Verum umræðunni til sóma
14.12.2008 | 13:22
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir tæpum tveimur árum, undirgekkst ég ákveðna skilmála sem eiga að gilda um alla bloggara. Þar segir m.a.:
Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Notandi samþykkir sérstaklega að miðla ekki háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, í samræmi við ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þetta þýðir að sjálf ber ég ábyrgð á því sem sagt er á þessari bloggsíðu. Það er ekki nóg að ég sjálf gæti orða minna, heldur hef ég skyldu til að birta ekki á minni síðu efni sem felur í sér áreiti, hótanir eða særandi skrif, hvað þá háð, smánun, ógnun eða aðför að einstaklingum eða hópum.
Að gefnu tilefni neyðist ég nú til að árétta þetta. Um leið tek ég skýrt fram að hér eru allar skoðanir velkomnar svo framarlega sem framsetning þeirra er innan velsæmismarka. Séu þær það ekki áskil ég mér allan rétt til að eyða þeim út.
Í öllum bænum, berum þá virðingu fyrir eigin lífskoðunum og annarra, að skrif okkar séu málstaðnum og okkur sjálfum til sóma. Og þið sem hafið gengið hvað lengst í reiðiskrifum ykkar með því að uppnefna fólk, smána það og lífsskoðanir þess með niðrandi samlíkingum - ekki svína út bloggsíður annarra með þessháttar skrifum. Stofnið ykkar eigin bloggsíður og takið þar sjálf ábyrgð á orðum ykkar.
Að þessu sögðu vil ég vekja sérstaka athygli á aldeilis hreint frábærri grein eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund sem birtist í Sunnudagsblaði Moggans í dag. Kapítalismi undir jökli nefnist hún. Snilldar grein - skyldulesning.
Eigið góðan sunnudag.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Vefurinn, Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:39 | Facebook
Athugasemdir
Ég las moggan í tætlur í morgun, og hafði gaman af. Kveðja vestur.
Ásdís Sigurðardóttir, 14.12.2008 kl. 13:24
Þeir sem ekki hafa aðgang að Mogganum geta lesið grein Einars Más hér - og reyndar allar hinar Moggagreinarnar hans líka.
Að öðru leyti tek ég heilshugar undir pistilinn.
Lára Hanna Einarsdóttir, 14.12.2008 kl. 13:33
Takk Lára Hanna ég set líka tengil inn í færsluna.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.12.2008 kl. 13:37
Orð í tíma töluð, tek heilshugar undir þetta.
Ragnheiður , 14.12.2008 kl. 13:54
Einar Már er ekki aðeins góður penni, hann sér hlutina í skýru ljósi og á auðvelt með að miðla því. Þetta er gagnaleg fræðsla fyrir alla.
Ég orða tiltekin atriði sem hann kemur inná svona:
Bankamenn með útrásartilburðum sínum skuldsettu hvert mannsbarn hér á stuttum tíma um tugi miljóna. Þessi viðskiptahugmynd sem því miður fór í framkvæmd var dauðadæmd frá byrjun. Grunnurinn var nefninlega ekki í lagi. Ekki er nú flókið að átta sig á því. Tryggingin sem lögð var fram voru eignir fólksins í landinu og það reiðufé sem almenningur hefur í vösum sínum næstu áratugina. Þetta var í raun hreinn og klár þjófnaður. Já þjófnaður. Ég kalla þetta því nafni sem þessi gjörningur var og er ! Það segir mér enginn að þessi gjörningur bankamannanna, í viðskiptaferlum sínum að VEÐSETJA eiginir almennings, sé löglegur, en það var einmitt það sem þeir gerðu. Það er ólöglegt að fá veðsetningu í eign annars manns án hans samþykkis.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 14:13
Þetta er víst rétt, ég þarf að taka mig á og hreinlega blogga minna og fara vandaðri orðum um einstaklinga, eins og mamma sagði fæst orð bera sem minnsta ábyrð. Það hefur vottað fyrir hita í mínum málefnaflokki undanfarið og veit ég best sjálfur að gargið skilar minnstu og reyni ég eftir fremsta megni að fylgja því, þó undanskyldu háði hér og þar. Ég er reiðubúinn að biðjast afsökunar ef svo ber undir ætlast ég til hins sama um aðra. Getum við þá kannski sammælst um að grein AA sé ekki rétt..... !!! vissulega vel skrifuð og hljómar vel, en eins og Einar Már lýsir, nú ríkidæmi okkar "er greinilega byggt uppá veðsetningum annarra manna á okkar eignum". Ríkasta þjóðin, ríkið nánast skuldlaust.. hmmm... var engin við !! voru allir í laxveiði rosalega erum við " óheppinn " þjóð ! og hver átti vaktina!!! allt eru þetta spurningar og vonandi ekki tekið sem "ærumeiðandi".
Gunnar Björn Björnsson, 14.12.2008 kl. 14:53
Undanfarnar vikur hef ég ekki bloggað um stjórnmála- og þjóðfélagsástandið og lítið kommentað hjá fólki sem hefur bloggað um þessi mál. Fyrir því eru ýmsar ástæður en ein af þeim er sú sem þú gerir hér að umræðuefni. Ég hef ekki getað hugsað mér að horfa á athugasemdir mínar í kompaníi við þessi stóryrtu, orðljótu, niðrandi komment sem bloggheimar eru undirlagðir af þessar vikurnar. Ég vil gjarnan ræða og taka þátt í að gagnrýna það sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi en ég bara treysti mér ekki til að taka þátt í samræðum á blogginu þar sem kommentakerfið er uppfullt af fólki sem getur ekki rætt málin á málefnalegum grunni og notar kommentakerfið til að fá útrás fyrir reiði sína gagnvart stjórnmála- og embættismönnum með stóryrðum og fúkyrðum. Til viðbótar hefur umræðan þróast þannig að þeir bloggarar sem ekki spila með í reiðinni og stóra-dómnum hvað þá ef þeir vilja skrifa eitthvað uppbyggilegt um málin eru nánst teknir af lífi, sbr. eiginkona aðstoðarmanns viðskiptaráðherra sem kvaddi bloggheima eftir að hafa skrifað eitthvað "of jákvætt" fyrir dómstól götunnar.
Þakka þér kærlega fyrir að vekja máls á þessu.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 15:28
Sammála þér Ólína. Ég hef séð fjölmiðla fara svo rangt með mál að hið hálfa væri nóg. Og það er ekkert gert til að leiðrétta og bloggarar taka fullan þátt í aftöku mannorðs fólks. Ég hef ekki bloggað eitt orð í nokkrar vikur, mig langar ekki mikið lengur að vera hluti af þessari aftökusveit. Kannski blogga ég þó um það "glæpalið" sem ég þekki mjög vel til, þar ef ég fæ þeirra samþykki. Sjáum til. Þangað til þegi ég þunnu hljóði um þjóðfélagsmál og kannski blogga ég um jólin, eða eitthvað annað uppbyggjandi og skemmtilegt.
María Richter, 14.12.2008 kl. 15:41
Ég sé að það eru nokkrir hér sem koma fram og opinbera uppgjöf sína í bloggheimum, tímabundna eða varanlega.
Mig langar að hvetja ykkur til þess að halda áfram að setja hugsanir ykkar niður á blað, hvort sem það er í bloggheimum eða annarsstaðar. Penninn er beittur og ef einhverntíma er nauðsyn, þá er það nú.
Auðvitað er þetta viðkvæm umræða og það ber að sýna varkárni í ummræðum. Vera kurteis en ákveðin(n) - það virkar best hér sem annarsstaðar.
Hins vegar hafa tilteknir einstaklingar hér á Íslandi gróflega misnotað aðstöðu sína og ekki sýnt þjóðinni tiltekna virðingu og nærgætni í reynd og nú þurfa þeir að sitja undir þeim umræðum og aðgerðum sem fram fara.
Og þeim mun ekki linna.
Loks, takk fyrir Ólína fyrir að fá að setja inn innlegg hér hjá þér.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 18:53
Þörf ábending!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.12.2008 kl. 21:07
Ég þakka ykkur góðar undirtektir.
Ég verð að gera þá játningu hér, að ég hef verið í sömu hugleiðingum og Anna Ólafsdóttir lýsir. Mér hefur liðið illa að horfa á hatursfullar athugasemdir sem hafa yfirskyggt aðra og málefnalegri umræðu. Þetta hefur verið að stigmagnast að undanförnu, orðbragðið að versna og lýsingarnar að verða ofsafengnari. Allt á forsendum réttlátrar reiði.
En þó að reiðin sé réttlætanleg, þá ber hver maður ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Þannig er nú það.
Haukur Jóhannesson bendir réttilega á að við sem viljum málefnalega umræðum og bloggum í þeim anda megum ekki láta undan þessu. Ekkert vopn er sterkara í lýðræðissamfélagi en frjáls málefnaleg umræða. Það má ekki gerast að ritsóðarnir vaði uppi og hreki hina málefnalegu umræðu út af þessum vettvangi.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.12.2008 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.