Gerendur enn á vettvangi - Burt með spillingarliðið!

bankastjorarLbs Fyrir fáum dögum spurðist það út að Sigurjón Árnason fyrrum Landsbankastjóri væri enn að störfum í bankanum á nýrri skrifstofu sem  hafi verið sérstaklega innréttuð fyrir hann. Þangað mætti hann til starfa, lagði í sitt gamla bankastjórastæði, og ráðskaðist um eins og ekkert hefði í skorist. Halldór J. Kristjánsson mun líka hafa verið að störfum, þar til í gær - að þeir félagar ákváðu að hætta, eftir að umræða spannst í fjölmiðlum um þetta fyrirkomulag.

Á sama tíma heyrir maður frá því sagt í útvarpinu að almennt starfsfólk hafi verið að fá tafarlausar uppsagnir, það orðið að yfirgefa vinnustað sinn samstundis í fylgd einkennisklæddra öryggisvarða, svipt farsímanum og lykilorðinu að tölvunni. Er svo hart fram gengið gegn sumum að vinnusálfræðingar sjá ástæðu til að koma í útvarp og biðja vinnuveitendur að sýna örlitla tillitssemi við uppsagnir á starfsfólki.

Hmmm .... en gömlu stjórnendur bankanna - þessir sem bera ábyrgð á því hvernig komið er - þeir hafa setið vikum saman í ráðgjafastörfum fyrir nýju bankana, í sérinnréttuðum skrifstofum, jafnvel með mannaforráð. Það virðist ekki hafa hvarflað að neinum að svipta þá lykilorði að tölvunum - hvað þá heldur fríðindum á borð við sérmerkt bílastæði, farsíma og fleira. Hmmm .... það lá víst ekkert á að koma þeim út úr húsi. Og á meðan leið tíminn - engin rannsókn hafin - allt í vandræðagangi.

Hvaða áhrif halda menn að það hafi á rannsóknavettvanginn að þeir sem verða sjálfir til rannsóknar skuli geta athafnað sig þar svo vikum skiptir? Nú er ég ekki að fullyrða að gömlu stjórnendurnir séu að spilla rannsóknagögnum í bönkunum - ég bara bendi á þeir eru í góðri aðstöðu til þess sumir hverjir. Möguleikinn er augljós.

ThorgerdurKatrinÍ raun snýst þetta ekkert um það hvort maður heldur að þeir sem í hlut eiga séu heiðarlegt fólk. Málið snýst miklu heldur um það hvort vera þeirra í námunda við vettvanginn er eðlileg. Á sama hátt og vanhæfi einstaklinga snýst ekki um artir þeirra eða innræti - heldur hitt hvort málsmeðferðin sjálf er hafin yfir efasemdir um hlutleysi og fagmennsku í vinnubrögðum: Að ekki sé um að ræða tengsl milli rannsóknaraðila og þess sem rannsakaður er, hvað þá heldur aðgengi meintra gerenda að sjálfum rannsóknavettvanginum og þeim gögnum sem rannsaka þarf. Kristinn H. Gunnarsson hefur rökstutt þetta ágætlega í grein sem hann skrifaði í vikunni um vanhæfi menntamálaráðherra í þessu máli (sjá hér).

BjornBjarnason Það er nefnilega rangt hjá dómsmálaráðherra að umræða um vanhæfi Valtýs Sigurðssonar og Boga Nilssonar hafi verið aðför að heiðri þessara tveggja manna (hann hélt þessu fram í sjónvarpsfréttum í gær). Umræðan um vanhæfi Valtýs og Boga snerist um vinnubrögð, ekki menn. Hún snerist um tengsl þessara manna við viðfangsefnið en ekki persónur þeirra. Leitt að dómsmálaráðherrann skuli ekki sjálfur gera þennan greinarmun.

Ég hefði að óreyndu búist við að stjórnvöld og löggæsluyfirvöld yrðu betur á verði gagnvart rannsóknahagsmunum vegna bankahrunsins - það er jú þeirra að gæta hagsmuna almennings í þessu - vernda almenning. Dómsmálaráðherra sagði í fréttum í gær að það yrðu að berast kærur frá almenningi til að hægt væri að rannsaka mál.

En hverjir eru fulltrúar almennings? Eru það ekki þeir stjórnmálamenn sem kosnir eru af þjóðinni hverju sinni - þingmennirnir í umboði almennings og ríkisstjórnin í umboð þingsins? Hefur Björn Bjarnason ekki sitt umboð frá almenningi? Það er nóg komið af hundakúnstum. Skipið óháða rannsóknanefnd í þetta mál, strax. Og hreinsið rannsóknavettvanginn af þeim sem ollu tjóninu. Hreinsið bankana af gömlum stjórnendum - Seðlabankann  þar með talinn og fjármálaeftirlitið. Víkið frá þeim ráðamönnum sem tóku þátt í ósómanum. Þetta þolir ekki lengri bið.

 Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbrandur Jakobsson

Þeir sem ábyrgð bera á þessu virðast greinilega ætla að komast frá henni. Hvar stendur nú afsökunin fyrir að háum launum fylgdi mjög mikill ábyrgð.

Sigurbrandur Jakobsson, 7.11.2008 kl. 12:54

2 identicon

Þeir láta fara vel með sig bankamennirnir, ég er sammála þeir eiga að fjúka yfirmennirnir en ekki hinn almenni bankastarfsmaður

Guðrún (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 13:02

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þetta er allt rugl og óhroði. Svo þræta menn bara. Ótrúlegur heigulsháttur.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.11.2008 kl. 13:27

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Átti að vera hroði!

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.11.2008 kl. 13:29

5 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

sárt til þess að hugsa,  ef "eiðsvarinn" embættismaður heldur ekki

Jón Snæbjörnsson, 7.11.2008 kl. 14:13

6 identicon

Ég veit ekki hvað hægt er að gera Spillingin er algjör.  Þessir menn hafa aldeilis haft tíma til að skúra yfir skítinn.  Ríkissjórnin né stjorn andsbankanns kann ekki að skammast sin.   Sýnum nú samstöðu og mætum á Austurvöll á morgun

Kristín Valdimarsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 16:17

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er dúndurfærsla Ólína.

Svo hvín í bréftæturunum allan sólarhringinn heyri ég.  Hviss og bang.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.11.2008 kl. 16:49

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég held að bæði  Sigurjón Árnason og Halldór J. Kristjánsson búi yfir þekkingu sem getur verið mikilvæg varðandi þann stóra vanda sem Ísland stendur frammi fyrir núna m.a. varðandi Icesave.  Bankahrunið gerir þá ekki spilltari núna en þeir voru fyrir nokkrum mánuðum. Það kann að vera að einmitt núna sé mest þörf fyrir þekkingu sem þeir búa yfir.

Ég hef ekki heyrt um að þeir hafi tengst málum eins og þeim sem hafa komið upp í Kaupþingi. 

Sem æðstu stjórnendur bankans voru þeir ásamt stjórn bankans ábyrgir fyrir stefnu hans og hljóta því að víkja sem þeir hafa nú gert.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.11.2008 kl. 17:32

9 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Var það ekki stjórnenda bankanna að sjá til þess að farið yrði eftur lögum og reglum? Var það ekki stjórnvalda að sjá til þess fjárfestingarstefnu sjóðanna væri fylgt, eða gleymdist það í dansinum í kringum Gullkálfinn eins og svo margt annað? Það er móðgun við almenning að umræddir menn hafi verið látnir starfa áfram í fjármálageiranum.

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 7.11.2008 kl. 17:55

10 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Mjög svo ágæta Ólína!  Takk fyrir orðin þín og hvatningu til aukins stjórnmálasiðferðis.

Viðbjóðurinn hefur viðgengist svo lengi að þetta fólk greinir ekki mun rétts og rangs. Það hefur seilst í vasa þjóðarinnar svo lengi að það veit ekki muninn á sinni buddu og þjóðareignum.  Þetta er svo sárt.  Ég á það ósk að þetta siðstolna fólk segi upp og hverfi frá öllu sem viðkemur almannaþjónustu, stjórmálavafstri og "ábyrgðastöðum".  Ennfremur að þetta fólk krefjist ekki biðlauna, setjist í sendiráð eða í nýjar ríkisstofnanir. 

 ***  Burt með spillingarliðið, hvar í flokki sem það stendur!  ***

Baldur Gautur Baldursson, 7.11.2008 kl. 19:10

11 identicon

já dúndur pistill þarna. Ég hjó eftir þessu líka  hjá Birni að kærur yrðu að berast. Þetta er nú bara yfirklór og eins algjör óðarfi að persónugera vanhæfnismálið.

Ég hef mestar áhyggjur af því að gerendurnir í bankahruninu ganga lausir og rannsókn ekki hafin. Fyrst og fremst hef ég áhyggjur að þessu vegna þess að þeir halda áfram að selja fyrirtækin sín á milli á meðan þessar línur eru skrifaðar.

Þessir menn eru eins og hrægammar að skipta landinu á milli sín. Það er hægt að stöðva það núna með lagasetningu, eða þegar það verður orðið of seint.

sandkassi (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 20:42

12 Smámynd: Heidi Strand

Takk fyrir mjög góðan pistill Ólina.

Burt með spillingarliðið.

Mótmælafundur á Austurvelli á morgun kl. 15.
Ræðumenn:
Sigurbjörg Árnadóttir, fyrrverandi fréttamaður RÚV í Finnlandi.
Arndís Björnsdóttir, Kennari
Einar Már Guðmundsson, rithöfundur

Fundarstjóri: Hörður Torfason

Heidi Strand, 7.11.2008 kl. 21:42

13 identicon

Í vikubyrjun fengu margir glaðning. Eigendur í peningasjóðum fengu að vita að þeir fengju 70-85% greidd. Enginn bjóst við meiru en 10-20%. Í vikulokin kom skýringin. Stjórnvöld ákváðu að GEFA eigendum í peningasjóðum 200 MILLJARÐA!. Þessi gerningur hlýtur að draga dilk á eftir sér, bæði hérlendis og erlendis. Hver kemur til með að borga reikninginn?? (við vitum svarið: VIÐ og afkomendur) Mikill fjöldi þeirra sem ætluðu að taka þátt í mótmælum er hættur við.

Stjórnvöld eru hrædd.....skíthrædd, og leita allra leiða til að vinna sér inn prik.

Blaðamannafundur í dag og smjaðrað grimmt. Auðmjúkir ráðherrar væla: "Biðjumst velvirðingar á slöku upplýsingastreymi" "Þverpólitísk rannsókn(!)" meira að segja stjórnarandstaðan fær að vera með! "Enginn mun undanþeginn rannsókn". o.s.frv.

Hvað skildu margir hafa fallið fyrir smjaðrinu og hætt við að mótmæla? Þessi fundur var skipulagður af færu PR fólki í þeim tilgangi að fækka þeim sem vilja mótmæla.

Ráðherrar skjálfa í hnjáliðunum, skíthræddir um að múgurinn svipti þá völdum. En spiilingin blómstrar sem aldrei fyrr. Burt með spillingarliðið.

sigurvin (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 22:54

14 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Þér mælist vel sem endranær, Ólína mín.

Ég tek undir með þér: Burt með spillingarliðið - hvar í flokki sem það stendur!

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 7.11.2008 kl. 23:15

15 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég er ekki viss um að bankstjórarnir séu spilltir, raunar held ég að þeir séu stálheiðarelgir og hafi gert sitt besta en gert afdrifarík mistök. Það er reginmunur á mistökum og spillingu.

Að öðru leiti get ég tekið undir greinina. 

Benedikt Halldórsson, 7.11.2008 kl. 23:28

16 identicon

Um tæra snilld…

Var rétt í þessu að finna grein Guðmundar A. Thorssonar í Fréttablaðinu 20 okt. - svona rétt til upprifjunar fyrir fundinn á morgun,  fyrst verið er að minnast á Landsbankastjórann (fyrrverandi) hér:

“…Á heimasíðu Egils Helgasonar er að finna kostulega úrklippu úr viðtali Markaðarins við Sigurjón Árnason bankastjóra þegar IceSaveævintýrið stóð sem hæst. Þar kallar hann reikningana „tæra snilld“, en eins og kunnugt er var þeim ýtt úr vör þegar alvöru  bankar vildu ekki lengur lána íslenskum bönkum fé sem í  greininni er að vísu orðað svo á  tæpitungu viðskiptalífsins að „aðgengi að fjármálamörkuðum [væri] takmarkandi þáttur í vexti bankanna“. Sigurjón segir sigri hrósandi að lausnin hafi einfaldlega verið sú „að vera ekki svona háður þessum fjármálamörkuðum“ og afla heldur innlána. Þeir bjuggu  til netreikning með himinháum innlánsvöxtum, reistu hurðarás í nafni þjóðarinnar.  Blaðamaður skrifar: „Ráðgjafar Landsbankansráðlögðu honum að tengja verkefnið eins mikið og hægt væri viðÍsland, enda eru Bretar almennt jákvæðir gagnvart Íslandi [...] Það eina sem ég þarf að gera er að kíkja í lok dags hvað er kominn mikill peningur inn,“ segir Sigurjón hlæjandi, tekur upp símann og segir skömmu síðar: „Það bættust við immtíu  milljónir punda bara á föstudaginn!“ Segir hann hlæjandi.

Þeir fengu ekki lánað lengur í bönkum og seildust því í vasa 400.000 Evrópumanna, m.a..gamalmenna, barna, öryrkja, heilsugæslustofnana og bæjarfélaga. Ég hef nú grun um að maðurinn verði frægur um aldur og ævi fyrir þetta botnlausa rugl og ekki síst þetta viðtal.

Kveðja HJ

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 23:38

17 identicon

Benedikt - varðandi heiðarleikann...

Bankadrengirnir  - bankastjórinn Sigurjón Árnason og hans vinnumenn fengu þessa viðskiptahugmynd og hún hepnaðist vel að þeirra mati... tær snilld. 

Þeir tóku við peningunum frá viðskiptavinum sínum, eins og Sigurjón lýsir í viðtalinu hér að ofan, en þeir gleymdu meginatriðinu og því sem skipti máli - og sem þeir lofuðu á heimasíðu IceSave að gera - að ef viðskiptavinurinn vildi taka Evrurnar sínar út  þá átti hann að geta gert það fyrirvaralaust.

Það loforð stóðu þeir ekki við.

Þú veist restina.

Þú spáir í þetta útfrá þínum eigin gildum og finnur svarið.

Kveðja HJ

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 00:18

18 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ég vil fá Euro/Interpol í þetta... strax.

Jón Ragnarsson, 8.11.2008 kl. 00:19

19 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þessi fréttamannafundur í gær var greinilega settur upp til að lægja öldurnar því það er farið að fara um ráðamenn núna þegar þeir sjá að íslendingum er fúlasta alvara þegar þeir krefjast réttlætis og rannsóknar. Þess vegna verðum við að mæra öll í dag á AUsturvöll til að halda áfram að þrýsta á úrbætur og breytingar.

Alls ekki gefa neitt eftir. Það er svo mikilvægt fyrir okkur og alla framtíðina að við komum SPILLINGARLIÐINU BURT í eitt skipti  fyrir öll!! Austurvöllur kl 15.00.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.11.2008 kl. 08:17

20 Smámynd: corvus corax

Að sjálfsögðu varð að gefa þessum krónprinsum sjálftökuflokksins tækifæri til að afmá eins mikið af sönnunarögnum og hægt var þangað til heimskur lýðurinn fattaði að þeir fengu að athafna sig að vild á "brotavettvangi". Og varðandi Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, held ég að meirihluti þjóðarinnar sé loksins farinn að átta sig á því hverslags falsspámaður hann er og eðli hans skítlegt.

corvus corax, 8.11.2008 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband