HB-Grandi ætti að skipta arðinum milli starfsfólksins

HBGrandi "Löglegt en siðlaust" sagði Vilmundur Gylfason einu sinni. Setningin ómaði í höfði mér þegar ég horfði á þetta viðtal við framkvæmdastjóra HB-Granda í Kastljósi í kvöld. Hann reyndi þar að bera í bætifláka fyrir þá ákvörðun eigenda fyrirtækisins að greiða sjálfum sér 180 mkr í arð frekar en að greiða starfsfólkinu 13.500 kr. umsamda launahækkun sem átti að koma til greiðslu 1. mars.  Þetta viðtal bætti ekki málstað HB-Granda.

Afstaða eigendanna - eins og hún var kynnt af talsmanni þeirra í þessu viðtali - er fyrir neðan allar hellur. Angry

Í venjulegu árferði væri það ekkert tiltökumál þó greiddur sé út "hóflegur" arður, eins og það er orðað af framkvæmdastjóranum. En þegar fólk hefur verið beðið um að falla frá umsömdum launahækkunum af tillitssemi við rekstrarstöðu fyrirtækisins þá er þetta undarleg ráðstöfun, svo ekki sé meira sagt. Hún er áreiðanlega ekki í anda þeirra sem stofnuðu fyrirtækin á sínum tíma (annarsvegar HB á Akranesi, hinsvegar Bæjarútgerðina, Ísbjörninn o.fl. í Reykjavík). Raunar held ég að enginn af þeirri kynslóð útgerðarmanna hefði lagt blessun sína yfir það að hýrudraga starfsfólkið til að geta skipt með sér arði.

En nú eru augljóslega aðrir tímar.

Ég skora á eigendur fyrirtækisins að gefa eftir þessar arðgreiðslur - svo "hóflegar" sem þær eru að þeirra eigin sögn - og láta þær renna til starfsmanna. Því þó þetta sé trúlega ekki "brot" á samningunum sem gerðar voru um frestun launahækkana - og þar með ekkert ólöglegt - þá er þetta auðvitað siðlaust. Það sjá allir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Slíkt siðleysi sem var viðhaft í þessu tilfelli og annað sem hefur viðgengist að undanförnu gangvart almenningi getur ekki kallað á annað en upplausn og í versta falli uppreisn. Skyldi það virkilega fara fram hjá þeim sem ganga þannig fram?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.3.2009 kl. 23:27

2 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Mín reynsla er sú að þegar fyrirtæki gengur vel, þá ver það feitum greiðslum til hluthafa. Og í því sem ég kalla 'alvöru fyrirtæki' þá sjá stjórnendur sóma sinn í að greiða starfsmönnum 'bónus' f.u. laun, oft í desember. En það skiptir engu hvenær bónus starfsmanna er greiddur. Ef alvöru fyrirtæki gengur vel, þá gerir það vel við sína starfsmenn á sama hátt og við hluthafa.

Gott dæmi um þetta eru álfyrirtækin. Í haust fengu starfsmenn Alcan sérstakan bónus. Held að það hafi verið uppbót vegna kreppunnar. Og svo fengu starfsmenn Alcan líka uppbót einhvern tíma fyrir áramót. Líklega vildu þeir ekki vera 'minni menn' en stjórnendur Alcan ...

En það er algerlega siðlaust að skilja starfsfólk fyrirtækis útundan varðandi bónusgreiðslur, þegar vel gengur. Burt séð frá krepputali.

Ingibjörg Magnúsdóttir, 17.3.2009 kl. 00:33

3 Smámynd: Einar Ben

Sæl Ólína.

Mikið er ég sammála þér, þetta er ótækt með öllu, þetta sýnir okkur kannski líka hversu döpur forysta Gylfa og annara pappakassa í ASÍ er í raun og veru.

Það er greinilega nóg að atvinnurekendur væli aðeins yfir slæmu árferði og launahækkanir eru blásnar af.  Hversu miklu af "arði" síðustu ára skyldi starfsfólkið á gólfinu hafa notið?

Í öllu brjálæðinu sem gengið hefur yfir hérna síðustu árin virðist það hafa gleymst hverjir það eru sem búa til auðinn....

......Breaking news: Auðurinn er ekki búin til í fjármálaheiminum eða í kjallaranum í Seðlabankanum, nei hann verður til í höndum þeirra lægst launuðu í þessu landi, í hinum ýmsu verksmiðjum vítt og breitt um landið, heiti það ál eða fiskur, sem og í ferðaþjónustunni.

Því fyrr sem peningapassararnir suðrí Reykjavík átta sig á þessu því betra.

kv. 

PS: Starfsmenn Norðuráls fengu einnig "kreppubónus" í lok síðasta árs, sem nam einum mánaðarlaunum, ég get vottað að það kom sér verulega vel ansi víða.

Einar Ben, 17.3.2009 kl. 00:59

4 Smámynd: Þórður Runólfsson

Maður er kannski dulítið heimskur en ég hélt að arður væri greiddur af rekstrar afgangi en ekki þegar maður er búinn að svína á starfsmennina.

Þetta er ekki einu sinni löglegt en siðlaust. Þetta er þriðjaheims-stórfyrirtækja-arðráns-taktík. Svona gerist ekki í siðuðu samfélagi. Enn því miður þá höfum við komist að því síðustu mánuði að við lifum ekki í siðuðu samfélagi. Þannig að þetta kemur ekki á óvart.

Og Ólína! Það er krafan út í þjóðfélaginu að núverandi stjórnarflokkar gangi bundnir til kosninga. Annað er óhugsandi við þær aðstæður sem við búum við í dag.

Ég skora á þig að fylgja þessu eftir.

Þórður Runólfsson, 17.3.2009 kl. 00:59

5 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Kristinn, ef staða fyrirtækisins er svo slæm í evrum talað, og svigrúm er til að greiða hluthöfum arð, er þá ekki einfaldlega að ræða um (falið) fé í skattaskjóli? Á þetta apparat ekki nóg af peningum til að greiða sínum mönnum á meðan starfsfólkið er haft úti í kuldanum?

Ingibjörg Magnúsdóttir, 17.3.2009 kl. 01:02

6 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það var eiginlega ekki hlustandi á þetta.   Skýringarnar voru þvílíkar -frá Chile-

Hildur Helga Sigurðardóttir, 17.3.2009 kl. 04:46

7 Smámynd: Eggert Þór Aðalsteinsson

Kristinn, hvernig getur það verið gott fyrir lánveitendur HB Granda að sjá eigendur félagsins taka út peninga út úr stórskuldugu fyrirtæki? Lánadrottnar geta varla verið svo mikil fífl að sætta sig við það.

Annars furða ég mig á þessari einhliða umræðu um arðgreiðslur HB Granda. Félagið hefur greitt 12% arð í mörg ár en lækkar greiðslurnar um þriðjung vegna síðasta rekstrarárs. Þetta er ansi döpur ávöxtun á þá peninga sem eigendur lána fyrirtækinu og þá áhætta sem þeir bera. En arðgreiðslur hljóta víst að vera glæpsamlegar í því samfélagi sem við búum við í dag - einhvers konar þjófnaður á almannafé.

Eggert Þór Aðalsteinsson, 17.3.2009 kl. 22:18

8 Smámynd: Jón Daníelsson

Halló! Eggert Þór!

"eigendur lána fyrirtækinu" segir þú. Komdu nú aðeins niður á jörðina. Hlutafé er ekki lán. Hlutafé er áhættufé. Þú færð kannski arð, en kannski taparðu bara öllu því sem lagðir fram. "Og svo bætirðu við: "döpur ávöxtun". Finnst þér "döpur ávöxtun" að fá 0? Hvað um ávöxtun lífeyrissjóðanna sem fá -20% ávöxtun? 

Jón Daníelsson, 18.3.2009 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband