Persónuárás í formi fréttar
25.3.2009 | 17:46
Svo virðist sem veiðileyfi hafi verið gefið á Svein Harald Øygard, nýráðinn Seðlabankastjóra. Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem lengi hefur látið lítið fyrir sér fara veður nú fram með miklu offorsi gegn Seðlabankastjóranum. Hann frýjar honum vits, telur að hann hafi ekki gáfur til að sinna starfi sínu. Til marks um það nefnir Hannes að Øygard hafi ekki kannast við einhverja skammstöfun.
Það er athyglisvert að bera þennan málflutning Hannesar Hólmsteins saman við þekktar eineltis skilgreiningar. Eitt einkenni eineltis eru uppnefni og sú tilhneiging að svipta þann sem fyrir verður persónuleika sínum og því sem gæðir hann reisn.
Hannes hefur t.d. ekki fyrir því að nafngreina Seðlabankastjórann. "Maður þessi" segir hann og velur honum uppnefni, kallar hann "fjallamann" og snýr út úr starfsheiti hans, talar m.a. um "bráðabirgðaseðlabankastjórann".
Athyglisverðast af öllu finnst mér þó að visir.is skuli birta þessa persónuárás Hannesar Hólmsteins sem einhverskonar frétt þar sem vammir Hannesar og skammir gegn Øygard eru birtar gagnrýnislaust - svo ómálefnalegar sem þær annars eru.
Ég kann ekki við þetta, verð að segja eins og er. Þetta er engin frétt, þetta er bara persónuárás. Skætingur sem á ekkert erindi inn á fréttasíðu.
Sjálf þekki ég ekki Svein Harald Øygard. Ég veit þó að hann var aðstoðarfjármálaráðherra Noregs um tíma, leiddi m.a. endurskoðun skattalöggjafar í Noregi árið 1992 og sat í starfshópi norsku ríkisstjórnarinnar um hugsanleg efnahagsleg áhrif inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Í fréttum af ráðningu hans kom fram að hann er með meistarapróf í þjóðhagfræði, tók þátt í vinnu norskra stjórnvalda í banka- og gjaldmiðilskreppunni þar í landi árið 1992. Hann hefur starfað við seðlabanka Noregs, í fjármálaráðuneytinu og á norska- Stórþinginu.
Það er býsna bratt af að frýja þessum manni vits, svo ekki sé meira sagt.
Og það er leitt að sjá fjölmiðla lepja sorann úr lófa Hannesar Hómsteins.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.3.2009 kl. 00:09 | Facebook
Athugasemdir
Hver er þessi Hannes Hólmsteinn ? Er hann sá sami og stal texta frá Nóbelsskáldinu okkar og notaði í bók sem hann "skrifaði" ? Var ekki dæmt í málinu ? Er hann ennþá að kenna ungu fólki í Háskólanum ? Er það ekki alveg siðlaust ?
Sævar Helgason, 25.3.2009 kl. 18:04
Veit ekki hvort HHG er eiginlega þess virði að eyða heilli athugasemd á hann. Hann minnir mig mest á slönguna sem ráðlagði prins Jóhanni (Dabba?) í teiknimyndinni um Robin Hood..! Helsærður og niðurlægður, sem slettir allskonar sora útúr sér yfir aðra, sem eru að reyna að bjarga málunum.. Einasti munurinn er að slangan var þrælfyndin týpa, meðan HHG er bara grátbroslegur!
Snæbjörn Björnsson Birnir, 25.3.2009 kl. 19:41
Þetta er auðvitað magnað hjá Hannesi, boðbera viskunnar og holdgervingi nýfrjálshyggju Sjálfstæðismanna. Ég hélt raunar að hann héldi sig alltaf til hlés þegar kosningar nálgast, enda skaðar hann Sjálfstæðisflokkinn oftar en ekki með heiðbláum einstefnuskoðunum sínum og takmarkalausri persónudýrkun foringja Sjálfstæðismanna. Spurning um að leyfa honum að fá sem mest frelsi til að tala....
Þórður Már Jónsson, 25.3.2009 kl. 20:53
Þetta er auðvitað frétt því HHG er fyrrum bankaráðsmaður (ef hann er það ekki enn?!). Taktíkin gegn HHG er að gæta þess að láta hann ekki fara í taugarnar á sér. Grínið er miklu betra.
Það má hæglega leiða það út að allt sem HHG hefur útá að bankastjórann að setja getur gilt um hann sjálfan. Eða er það ekki þegar þú skoðar málið?
Pétur Tyrfingsson, 25.3.2009 kl. 20:59
Ástæðulaust að kvarta, Ólína. Ég fagna í hvert sinn sem ég sé Hannes tjá sig þessa dagana. Góð áminning fyrir kjósendur.
Friðrik Þór Guðmundsson, 25.3.2009 kl. 21:03
Meðan Hannes þenur sig á frjálshyggjan ekki afturkvæmt. Það er helst þegar hann verður þagnaður að gamlar syndir munu gleymast og hætt við að fyrnd spor verði fetuð á ný.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 25.3.2009 kl. 21:23
Meðan hann bullar af þessari visku er von fyrir fólkið í landinu. Verst að hann skuli reyna níða niður persónur sem hann þekki ekki haus né sporð á. Lýsir honum meira en þeim sem hann reynir að níða niður.
Arinbjörn Kúld, 25.3.2009 kl. 21:31
Sá tími sem þessi maður lætur lítið fyrir sér fara er aldrei OF langur. Megi hann lengjast mjög.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 25.3.2009 kl. 21:49
Má til með að kasta hér inn í umræðuna lítilli stuttmynd sem ég klippti saman um aðdraganda hrunsins og íslensku byltinguna - en þar kemur téður Hannes hinn siðblindi Hólmstein töluvert við sögu. Njótið:
http://thj41.blog.is/blog/thj41/entry/837126/
Þór Jóhannesson, 25.3.2009 kl. 22:05
Mæli með að þegar síðasti spaugstofuþátturinn verður farinn í loftið verði svona hálftímaþáttur með froðunni úr HHG sendur út á laugardagskvöldum. Hugsa að það myndi slá spaugstofunni við. Góður hlátur lengir lífið.
Gísli Sigurðsson, 25.3.2009 kl. 22:09
Aðdáendaklúbbur HHG er sennilega ekki mjög stór og ekki heldur hópurinn sem tekur hann trúanlegann. Það að auki er þetta lélegur kosningaáróður.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.3.2009 kl. 22:18
Hér fljótum vér eplin. ;)
Þórólfur, 25.3.2009 kl. 23:08
Ég er sammála þér. Hannes sem fyrrverandi bankaráðsmaður á að vita að hann á að þegja um sinn fyrri vinnustað. Svona skrif eru ófagleg og segja meir um Hannes en Svein Harald.
Andri Geir Arinbjarnarson, 26.3.2009 kl. 00:19
Það sem kemur úr Hólmsteinskjaftinum kemur mér ekkert á óvart,ég fæ stundum þá tilfinningu að maðurinn stígi ekki í vitið en það er jú augljóst að áróðursmaskína íhaldsins er komin í fullan gang með tilheyrandi látum og skyldi engan undra, þeir sjá jú fram á mestan ósigur flokksins frá upphafi.
Bestu kveðjur.
Þráinn Jökull Elísson, 26.3.2009 kl. 03:49
Er ennþá til fólk sem les Hannes og lætur hann pirra sig
Eftir öll hans "stórkostlegu" afrek taldi ég það óhugsandi.
Páll A. Þorgeirsson, 26.3.2009 kl. 09:24
Ég er verð meira og meira hissa á þessum "tilburðum" sjálstæðisflokksins og svona rugli sem vellur uppúr þeim. Flugdrekinn (HHG) heldur áfram að bulla eins og venjulega.
Þegar hugmyndafræðin hans hrynur og allir heilbrigðir frjáslhyggjumenn viðurkenna það, þá forherðist hann og allir íslenskir frjálshyggjumenn með.
Hér er sjálfstæðisflokkurinn tekinn fyrir á athyglisverðan hátt.
Loopman, 26.3.2009 kl. 11:50
HHG er sjálfum sér verstur og flokk sínum. Vonandi heldur hann áfram að spýja úr sér svona vitleysu og þvælu því þetta minnir kjósendur á það sem flokkur hans og hann stendur fyrir.
Soffía, 26.3.2009 kl. 11:56
Allt sem ég les eftir Flugdrekann og heyri meðtek ég á sama hátt og þegar Spaugstofan er á dagskrá eða annað grín.
Það er fagnaðarefni þegar fjölmiðlar eða aðrir hampa kappanum. Ekkert fyrirbæri er eins öflugt í að fæla fólk frá því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Einkum nú í kjölfar frjálshyggjuhrunsins.
Hér er skemmtileg klippa með gullkornum Flugdrekans: http://www.siggith.blog.is/blog/ginseng/entry/834184/
Jens Guð, 26.3.2009 kl. 12:10
Það er athyglisvert að bera þennan málflutning Hannesar Hólmsteins saman við þekktar eineltis skilgreiningar. Eitt einkenni eineltis eru uppnefni og sú tilhneiging að svipta þann sem fyrir verður persónuleika sínum og því sem gæðir hann reisn
Eru þessi skrif Ólínu og viðbrögð ekki frábært dæmi um eineltið og bjúgverpils-áhrifin af því að kasta skít?
Tilveran er eitthvað svo hringlaga í eðli sínu að þetta kemur alltaf í hnakkann á manni og í versta falli snýst skíturinn heilan hring og maður fær hann í smettið!
Hannes Hólmsteinn er einn af þessum fágætum einstaklingum sem menn "elska að hata" og ef hann lýkur sundur munni fer hálf þjóðin á límingunni og fyllist þessari tilfinningu sem margir fá þegar þeir sjá könguló
Flosi Kristjánsson, 26.3.2009 kl. 13:01
Flosi - þú forðast augljóslega sjálft umræðuefnið, sem er það hvernig Hannes Hólmsteinn talar um opinberan embættismann.
Í bloggfærslunni hér fyrir ofan er ekki sagt neitt óviðurkvæmilegt um Hannes Hólmstein. Ég hef ekki valið honum nein lýsingarorð. Ég gagnrýni einfaldlega framgöngu hans í opinberri umræðu gagnvart nafngreindum einstaklingi.
Ég frábið mér ásakanir um skítkast á hendur Hannesi - hef ekki tekið þátt í neinu slíku.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.3.2009 kl. 13:10
Ég var satt best að segja ekki ánægður með yfirlýsingar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.
Ég minni hins vegar á svipað einelti sem Davíð Oddsson varð fyrir af hálfu vinstri manna í landinu og það voru fáir sem tóku upp fyrir hann hanskann.
Nú er komið í ljóst að Davíð og Seðlabankinn vöruðu við hruninu a.m.k. 6-7 mánuðum fyrir það. Samt hefur enginn þessara vinstri manna beðið hann afsökunar.
Hannes og það lið sem lagði Davíð í einelti ætti allt saman að skammast sín! Einelti og órökstuddar fullyrðingar eru jafn ógeðfelldar, hvaðan sem þær koma!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.3.2009 kl. 14:48
Er ekki hægt að biðja velmeinandi og velþenkjandi fólk hér og víðar að nota ekki orðið "einelti" hvað varðar stjórnmál? Fyrir mér og mörgu fagfólki hefur það ákveðna faglega merkingu. Davíð eða aðrir stjórnmálamenn hafa ekki orðið fyrir einelti. Það er fyrirbæri sem er skelfilegri en hnippingar í stjórnmálaiðunni. Virðið þetta - takk.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 16:02
Ég er lítið fyrir að tjá mig á prenti um skoðanir mínar á einstöku fólki og mun ekki taka þátt í umræðunni um mannkosti Hannesar Hólmsteins en það er eitt í málflutningi hans sem ég staldraði við.
Hugtakið CAD-hlutfall er nánast hvergi notað nema á Íslandi. Í öllum þeim erlendu viðskiptamiðlum sem ég fylgdist með í fjögur ár sem viðskiptablaðamaður á Mbl. man ég eftir að hafa orðið var við þetta hugtak svona 2-3svar sinnum, ekki oftar. Og ég man ekki eftir að hafa séð þetta í neinum norrænum viðskiptamiðli. Það er því kannski ekkert skrítið að Svein Harald Öygard hafi ekki þekkt fyrirbærið.
Guðmundur Sverrir Þór, 26.3.2009 kl. 16:52
Sammála þér Ólína
Áslaug Sigurjónsdóttir, 26.3.2009 kl. 19:42
Flosi.
Skítkast eða ekki skítkast....
Svo lengi sem HHG ekki gefur fólki kost á að koma með athugasemdir og evt. reka hlutina ofaní hann aftur, á heimasíðu sinni, þá verða menn að þola að umræðan fari fram annars staðar og þá gjarnan á annan hátt (frískari), en annars hefði kannski orðið.
Snæbjörn Björnsson Birnir, 26.3.2009 kl. 20:27
Ég tek undir með Gísla Baldvins (aths. nr. 24) um notkun orðsins einelti. Alvörueinelti er miklu, miklu alvarlegra en svo að hægt sé að nota það um svona leðjuslag sem hér um ræðir.
Annars fagna ég alltaf mjög þegar HHG kemur fram í sjónvarpi því þá hef ég úr meiru að moða fyrir myndböndin mín og maður sér bara fylgið reytast af Flokknum við hvert gullkorn.
Mér finnst eiginlega að það ætti að sýna nýjasta myndbandið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins - ekki spurning! Öll hin jafnvel líka. Gæti virkað sem smá naflaskoðun eða spegilsýn á liðið.
Lára Hanna Einarsdóttir, 26.3.2009 kl. 22:49
Gísli og Lára Hanna - hvaða tepruskapur er þetta varðandi orðið "einelti"?
Einelti er staðreynd í samskiptum fólks, og það á sér stað víðar en á skólalóðum - m.a. á vinnustöðum og í opinberri umræðu. Það er engin ástæða til þess að leyfa fólki í opinberri umræðu að hafa uppi eineltistilburði. Ég hef sjálf orðið fyri slíku, þekki áhrif þess, og er því staðráðin í því að láta það ekki framhjá mér fara þegar það gerist gagnvart öðrum.
Þið verðið bara að sætta ykkur við það. Við skulum bara tala íslensku og leyfa hlutum að heita sínum réttu nöfnum.
Þetta er mín skoðun.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.3.2009 kl. 23:13
Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að Hannes er Geir Ólafs í dulargerfi ?
Sævar Einarsson, 27.3.2009 kl. 01:09
Ég hef verið að lesa þessar athugasemdir hjá ykkur og ég hef ekki séð neitt skrifað um minnisleysi þessa nýja seðlabankastjóra.
Ég man ekki betur en að hann hafi verið spurður af fréttamönnum hvenær hann hafi verið ráðinn til verksins og hversu lengi hann hafi beðið á hótelherbergi sínu eftir að komast í vinnu. Hann gat ekki svarað þessum spurningum.
Éf hef því meiri áhyggur á þessu minnisleysi hans heldur en að hann hafi ekki menntun til að vinna sína vinnu.
Eggert Guðmundsson, 27.3.2009 kl. 10:13
Heil og sæl Ólína!
Í þetta sinn finnst mér þú dálítið fljótfær og ekki ígrunda nóg orð þín í viðbrögðunum við athugasendir Gísla og Láru Hönnu. Það er alls ekki neinn tepruskapur þegar fagmaður á borð við Gísla, bendir þér kurteislega á að stundarátök og jú vissulega oft harðar sennur milli andstæðra póla eða einstaklinga í stjórnmálum, megi þó ekki jafna við svo alvarlega hefðun sem einelti er!Sjálfur er ég nokkuð lesin í sálarfræðum auk þess að eiga mér nálægt mjög hæfa fræðinga í þeirri grein og öðrum er líta að mannlegri hegðun og samskiptum.ÉG veit því svolítið um þessa hluti sem og fleiri skilgreiningar er því miður fólk ekki hvað síst á blogginu er farið að henda á lofti við ólíklegustu tækifæri málstað og skoðunum sínum til framdráttar eða tjáningar, t.d. meðvirkni, athyglissýki ofsóknaræðis m.a.
Með slíkri notkun á alvarlegum hugtökum æ ofan í æ, fer fólk smátt og smátt að trúa að þau gildi um jafnvel minnstu tilhneigingu í þessa raunverulegu átt, sem til dæmis er í raun og sann einelti og ég trúi ekki öðru Ólína en þú sem kona er þekkir akademískt umhverfi hljótir að samþykkja, að við megum ekki gjaldfella þannig skilgreiningar og hugtök á mjög alvarlegum hlut eða hefðunarmynstri!? Og þótt ég viti í tilfelli Gísla, að hann er mjög bókmenntalega hneigður með meiru, þá efast ég um að hann færi að segja þér til um þjóðfræði ef þú teldir þig þurfa að leiðbeina honum eða benda á eitthvað í þá veruna!
En það er auðvitað rétt hjá þér, að einelti hfur því miður grafið um sig víðar en á skólalóðum, en það má bara ekki hafa slíkt í flintingum eða fella dóma um slíkt nema að vel rannsökuðu og ígrunduðu máli!
Annars hygg ég að minn gamli góðkunningi og blúsvinur Pétur tyrfings, gæti orðað þetta mun betur og skilmerkilegar, þrautreyndi "Alkahirðirinn" og sálfræðingurinn með meiru, eða GB, en ég vona að þú takir samt mínum orðum vel sem jafnan og endurskoðir allavega að alls ekki er um neinn tepruskap að ræða er fólk er beðið að staldra við í hugtakanotkun sem þessari!
Magnús Geir Guðmundsson, 27.3.2009 kl. 16:13
Að sjálfsögðu tek ég orðum þínum vel Magnús Geir.
Ég bendi hinsvegar á að stundum verður maður bara að fá að tala um hlutina eins og þeir eru. Og þegar eineltistilburðir eru uppi í opinberri umræðu ber manni sem siðaðri manneskju að benda á það og reyna þar með að ná umræðunni upp úr þeim farvegi.
Svo vil ég benda á í fullri vinsemd að ég veit nokkuð um málefnið ekki aðeins vegna þess sem ég hef lesið mér til um það vegna starfa minna á vettvangi skóla, heldur líka vegna þess að slík mál hafa oft komið inn á mitt borð. Ég held að störf mín við kennslu og skólastjórnum vegi þyngra í þessu samhengi heldur en þjóðfræðimenntunin (sem er nú reyndar bara einn angi minnar menntunar).
Ef faglegar skilgreiningar orða eru orðnar svo strangar að þær hindra að maður megi beita þeim í daglegu tali - þá er illa komið fyrir íslenskunni.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.3.2009 kl. 00:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.