Ég komst suður um síðir ... settist á skólabekk ... leið eins og sjö ára
14.5.2009 | 00:07
Jæja, suður komst ég um síðir (þetta er nú eiginlega upphaf að vísu - held kannski áfram með þetta á eftir). Ég keyrði að vestan í rokinu í gær. Var nærri fokin útaf undir Hafnarfjalli, en slapp með skrekkinn, og komst leiðar minnar framhjá vörubíl sem þar lá á hliðinni og tengivagni sem var í pörtum utan vegar.
Í morgun mætti ég svo á kynningu fyrir nýja þingmenn. Starfsfólk Alþingis hefur í allan dag verið að mennta okkur nýliðana og kynna okkur fyrir helgidómum þessarar elstu og virðulegustu stofnunar landsins.
Það var svo einkennilegt, að nú greip mig skyndilega löngu gleymd tilfinning. Það var sama tilfinningin og fyrsta daginn sem ég hóf skólagöngu lífs míns. Þá var ég sjö ára telpa á tröppum Hlíðaskólans í Reykjavík. Undarleg tilfinning - merkileg og eftirminnileg.
Fram kom í máli Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra þingsins, að aldrei hafa fleiri nýir þingmenn tekið sæti á Alþingi en nú. Ekki einu sinni á fyrsta þingfundi endurreists Alþingis árið 1845. Þá voru nýir þingmenn 25, nú eru þeir 27. Sögulegt.
Þetta hefur verið langur dagur. Eftir kynninguna miklu og merku tók við þingflokksfundur kl. 16. Því næst fundur með þingmönnum kjördæmisins kl. 18.
Ég kom heim á áttunda tímanum í kvöld. Þar beið hann Skutull - hundurinn minn sem þið sjáið sem hvolp á myndinni hérna. Greyið litla - búinn að bíða eiganda síns í 10 klst.
Kvalin á samviskunni tók ég hann út í laaaaáángan göngutúr - 2 klst. Hugsaði um leið að ekki hefði ég viljað eiga lítil börn í því hlutverki sem ég gegni núna (eins gott að yngsta barnið mitt er orðið 15 - og auk þess í traustri umsjá föður síns vestur á fjörðum, um þessar mundir).
En af því ég byrjaði hér á ljóðlínu - þá er best að spinna þráðinn áfram og segja ferðasöguna í bundnu máli. Og þar sem ég er innblásin af virðingu fyrir gömlum tíma (hinu aldna Alþingi) finnst mér við hæfi að fyrna mál mitt í samræmi við tilefnið:
Suður komst ek um síðir.
Súguðu vindar stríðir.
Máttumk um miðjar klíðir
mjök forðast voða hríðir.
Þinghús blésu á blíðir
blævindar mildir, þýðir.
Salirnir virðast víðir,
það vegsami allir lýðir.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Ljóð, Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:19 | Facebook
Athugasemdir
Vel kveðið hjá þér Ólína -og til hamingju með þingsætið. Þú verður örugglega ekki þarna bara upp á punt. Þó að það verði nú reyndar punt að þér líka, sem er ekki verra.
Þið nýliðarnir eigið svo góðan mann að þar sem skrifstofustjóri Alþingis, Helgi Bernódusson er. Hann er bæði fróður og með þetta allt á hreinu.
Þetta verður auðvitað ekkert "góðærisþing". Þess heldur að þar sitji gott fólk með réttlætiskennd og tilfinningu fyrir krísustjórnun -sem aldrei fyrr...
Bestu kveðjur,
Hildur Helga Sigurðardóttir, 14.5.2009 kl. 00:19
Þetta venst Ólína mín hef það eftir góðu fólki með reynslu.
Kveðja inn í góðan og hlýjan dag.
Ía Jóhannsdóttir, 14.5.2009 kl. 07:26
Velkomin suður Ólína mín,já það var mjög hvasst þarna undir Hafnarfjallinu,ég var nú rétt á eftir þessum bíll sem fauk þarna,þetta var rosalegt veður,en Ólína mín,fórstu ekki vitlausa leið af heiman,???áttir þú ekki að fara norður,????HA HA HA, spurði bara,hélt bara að flestir hefðu farið norður,það er svipað langt frá Staðarskála í báðar áttir,reyndar er miðjan frá Víðigerði,þá er maður hálfnaður,smá forvitni, gangi þér vél,bæði fyrir sunnan og norðan,HA HA HA Kær kveðja,Konungur þjóðveganna.
Jóhannes Guðnason, 14.5.2009 kl. 07:52
Til hamingju með áfangann! Og gott að þú komst heilu og höldnu. Að verða aftur 7 ára og upplifa spenning og hið óvænta. Mér leið líka svona þegar ég kom heim úr náminu. Vissi ekkert en kitlaði í hjartað að byrja án þess að kunna. Vonaði bara að í mér lægi kraftur og samviska sem myndu bera mig á meðan hausinn væri að jafna sig. Þegar vélin hringsólaði yfir Keflavík áður en hún lenti datt mér í hug partur úr ljóði Davíðs og tilhlökkunin yfir framtíðinni helltist yfir mig, þrátt fyrir að hér væri kreppa!
"Upp úr hvítum úthafsbárum
Ísland reis í möttli grænum.
Heilluð grét ég helgum tárum
af hamingju og fyrirbænum.
Við mér brostu birkihlíðar;
blikuðu fjöll í sólareldi.
Aldrei fann ég fyrr né síðar
fegri tign og meira veldi."
Davíð Stefánsson.
Garún, 14.5.2009 kl. 10:37
Takk fyrir kæru vinir - já, þetta var nú meira ferðalagið.
Og, meiri dagurinn sem á eftir fylgdi.
Nú var ég að fá afhenta skrifstofu - og ætla að koma mér þar fyrir í dag. Það verður kannski næsta blogg.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.5.2009 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.