Styrkur eða mútur?

 "Ertu að segja að Sjálfstæðisflokknum hafi verið mútað - er það það sem þú ert að segja?" sagði Bjarni Benediktsson formaður flokksins reiðilega þegar hann var spurður i sjónvarpsviðræðum um 55 mkr greiðslur frá FL-Group og Landsbankanum síðla árs 2006.  Í beinu framhaldi talaði hann um "nýja forystu" Sjálfstæðisflokksin og gerði hvað hann gat að skilgreina sig frá málinu. Með "nýrri forystu" á Bjarni væntanlega við sjálfan sig og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformann flokksins, sem  er nú ekki beint nýkjörin í það embætti.

Er nema von þó að orðið "mútur" beri á góma vegna þessa máls? Tímasetningarnar eru a.m.k. afar óheppilegar eins og fram kemur í þessari frétt á visir.is.

Málið er grafalvarlegt.

Í OR/REI málinu munaði einungis hársbreidd að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík Energy Invest yrði seldur í hendur einkaaðilum. Þar með hugvit og verðmætt raforku- og gagnaflutningakerfi sem  varð til fyrir fjármuni almennings og í hans þágu. Og hverjir skyldu nú hafa viljað koma þessum verðmætum í einkaeign? Það voru Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Hverjir áttu hagsmuna að gæta að komast yfir verðmætið? Það var m.a. FL-Group.  

Því skal til haga haldið að Guðlaugur Þór var á þessum tíma stjórnarformaður OR.

Hér má rifja það upp að umrætt haust sameinuðustu tvö fyrirtæki, Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysir Green Energy (GGE) og báru eftir það nafn þess fyrrnefnda sem við skammstöfum REI.

REI var 93% í eigu OR en 7% voru í eigu Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns, og Jóns Diðriks Jónssonar, starfsmanns REI.

GGE var 43,1% í eigu FL Group (sem var í eigu Baugs m.a.), 16,1% í eigu Glitnis, 32% í eigu Atorku og 8,8% í eigu annarra, þar með félaga, sem kennd eru við framsóknarmenn undir forystu Finns Ingólfssonar. Ráðgjafi GGE í sameiningarferlinu var Glitnir.

Það kom í hlut Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns REI og Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns í GGE og forstjóra FL-Group, að kynna samruna félaganna á fjárfestafundi FL- Group í London þann 4.október 2006.

Þannig voru sumsé eignatengslin á þessum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn fór með meirihlutavald í Borgarstjórn Reykjavíkur og hlutaðist til um að koma þessari almenningseign í hendur einkaaðilanna. Því var naumlega forðað.

Sá möguleiki blasir við hverjum sem vill sjá, hvað hér gæti hafa gerst. 

Á sama tíma og verið var að taka ákvörðun um að færa gífurleg verðmæti úr almenningseigu í hendur einkaaðila berast 30 mkr frá þeim sem á að hreppa hnossið (FL-Group) inn á bankreikning stjórnmálaaflsins sem ræður afdrifum málsins.

Og nú keppast menn við að þræta fyrir aðkomu sína að málinu. Það er beinlínis vandræðalegt á að hlýða. Geir Haarde - sem eins og allir vita er að vikinn af vettvangi - reynir að bjarga flokknum með því að taka á sig alla ábyrgð. Já, hann heldur því m.a. fram að hvorki Kjartan Gunnarsson fv. framvkæmdstjóri flokksins (og stjórnarmaður í Landsbankanum) né Andri Óttarsson, núverandi framkvæmdastjóri, hafi vitað um þetta. Ja hérna! Hvorugur framkvædastjórinn hafði vitneskju um 50 mkr sem bárust flokknum. Þeir hafa ekki litið oft yfir bókhaldið blessaðir.  Angry

Nei, nú duga engin vettlingatök. Þetta mál ber að rannsaka sem sakamál.


mbl.is Styrkir endurgreiddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ólína. gættu þína að kasta ekki grjóti í glerhúsi. ekki hafa leynilegir reikningar og framlög til samfylkingarinnar verið opnaðir. þvert nei hefur verið svarið og "síðan kannski nokkrir sem við veljum til að sína almenningi" kom frá heilagri Jóhönnu.

ætli 36 milljóna króna stökk í framlögum flokksins frá 2005 til 2006 sé frá einu eða tveimur fyrirtækjum? kannski frá FL group? enda var Iðnaðarráðherran æstur í að fara útrás með FL útrásarvíkingunum og talaði um milljarða tap þegar 6 menningarnir í Reykjavík hrundu þessari útrásar áætlun. ekki var það útrásararmur samfylkingarinnar í borgarstjórn sem sá neitt athugavert við samruna Rei og Geysis Green. 

Þannig að þú ættir að gæta þín í glerhúsina að kasta ekki grjóti.

Fannar frá Rifi, 9.4.2009 kl. 17:08

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

En Ólína,  finnst þér ekki FL eiga rétt á endurgreiðslu þar sem mótframlag FL-okksins skilaði sér ekki?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 9.4.2009 kl. 17:11

3 Smámynd: Páll Höskuldsson

Ólína! ef þetta er það sem koma skal frá þér þá er Samfylkingin í vanda. Þú ert eins og fíll í pústúlínsbúð. Ég hef verið fylgismaður í Samfylkingunni og hef verið að vona að tækifærissinnar eins og þú ættu ekki greiða leið inní flokkinn.

Í ástandi og árferði eins og er í dag þá munu margir lýðskrumarar koma fram á sjónarsviðið. Þú ert fljótfær og fljót að dæma menn s.b.r formann Framsóknar sl sunnudag. Það kanna að vera að þú þyki hipp og kúl fyrir vestan en ef ég man rétt þá varst þú klárlega ekki allra og áttir í miklu þrasi vegna skólamála. Ef ég man það rétt.

Ég hef engan áhuga á því að verja gjörðir Sjálfstæðismanna en eigum við ekki að leyfa þeim að útskýra gerðir sýnar áður en þú sakfellir mann og annan.

Páll Höskuldsson, 9.4.2009 kl. 17:40

4 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Mútur eða verndartollur hefði mín yfirskrift verið!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 9.4.2009 kl. 18:08

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Páll - þetta er furðuleg athugasemd hjá þér, sérstaklega í ljósi þess sem þú segir sjálfur á þinni eigin bloggsíðu, en þar segir þú m.a.:

Er þetta ekki augljóst,Hannes Smárason útrásarvíkingur var á í útrásarherferð með Sjálfstæðismönnum í Borgarstjórn þegar greiðslan er framkvæmd í lok des.2006. Auðvita var auðvelt að múta Sjálfstæðisflokknum með þrjátíu milljónum króna.  

Niðurstaða: Það ert þú sem fellir dóma.

Ég hvet til rannsóknar.

Margur heldur mig sig.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.4.2009 kl. 18:38

6 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Hvetjum ALLA stjórnmálaflokkana til þess að styrkja Fjölskylduhjálpina frekar en að skila styrkjum frá einstaklingum sem upphaflega eignuðust það fé með afar vafasömum hætti og komu okkur íslendingum í þá stöðu sem við erum í nú.

http://www.facebook.com/home.php?#/group.php?gid=65711071733&ref=nf

Hlynur Jón Michelsen, 9.4.2009 kl. 19:52

7 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Þegar milljónir eru skenktar til stjórnmálaflokks er greinilega ætlast til að eitthvað komi í staðinn.  Að ætla annað er grunnhyggni.  Sé um mútur að ræða, er ljóst að saksóknari fær málið til umfjöllunar.  Þannig er það.  Látum rannsaka málið til hlýtar og ganga úr skugga hvers var vænst eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjármunina.  Do ut des, segir í gömlu latnesku máltæki. Það má þýða sem: Gefðu svo þér verði gefið.  Á "plein" íslensku kallast þetta "mútur".  

Baldur Gautur Baldursson, 9.4.2009 kl. 20:40

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Sjá ársreikninga Samfylkingarinnar hér. <http://www2.samfylking.is/media/files/Reikningar%20Sf%202001-2006%20LOK.doc>

" Frjáls framlög og styrkir til Samfylkingarinnar:

2001: 6.009.592

2002: 2.368.392

2003: 1.672.386

2004: 3.327.140

2005: 9.144.641

2006: 44.998.898

2007: 38.756.421

Já kæru kommar; Endilega rannsaka sem sakamál hverjir voru svona rausnarlegir við Samsp...fyrigefið Samfylkinguna

Halldór Jónsson, 9.4.2009 kl. 23:22

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er ekki af ástæðulausu að krafist er skýringa á stórum fjárframlögum til stjórnmálaflokks. Þegar það gerist að fyrirtæki greiðir slíka upphæð eins og FL grup gerði, er ekki undarlegt þó reynt sé að finna sennilegar skýringar á slíkum gjörningi.

Að kaupa stuðning er ekki nýtt fyrirbæri og hefur tíðkast í gegnum tíðina. Það sem er nýtt er að nú er talað um hlutina og leitað skýringa. Við erum orðin meðvituð um að slíkt viðgengst og það kjarkmikil að við tölum um hlutina. Auðvitað bregðast menn við með gleymsku og að hafa ekkert vitað.

Slíkt er afskaplega ótrúverðugt og hver trúir því að einstaklingur með prokuru vit ekki stöðu á reikningum fyrirtækis. Ekki vildi ég hafa svoleiðis prokuruhafa í mínu fyrirtæki.

Þeir sem bregðast ókvæða við, eru að lýsa eigin siðferði, fremur en annarra. Búið er að vísa málinu til lögreglunar og er það vel.

Aðrir stjórnmálaflokkar munu vafalaust opna sitt bókhald næstu daga til að hreins sitt orðspor. Kominn tími til.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 9.4.2009 kl. 23:38

10 identicon

Ólína - ég hef trú á þér í baráttunni við spillinguna í stjórnkerfinu. Láttu ekki sendisveina úr áróðurssveitum auðmannanna slá þig út af laginu fólk er hætt að trúa þeim.

Og ekki hræðast varðhuda pólitísku hagsmunahópanna þeir eru lagðir á flótta og farnir að ráðast hvorir á aðra í örvæntingu til að bjarga eigin skinni.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 00:10

11 identicon

Ef ég man rétt var það einmitt Samspillingin sem helst vildi koma OR í eigu auðmanna, svo &#132;skapa mætti milljarða króna gróða&#147; eða einhverju því um líkt.

En nokkri siðvandir borgarfulltrúar Sjálstæðismanna komu í veg fyrir það og fórnuðu þá til þess samstarfinu við Framsóknarflokkinn.

Sem betur fer vann frelsið þá rimmu, ellegar væru orkuauðlindir þjóðarinnar í höndum Brussel og enn vinnur Samspilling öllum stundum að þeim svikráðum að því er virðist.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 00:42

12 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Nú gerast söguskýringar í skrítnara lagi sbr. Pétur G hér fyrir ofan.

Þótt mönnum þyki löðurmannlegt að sparka í liggjandi mann þá gildir annað um stjórnmálaflokka. Margir treystu sér ekki til að gagnrýna D-flokkinn sem stjórnaði hér með sérhagsmuna- og einkavinavæðingu í nærri 2 áratugi. Það gat verið mönnum dýrt. Nú er öldin önnur.

Ég á von á að nú, þegar brostinn er flótti í lið sjálfsæðismanna, muni margt miður kræsilegt koma í ljós. Þetta er bara byrjunin.

Guðl. Gauti Jónsson, 10.4.2009 kl. 01:56

13 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

Dapurlegt ástand hjá Sjálfstæðisflokknum, ég vona bara að aðrir flokkar lendi ekki í svipaðri stöðu. 

Páll A. Þorgeirsson, 10.4.2009 kl. 02:37

14 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

13 milljónir til Samfylkingarinnar frá bönkunum þremur Ólína. Þá eru 22 millur eftir.

Farðu varlega í gagnrýninni.

Ingólfur H Þorleifsson, 10.4.2009 kl. 04:01

15 Smámynd: Jónas Egilsson

Frú Ólína.

Bæði aths. hér að ofan og þín fyrri ummæli og skrif benda til þess að þú þurfir að stíga varlega til jarðar áður en þú slengjir fram svona hlutum opinberlega, hugsa áður en þú skrifar - svo máltæki hér sé umorðað, þ.e. ef þú lítur á fátt þér óviðkomandi.

Jónas Egilsson, 10.4.2009 kl. 09:51

16 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ingólfur og Jónas: Hér er varlega farið í gagnrýninni og engu slengt fram - einungis hvatt til rannsóknar.

Athyglisvert finnst mér að fá athugasemdir af þessu tagi frá mönnum sem í rauninni eru þó sammála mér, eins og þessi bloggfærsla Ingólfs ber merki um, en þar skorar hann á varaformann Sjálfstæðisflokksins að "axla ábyrgð" vegna málsins.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.4.2009 kl. 10:31

17 Smámynd: Jónas Egilsson

Ólína

Siðfræði Jóhönnu og margra vinstri manna líka sem dæmi ristir ekki dýpra en svo að hún telur sig hafin yfir lög eða sú gagnrýni sem hún hefur notað á aðra nær ekki til hennar. Dæmi er t.d. þegar hún fékk á sig dóm sem félagsmálaráðherra á sínum tíma. Ekki það hún hafi ekki mátt eða átt að gera það sem hún gerði, heldur hitt hvernig hún stóð að málunum. Hún hafði ekki þolinmæði til að fara að lýðræðislegum vinnureglum! Annað dæmi er t.d. þegar hún gagnrýnir aðra fyrir málþóf, konan sem haldið hefur lengstu ræðu sögunnar á Alþingi, 10 klst. og 10 mín.! Siðfræði er gulls ígildi í pólitík, eins og þú veist.

Nú eru einnig að koma í ljós ríflegir styrkir til Samfylkingarinnar frá valdamiklum aðilum í samfélaginu. Margt í orðum og æði fyrrv. form. Samf. bendir einnig á að hún verið tengd ýmsum fjármálaöflum í landinu, eða talað máli þeirra - langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Hér er að sjálfsögðu átt við Baugsveldið fyrrverandi.

Að sjálfsögðu ættir þú sem vel upplýst kona að fjalla um þessi tengsl með sama gagnrýna hætti og þú fjallar um önnur meint tengsl eða það sem þú ýjar að sem mútur. En hér virðist sannast enn einu sinni að hálfsagður sannleikur er oftast óhrekjandi lygi!

Jónas Egilsson, 10.4.2009 kl. 10:55

18 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Ólína ertu ekki gersamlega að gera í buxurnar, ég get ekki annað séð en að Samspillti flokkurinn er ekkert í betri stöðu, eins og Halldór Jóns. kemur inn á hérna fyrir ofan, þið samspillingarfólk eigið bara aðeins að slaka á, ég myndi kalla þetta, að kasta grjóti úr glerhúsi.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 10.4.2009 kl. 11:38

19 Smámynd: Jóhann Ólafsson

Nú hefur það lekið út að bankarnir styrktu Samfylkinguna um tugi milljóna króna árið 2006. Að eru auðvitað mútur ekki satt ?

Jóhann Ólafsson, 10.4.2009 kl. 11:38

20 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Ólína. Ég er líka aðeins að segja þér að á meðan þið hafið ekki gert grein fyrir ykkar styrkjum fyrir 2006 þá er betra að fara varlega.

Ég er langt í frá að reyna að verja þann subbuskap sem fram hefur farið í mínum flokki varðandi þessa stóru styrki. Það er líka rétt hjá þér að ég fer fram á það á minni síðu að varaformaður okkar og fleiri axli ábyrgð á þessu. Öðruvísi er ekki hægt að halda áfram inn í framtíðina.

Gleðilega Páska

Ingólfur H Þorleifsson, 10.4.2009 kl. 12:27

21 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ólína ég hlustaði á þátt með þér og þeim Tryggva Herbertssyni og Sigmundi. Í þeim þætti varst þú með mjög ósmekklegar dylgjur gagnvart Sigmundi. Nánast settir hann á sakabekk. Svo kemur þú stuttu síðar og kemur með afsökun með ,,kirsuberi",en það er gert þegar fólk meinar ekkert með afsökunarbeiðninni.

Nú dylgjar þú um mútur, sem að sjálfsögðu er saknæmt athæfi. Eigum við þá að taka mark á þér.

Ef mér minnir rétt varst þú í stöðu Rektors við Menntaskólans á Ísafirði. Upplýstu okkur nú um starfslokasamning þinn við skólann. Þeir peningar eru teknir úr opinberum sjóðum.

Ólína, ég vil gjarnan fá öflugar konur inn á þing. Held að meira kynjajafnvægi sé til mjög mikilvægt fyrir stjórnmálin. En ég vil ekki stjórnmál þar sem menn nota smjörklípur til þess að skaða póltitíkska mótherja. Það gera aðeins lítilmenni í pólitík.

Sigurður Þorsteinsson, 10.4.2009 kl. 14:25

22 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Þetta er að mörgu leiti einkennileg umræða.

 Þegar í ljós kemur að tvö fyrirtæki hafa gefið Sjálfsstæðisflokknum 60 milljónir á einu ári er verið að benda á hina flokkana.

Sjálfsstæðisflokkurinn hefur ALLS ekki gert hreint fyrir sínum dyrum. Við höfum t.d. ekki fengið að heyra hverjir voru heildarstyrkir fyrirtækja og einstaklinga árið 2006 - til að setja aðra hluti í samhengi. Við höfum ekki fengið staðfest að þessir styrkir sem búið er að gefa upp og eru yfir 1 millj. hvort þetta eigi við öll aðildarfélög Sjálfsstæðisflokksins eða bara aðalskrifstofuna.

Það hefur komið fram hjá Samfylkingu og Framsókn að ekki hafi komið styrkir þar yfir 5 millj.

Það hefur komið fram að Samfylkingin fékk tæpar 45 milljónir frá einstaklingum og fyrirtækjum árið 2006. Það hefur komið fram að Fraókn fékk rúmar 30 miljónir frá fyrirtækjum (ekki gefið upp með einstaklinga). 

Það hefur komið fram að bankarnir voru að styrkja flokkana um 3-5 milljónir á þessu ári, 2006. Það hefur komið fram að Sjáflsstæðisflokkurinn, einn flokka, fékk upphæðir sem eru úr öllum tengslum við raunveruleikan.

5 milljónir eru mikli peningar og mjög hátt framlag. En meðan allir fengu sambærilega upphæð finnst mér ekki ástæða til að gera meira með það.

Það þarf líka að skoða hverjir voru við völd í ríkisstjórn og borgarstjórn þegar þessir styrkir voru veittir. Þessar upphæðir, 30 milljónir frá Landsbankanum og FL-group, virka í mínum augum sem annað er styrkir, verð að segja það alveg eins og er.

Eggert Hjelm Herbertsson, 10.4.2009 kl. 15:49

23 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, þetta er einkennileg umræða.

 Hér er haft í hótunum við fólk, sagt að því sé best "að fara varlega". Hvað á svona umræða eiginlega að þýða?

Og ekki vantar að reynt sé að ata þá auri sem leyfa sér að hafa skoðun á spillingunni.  Nú er ráðist á mig með skítkasti.

Ef þú Sigurður vilt fá nákvæma vitneskju um starfslokasamning minn við Menntaskólann á Ísafirði, þá bendi ég þér á að hafa beint samband við Þorgerðir Katrínu Gunnarsdóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins sem undirritaði þann samning sem Menntamálaráðherra - en um samningsgerðina sá þáverandi formaður Skólameistarafélags Íslands fyrir mína hönd ásamt lögfræðingi.

Samningurinn hefur aldrei verið neitt leyndarmál enda aðgengilegur á netinu. Hann fól í sér greiðslu launa í fimm mánuði auk uppsagnarfrests, þegar ég hafði lokið tveggja ára verkefnisstjórnunar og sérfræðingsstarfi fyrir Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands sem mér bauðst að taka í beinu framhaldi af starfslokum mínum við MÍ.

Það er sorglegt að sjá hvernig menn ganga fram í vörn fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér - blindaðir af sinni hagsmunagæslu og augljóslega ófærir um að greina málefnið sjálf.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.4.2009 kl. 16:51

24 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Nú er allt komið upp á borðið hjá Samfylkingunni fyrir árið 2006 (ATH ársreikningar flokksins hafa verið opinberir frá upphafi). Þar sést að flokkurinn er að fá svipaða styrki að mörgu leiti og sjálfsstæðisflokkurinn, að þessum tveimur ofurstyrkjum undanskildum.

Nú skulum við hætta að benda á aðra. Heldur greina þessa ofurstyrki (ef styrki skal kalla) og fara yfir það mál í kjölin.

Eggert Hjelm Herbertsson, 10.4.2009 kl. 17:52

25 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það er alveg ótrúlegt að lesa þessi viðbrögð sjallana með kúkinn í buxunum og reyna að kasta skítnum í aðra. Eg held að þeir ættu nú bara að snúa sér að því að reka þjófa og mútuþega út úr flokknum og koma heiðarlegu fólki að, það er til nóg að því í sjálfstæðisflokknum, og byrja upp á nýtt. Málið er að það er ekki hægt að verja þetta lið sem er í forustu flokksins núna, það er útilokað, og þið sem eruð að reyna að verja þetta eruð meðsek, og gerið illt verra. Og þeir,sem eru mjög slæmir að meðvirkni ættu að fá sér áfallahjálp.

Bjarni Kjartansson, 10.4.2009 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband