Umskiptingar umræðunnar

Umræðan um Ice-save samningin er orðin gjörsamlega galin. Aðrar eins yfirlýsingar og sést hafa hér á blogginu í fyrirsögnum, færslum og athugasemdum, eiga sér ekki fordæmi (ekki einu sinni í Lúkasar-málinu víðfræga).

Stjórnarandstæðingar virðast hafa náð þeim merka árangri í þessu máli að trylla almenning úr hræðslu. Ábyrgur málflutningur eða hitt þó heldur. Í því ljósi er athyglisvert að rifja upp málflutning eins þeirra, Bjarna Benediktssonar, fyrir fáeinum mánuðum síðan, þegar hann talaði fyrir samkomulagi af þessu tagi í þinginu, eins og bent hefur verið á (hér). Það er ekki að sjá að hér tali einn og sami maðurinn.

Nú er látið í veðri vaka að stjórnvöld hafi skrifað undir samning sem muni koma þjóðinni á vonarvöl. Kjörin sem okkur bjóðist í þessum samningi séu afleit, og við munum aldrei geta risið undir þessu. Allt er þetta rangt.

Í samningnum felst að við getum hvenær sem er fengið að greiða þetta lán upp - og það getum við ef okkur býðst annað hagstæðara lán.  Auk þess gefst okkur greiðslufrestur fyrstu sjö árin - og það munar um minna í þeim þrengingum sem þjóðin gengur í gegnum nú.

Enginn samningur er undirritaður fyrir hönd þjóðarinnar nema með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Það er því mikil rangfærsla að láta eins og hér sé verið að skuldbinda þjóðina án samráðs við þingið. Þetta mál verður að sjálfsögðu til umfjöllunar og endanlegrar staðfestingar þar. Stóð aldrei annað til.

Hins vegar er jafn ljóst að það er hlutverk stjórnvalda að framkvæma stjórnarathafnir og gera samninga í umboði kjósenda. Þau stjórnvöld sem nú sitja hafa fullt umboð til þess sem þau eru að gera. Þau voru til þess kosin. Það er svo Alþingi sem hefur síðasta orðið - í þessu máli sem öðrum.

Hér er farið að landslögum. Hér er unnið í þágu lands og þjóðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lagalega séð er það ekki skýrt að Íslendingum beri yfir höfuð að borga þetta.

Það er vitað mál að Bretar og ESB vilja ekki láta reyna á lagarökin þar sem menn vilja ekki skapa óvissu um gildi innistæðutrygginga á þessum tímum.

Auðvitað er það bæði skiljanleg og skynsamleg afstaða að vilja frekar fara samningaleiðin í málinu en að fara í hart og bjóða heim gagnaðgerðum Breta og ESB en...

...ef að fólk setjast að samningaborði í þessari aðstöðu og koma heim með það sem nú er verið að kynna - öll áhætta felur á Íslendinga og vextirnir eru háir - þá er það óskiljanlegt nema að þarna komi til eitthvað sem almenningi er ekki sagt frá eða þá að aumingjaskapurinn sé því meiri.

Þessi samningur - a.m.k eins og hann lítur út utanfrá séð - gefur fullt tilefni til þess að nota stór orð. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 11:30

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Hans - það er a.m.k. ljóst að Íslendingar treysta sér ekki til þess að láta reyna á málið fyrir dómstólum. Það ætti að segja sína sögu um réttarstöðu okkar.

Samningaleiðin er sú eina sem er fær eins og málum er háttað. Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi, fyrir öll okkar milliríkjaviðskipti, innflutning og útflutning. Já, allt efnahags- og atvinnulíf okkar sem veltur á því að traust okkar á alþjóðvettvangi aukist, að gjaldeyrisforðinn aukist og að það liðkist um viðskipti milli landa.

Það er ótrúlegt hvernig andstæðingum ríkisstjórnarinnar hefur tekist - með dyggri aðstoð fjölmiðla - að snúa þessu máli upp í andhverfu sína.

Það er sú staðreynd - ekki þessi samningur - sem gerir mig hrædda. Því ef ekkert er að marka umræðuna, við hverju má maður þá búast?

Ég er verulega hrædd við þau ógnaröfl sem sýna sig í óábyrgri umræðu, grímulausri hagsmunagæslu og valdagræðgi þessa dagna.

Almenningi væri nær að óttast þau öfl - og læra af reynslunni.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.6.2009 kl. 11:43

3 identicon

Vísar Samfylkingin í afstöðu Samfylkingarinnar máli sínu til stuðnings?

Samfylkingin var í stjórn þegar málið kom upp og hefur haft þá gallhörðu afstöðu að málið skuli leysa með pólitísku samkomulagi en ekki málaferlum.

Það er augljóst hver samningstaða Íslands er ef að ríkistjórnin slær það fyrirfram út af borðinu að fara í hart.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 11:53

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sparaðu útúrsnúningana Hans.

Þú gleymir því greinilega að 27 lönd tóku sig saman og neituðu að aðstoða okkur með lánveitingum nema Ice-save deilan yrði fyrst leidd til lykta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.6.2009 kl. 12:01

5 identicon

Stjórnarandstæðan hvað??

Hvernig væri nú að þú Ólína og já þið allir flokkapólitísku einstaklingar hæfuð ykkur upp yfir þetta eilífa flokkapólitíska þras

Getur verið að fólk kannski kann að hugsa sjálfstætt? Fólk kann að reikna og lesa sér til sjálft? Það þarf enga ´"stjórnarandstöðu" til þess..

Ég er hætt að þola þessi stjórnmál. Ef þú ert xB þá ertu svona, ef þú ert XVG þá ertu hinseginn og enginn af hinum tekur mark á þér.

Ég er í ENGUM flokki, punktur !

Ég les mér sjálf til! Ég hef kynnt mér ESB sjálf! Ég hef kynnt mér hvernig IMF starfar, sjálf!

Og ég segji, það er verið að KÚGA íslensku þjóðina til að gera hluti sem myndi ALDREI vera samþykkt hjá stórveldunum. Við eigum að stoppa núna. Við verðum. Við megum ekki lengur láta kúga okkur til hlýðni bara svo við getum verið "þjóð á meðal þjóða". Við höfum ekki efni á því, svo einfalt er það.

Þessi samningur Ólina er hræðilegur, ég skal segja þér það að bretar munu sjá til þess að við fáum ekki mikil verðmæti fyrir þessar eignir Landsbankans þarna úti. Og afhverju?

Vegna þess að þeir vilja það ekki, þeir vilja geta fengið auðlindir okkar upp í skuldirnar. Svona hafa þeir ALLTAF unnið.

Það er svo rosalega mikill "naivismi" að halda öðru fram að það nær ekki nokkurri átt...

Þið verðið að fara að opna augun kæra fólk..

og hætta að tala um einhverja "hysteriu"

Ég hef engan áhuga á að segja seinna "I told you so"... engan... alls engan áhuga á því.

Íslendingar láta ekki kúga sig! Við erum töff! Við segjum Nei. VÉR MÓTMÆLUM ÖLL !! (nema hörðustu stuðningsaðillar ríkisstjórnar)

Björg F (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 12:02

6 Smámynd: Héðinn Björnsson

Hér verður engin sátt um þessa samninga og ég á eftir að sjá þá komast í gegnum þingið. Ef svo gerist efast ég hinsvegar um að að það verði mörg mál í viðbót sem þetta þing mun geta tekið fyrir. Þá munið þið sjá eigin kjósendur umkringja þingið og hyndra að það haldi áfram að jarða íslenska framtíð.

Héðinn Björnsson, 7.6.2009 kl. 12:10

7 identicon

Þetta eru engir útúrsnúningar. Samningstaða Breta og ESB fólst í því að það var hægt að neita okkur um gjaldeyrislán frá IMF.

Samningstaða Íslands hefði átt að felast í því að við gátum farið dómstólaleiðina og þannig grafið undan tiltrú erlendra innistæðueigenda á öllum lánastofnunum í ESB.

Við þessar aðstæður hefði verið hægt að gera samning sem væri ásættanlegur fyrir báða. Við myndum viðurkenna formlega ábyrgð en skilmálarnir yrðu með þeim hætti að skuldin yrði örugglega ekki íþyngjandi.

Samt fór Samfylkingin til Lundúna og gerði hreinan uppgjafarsamning. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 12:13

8 Smámynd: GH

Fólk lætur eins og þessir IceSafe samningar séu einhver sérstakur skepnuskapur í garð Íslendinga. Svo er ekki. "Stórveldin" hafa einfaldlega ekki lent í því sama og við -- þau hafa greitt miljarða á miljarða ofan af fé skattgreiðenda inn í sína banka til að forða þeim frá gjaldþroti, og þar með að þurfa að lenda í því sem við stöndum frammi fyrir nú -- þ.e. að standa við skuldbindingar þjóðarinnar. Því miður birtist í þessari svokölluðu "umræðu" einkennilegustu og heimskulegustu drættirnir í íslensku hugarfari sem ganga út á það að útlendingar séu upp til hópa með það helst á heilanum að mergsjúga Íslendinga og hirða af þeim auðlindir. Þessi IceSafe deila er, því miður, dæmi um þveröfugt, þ.e. íslensk stjórnvöld leyfðu bönkunum að vaxa Íslendingum langt yfir höfuð og "víkingana" að ræna og rupla í nágrannalöndunum eins og að þeir kæmust upp með það endalaust. En hlutverk stjórnvalda er einmitt að halda uppi lögum og reglum, typta þá þegna sína sem brjóta reglur, haga sér gáleysislega og stefna hag annarra (bæði samlanda og aðra) í hættu. Það gerðu íslensk stjórnvöld ekki, heldur dásömuðu "útrásina" og nú súpa kjósendur allir seyðið af því að hafa látið Sjálfstæðisflokk reka sína reiðileysisstefnu í 18 ár.

Að síðustu: Það er ekkert töff við að haga sér eins og asni, það sjáum við nú. Íslendingar áttu að segja nei árið 2006 þegar fyrstu merki um yfirvofandi hrun sáust, en hver var tónninn þá? Þetta var allt öfund í þessum andsk. útlendingum sem vita ekki hvað Íslendingar eru sniðugir. Við reddum þessu af því að við erum svo töff og fljót að taka ákvarðanir. Þetta var tónninn þá, því miður -- kannski að við hefðum átt að hlusta betur á sérfræðinga Danske bank!

GH, 7.6.2009 kl. 12:20

9 Smámynd: Einar Þór Strand

Það sem gerir mig hræddan er ekki ESB eða stórþjóðir Ólína heldur stjórnmálamenn en og þú sem hafið hvorki vilja, getu né þor til að standa upp og verja þjóðina, heldur viljið fórna öllu fyrir ESB.  Fólk sem heldur að menntun felist í því að læra mis gáfulegar kenningar um þjóðfélag og stjórnmál og gera það að trúarbrögðum, fólki sem finnst í lagi borga 35 milljarða í vexti á ári af láni sem okkur ber enginn skylda til að taka yfir.  Menntun ykkar er í raun í öfugu hlutfalli við fjölda prófa og lengd skólagöngu, kannski einkum vegna þess að það sem kennt var var byggt á veikum og jafnvel engum grunni heldur meira athugunum og hugdettum, sem þó þær séu unnar eftir viðurkenndri aðferðarfræði geta ekki sagt fyrir um hvað gerist því að mannannaverk eru óútreiknanleg. 

Spurningin er hvort við þurfum að fara að setja venjulegt fólk á þing fólk sem þorir að brjóta flokksagan og halda forustunni á tánum.  Fólk sem er ekki með þá hugsýn að það sé betra en almenningur.  Það skín nefnilega í gegn hjá þér og mörgum öðrum stjórnmálamönnum hvað þið eruð aristokratisk í hugsun og lítið niður á skoðanir almennings.

Og mundu að það var ekki hvað síst þinn flokkur sem sem barðist með kjafti og klóm gegn því að útrásin væri skoðuð og það eftir að fyrrum samstrafsflokkur ykkar í ríkisstjórn var farinn að reyna að láta skoða þá, en nei það mátti ekki skoða Baug.

Reyndu ekki heldur að segja að ég sé að verja sjallana því þeir eru með allt niðrum sig, en málið er þið eruð það líka og eru ekki trúverðug og þess  vegna er kannski rétt að þið víkið áður en þið drepið okkur alveg.

Og síðan Alþingismenn Pereat!

Einar Þór Strand, 7.6.2009 kl. 13:22

10 identicon

gjörningurinn á sér ekki fordæmi.

zappa (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 14:03

11 Smámynd: Einar Guðjónsson

Það er sjálfsagt að bíða og sjá hvernig samningurinn lítur út.Eftir fréttum að dæma er gengið að öllum kröfum breta eins og þær voru settar fram í símtali Darlings við Mathiesen.Svo ekki skilur maður hvers vegna beðið var í 8 mánuði.

Vaxtakjörin eru ömurleg og samsvarandi og bjóðast lélegu smáfyrirtæki í Evrópu.Mistökin fólust auðvitað í því að mismuna kröfuhöfum í upphafi hruns auk meðvirkni stjórnvalda í bankasvindlinu.

Um þessa samninga var ekki kosið og þetta eru svo afdrifaríkir samningar um að færa Ísland aftur til steinaldarstigs að um þá á að kjósa. 

Einar Guðjónsson, 7.6.2009 kl. 14:18

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Einar Þór - ég skora á þig að lesa þessa athugasemd þína aftur eftir tvo dag - þá sérðu kannski þinn eigin málflutning í öðru ljósi.

Þú skalt ekki ætla mér það að líta niður  "venjulegt fólk" sem þú kallar svo. Hvernig fólk er það? Er ég ekki venjulegt fólk? Sit ég ekki í sömu súpu og aðrir í þessu landi?

Þú trúir því kannski að ég og aðrir sem styðjum þessa ríkisstjórn gerum það að illsku okkar og illvilja í garð þjóðarinnar? Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega?

Hugsaðu um hvað þú segir. Það ert þú sem ert að búa til mun á milli manna með orðum þínum - athugaðu það.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.6.2009 kl. 14:49

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég veit ekki hvort það er stjórnarandstöðinni að kenna en það er satt að umræðan um Icesave er komin út í tóma móðursýki. Flokksólitíkin hjálpar ekki upp og ekki heldur mjög dræmt upplýsingaflæði um stöðu samninganna. Allt svona leynimakk hleypir illu blóði í fólk.

Fólk áttar sig ekki á að það er verið að enda langt samningsferli þar sem Ísland var þegar búið að skuldbinda sig til að borga, aðeins átti eftir að semja um á hvaða kjörum. Samningsferlið hófs strax eftir að Bretland og Holland greiddu öllum einka-innlánurum Icesave með lánum sem Íslendingar lofuðu að greiða til baka.

Þetta með samþykki þingsins sem þú reifar Ólína, finnst mér samt hálfgert yfirklór. Meirihlutinn verður að samþykkja þessa samninga, annars fellur stjórnin. Allar aðgerðir stjórnarinnar, lántökur og fyrirgreiðsla erlendis mundu lenda í uppnámi ef Icesave samningurinn verður feldur á þingi. Því er það formsatriði að þingið samþykki hann.

Einhverjir segja að það hefði mátt ná betri samningum vegna þess að stýrivextir hér í Bretlandi séu aðeins 1%. Hér í Bretlandi fær enginn maður lán á 1% vöxtum. Lán án fasteignatrygginga fást best á 7% og með tryggingum best 4%.

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.6.2009 kl. 16:15

14 Smámynd: Gunnlaugur I.

Ég viðurkenni alveg að það getur vel verið að þetta sé illskásta lausnin úr því sem komið var að gera þennan samning með þessum hætti, en það er líka vegna þess að fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sýndu þann fádæma vesældóm að samþykkja það að málið færi ekki fyrir dómstóla, heldur yrði leyst á þessum nótum.

En málið er Ólína að vegna þess hvernig þið í Samfylkingunni hafið keyrt á þessu ESB máli og þannig splundrað þjóðinni þá er það svo að sá stóri hluti þjóðarinnar sem alls ekki vill ESB með einu eða neinu móti á því algjörlega ómögulegt með að geta treyst ykkur á einn eða annan hátt.

Þið súpið nú seyðið af því.

Þið hafið með þessu skarað eld að höfði ykkar og unnið ykkur það til óhelgis að hafa tvístrað þjóðinni í illvígar fylkingar, einmitt nú á þeim erfiðu tímum þegar helst hefði þurft að þjappa þjóðinni saman.

Ég held að það sé rétt hjá þér að það eru stór orð að tala um "landráðmenn" og á sér varla fordæmi í íslenskri stjórnmálaumræðu.

Hér er ekki að einn og einn maður sé að tala þannig, nei það eru þúsundir manna sem finnst að ESB stefna Samfylkingarinnar sé ekkert annað en landráðastarfsemi.

Það sýnir bara hvað málið er grafalvarlegt og hversu reiðin ristir djúpt í garð ykkar.

Þetta eru ykkar stærstu og afdrifaríkustu mistök og þið eigið pólitískt eftir að gjalda þessa og súpa seyðið af þessu í marga áratugi. 

Fyrir mjög marga er þetta svo mikið tilfinninga mál að ekkert annað skiptir jafn stóru máli í stjórnmálum samtímans.

Þessi hópur fólks er miklu stærri og öflugri en þið getið ímyndað ykkur. En þið eruð rétt að byrja að kynnast því.

Það væri hollt ef einhver innan ykkar raða næði að sjá að sér og alla vegana ákveða að fresta öllu þessu ESB smjaðri næstu 2 árin eða svo og reyna svo að sameina þjóðina í því að byggja upp.

Það væri þá kanski einhver von.

Gunnlaugur I., 7.6.2009 kl. 16:17

15 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Virðing fyrir anddstæðum skoðunum fer mjög þverrandi hér í bloggheimum - það lýsir sér m.a. í því hvernig menn nálgast umræðuefnið og andstæðinga sína. Mér þykir það mjög miður hvernig þessi umræða hefur þróast.

En Gunnlaugur - Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur skýra stefnu í Evrópumálum. Þá stefnu buðum við fram fyrir þessar kosningar, og hlutum brautargengi.

Gleymdu því ekki.

Annars er ég farin að mæðast á þessari umræðu, enda búin að fá mig fullsadda af bölbænum og formælingum í sambandi við þetta mál. Ég sé æ minni tilgang í því að rökræða þessa hluti við fólk, þegar maður uppsker lítið annað en bölv og ragn.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.6.2009 kl. 16:52

16 Smámynd: Björn Heiðdal

Það er voða erfitt að verja hið óverjandi, Ólína mín.  Skiptir engu máli þó viðkomandi sé í Sjálfstæðisflokknum eða Samfylkingunni.  Verra er að þurfa snúa útúr máli sínu til stuðnings. 

Þú segir hér að ofan eftirfarandi : "... og við munum aldrei geta risið undir þessu. Allt er þetta rangt.Í samningnum felst að við getum hvenær sem er fengið að greiða þetta lán upp - og það getum við ef okkur býðst annað hagstæðara lán."

Við getum vel staðið undir þessu ef við getum fengið annað betra lán!  Er þetta grín eða hvað?  Taka ný lán til að borga gömlu lánin er ekki að standa undir greiðslum heldur að velta vandanum á undan sér.

Síðan ertu að gefa stjórnmálastéttinni of mikið credit fyrir skoðanir almennings.  Sumir geta hugsað sjálfstætt og taka ekki mark á ykkur Bjarna og félögum.  

Eg held að það sé rétt hjá þér að búast ekki við vitrænum umræðum á þinni síðu ef þú heldur áfram að bulla svona. 

Hvernig færðu það út t.d. að Samfylkingin sé með skýra stefnu í Evrópumálunum.  Hvernig viljið þið t.d. að ESB þróist?  Hver er skoðun ykkar á CAP eða nýja evrópuhernum(afsakið friðargæslusveitum)?  Þið hafið enga stefnu um málefni ESB og enga opinbera skoðun á þróun sambandsins.  

Björn Heiðdal, 7.6.2009 kl. 17:25

17 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæl Ólína. 

Ég get alveg skilið það að það hlítur oft að vera ansi erfitt og líjandi að sitja undir þeim formælingum og bölbænum sem hér á blogginu eru oft kveðnar. Ekki síst fyrir Alþingismann sem hefur nóg á sinni könnu og á því í mjög mörg horn að líta.

Ég verð þó að hæla þér alveg sérstaklega fyrir mjög snarpar og góðar greinar hér á blogginu og ekki síður fyrir það að hafa athugasemdarkerfið þitt opið fyrir frjálsum skoðanaskiptum, sem þú svo líka tekur oft sjálf þátt í. 

Þetta er mikið meira en margir aðrir þora að leyfa sér. Ekki síst margur Alþingismaðurinn sem hafa þetta allt harðlokað og læst.

Fyrir þetta áttu mikinn heiður skilið Ólína, hvað sem líður ósætti mínu og margra annarra í þinn garð varðandi ESB málin.

Vona ég að þú takir ekki uppá því að loka fyrir þetta gagnvirka skoðanaskiptakerfi, það væri mjög miður.

Ég skal reyna að gæta alls velsæmis og temja orðbragð mitt en víst get ég orðið ansi hvassyrtur stundum.

En varðandi það að þú segir réttilega þá var Samfylkingin eini stjórnmálaflokkurinn sem var með skýra stefnu um að ganga í ESB fyrir síðustu kosningar 

En svo segir þú að flokkurinn hafi hlotið brautargengi. En ekki skil ég nú hvernig þú færð það út að þið hafið með 29,9% fylgi fengið brautargengi til þess að fara  þessa ESB stefnu ykkar. Hvað þá með 70,1% þjóðarinnar sem eru ekki á ykkar málum.

Ég og margir fleiri studdum VG í síðustu kosningum einmitt vegna þess að þeir virtust einarðir í stefnu sinni gegn ESB. Við beinlíns studdum þá vegna þess að við vildum andæfa þessum yfirgengilega ESB rétttrúnaði ykkar.

Reyndar stóð VG uppi sem lang stærsti sigurvegari síðustu kosninga ekki síst vegna einarðarar andstöðu sinnar við ESB.

Svo bregður svo við að þessir tveir flokkar fara saman og mynda meirihluta ríkisstjórn og sú ríkisstjórn tekur það strax upp sem aðalmál að sækja um ESB aðild.

Þetta hefur hleypt mjög illu blóði í mig og marga aðra ESB andstæðinga, ekki síst okkur þá sem studdum VG. 

Eina málamiðlunin sem hægt var og er reyndar enn hægt að fara í þessu viðkvæma deilumáli er að það yrði kosið um það meðal þjóðarinnar hvort hún vilji leyfa núverandi stjórnvöldum að sækja um ESB aðild og fara í aðildarviðræður á grundvelli þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, EÐA EKKI.

Ef það verður ekki gert og þjóðinni nú þvælt inní ESB aðildarviðræður án beinnar aðkomu þjóðarinnar sjálfra að þessu stóra máli þá er verið að slíta sundur friðinn í þessu landi.

Þá er mér fjandans sama um þessa ríkisstjórn. Fari hún bara norður og niður og við munum berjast á móti öllu sem hún gerir.

Gunnlaugur I., 7.6.2009 kl. 17:52

18 Smámynd: Einar Þór Strand

Ólína það getur verið að þér finnist ég búa til mun með þessu, en frá mínum bæjardyrum séð þá bý ég ekki til það sem þegar er orðið með að benda á það.  Stjórnar aðstaðan fór mikinn í skjalborg um heimilin sem hvergi finnst og mun ekki finnast eftir að þessir samningar hafa verið gerðir því það verður jú að eiga fyrir vöxtunum er það ekki, og það að semja um 5,5% vexti á þessu Icesave láni sýnir að ekki á að lækka vexti hér á landi niður fyrir 4% raunvexti.  En það er einmitt það sem þarf að gera til að koma efnahagslífinu í lag, til dæmis væri ekki fjarri lagi að raunvextir á húsnæðislánum ættu að vera 1 - 2% í dag í staðin fyrir 4,15 - rúmlega 6%.  Og veistu það kostar ekkert að gera það annað en að þeir sem eiga fjármagnið fá ekki eins mikinn arð.

En ég fann ég kom við kvikuna í þér og það er gott því það veldur því að þú ferð að hugsa og eitt verð ég að hæla þér fyrir að þú ert einn af fáum þingmönnum sem leyfa commennt og er það vel, en hins vegar þá verður þú að muna að eftir að þú settist á þing þá ertu ekki lengur bara Ólína Þorvarðardóttir einstaklingur (erum það reyndar alltaf) heldur alþingismaður og verður sem opinberpersóna á umbrotstímum að þola það það við kjósendur látum flest vaða og það taka því þó auðvitað megið þið bera hönd fyrir höfuð ykkar en þó af hógværð.

Einar Þór Strand, 7.6.2009 kl. 18:03

19 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hlustið hér....

Mokið ykkar flór



 ...ekki ráðast á fólkið sem "mokar flórinn"?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 7.6.2009 kl. 18:38

20 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Er nú þeirrar skoðunar að við hefðum ekki átt að tala við breta fyrr en hryðjuverkalögunum hefði verið aflétt. Ekkert alvöru ríki hefði farið í viðræður fyrr. En Ísland mætir bara á fundi nato og og ræðir við þessar 27 þjóðir um andrýmisflug. Svo spókar flokksmaður þinn innan um þessa menn á hnjánum til að  biðja um andrýmisflug. Mig langar að æla. Vil taka það fram að ég held að við verðum alltaf að borga þessar skuldbindingar. Við hefðum hins vegar átt að herja meira með þessum hryðjuverkalögum i stað þess að vera með þennan undirlægjuhátt.

Hörður Valdimarsson, 7.6.2009 kl. 18:40

21 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Gjaldmiðlar, einkunnabók um stöðu hagkerfa

Verðmæti gjaldmiðla, er mæling á trausti markaðarins á viðkomandi hagkerfi, fall verðmætis ber því vott um fallandi traust á því hagkerfi. Þannig, að spurningin sem menn þurfa að svara er: "FER STAÐA EFNAHAGSMÁLA VERSNANDI"? Ef svarið er 'já' - er hægt en stöðugt fall krónunnar, undanfarnar vikur, fullkomlega útskýrt.

Sannleikur þessa, er einfalt að sjá. Gengi krónunnar, er að mörgu leiti sambærilegt, við gengi hlutabréfa fyrirtækis. Þegar því vegnar vel, styrkist gengi hlutanna og því meir sem velgengnin eykst. Þegar á móti blæs, lækkar gengið, o.s.frv.

Áhrif samninga um Icesave á gengi krónunnar

Eins og sagt er frá samkomulagi um Icesave munu Íslendingar hafa veitt samþykki sitt með formlegum hætti því að taka á sig 650 milljarða skuld, til 7 ára, gegn 5% vöxtum, 35 milljarða vaxtagjöldum - þangað til sala eigna getur farið fram, til að borga þetta lán niður. Augljósi punkturinn, er sá að með þessum gerningi, mun Ísland hafa aukið skuldir sýnar, um þessa tölu. Þetta er þ.s. markaðurinn, mun sjá. Hvað kemur á móti, eftir 'X' ár, er óvisst, þannig að markaðurinn getur ekki lagt verð á það í dag. Til viðbótar þessu, auka vaxtagjöldin halla ríkissjóðs, einmitt á viðkvæmasta tímabilinu þegar hápunktur kreppunnar er að ganga yfir - það hlýtur að vega enn frekar gegn stöðu ríkissjóðs, og auka niðurskurðarþörf enn frekar. Afleiðingin, hlýtur að hafa verið og verða, frekari fall krónunnar, þ.s. aukinn skuldabyrði og vaxtabyrði, af erlendum lánum, getur ekki annað en hafa lækkað stöðumat markaðarins á íslenska hagkerfinu, enn frekar.

Bankakreppan

Þegar þessi grein er skrifuð, er enn ekki búið að ganga frá uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna. Því er ekki vitað; hvert eigið fé nýju bankanna er, né á hvaða verði ríkið mun taka yfir lán sem hvíla á íslenskum fyrirtækjum - til að styrkja eigin fjár stöðu nýju bankanna. Á meðan, liggja ekki fyrir, hverjar afskriftir erlendu kröfuhafanna, verða akkúrat. Þetta ástand veldur því, að nýju bankarnir eru nær fullkomlega lamaðir, hvað nýjar lánveitingar varðar. Lánafyrirgreiðsla, er lífsblóð fyrirtækja hagkerfisins. En bankarnir, geta ekki veitt ný lán, nema að mjög takmörkuðu leiti og þá gegn ofurkjörum, vegna þess að stjórnendur bankanna vita ekki hvað eigið fé viðskiptabankanna verður. Þannig, er eðlilegt, við slíkt ástand, að stjórnendur bankanna haldi að sér höndum.

Bankakreppan, rekakkeri á hagkerfið

Afleiðingar viðvarandi bankakreppu, eru þær að hagkerfinu er hægt og örugglega, að blæða út. Nær alger skortur á lánafyrirgreiðslu, þíðir að fyrirtæki, eru hægt en örugglega að ganga á eigið fé. Einungis fyrirtæki í útflutningi, fá einhverja smá fyrirgreiðslu,,,og þau búa einnig við það forskot, að hafa tekjur í erlendri minnt. Innlend þjónustu fyrirtæki, eru á hinn bóginn, algerlega uppi við vegg. Einungis er spurning um tíma, á meðan bankakreppan viðhelst, að fjöldi fyrirtækja sem eru að mestu háð innlendri starfsemi verði uppiskroppa með lausafé. Afleiðing þess, verður stöðvun rekstrar - og líklega gjaldþrot mikils fjölda þeirra. Ljóst er af þessu, að ekki er undarlegt að krónan falli.

Afleiðingar hás vaxtastigs

Vextir, hafa mikið verið í umræðunni, skiljanlega. Það hentar einnig stjórnvöldum, að tala um vexti, því þá geta þau bent á Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn - annars vegar - og á Seðlabankann - hins vegar. Smá "diversion" sem sagt. Að mínu mati, er bankakreppan enn stærra vandamál, en vextirnir. Tal um bankakreppu, beinir sjónum að stjórnvöldum, þess vegna tala þau frekar um vexti og benda á aðra sökudólga. Hátt vaxtastig, hefur samverkandi áhrif, með bankakreppunni, í því að láta atvinnulífinu blæða jafnt og þétt út. Áhrifin, eru augljóslega þau, að vextirnir eru jafnt og þétt, að lækka mat markaðarins á gengi hagkerfisins. MEÐ ÖÐRUM ORÐUM, HÁTT VAXTASTIG, ÝTIR GENGI KRÓNUNNAR NIÐUR.

Áhrif á heimilin

Vart þarf að taka fram, að heimilin líða einnig fyrir 'BANKAKREPPUNA' og 'OFURVEXTINA.' Einnig veldur eðlilegt gengisfall krónunnar, við núverandi skilyrði, þeim frekari vanda - vegna þess, að gengisfallið hækkar almennt verðlag, sem veldur frekari hækkun gengistryggðra lána, og sem einnig veldur hækkun erlendra lána í íslenskum krónum. Allt leggst þetta saman, og ef ástand lagast ekki verulega fljótlega, má búast við raun-gjaldþrotum mjög mikils fjölda heimila landsmanna - ekki seinna, en þegar hausta tekur, laufin fara að brunka og síðan að falla. Haustið, getur orðið - mjög, mjög kalt!!

Þjóðargjaldþrot?

Ef hrun hagkerfisins, er ekki stöðvað í tæka tíð, til að koma í veg fyrir "ANNAÐ HRUN," mun ríkissjóður standa frammi fyrir mjög verulegri hættu á að komast í greiðsluþrot - hið minnsta hvað erlend lán varðar. Klárlega, veldur frekara hagkerfis hrun, einnig tekju hruni hjá ríkissjóði, ofan á það tekjuhrun, sem þegar er orðið vegna framkomins efnahags hruns. Á sama tíma aukast skuldbyndingar, vegna stöðugrar aukningar skulda, vaxtagjalda og viðvarandi aukningar atvinnuleysis. Þetta er ekki "EF SPURNING". Þeir sem stjórna landinu, verða að átta sig á því, að gjaldrot er ekki órar einhverra vitleysinga, heldur graf-arlvarleg, og raunveruleg, hætta.

Einar Björn Bjarnason, 7.6.2009 kl. 18:52

22 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ég geri orð Bjargar F að mínum Ólína.

,,Stjórnarandstæðan hvað??

Hvernig væri nú að þú Ólína og já þið allir flokkapólitísku einstaklingar hæfuð ykkur upp yfir þetta eilífa flokkapólitíska þras

Getur verið að fólk kannski kann að hugsa sjálfstætt? Fólk kann að reikna og lesa sér til sjálft? Það þarf enga ´"stjórnarandstöðu" til þess..

Ég er hætt að þola þessi stjórnmál. Ef þú ert xB þá ertu svona, ef þú ert XVG þá ertu hinseginn og enginn af hinum tekur mark á þér.

Ég er í ENGUM flokki, punktur !

Ég les mér sjálf/ur til! Ég hef kynnt mér ESB sjálf/ur!

Og ég segji, það er verið að KÚGA íslensku þjóðina til að gera hluti sem myndi ALDREI vera samþykkt hjá stórveldunum. Við eigum að stoppa núna. Við verðum. Við megum ekki lengur láta kúga okkur til hlýðni bara svo við getum verið "þjóð á meðal þjóða". Við höfum ekki efni á því, svo einfalt er það.

Þessi samningur Ólina er hræðilegur, ég skal segja þér það að bretar munu sjá til þess að við fáum ekki mikil verðmæti fyrir þessar eignir Landsbankans þarna úti. Og afhverju?

Vegna þess að þeir vilja það ekki, þeir vilja geta fengið auðlindir okkar upp í skuldirnar. Svona hafa þeir ALLTAF unnið.

Það er svo rosalega mikill "naivismi" að halda öðru fram að það nær ekki nokkurri átt...

Þið verðið að fara að opna augun kæra fólk..

og hætta að tala um einhverja "hysteriu"

Ég hef engan áhuga á að segja seinna "I told you so"... engan... alls engan áhuga á því.

Íslendingar láta ekki kúga sig! Við erum töff! Við segjum Nei. VÉR MÓTMÆLUM ÖLL !! (nema hörðustu stuðningsaðillar ríkisstjórnar)

Högni Jóhann Sigurjónsson, 7.6.2009 kl. 19:09

23 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Björn Heiðdal - þegar ég tala um að við getum fengið að greiða þetta lán upp  hvenær sem er með hagstæðari lánum, þá er ég að vísa til umræðunnar um 5,5% vexti sem margir gagnrýna. Minn punktur er sá, að ef það er einhver möguleiki að fá hagstæðara lán með lægri vöxtum, þá er ekkert í veginum fyrir því að gera það og nota til þess að greiða þetta lán upp. Ég efa þó stórlega að okkur muni á næstu árum bjóðast slík kjör af nokkru láni, þannig að þessi samningur er sá besti sem við getum fengið eins og staðan er nú.

Annars ætla ég ekki að koma inn með fleiri athugasemdir við þessa færslu.  Það er nóg komið.

Í ljósi þess hvernig umræðan hér hefur þróast mun ég hugleiða það alvarlega hvað ég geri með þetta athugasemdakerfi í framhaldinu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.6.2009 kl. 20:12

24 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Ég er sammála þér Ólína. Mér finnst umræðan hafa farið gjörsamlega úr böndunum ekki síst fyrir afar ómálefnalegan og billegan málflutning stjórnarandstöðunnar. En ég skil líka áhyggjur manna og að margar spurningar brenni á vörum þeirra því enn er æði margt ólljóst um þetta Icesave mál. Hversvegna þurfti t.d. að undirrita samninginn um miðja nótt?

Í mínum huga snýst málið að lokum um það að íslenskir aðilar stofnuðu til algjörlega óraunhæfra skulda með velþóknun íslenkra stjórnvalda. Þegar allt fór á versta veg hlaut að koma að því að við þyrftum að fara að lögum réttarríkisins og standa við þessar skuldbindingar. Það má vel vera að við hefðum getað tekið gríðarlega mikla og dýra áhættu og farið í málarekstur sem byggðist væntanlega á því að einhverjir aðilar hefðu verið svo vondir við okkur. Slíkur málarekstur hefði tekið mörg ár eða áratugi og hvað ætluðum við að gera á meðan?

Ef einhver hefur áhuga á að vísa til landhelgissdeilna um unnin stríð þá voru þær deilur á engan hátt sambærilegar og þau mál unnust að lokum á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna en ekki í stríði.

ÞAÐ ERU EKKI TIL NEINAR PATENTLAUSNIR Í ÞESSU MÁLI!

Takk fyrir ágætan pistil Ólína.

Guðl. Gauti Jónsson, 7.6.2009 kl. 20:17

25 Smámynd: Héðinn Björnsson

Viltu ekki líka reyna að athuga hvað þú getur gert með að loka Austurvelli í ljósi þess að fólk á það til að láta skoðanir sínar í ljós þar. Langt ertu fallin frá lýðveldishugmyndum hans Njarðar sem þú komst þér á þing með.

 Þegar maður tekur að sér að handrukka íslensk heimili um skuldir auðjöfra fyrir stórþjóðarnar skal manni ekki koma á óvart þó fólk sýni manni reiði sína.

Héðinn Björnsson, 8.6.2009 kl. 10:18

26 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Héðinn- sú var tíðin að ég lagði til í borgarstjórn Reykjavíkur að  Austurvelli yrði lokað - fyrir bílum en ekki fólki. Hugmynd mín náði fram að ganga að hluta til, og þakka ég sjálfri mér það með nokkrum rétti hve yndislegur Austurvellur er orðinn og vinsæll á góðviðrisdögum.

Ekki amast ég við þeim sem mæta þangað til að berja búsáhöld og tjá skoðanir sínar - þar hef ég staðið sjálf í sama tilgangi.

Vertu svo vænn að gera mér ekki upp skoðanir eða afstöðu. Það er ómaklegt og ekki málefnalegt heldur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.6.2009 kl. 16:53

27 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Sæl Ólína,

Er nú ekkert alltaf sammála þér, en það máttu eiga að alltaf stendur þú keik með bein í nefinu, og verð þínar skoðanir af kurteisi. Þá getur maður oftast lært eitthvað af því sem þú skrifar.

Hörður Valdimarsson, 8.6.2009 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband