Kjarkur og siðbót

ljónoglamb Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót.

Þetta hógværa orð  er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. En siðbót kallar á kjark.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli og gjörðir orðum.

Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar ábyrgðar- og skeytingarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð á velferð annarra, þá ríkir einungis ójöfnuður.

Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það  birtist í aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis; óréttlátu kvótakerfi; skefjalausri sérhagsmunagæslu; ójöfnum lífskjörum; launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja.

Samfylkingin á nú það erindi við íslenska þjóð að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar.  Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.

  •  Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu með sanngjörnum hætti þannig að um það náist sátt í samfélaginu.      
  • Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leita nýrra tækifæra á vettvag þjóðanna til hagsbóta fyrir íslenskan almenning.
  • Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
  • Það þarf kjark til að innleiða ábyrga stjórnsýslu og knýja fram lýðræðisumbætur.
  • Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu – jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.

Já, það útheimtir kjark að vera ábyrgur jafnaðarmaður við þær aðstæður sem nú ríkja. Líklega hefur það hlutskipti aldrei haft meiri þýðingu en einmitt nú.  

 -----------------

PS: Þessi hugleiðing birtist sem grein í Morgunblaðinu s.l. fimmtudag og er endurbirt hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Flott grein, takk fyrir.

Sigrún Jónsdóttir, 14.4.2009 kl. 11:49

2 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Það þarf kjark til að aðskilja ríki og kirkju.

Matthías Ásgeirsson, 14.4.2009 kl. 11:53

3 Smámynd: Offari

Ég er þér sammála að siðbótar sé þörf en andstæðingum Esb er því miður ekki gert kleyft að kjósa siðbótina.

Offari, 14.4.2009 kl. 11:59

4 Smámynd: Aðalbjörn Björnsson

Algjörlega sammála þér og gleðilegt að verðandi þingmaður skuli vekja athygli og leggja áherslu á þetta grundvallaratriði: gerum orðið Siðbót að okkar, jafnaðarmanna í kosningabaráttunni.

Aðalbjörn Björnsson, 14.4.2009 kl. 13:32

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Flott grein Ólína og ég vona að þú komist á þing með kjarkinn og réttsýnina að leiðarljósi.  Það þarf kjark til að taka upp viðkvæm mál og mál sem valda tímabundnum álögum eins og smá aukin skattheimta til að viðhalda heilbrigðis og menntakerfinu.  Það þarf kjark til að bæta mannréttindalöggjöf landsins og útrýma mismunun. 

Þar undir fellur eitt mál sem ekki hefur fengið að fara á dagskrá ríkisstjórnar, en það er aflögn forréttindastöðunnar þjóðkirkja til handa einu trúfélagi og aðgerðir til jöfnunar þeirrar aðstoðar sem ríkið veitir trúarlegum og veraldlegum lífsskoðunarfélögum.   Trúlega er það um helmingur þjóðarinnar sem vill afnema útgjöld ríksins til trúfélaga en þjóðin hefur aldrei fengið að hafa málið til umfjöllunar í pallborðsumræðum, hvað þá að kjósa um málið.  Í dag kostar þjóðkirkjan (sem 79.4% er skráðir í) þjóðina ríflega 5 milljarða á ári og prestar hennar eru betur launaðir en útskrifaðir læknar (launakostnaður um 1.6 milljarðar á ári).  Ef aðeins sóknargjaldskerfinu yrði viðhaldið mætti spara þjóðinni 3 milljarða, sem heldur betur gætu nýst vel í heilbrigðis- og menntakerfinu.  ;-)

Svanur Sigurbjörnsson, 18.4.2009 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband