Svo margt hefur gerst ...
17.11.2008 | 23:21
Nú hefur bara svo margt gerst síðustu dægur að móttakarinn í mér er brunninn yfir. Hann tekur ekki við meiru í bili. Lítið bara yfir nýliðna viku:
10. nóv. seint um kvöld: Bjarni Harðarson missir frá sér tölvupóst á alla fjölmiðla með bréfi tveggja Framsóknarmanna til Valgerðar Sverrisdóttur og ljóstrar þar með upp um eigin áform um að koma þessu nafnlaust á framfæri í bakið á Valgerði. Landsmenn taka andköf.
11. nóv. Bjarni segir af sér þingmennsku. Andköf halda áfram.
12. nóv. Forseti Íslands lætur ummæli falla á fundi með fulltrúum nágrannaþjóða sem verða þess valdandi að menn sitja klumsa undir ræðuhöldunum. Norski sendiherranns sér ástæðu til að senda heim sérstaka greinargerð um uppákomuna. Landsmenn líta hver á annan.
14. nóv. Sjálfstæðismenn ákveða að flýta landsfundi fram í janúar og skipa nefnd um Evrópumál sem á að skila af sér fyrir landsfundinn. Sama dag ...
14. nóv. leggur ríkisstjórnin fram aðgerðaáætlun til bjargar heimilunum í landinu. Maður er rétt farinn að fletta í gegnum aðgerðalistann þegar næsta stórfrétt dynur yfir.
15. nóv. Framsóknarflokkurinn heldur þann "magnaðasta" miðstjórnarfund sem framsóknarmenn hafa setið, svo vitnað sé í bloggskrif eins þeirra. Á þessum fundi verða þau stórtíðindi að flokkurinn tekur stefnuna til Evrópu. Hart er deilt á forystuna og af fundinum heyrast hróp og köll gegnum luktar dyr. Loft er lævi blandið. Sama dag ...
15. nóv. mótmæla 6-8 þúsund manns á Austurvelli - hafa aldrei verið fleiri - Alþingishúsið er þakið eggjarauðum og klósettpappír.
16. nóv. Ríkisstjórnin kynnir samkomulag í Ísbjargar deilunni. Ekki er fyrr búið að taka hljóðnemana úr sambandi og kalla til aðjúnkta, dósenta og lektora til að tjá sig um málið en ...
17. nóv. að morgni dags: Gert er uppskátt um þá 27 liði sem felast í umsókn okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrst berast af þessu lausafregnir (skúbb hjá DV ), en síðar um daginn heldur ríkisstjórnin blaðamannafund og opinberar það sem í umsókninni felst. Aftur eru kallaðir til aðjúnktar, dósentar og lektorar til að leggja mat á umsóknina. Þeir hafa ekki fyrr opnað munninn en ...
17. nóv. kl. 15:00: Guðni Ágústsson segir af sér þingmennsku og formennsku í Framsóknarflokknum. Hann er búinn að fá svo gjörsamlega nóg að hann heldur ekki einu sinni blaðamannafund - svarar ekki spurningum, heldur afhendir þingforseta bréf og segir sig frá öllu saman. Ætlar ekki að tjá sig í bráð. Þingheimur situr agndofa - bloggheimur þagnar ... um stund.
Það eru takmörk fyrir því sem hægt er að leggja á einn bloggara á einni viku. Nú er upplýsingaflæðið orðið svo mikið að "tölvan" er einfaldlega frosin - hún tekur ekki við meiru, og skilar ekki fleiru frá sér í bili.
Hreinsun stendur yfir - en það er bloggstífla á meðan. Ég bið lesendur að sýna biðlund á meðan þetta ástand varir.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Tölvur og tækni, Vefurinn | Breytt 18.11.2008 kl. 00:08 | Facebook
Athugasemdir
Hehe
Ragnheiður , 17.11.2008 kl. 23:27
hahahaha, það var laglegt! Takk fyrir ábendinguna - er búin að laga
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 17.11.2008 kl. 23:47
Þú gleymdir einu. Geir og Solla voru niðurlægð í Ísbjargardeilunni.
Víðir Benediktsson, 17.11.2008 kl. 23:48
Geir og Solla? Þetta mál snýst ekkert um þau tvö, heldur íslensku þjóðina og orðstír hennar erlendis. Við vorum/erum orðin ærulaus á alþjóðavettvangi fyrir að hafa ætlað að mismuna fólki eftir þjóðerni við ábyrgðir og greiðslur af Ísbjargarreikningunum. Allar Evrópuþjóðirnar, og trúlega fleiri til, voru sammála um að sniðganga okkur vegna þessa, eins og við værum götuhyski en ekki siðuð þjóð, enda var siðferði okkar augljóslega dregið í efa.
Ef eitthvað gat bjargað mannorði okkar við þessar aðstæður þá var það að ná samkomulagi í þessari deilu - og fá þar með þá fyrirgreiðslu sem þjóðinni er lífsnauðsynleg til þess að standa undir skuldbindingum og bjarga því sem bjargað verður.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 18.11.2008 kl. 00:03
Þegar öllu er á botninn hvolft - þá finnst mér skelfilega erfitt að kyngja því að vegna útrásarinnar og framvindu málanna hér heima í kreppuaðdragandanum - sem og nú síðustu vikurnar, get ég ekki lengur sagt þegar ég er ynntur að þjóðerni á erlendum vettvangi "I am from Iceland" - með stolti og gleði í huga og augum!
Núna þarf maður að forðast slíkar spurningar og reyna að leiða spyrjandann eitthvað annað ...
Í hvaða hendi má ég taka til að þakka þetta?
Mér finnst að það hljóti að fjúka hausar og rassar þegar ólgandi hafaldan róast aðeins niður ... eða það vona ég í það minnsta.
Hafðu ljúfa viku framundan Ólína mín ..
Tiger, 18.11.2008 kl. 00:15
Þetta er búið að vera ansi skrautlegt svo ekki sé meira sagt. En nú er eða að verða hægt að segja framsóknarflokkurinn heitinn.
Og Tiger ég vona að það komi aldrei til að ég skammist mín fyrir að vera Íslendingur og með titilinn Vestfirðingur jafn stolt af báðum, læt ekki einhverja útrásarmenn eyðileggja það.
Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 08:13
Fátt er til bjargar ef vestfirskar valkyrjur bregða ei brandi á þessum tímum. Bestu óskir Jónas.
Jónas Ástráðsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.