Af hverju þarf Davíð að víkja?

DavidGeirMbl.is Ja, það er nú það. Eru vinstri menn að ná sér niðri á þessum gamla erkióvini með því að krefjast nú afsagnar hans? Er verið að persónugera í Davíð Oddssyni vonbrigði og reiði þeirra sem sjá nú á bak hlutabréfum, lífeyrissparnaði, atvinnu og ýmsum lífsgæðum með vaxandi skuldabyrði? Er verið að leggja Davíð Oddsson í einelti?

Frá mínum bæjardyrum séð snýst málið ekki um Davíð Oddsson nema að hluta til. Málið snýst um þá reginfirru að hafa gamlan pólitíkus í starfi Seðlabankastjóra. Og ekki bara einhvern pólitíkus, heldur þann þaulsætnasta í stóli forsætisráðherra sem sögur fara af. Mann sem aukinheldur ber ríka ábyrgð vegna sinna fyrr starfa sem forsætisráðherra í ríkisstjórnum sem skópu þau skilyrði sem nú hafa valdið ofsaakstri og útafkeyrslu fjármálamarkaðarins með tilheyrandi hruni og eftirköstum.

Málið snýst um trúverðugleika Seðlabankans jafnt innanlands sem utan - trúverðugleika okkar Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum. Það sér hver heilvita maður að yfirlýsingar og ummæli Davíðs að undanförnu hafa stórskaðað efnahag þjóðarinnar. Yfirlýsingar hans hafs vakið athygli langt út fyrir landsteina - eins og t.d. má lesa í harðorðri gagnrýni eins stærsta dagblaðs í Þýskalandi sem fjallað er um í Morgunblaðinu um helgina.

Já, við erum dregin sundur og saman í erlendum fjölmiðlum fyrir það háttarlag við stjórnun efnahagsmála að hafa fyrrverandi forsætisráðherra við stjórnvölinn sem Seðlabankastjóra.

Reiðiákall almennings um afsögn Davíðs Oddssonar er ákall til stjórnvalda um að þau gangist við mistökum sínum og hreinsi til í Seðlabankanum, og sýni þar með vilja og viðleitni til þess að gera upp við bæði mistök og ranga hugmyndafræði.

Sú hreingerning getur ekki einskorðast við Davíð einan og sér. Stjórn Seðlabankans og bankastjórarnir þrír hljóta allir að þurfa að víkja. Og hafi þeir ekki sómatilfinningu til þess að segja af sér sjálfir, þá verður ríkisstjórnin að víkja þeim frá.

Fólkið krefst þess. Fólkið á rétt á því. Þetta er ekki flóknara en það.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Ólína

Vandræðagangurinn í Seðlabankanum dylst engum og vandséð hvernig þetta á að geta haldið svona áfram.

Mér er hins vegar til efs að við séum aðhlátursefni í útlöndum fyrir það eitt að hafa fyrrum stjórnmálamann (og það forsætisráðherra) sem seðlabankastjóra.

* Seðlabankastjóri Spánar er fv. ráðherra

* Seðlabankastjóri Portúgal er fv. leiðtogi jafnaðarmanna í landinu

* Seðlabankastjóri Rúmeníu er fv. forsætisráðherra landsins og bauð sig fram til forseta

* Seðlabankastjóri Finnlands er fv. þingmaður

* Seðlabankastjórar Búlgaríu og Úkraínu eru báðir fv. stjórnmálamenn

Þetta eru dæmi sem fundust við 5-10 mín. leit á netinu og er alls ekki tæmandi listi. Það að seðlabankastjórarnir okkar komi sumir hverjir út pólitíkinni gerir okkur því alls ekki að viðundrum, þótt margir kunni að gagnrýna þá tilhögun.

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 00:29

2 Smámynd: Einar Þór Strand

Sæl Ólína

Ég get vel verið sammála um að DO sé ekki besti kostur í stöðu seðlabaknastjóra, en ástaæðan fyrir látunum núna er pólitísk hefnd og sú staðreind að verið er að finna blóraböggul sem allir geta verið sáttir við án þess að þurfa að axla ábyrð sjálfir, og líka vonast menn til að útrásar víkingarnir verði ekki skoðaðir of mikið og sleppi sem best. 

Einar Þór Strand, 3.11.2008 kl. 07:47

3 identicon

Er ekki bara málið að það eigi að setja reglur um að það fólk, sem hefur setið á þingi eigi alls ekki að fá nein stjórnunarstörf hjá hinu opinbera? Ekki bankastjórar, ekki ambassadorar eða hvað það nú heitir, ekki forstjórar stofnana ríkisins o.s.frv. Einstaklingur, sem hefur setið á þingi er þar með orðinn vanhæfur til að gegna slíkum störfum.

Gangleri (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 07:50

4 Smámynd: Sævar Einarsson

Það á að ráða einstakling með þá menntun sem hæfir því að stýra banka og ég tala nú ekki um seðlabankann sem á með öllu að vera ópólitískur. Það er hneisa með fullri virðingu fyrir Davíð og fyrrverandi ráðherrum sem hafa erft þetta djobb útaf pólitískri stöðu og svo er viðkomandi sjálfkrafa orðinn vanhæfur sem slíkur að gegna stöðu seðlabankastjóra vegna þess að tengsl bankans við alþingi á að vera hafinn yfir allan vafa.

Sævar Einarsson, 3.11.2008 kl. 08:15

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég leyfði mér að eyða hér fyrstu athugasemdinni sem kom inn eftir einhvern sem kallar sig "Ómar Sigurðsson". Ástæðan er að hann fór með staðleysu sem átti ekkert erindi inn í þessa umræðu. Vona ég að fólk virði þá ákvörðun við mig.

Ég minni á að þó mér sé illa við að eyða athugasemdum þá hika ég ekki við það séu þær meiðandi, ósannar, ómálefnalegar eða í verulegu ósamræmi við umræðuefnið.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.11.2008 kl. 10:01

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

En aftur að umræðunni ...  

Stefán Pálsson bendir á að fleiri Seðlabankastjórar í veröldinni séu fyrrverandi pólitíkusar. Rétt er það, en það breytir ekki því sem hér hefur verið sagt

Nú, ég get ekki tekið undir það með Ganglera að fólk sem setið hefur á þingi eigi alls ekki að fá nein stjórnunarstörf hjá hinu opinbera. Þetta fólk hefur í flestum tilvikum mikla yfirsýn og reynslu sem gerir það að afar hæfum stjórnendum. En það verður vitanlega að horfa til fleiri þátta en þess að hafa setið á þingi, verið ráðherra o.s. frv. Og sumar stöður eru það viðkvæmar - eins og t.d. starf Seðlabankastjóra - að pólitísk ítök eru þar ekki af hinu góða.

Ég tek undir með Sævarnum að tengsl bankans við Alþingi ver að vera hafin yfir vafa.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.11.2008 kl. 10:02

7 Smámynd: Sævar Helgason

Það er enginn vafi á að núverandi seðlabankastjóri hefur valdir þjóðinni ómældum skaða .

Yfirlýsing í sjónvarpi, um að íslendingar myndu ekki greiða skuldir sínar erlendis- fór á innan við 30 mínútum um heimsbyggðina. Í kjölfarið beittu bretar hryðjuverkalögum á íslenska banka og frystu eignir í Bretlandi.

Bara þessi einu mistök gætu orðið íslensku þjóðinni dýrkeypt til áratuga.

Fjármálaleg stjórnun Seðlabankans hefur hindrað erlendar lántökur um langt skeið- enginn erlendur seðlabanki hefur treyst þeim íslenska fyrir fjármunum. 

Það er ekki fyrr en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er kominn að málum að úr er að rætast- enda seðlabankastjórninni sett til hliðar. Í erlendum fjölmiðlum er Seðlabanastjórinn aðhlátursefni og hafðu að spotti vegna vankunnáttu.

 Það efnahagslega hrun sem við stöndum nú frammi fyrir er skipbrot þeirrar efnahags og peningastefnu sem núverandi Seðlabankastjóri ,sem forsætisráðherra, mótaði og fylgt hefur verið frá árinu 2001 . 

Núverandi Seðlabankastjóri er tákngerfingur hrunsins...

Öll seðlabankastjórnin á að víkja ásamt bankastjórunum- nú þegar.   Engin uppbygging getur hafist fyrr.

Sævar Helgason, 3.11.2008 kl. 10:18

8 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hvernig stendur á því að svona yfir línuna, þá er fólk sem hefur tekið þátt í stjórnmálum eða er í stjórnmálum, endalaust að draga í land með hvort að það eigi að persónugera vandann eða ekki. Auðvita á að láta fullt af fólki fjúka og á Davíð Oddson að vera einn af þeim fyrstu. Þetta fólk er að fá greitt himin há laun í samræmi við ÁBYRGÐ sem endalaust er verið að tuða um. En þegar virkilega reynir á þessa blessuðu ÁBYRGÐ, þá gerist bara nákvæmlega EKKI NEITT og það er bara setið sem fastast ... áfram eins og ekkert hafi í skorist. Bara allt í himnalagi.

Það er þá ekki annað í stöðunni að gera en að setja launin hjá þessu fólki niður á sama plan og hjá öðru fólki fyrst að það þarf ALDREI að taka ÁBYRGÐ. Annað slæmt dæmi um þetta er þegar Steingrímur J fékkst ómögulega til að segja að það ætti að sparka Davíð út í hafsauga eftir þá atburði sem nú hafa átt sér stað. Getur verið að þetta sé einhver þingmannaveiki sem kallast öðru nafni "samtrygging"?

Kjartan Pétur Sigurðsson, 3.11.2008 kl. 12:24

9 Smámynd: Ragnheiður

Málið er einfaldlega svo alvarlegt að það þarf að hreinsa alveg ofan af öllu fjármálabatteríinu..ekki bara Davíð heldur allir í Seðlabanka, allt fjármálaeftirlit ...nenni ekki að pikka inn listann aftur..

Kveðja vestur

Ragnheiður , 3.11.2008 kl. 12:29

10 identicon

Góðir hálsar! Hér á Íslandi hefur það lengi tíðkast að embættismenn og aðrir geta setið í embætti þrátt fyrir alls konar afglöp og klúður í starfi. Engin þarf að gangast undir ábyrgð. Nú þegar búið að nánast  taka Ísland af lífi á alþjóðlegum vettvangi og engin tekur okkur trúarlega, og gerir það ekki í nokkuð mörg ár hér eftir, þá spyr maður. Er einhver tilbúin að taka á sig ábyrgð á þessu klúðri? Ég tel að hér sé ekki hægt að draga einn mann til ábyrgðar heldur alla sem komu að málinu:  Ríkisstjórnin á að víkja þegar mesta fárviðrið er yfirstaðið og taka á sig sinn hluta af ábyrgð málinu. Bankastjórn Seðlabankan og yfirmenn FME eiga hiklaust að víkja og taka á sig ábyrgð. Bankastjórar og bankastjórnir bankanna þriggja geta alls ekki skorast undan ábyrgð heldur. Núna þegar eru fyrrverandi bankastjórar Landsbankans búnir að lýsa því yfir að þeir beri alls ekki ábyrgð á þessu klúðri. Fyrir tæpu ári þegar mikið var talað um ofurlaun bankasjóra hér á landi þá var haft eftir einum af þessum bankastjórum að því fylgdi mikil ábyrgð að vera bankastjóri og þeim væri borgað í samræmi við gott gengi og mikla ábyrgð. Ég spyr hvaða góða gengi??? Eins er hægt að spyrja ef þeim var borguð svona há laun til að taka á sig ábyrgð hvernig stendur þá á því að þeir skorast allir sem einn undan ábyrgð þegar á reynir????? Ég held að þetta fólk væri metið að meiru ef það kæmi fram og axlaði ábyrgð í þessu máli í stað þess að skríða hver inn í sína holu og segja "Ekki ég!!!"

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 12:40

11 Smámynd: Bjarni Kjartansson

ÞAð hittist svo furðulega á, að ívitnað blað í Þýskalandi er einmitt Kratablað Djöf......

Kíktu á hvaða ábyrgð er að hrúast upp hjá Jóni Sig ykkar manni.  Hvítþvottur og skuldaeftirgjöf til sérvalina aðila.

Ég bjóst við stærri sniði af þe´r mín kæra.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 3.11.2008 kl. 13:50

12 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ágæti Bjarni - miðbæjaríhald.

Sé það rétt sem nú er fullyrt að verið sé að veita sérvöldum aðilum skuldaeftirgjöf, þá er það reginhneyksli. Skiptir engu hver stendur fyrir því, hvort hann heitir Jón Sigurðsson eða Davíð Oddsson. Ég var rétt í þessu að setja inn færslu um það efni.

Það er  lágkúrulegt að vefa rökræðu þessa máls inn í flokkspólitískt þras - ég nenni því ekki. Hér er meira í húfi en svo.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 3.11.2008 kl. 13:58

13 identicon

Þetta er akkúrat það sem ég er að tala um. Þegar maður les ofangreina færslu frá miðbæjaríhaldinu þá virðist það snúast um það í hvaða flokki menn eru hver þarf að gangast undir ábygð. ÞETTA SNÝST EKKI UM HÆGRI EÐA VINSTRI LENGUR! Þetta snýst um framtíð þjóðarinnar og það er margfallt mikilvægara en flokkshollusta. Þetta er það sem stjórnmálamenn og aðrir virðast bara alls ekki skilja. Það á að hreinsa almennilega til og þá meina ég að hreinsa til.

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband