Fæst orð bera minnsta ábyrgð ... en ég stend nú samt með Dorrit
10.2.2009 | 18:46
Gamla máltækið að fæst orð beri minnsta ábyrgð hefur sannað gildi sitt á Bessastöðum undanfarna sólarhringa. Það er slæmt þegar forseti landsins er borinn fyrir óábyrgum ummælum á alþjóðavísu, hvort sem þau eru tekin úr samhengi eður ei. Nú held ég það sé ráð fyrir forsetaembættið að draga aðeins úr fjölmiðlasamskiptum á þessum viðkvæmu tímum, enda ljóst að fjölmiðlar, jafnt innlendir sem erlendir eru með blóðbragð á tungu yfir öllu sem sagt er þessa dagana.
Ég gat þó ekki að mér gert að skella upp úr við frásagnir af viðureign þeirra forsetahjóna frammi fyrir erlendum blaðamanni sem sagt var frá í gær. Alveg sá ég þau í anda: Ólaf ábyrgan og virðulegan að reyna að ræða alvarlega stöðu lands og þjóðar; Dorrit óþreyjufulla og trúlega hundleiða á þessum formlegheitum að reyna að komast inn í umræðurnar. Hún fór að leika við hundinn. Hann rökræddi við blaðamanninn (grunlaus um þann úlfaþyt sem á eftir fylgdi). Pex og hjónametingur.
En, gott fólk? Hversu mörg miðaldra hjón geta ekki séð sjálf sig í svipuðum sporum, þó við aðrar aðstæður sé?
Dorrit er góð fyrir það að vilja brjótast út úr formlegheitum. Ég stend með henni í því að segja það sem henni býr í brjósti. Um leið get ég vel skilið Ólaf Ragnar að vilja halda aðeins aftur af henni. Hún er jú forsetafrú. Þau hafa bæði nokkuð til síns máls.
En þessi uppákoma milli þeirra hjóna sýnir okkur umfram allt að þau eru manneskjur af holdi og blóði eins og við hin - fólk með taugar og tilfinningar. Það vill stundum gleymast.
Viðtalið tekið úr samhengi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Spaugilegt, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:49 | Facebook
Athugasemdir
Loksins koma fra, rétt eins og þú segir Ólína, fólk af holdi og blóði sem hefur tilfinningar og það heitar tilfinningar. Þú eru hjartað sem slær í hjarta stjórnmálanna, þeirra stjórnmála sem stjórnast af tilfinningum, metnaði, samúð og kærleika. Ég stend 100% að baki forsetanum okkar og forsetafrú.
Baldur Gautur Baldursson, 10.2.2009 kl. 19:15
Já - ég brosti nú bara þegar ég las þetta viðtal. Dorrit er ekki svo upptekin af að vera í felulitunum - eins og Íslendingar eru gjarna nema þegar þeir drekka áfengi - þá gilda aðrar leikreglur. Hún er hressandi og hrein og bein.
Halldóra Halldórsdóttir, 10.2.2009 kl. 19:42
...auðvitað
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.2.2009 kl. 19:48
Kannski Dorrit verði til þess að koma okkur út úr þessu pukri og fordild sem einkennt hefur alla stjórnmálaumræðu hér. Nú, sem aldrei áður, er nauðsyn á að kalla hlutina réttum nöfnum og draga þá fram í sviðsljósið þó ég verði þó að játa að þetta hlýtur að líta einkennilega út í augum útlendinga. Annars er þetta ástand meir og meir farið að minna á handrit að nýrri Woodie Allen mynd.
Hjalti Tómasson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 19:50
Mér fannst þetta frábært hjá henni. Kona að mínu skapi. Er ekki krafan um allt upp á borðið núna?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.2.2009 kl. 22:58
Sæl Ólína. Skemmtileg færsla hjá þér. Ég er eins og fleiri hér, hrifin af þessari hressu og skemmtilegu konu sem Dorrit virðist vera. Ég skellti uppúr þegar ég sá fréttina. Eins og Hjalti segir hér að ofan kann þetta að virðast undarlegt í augum útlendinga en er það ekki allt í lagi? Þurfum við vera eins og allir hinir, við sem erum örþjóð. Höldum sérkennunum þó það séu útlendingar sem undirstrika þau. Ég vildi nú samt að forsetinn segði af sér sem fyrst. Hann gæti þá leyft Dorrit að blómstra. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 10.2.2009 kl. 23:11
Bara ástir mizlyndra hjóna, mikið of mikið úr gert.
Steingrímur Helgason, 10.2.2009 kl. 23:13
Doritt er ágæt.
Ásdís Sigurðardóttir, 10.2.2009 kl. 23:20
Alveg sammála,
Mér finnst Dorrit alveg einstaklega skemmtileg kona. Hún á auðvitað að hafa sínar skoðanir! Ólafur Ragnar verður að virða það. Þetta sýnir hve hún er mikil persóna!
Hildur Harðardóttir (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 06:05
forsetinn ætti náttúrlega að segja af sér strax - hvað Dorrit varðar þá er þetta eflaust mætasta kona, en höfum við tíma og efni á að standa í að vera með tilraunaleikhús þar sem frúinn á Bessastöðum fer með aðalhlutverkið
Jón Snæbjörnsson, 11.2.2009 kl. 09:10
Fannst bara gaman af lesa þessa frétt. Mér var bara farið að þykja ansi vænt um þau eftir lesturinn. Hún er nú samt ekki svo mikil Arabakona að hún alla vega þorir af sínu heilu hjarta að hafa skoðun þrátt fyrir að eiginmaður hennar óski þess heitt að hún tjái sig ekki um málefnið við viðkomandi fréttamann, skil það líka ofurvel.
Áslaug Sigurjónsdóttir, 12.2.2009 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.