Hamagangur í öskjunni

 Það hefur verið hamagangur í öskjunni hjá mér síðasta sólarhringinn. Rassinn á mér stóð úr bókahillum og geymslum í allan gærdag þar sem ég var að sortera skjöl, henda og sameina í möppur. Þvílíkt og annað eins.

Ég held ég hafi losað einar tíu möppur og hent samsvarandi magni af gömlum pappírum. Ég er nefnilega að hætta í vinnunni og ganga frá á skrifstofunni. Og af því að starfið hefur verið m.a. kennsla og rannsóknir eru allskyns hlutir sem ég þarf að taka með mér heim - hitt og þetta sem ég hef sankað að mér, bæði skjöl og bækur. Þessu þarf ég öllu að koma fyrir á skrifstofunni heima - þar sem bóndi minn blessaður er nú þegar búinn að fylla hvern krók og kima með sínum skjölum og bókum. Þannig að ... það er margt sem þarf að skipuleggja.

Á meðan seyddust rúgbrauðin í ofninum hjá mér, stillt og rótt, óháð fyrirganginum í húsmóðurinni. Þau rýrnuðu talsvert - og voru ekki tilbúin fyrr en í morgun. En mikið lifandis ósköp eru þau samt bragðgóð. Ooohhhh, ég fékk mér eina volga sneið núna áðan með miklu smjöri.

Hér er uppskriftin:BakingCookies

5 bollar rúgmjöl
3 bollar heilhveiti
5 tsk matarsódi
3 tsk salt
1 1/2 lítri súrmjólk (eða ab-mjólk)
500 gr. sýróp

Öllu hrært vel saman og deiginu hellt til hálfs ofan í fjórar 1-líters mjólkurfernur sem látnar eru standa upp á endann í ofninum á neðstu rim. Sett inn í 150° heitan ofn og lækkað strax í 100°. Bakað í 8-10 klst eða lengur. Verður dökkbrúnt að utan fullbakað.

Sumir geyma brauðin í fernunum, ég tek þau úr þeim hálf volg.

Njótið vel - nú er ég að fara að baka kryddbrauð. Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Maður má nú til með að prófa þetta við tækifæri! Fékk síðast heitt, heimabakað rúgbrauð upp úr miðri síðustu öld!

Flosi Kristjánsson, 18.12.2008 kl. 13:06

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í rúgbrauðum þungur róður,
og raunalegur er sá ljóður,
þau Guð minn rýrna góður,
sem galinn markaðssjóður.

Þorsteinn Briem, 18.12.2008 kl. 14:03

3 Smámynd: Katrín

Girnilegt:)

en hvað varð um:,, handagang í öskjunni"?'''

Katrín, 18.12.2008 kl. 15:23

4 identicon

Líst vel á uppskriftina. Ætla að prófa hana sem fyrst. Hlakka til að fá ilmandi brauðið úr ofninum. Rúgbrauð með gammeldags íslenskri kæfu, eða osti, eða bara smjöri, jafnvel rúllupylsu. Frábær tilhugsun. En af hverju að hætta í vinnunni? Er það vegna niðurskurðar í fjárlagafrumvarpinu? Hvað tekur svo við? Gott að hafa nóg að gera við slíkar aðstæður, segi ekki annað, dreifir huganum.

Nína S (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 21:53

5 identicon

passaðu þig á smjörinu stelpa:)

sandkassi (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 22:36

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

,,Handagangur í öskjunni" er ennþá málsháttur Kata mín. En ég er sko að lýsa ALVÖRU hamagangi - var jafnvel að hugsa um að kalla það "hamagang í öskunni" af því ég hélt að rúgbrauðið myndi brenna við.  En það gerðist nú ekki sem betur fer - og útúrsnúningurinn nær því ekki lengra en þetta.

En nú er ég orðin kúguppgefin af þessum skjalatiltektum - klukkan að verða tvö um nótt, og ég farin að sofa.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.12.2008 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband