Ferðahrakningar um jól

hridarvedurNepalIs Það hefur ekki verið flogið hingað á Ísafjörð síðan 21. desember. Hvassviðri og éljagangur dag eftir dag, og varla hægt að segja að birti á daginn.

Fólkið mitt kom með seinna fluginu á sunnudag þannig að ég get ekki kvartað. En mér verður óneitanlega hugsað til þeirra fjölmörgu sem hafa ekki komist heim um þessi jól eða lent í hrakningum við það. Sjálf þekki ég mætavel slík vandræði af jólaferðalögum vestur á firði - þetta er jú sá tími sem veður gerast vályndust.

Minnisstæðust er mér ferðin sem við Siggi maðurinn minn, Doddi sonur minn og heimilistíkin Snotra, fórum með varðskipinu Tý árið 1980 vestur á Ísafjörð. Við Siggi vorum þá ungir námsmenn í Reykjavík með fimm ára gamalt barn og stefndum vestur til fjölskyldunnar um hátíðarnar. Ekki hafði verið flogið vestur í fjóra daga, komin Þorláksmessa, og búið að aflýsa flugi þann daginn. Í þá daga sat maður einfaldlega á flugstöðinni meðan verið var að athuga flug því ekki var komið textavarp og því síður farsímar. Á flugvellinum myndaðist oft heilmikil stemning, fólk kynntist og tók tal saman um veðurútlit og færðina m.m., en þetta voru þreytandi setur í reykfylltri flugstöðinni innanum óróleg börn, kvíðið fólk og farangur.

Jæja, en þar sem búið var að aflýsa flugi þennan Þorláksmessudag tyr-a-fullu (Medium)brugðum við á það ráð, sem stundum dugði í þá daga, að athuga með ferðir varðskipa. Og viti menn, einhverjir þingmenn þurftu að komast vestur og (þeirra vegna) hafði verið ákveðið að senda skip. Það var pláss fyrir okkur um borð, svo við rukum út í leigubíl og báðum hann að aka í loftköstum niður á höfn. En öldungurinn sem tinaði undir stýrinu taldi nú ýmis tormerki á því, og sennilega hefur engin ökuferð tekið lengri tíma frá Miklubraut að Reykjavíkurhöfn. Þegar þangað var komið var verið að leysa landfestarnar, og við bókstaflega stukkum yfir borðstokkinn úr öðru skipi sem lá við hliðina.

Þetta var skelfileg sjóferð - hún tók 26 tíma. Þegar Siggi og Doddi voru búnir að kasta upp öllu því sem þeir höfðu innbyrt, og lágu hálf meðvitundarlausir í koju sá ég mitt óvænna og fór upp í brú. Þar eyddi ég nóttinni að mestu milli þess sem ég gáði að þeim - og fyrir vikið varð ég ekki sjóveik. Annars urðu nánast allir sjóveikir í þessari ferð. Fólk lá hvert um annað þvert, magnvana af uppköstum og ógleði.  Meira að segja hundurinn ældi. Messadrengurinn, kokkurinn, já allir nema fjórar manneskjur: Skipstjórinn, 1. stýrimaður, þingmaður einn sem þarna var farþegi og ég - MOI! 

En þegar skipið lagði að bryggju á Ísafirði um hádegisbil á aðfangadag var skollið á blíðalogn. Og þar sem við stóðum á riðandi fótum og  horfðum yfir fjörðinn, sáum við hvar flugvélin renndi sér tígullega niður á flugvöllinn hinumegin fjarðarins ... FootinMouth

 

KubburOddurJonsson

Þessa fögru mynd tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði á lognkyrrum vetrardegi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Yngvi Högnason

Gleðilega hátíð frú Ólína.
   Þekkti þetta flugvesen fyrrum. Var eitt sinn veðurtepptur að vetri til í tíu daga fyrir sunnan.

Yngvi Högnason, 25.12.2008 kl. 16:33

2 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Gleðileg jól Ólína .... þetta var skemmtileg lesning. Við sem fórum út á land um jólin í den könnumst við svona frásagnir

Gylfi Björgvinsson, 25.12.2008 kl. 17:35

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta er nú ekkert. Þegar ég var að vinna fyrir vestan tók ég mér frí yfir jól og áramót til að heimsækja ættingja á Norðurlandi og hér í Reykjavíkinni. En bitti nú! Ekki var hægt að fljúga héðan til Ísafjarðar dögum, ef ekki vikum saman, þannig að ég hélt mikið til á dansiböllum á Borginni. Þar kynntist ég læknanema og hún fór með mig heim til frekari aðhlynningar og skoðunar. Við fórum svo að búa saman, þannig að ég fór ekki aftur vestur.

Þorsteinn Briem, 25.12.2008 kl. 18:55

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Sæl Ólína

Byrja á að óska þér gleðilegra jóla. 1996 lagði ég til við þáverandi samgönguráðherra að í stað þess að huga um flug, strandsiglingar og vegi sem samgöngur hér á landi þá ættum við að koma okkur upp háraðalestakerfi neðanjarðar og þó það sé dýrt þá held ég að það sé eina vitið fyrir okkur í framtíðinni.  En stjórnmálamennirnir okkar og þeir sérfræðingar sem kerfið hérna ungar út hafa bara enga sýn útfyrir kassann sem þeir búa í.

Einar Þór Strand, 25.12.2008 kl. 20:59

5 identicon

Sæl Ólína og gleðilega hátíð,marga flugferðina fór ég um jólal. og snúið við yfir Ísafirði eða hætt við flug eftir margra klst.bið út á Reykjav.flugvelli.Nýlega fékk ég upptöku af kveðskap föðurömmu minnar úr Fljótunum,hún varð tæplega 102 ára og skýr fram í andlátið.Mig langar að senda þér sýnishorn,því ég veit áhuga þinn á kveðskap.Ég veit ekki netfangið þitt.    Jólakveðja Svanna

Svanfríður G. Gísladóttir (IP-tala skráð) 25.12.2008 kl. 21:05

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 25.12.2008 kl. 21:06

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Gleðileg jól

Marta B Helgadóttir, 25.12.2008 kl. 21:43

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Bestu jólakveðjur vestur, þar sem veðrið nær nú samt ekki að skemma alveg fyrir gleðinni.

Magnús Geir Guðmundsson, 25.12.2008 kl. 23:42

9 identicon

Hvað er fólk eiginlega að randa þetta alltaf um háveturinn? Að öðru leyti: Gleðileg jól og bestu kveðjur á Ísafjörð!

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 25.12.2008 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband