ESB landanna vegna þess að túlkun þeirra á innlánatryggingarákvæðum ESB er sú að íslenska ríkið, eftir að hafa yfirtekið bankana, sé ábyrgt. Á það hefur íslenska ríkistjórnin reyndar þegar fallist. Hvert ættu þá Íslendingar að leita til að endurreisa efahagslífið eftir að slík samningasvik verða gerð heyrum kunnug?

        Hefði mátt semja betur. Vextir til 10 ára í UK eru 3.5% en þá er reknað með að byrjað sé að greiða af því strax. Lán sem ekki þarf að greiða af í 7 ár með 5.5.% mundi teljast vel sloppið hér ú Bretlandi í dag.

        Hefði mátt bíða og sjá hvað gerðist ef og þegar Brown fer frá. Þetta er óvissuþáttur og erfitt að reiða sig á innanríkispólitík Breta þótt hún spili eflaust rullu í þessum samningum. Allt benti til að Darling væri á leiðinni út og það var nauðsynlegt að loka samningunum fyrir þann tíma. Eins við gerðist það ekki. Staða Browns og Darling í dag er sterkari ef eitthvað er en þegar samningarnir voru gerðir.

        Svanur Gísli Þorkelsson, 9.6.2009 kl. 10:48

        12 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

        Alveg sammála þér Ólína. Maður verður stundum að gera fleira en gott þykir og í þessu tilfelli þurdum VIÐ, - fólkið í landinu, það er ekki öðrum til að dreifa, að hreinsa upp eftir sukk annarra. ÞAÐ ER BÚIÐ AÐ SKULDBINDA OKKUR!

        Mér sýnist þeir sem tala fyrir "dómsstólaleið" telji sig geta hlaupið frá skuldbindingum okkar með einhverrju fiffi sem verði til þess að aðrir þurfi að borga skuldir sem stofnað var til með atbeina íslenskra stjórnalda að hluta. Er það boðlegt?

        Sömu aðilar virðast halda að við höfum pottþétt mál í hendi gegn... ja gegn hverjum? Þeir eru tilbúnir til að taka gífurlega áhættu samfara milljarða kostnaði til þess að sanna enn og aftur að "Íslendingar séu bestir." Ég hélt fólk væri búið að fá nóg af slíkri gagnrýnislausri sjálfhverfu.

        Eitt af meginskilyrðunum til þess að við getum haldið áfram uppbyggingarstarfi er að ganga frá þessum skuldum eins fljótt og hægt er. Fyrr getum við ekki endurreist bankana og komið atvinnulífinu af stað. Málaferli myndu þýða margra ára efnahagslegt frost á þessu landi.

        Þótt ég sé öskuillur útí bankamenn og stjórnvöld sem með glæframennsku og /eða sinnuleysi stofnuðu til skuldanna þá dettur mér ekki í hug að bæta gráu ofan á svart með því að senda óskildum aðilum víxilinn. Við verðum að draga strik undir þann hugsanahátt.

        Gangi þér vel.

        Guðl. Gauti Jónsson, 9.6.2009 kl. 11:06

        13 Smámynd: Héðinn Björnsson

        Með samþykkt þessa samnings væri Alþingi að lýsa efnahagslegu stríði á hendur íslensku þjóðinni sem við munum svara. Ef þið samþykkið þetta rjúfið þið friðinn og sitjið ekki út árið. Það er ekki bara spá heldur loforð!

        Héðinn Björnsson, 9.6.2009 kl. 12:13

        14 Smámynd: Hörður Valdimarsson

         Ætla mér ekki að taka afstöðu núna til Icesave. Mér finnst að með því að afgreiða samninginn núna séuð þið að samþykkja að við séum hryðjuverkamenn og pakk sem eigi að standa utan alþjóðasamfélagið. Að auki skulið þið þingmenn vera 100 % vissir að þessi neyðarlög standist og að ekki verði reynt að fella þau. Ef neyðarlögin falla er öruggt að Ísland verður gjaldþrota. Sjá góða lesningu um þetta hér

        Tveimur dögum (nenni ekki að fletta upp en nálægt lagi) eftir að hryðjuverkalögin voru sett á Íslendinga mættu allir stærstu leiðtogar heims á ráðstefnu til að ræða viðbrögð við fjármálakreppunni. Niðurstöður ráðstefnunnar ollu reyndar viðsnúningi í kreppunni. Ein af niðurstöðum ráðstefnunnar var að ekkert ríki mætti gera neitt sem ylli því að kreppan myndi dýpka í öðru landi og kepptust allir þessir miklu menn við að segja það þ.á.m. að ég held sá brúnaþungi frá bretlandi. Beiting hryðjuverkalaganna olli svo um munar dýpkun á kreppunni hér á landi. Menn meina jafnvel að Kaupþing hefði ekki átt að falla, en hann var stærsti banki Íslands.

        Mér finnst það með einsdæmum að stjórnmálamenn og þeir sem stjórna þessu landi, hafi ekki lagt meiri áheyrslu á að fá þessum lögum aflétt. Ekki hefur verið leitað eftir stuðningi frá frændþjóðum eða á annan hátt reynt að kynna þessa misbeitingu valds enda er raunin sú að fæstir í heiminum vita um þessa beitingu valdsins. Þetta hefur ekkert að gera með Icesave eða ekki. Við verðum einfaldlega að koma á framfæri því að svona leysum við ekki málin á meðal siðmenntaðra þjóða. Þá hef ég ekki vitað til þess að Íslendingar hafi hlaupið frá skuldbindingum sínum á liðnum árum. Ekkert getur því réttlætt þessa misbeitingu valds "vina okkar".

        Undirlægjuhátturinn er með einsdæmum. Það var verið að íhuga andrýmisflug breta fram á seinasta dag, á sama tíma og undirlægjurnar bukka sig á meðal "vina sinna". Þá hafa menn beygt höfuðið í sandinn fyrir "vinum" okkar í nato og ekki hefur verið íhugað að slíta sambandinu við breta, en íslenskur fiskur veitir mörgum vinnu í bretlandi. Ég verð að viðurkenna að þegar ég telst vera hryðjuverkamaður af alþjóðasamfélaginu get ég alveg eins gengið úr því, þar sem ég get ekki átt neitt sameiginlegt með því. 

        Það sem verra er, er að með því að fara í þessar viðræður um Icesave án þess að fá þessum lögum aflétt, eru Íslenskir ráðamenn að viðurkenna að við séum hryðjuverkamenn sem eigum að standa fyrir utan alþjóðasamfélagið samanber fyrsta hluta þessara greinar. Enda Íslendingar vanir að hlaupa frá sínum skuldbindingum.

        Mér er einungis sorg í huga þegar ég hugsa um þessar undirlægjur, og að ég hafi verið seldur fyrir þau réttindi að fá aðgang að alþjóðasamfélaginu og ekki vera skilgreindur hryðjuverkamaður. Þessir menn eru í raun og veru verri en útrásarvíkingarnir. Útrásarvíkingarnir seldu efnisleg gæði þessir aumingjar seldu okkur.

        Hörður Valdimarsson, 9.6.2009 kl. 12:20

        15 identicon

        Þannig að ferill þinn í stjórnmálum er búinn Ólína mín, stutt og laggott.
        Svo áttu ekki að hlusta á samviskuna... heldur skynsemina.

        DoctorE (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 14:31

        16 Smámynd: Gísli Ingvarsson

        Ólína gerir það eina rétta að greiða atkvæði sitt með þessum samningi. Styð hana 100%

        Ég er orðinn þreyttur á lýðskrumurunum sem halda að við eigum einhverja kostakjara leið fyrir íslands hönd. Að neita að borga er í raun uppgjöf. Við gætum ekki einu sinni byrjað stríðið.

        Að fara dómstólaleiðina er raunverulega ekki í boði og tíminn sem það myndi taka verða okkur dýrkeyptur einsog niðurstaðan. Lagaleg vörn er útópía.

        Hér er ekkert 'maybe I should have'. Þetta eru ALVÖRU samningar. The real thing. Ábyrgðarhluti. Verður að standa við. Ekkert súkkulaði með kaffinu!

        Gísli Ingvarsson, 9.6.2009 kl. 15:18

        17 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

        Hvaðan hefur þú það Gísli að dómstólaleiðn sé ekki í boði? Hvað segir það þér að hagfræðingur innan VG Lilja Mósesdóttir leggst gegn þessum samningi? Þú bara bullar.

        Sólveig Þóra Jónsdóttir, 9.6.2009 kl. 15:34

        18 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

        Við köllum bankamennina og kauðsýslusnillingana sem settu okkur í þessa stöðu útrásrvíkinga. Við vorum dálítið stolt af þeim, var það ekki, og töldum þá vera svaka kalla.

        Allt hefur þetta snúist við núna en eftir stendur hitt að þó við séum alin upp við Íslendingasögur og rekjum helst ættir okkar til vildarfólks og víkinga þá eru víkingarnir í flokki með Attilla Húnakonungi, Vandölum og Djengis Kahn í sögubókum Evrópu. Sem sagt óalandi og óferjandi.

        Með því að ganga frá þessum íslensku skuldum erum við að reyna að koma því til skila að íslenskur almenningur sé EKKI "hryðjuverkamenn og pakk sem eigi að standa utan alþjóðasamfélagið" svo vísað sé til Harðar #15 hér að framan.

        Guðl. Gauti Jónsson, 9.6.2009 kl. 17:25

        19 Smámynd: Hörður Valdimarsson

        Guðl. Guti Jónson

        Við eigum ekkert að þurfa að sanna að við séum ekki hryðjuverkamenn og pakk, og að ganga til samninga með þessi lög yfir okkur er hreynlega skammarlegt. Við höfum ekki haft þann orðstýr á okkur hingað til að við séum glæpamenn.

        Ég veit ekki hvort þú manst eftir þessum fundi í október sem ég vitna til. Á þessum tímapunkti var fjármálamarkaðurinn að hrynja og allir markaðir óstarfhæfir fyrir utan hlutbréfamarkað. Það var mál manna í fjármálageiranum, fyrir fundinn að kerfið myndi falla, ef ekkert kæmi út úr fundinum. Það mikilvægasta sem kom út úr fundinum var einmitt að "Ekkert ríki ætti að gera neitt sem myndi valda dýpkun á kreppunni í öðrum löndum" Hvers vegna á að koma fram við okkur eins og hryðjuverkamenn þegar fjöldinn allur af bönkum hefur fallið í heiminum. Bretar settu ekki lög á kana þegar lehman féll, þar voru líka fluttir margir miljarðar frá bretlandi rétt fyrir fallið.  Menn höguðu sér með skynsemi þegar Northern Rock féll. Hvers vegna á að koma öðruvísi fram við okkur. Svarið er einfalt. Vegna þess að við leyfum þeim það. Menn þora ekki að gera neitt vegna EU þar sem menn eru með einhverja draumóra aðild á næstunni. Menn eyða milljónum á milljónir ofan til að komast í öryggisráðið en geta ekki séð af neinum peningum í pr. fyrir Ísland. Þessar viljayfirlísingar leiðtoga heimsins hefðu þó átt að geta hjálpað okkur til að fá breta til að aflétta lögunum.

        Það skal tekið fram hér að ég hef í engu sagt að við ættum ekki að borga Icesave en ég vil meina að aðgerðir breta hafi gert aðstæður hér margfalt verri en þær hefðu þurft að vera. Þess vegna finnst mér þessir bitlingar þ.e. lækkun úr 7% vöxtum í 5,5 ekki plástur á sárið. Við berum allan skaðann. Við erum m.ö.o. að viðurkenna að við séum terroristar og glæpamenn og þar með viðurkennum við réttmæti þessara laga gagnvart okkur.

        Ég spyr hvers vegna þessi flýtir. Með viðurkenningu annarra þjóða á að hryðjuverkalögin hafi verið valdbeyting gegn litlu smáríki, hefði samningsstaða okkar staðið mun betur. Ég man heldur ekki að Ísland hafi sótt eftir áliti erlendra aðila um hvort við verðum að borga en ég tek líka eftir pressunni frá hinum 27 löndunum. Að auki getur undirskrift nú skaðað málsókn á hendur bretum vegna Kaupþings. Að síðustu vil ég segja eftirfarandi. Ef neyðarlögin frá því í október halda ekki eða að með einhverjum hætti skapist vafi um forgangsrétt innistæðusjóðs til eigna Landsbankans ÞÁ VERÐUR íSLAND GJALDÞROTA ef skrifað verður undir samninginn. Fjárfestar um allan heim hafa verið að kaupa kröfur í bankann fyrir slikk og þeir eyða yfirleitt ekki peningum nema einhverjar líkur séu á því að þeir fái þá til baka. Opsummeret i eina setningu FRESTUR ER Á ILLU BESTUR.

        Hörður Valdimarsson, 9.6.2009 kl. 18:16

        20 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

        Alltaf dálítið skrítið að skrifast á við fólk gegnum heimasíður annarra en...

        HÖRÐUR #20, þú imprar á ágætum punktum. Northern Rock var yfirtekin af bresku stjórninni sem tryggði að enginn tapaði fé en Lehman fór á hausinn þannig að þar töpuðu allir öllu. Hins vegar flutti bankinn miklar fúlgur frá Englandi til USA dagana fyrir fallið þannig að Englendingar voru á tánum yfir að það gerðist ekki aftur. Svo á tánum að Darling og Brown hringdu í þrígang í forsætis- og fjármálaráðherra okkar fyrir fall bankanna til að reyna eftir bestu getu að tryggja hag breskra þegna og til að bjóða aðstoð eftir tilteknum leiðum. (Þetta kemur m.a. fram í Hruninu.)

        Við yfirtókum hinsvegar íslensku bankana og berum því ábyrgð bæði sem eigendur þeirra og gegnum tryggingarsjóðinn. Það eru því 3 mismunadni aðferðir notaðar í þessum 3 tilvikum. Miðað við samninginn erum við þó "aðeins" gerð ábyrg á þeim kröfum sem áttu að lenda á tryggingarsjóðnum. Það er bara um helmingur af öllum innlánum á Icesave reiknigum skilst mér. Og við verðum að hegða okkur eins og siðað fólk sem tekur afleiðingum gerða sinna. Í þessu tilfelli er það ekki mikill vandi því að mínu viti eigum við ekki annarra kosta völ.

        Guðl. Gauti Jónsson, 9.6.2009 kl. 20:10

        21 Smámynd: Sigurður Þórðarson

        "Dómstólaleiðin er ekki fær" hefur þú eftir einhverjum.  En það er vegna þess að Bretar vilja ekki og þora ekki að fara dómstólaleiðina. 

        Dómstólaleiðin verður aftur á móti fær um leið og þingið er búið að samþykkja skuldabréf og það fer í vanskil.--

        Sigurður Þórðarson, 9.6.2009 kl. 20:55

        22 Smámynd: Valan

        Með fullri virðingu þá myndi ég vilja heyra það frá dómstólunum sjálfum að þeir vilji ekki taka að sér málið - tel að hér sé verið að vanmeta stórkostlega dómstóla sem ég tel að margir hverjir myndu líta á þetta sem dómsmál áratugarins og ekki vilja sjá það enda annarsstaðar en á sínu eigin borði. 

        Annars vil ég bara lýsa vonbrigðum mínum með það að þú takir þátt í þessum ósóma sem þessi ICESAVE samnings-skuldaánauðn er. Ég hélt þú hefðir meira bein í nefinu en að láta fóðra þig á áróðri (hver sem hann nú er) um hvað gerist ef við borgum ekki. Næstu ár verða mögur fyrir Íslendinga, en með ICESAVE samningnum verða þau ekki bara mögur heldur verður þjóðin auk þess ófrjáls og ærulaus.

        Ég myndi gjarna vilja vita hvað þingmönnum á borð við þig Ólína, hefur verið sagt til þess að fá ykkur til að samþykkja þetta hneyksli, vegna þess einfaldlega að það myndi veita mér kærkomið tækifæri til að hrekja þá orðræðu. Það er enginn réttlæting (jafnvel þó að ESB hótaði að varpa sprengjum á Ísland) til fyrir því að skrifa undir skuldaþrældóm og efnahagslega frelsissviptingu lýðveldisins.

        Valan, 9.6.2009 kl. 23:26

        23 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

        Ég ætlaði nú bara að þakka þér fyrir góð og skilmerkileg skrif um þína afstöðu.

           Um leið og mig langaði til að segja þér, að eftir vandlega skoðun á Icesave málinu, og þeirri umfjöllun erlendra fjölmiðla um málið sem ég hef komist yfir,  þá hefur þú sannarlega lög að mæla í pistli þínum.  Og ég er þér hjartanlega sammála, um þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir Alþingi. 

        Með vinsemd, virðingu, og kærum kveðjum.   Lilja Guðrún

        Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 10.6.2009 kl. 00:14

        24 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

        Sigurður, það er góður siður að hafa rétt eftir fólki og taka ekki orð þess úr samhengi. Það sem ég segi um dómstólaleiðina er þetta:

        Dómstólaleiðin er að mati fjölmargra lögfræðinga ekki fær fyrir okkur - þeir bjartsýnustu segja hana afar áhættusama.

        Vala, ég skal ekkert um það segja hvorumegin í þessu máli áróðurinn er þyngri - en þú getur kynnt þér afstöðu mína og þær upplýsigar sem ég hef með því að lesa bloggfærslur mínar síðustu daga.

        Ef þú sérð eitthvað rangt í þeim málflutningi, eða telur þig hafa réttari upplýsingar, þá væri afar gott að fá upplýsingar um það. Ég hef eina lífsreglu, og hún er : Hafa skal það sem sannara reynist.

        Guðlaugur Gauti, takk fyrir þín málefnalegu innlegg hér.

        Ég þakka líka öðrum þeim sem hér hafa komið hér inn til að ræða málið með rökum.

        Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.6.2009 kl. 09:47

        25 Smámynd: Tóti Sigfriðs

        Ég þakka þér fyrir "svörin" vegna spurninga minna.

        Ég túlks þetta þá þannig að þú getir ekki ábyrgst eða skýrt afstöðu þína í þessum málum.

        Kær kveðja

        Þórður G. Sigfriðsson

        Tóti Sigfriðs, 10.6.2009 kl. 10:25

        26 Smámynd: Hörður Valdimarsson

        Guðl. Gauti,

        Við erum siðað fólk en það er meir en hægt er að segja um hinn samningsaðilann. Enda ekki við öðru að búast frá þeim. Þó að menn hafi sett einhver hryðjuverkalög fyrir mistök er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að afnema þau, þau hafa nú hvílt á okkur í alla þessa mánuði. Nei það á ekki að undirskrifa neina samninga við breta fyrr en þessum lögum sé aflétt. Ef menn eru að skrifa undir þetta vegna peningaleysis þá bendi ég mönnum á að Danski og Sænski utanríkis ráðherrarnir segja að við getum fengið lánið hjá þeim strax. HVERS VEGNA ÞESSI FLÝTIR.

        Svo mundi ég nú ekki blanda nýju og gömlu bönkunum saman með því að segja að við höfum tekið við öllum ábyrgðum gömlu bankana þetta er einfaldlega rangt. Strategian er einmitt sú að taka bestu bitana úr gömlu bönkunum en láta erlendum kröfuhöfum eftir restina. Það má færa rök fyrir því að SPRON hafi einmitt fallið vegna þessa en þar voru erlendir kröfuhafar í meirihluta.

        Hörður Valdimarsson, 10.6.2009 kl. 11:55

        27 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

        Þórður, þú spyrð hvort ég geti "persónulega ábyrgst" að ekki sé verið að liðka fyrir "okkur" að komast inn í ESB?

        Svar: Þessi samsæriskenning um hótanir frá ESB held ég að sé hugarórar einir. Hitt er jafn ljóst að ef við förum ekki samningaleiðia í Icesave málinu þá verðum við útskúfuð úr alþjóðasamfélaginu, þ.á.m. Evrópu og Asíu. Það höfum við lengi vitað, og þess vegna ályktaði alþingi þann 4. desember s.l. að ríkisstjórnin ætti að fara samningaleiðina í þessu máli.

         

        Þú spyrð hvort ásættanlegt sé  "að við setjum okkur í hrikalegar skuldir og hugsanlegt gjaldþrot sem sjálfstætt ríki, til að verja gallaða stefnu ESB í bankamálum?"

         

        Svar: Þarna gefur þú þér forsendur sem ég get ekki fallist á. Ég tel ekki að Icesave samingurinn kalli yfir okkur gjaldþrot - þvert á móti held ég að hann bjargi okkur frá því. Og markmið saminginsins er ekki að verja einhverja ESB stefnu í bankamálum.

         

        Loks spyrð þ ú hvort mér finnist í lagi að við sem þjóð beygjum okkur fyrir "hótunum og þvingunum frá svokölluðum vinum okkar?"

         

        Svar: Nei mér finnst það ekki í lagi að vera í þessari stöðu. Það er bara helvítis fokking fokk - en ekkert okkar bað um þetta.

        Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.6.2009 kl. 22:48

        28 Smámynd: Sigurður Þórðarson

        Sæl Ólína, það var ágætt að ég leit við hérna aftur.  Því þú hefur greinilega misskilið mig. Ekkert er fjarri mér en að snúa út úr orðum þínum eða hafa rangt eftir.  Það að dómstólaleiðin sé ekki fær er bein tilvitnun í þig og er mat margra og um það rengi ég þig ekki.  En svo held ég sjálfur áfram og segi: "En það er vegna þess að Bretar vilja ekki og þora ekki að fara dómstólaleiðina."  Setningin að ofan er ekki tilvitnun í þín orð og enn síður bein ræða eftir þér höfð. Nei, þetta er túlkun á orðum Steingríms Sigfússonar úr kastljósi fyrir fáum dögum. 

        Að þessum orðum sögðum  vil ég segja þetta:

        Ég viðurkenni að ég hef mjög sterkar skoðanir í þessu máli og eðlilega snertir þetta okkur öll mjög djúpt.  Þetta hefur orðið til þess að ég hef í hita leiksins látið tilfinningar augnabliksins ráða.   Ýmislegt hefði ég sagt með öðrum hætti ef ég hefði lesið textann yfir.  Það hefur þó ekki orðið til að ég eyddi færslum eða breytti texta. 

        Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að við  viljum öll landi okkar og þjóð vel þó við séum á öndverðri skoðun um lausn þessa máls.  Staðreyndin er sú að það er engin góð lausn til á þessum .......vanda.  

        Ólína, við erum ósammála en að þessum skýringum fengnum vona ég að við séum ekki ósátt.

        Sigurður Þórðarson, 10.6.2009 kl. 23:32

        29 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

        Sæl Ólína

        Mér skilst að Bretar og Hollendingar borgi það sem vantar upp á fyrir einstaklinga en ekki hina. Nú eru málaferli í gangi í Hollandi gegn Landsbankanum og sveitastjórn hefur sagt af sér. Munu Hollendingar og Bretar borga þessum aðilum eða má vænta frekar krafna á Íslendinga?

        Getur þú sagt mér hvort það sé tryggt að sveitastjórnir, góðgerðarsamtök og aðrir sem ekki fá mismun á milli þess sem vantar upp á 100% bætur og þeirra bóta sem Íslendingar borga samkvæmt samninginum geri ekki kröfu á Íslendinga (þ.e.a.s. að samningurinn veiti skjól gagnvart slíkum kröfum)?

        Ertu viss um að þessi samningur sé það besta sem unnt er að fá (loki fyrir allar viðbótarkröfur)?

        Ef ríkisstjórn Gordon Brown fellur, mætti þá vænta vinsamlegra viðhorfa til vanda Íslending hjá nýrri stjórn þar?

        Verðum við að samþykkja þennan samning til að fá AGS lánið afgreitt?

        Liggur á að fá þennan samning samþykktan?

        Það er auðvitað best að semja, en það er ekki víst að þessi samningur sé boðlegur. Telur þú að Alþingismenn hafi fengið öllum spurningu svarað á óyggjandi máta til að vera algjörlega vissir um:

        1. Að þetta sé besti mögulegi samningur
        2. Að Íslendingar geti staðið við sinn hluta án þess að hér verði Argentínskt ástand og landflótti (m.ö.o. að eignirnar séu raunverulegar og dugi langleiðina)
        3. Að aðrir kostir séu betri en þessi samningur þótt þeir séu einnig slæmir

        Þetta er 15 milljóna skuldbinding á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu.

        Þorsteinn Helgi Steinarsson, 10.6.2009 kl. 23:38

        30 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

        Fyrirgefðu Sigurður - ég misskildi orð þín. En það er rétt sem þú bendir á, Bretar hafa m.a. staðið í vegi fyrir því að hægt væri að fara dómstólaleiðina.

        Ég er fullkomilega sátt við þig þó við séum ósammála, enda erum við bloggvinir góðir.

        Lilja - bestu þakkir fyrir þín orð.

        Þorsteinn - ég get ekki verið fullviss um nokkurn skapaðan hlut í lífinu nema nútíðina. Það höfum við Íslendingar líka lært, að allt er íheiminum hverfult. En miðað við þær upplýsingar sem ég hef undir höndum þá er þetta illskásti kosturinn sem við höfum í stöðunni. Ég er sannfærð um það, nema fram komi aðrar og óyggjandi upplýsingar sem kollvarpa því mati.

        En nú ætla ég að draga mig út úr þessari umræðu að sinni - ég þarf svolítið næði til þess að þykkja skrápinn.

        Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 11.6.2009 kl. 15:47

        31 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

        Það er efalust rétt að við verðum að taka einhverja ábyrgð á okkur vegna þessa, en þessi samningur eins og han kemur fyrir sjónir almennings er með öllu óásættanlegur, ef eignir landsbankarns er svona góðar þá er hægt að leysa þetta á einu bretti og það strax, með því að færa bretum og hollendingum þessar eignir sem greiðslu fyrir sukkið, og við það yrði málið úr sögunni, leyst, búið, það er réttlátasta leiðin, ábyrgð okkar staðin.

        Steinar Immanúel Sörensson, 13.6.2009 kl. 11:21

        Bæta við athugasemd

        Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

        Innskráning

        Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

        Hafðu samband