Meinið burt
13.10.2008 | 10:51
Undanfarna daga hafa stjórnmálamenn í áfalli endurtekið hver eftir öðrum að nú sé ekki tími til að leita sökudólga heldur lausna. Ég óttast að þetta sé orðin einhverskonar sefjun eða mantra sem menn þylja til þess að róa sálartetur sitt og annarra. En sannleikurinn er sá, að uppgjörið er oft liður í lausninni - eða svo gripið sé til sjúkdómslíkingar utanríkisráðherra í merkri grein sem birt er á mbl.is í dag: Stundum þarf að skera meinið burtu.
"Það getur leitt af sér tímabundna vanlíðan, dregið úr virkni hins daglega lífs og sett okkur ýmsar erfiðar skorður en þegar allt er um garð gengið erum við betur sett eftir en áður en meinið var skorið" segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í grein sinni þar sem hún ræðir efnagaskreppuna sem við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir.
"Það má ... líta á þessa atburði alla sem sársaukafullt en um leið kærkomið tækifæri til að staldra við og endurmeta það sem máli skiptir í lífinu. Forsenda þess er að maður sætti sig við þá staðreynd að það er ekki hægt að komast á réttan kjöl aftur án umtalsverðra inngripa þar sem mein eru skorin burt" segir Ingibjörg Sólrún ennfremur.
En hvert er meinið sem skera þarf burtu úr íslenskum þjóðarlíkama svo hann nái bata? Mér sýnist það vera samsett af ýmsum sökudólgum:
Í fyrsta lagi er það hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem læddi þeirri hugvillu inn hjá ráðandi öflum að leikreglur og siðferði væru heftandi fyrir vaxtarmöguleika hagskerfisins. Íhlutanir, eftirlit og inngrip, að ég tali nú ekki um aðild hins opinbera, væru gamaldags og þunglamaleg, beinlínis skaðleg fyrir efnahagslífið sem þyrfti að fá að blómgast í friði, laust við "forræðishyggju" og "ríkisafskipti".
Í öðru lagi eru það boðendur hugmyndafræðinnar - stjórnmálamenn og valdhafar - sem skeyttu ekki um að setja leikreglur og skorður, heldur hönnuðu leikvang hins "fullkomna frelsis" þar sem allt var leyfilegt og engin bar ábyrgð. Þeir lögðu gatnakerfið, en umferðarskilti, ljós og gatnamerkingarnar voru víðsfjarri.
Í þriðja lagi eru það iðkendur hugmyndafræðinnar - útrásarvíkingarnir - sem nýttu sér aðhaldsleysið og fóru eins og byssubrandur í útrásinni. Ragnar Önundarson bankamaður orðaði það ágætlega í Silfri Egils í gær þegar hann líkti þessum mönnum við ökuþrjóta sem gerst hafa sekir um ofsaakstur fjármálakerfisins sem leitt hefur til stórslyss í hagkerfinu.
Í fjórða lagi er það eftirlitsaðilinn - Seðlabankinn - sem með rangri peningastefnu, skorti á eftirliti og röngum viðbrögðum við ástandinu, gerði vont verra.
Nú þarf að gera þrennt:
- Hverfa frá hinni skaðlegu hugmyndafræði og gera rækilega upp við hana.
- Kalla þá menn til ábyrgðar sem báru ábyrgð á atburðarásinni meðan þessi ósköp voru að gerjast og svipta þá umboði til þess að fara með efnahagsmál. Liður í því er að skipta um stjórn í Seðlabankanum.
- Leiða fyrir dómstóla þá fjármálajöfra sem með pappírssölum fyrirtækja og geigvænlegri lánasetningu bankakerfisins komu hér öllu í kaldakol.
Þetta er forsenda þess að að hægt verði að leggja grunn að bata í íslensku efnahagslífi - að íslenska þjóðarsálin finni þrótt til þess að takast á við vandann. Enginn sjúklingur nær bata nema hann sjái eitthvað framundan. Fyrsta skrefið núna er einmitt að fjarlægja meinið svo batinn geti hafist.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Vefurinn, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:12 | Facebook
Athugasemdir
Alveg sammála það þarf að gera upp við alla þessa hópa- nú þarf "að beita handaflinu" sem menn hneyksluðust svo mjög á fyrir aðeins tveimur vikum síðan.
María Kristjánsdóttir, 13.10.2008 kl. 11:35
Vel mælt Ólína það skiptir öllu að það verði farið vel í saumana á því hvað gerðist til að við getum lært af því.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 13.10.2008 kl. 11:42
Góð grein ISG og góð greining, Ólína. Mörg mein þarf að skera frá.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 12:05
Fín grein en verstur andskotin það ber aldrei neinn ábyrgð á Íslandi.
GOLA RE 945, 13.10.2008 kl. 13:57
Við sækjum fljótlega um aðild að Evrópusambandinu og tökum upp evruna. Meira að segja Bíbí, vinur minn, og Einar Guðfinns, landbúnaðar- útvegs-, eru komnir á vagninn og kela þar við fröken Evru.
Geir mun sem forsætisráðherra aldrei setja Davíð af sem seðlabankastjóra. Þeir sem hafa verið inspector scholae í MR standa saman og Geir hefur stuðning Sjálfstæðisflokksins. Davíð var skipaður seðlabankastjóri af Halldóri Ásgríms til sjö ára í október 2005 og mér þykir líklegast að Davíð verði í því embætti þar til Seðlabanki Evrópu tekur við stýrinu af Seðlabanka Íslands.
Best væri ef skilyrði Alþjóða gjaldeyrissjóðsins fyrir lánveitingu til Íslands nú yrðu betra eftirlit og strangari leikreglur hvað ábyrgðir íslenska ríkisins erlendis snertir, gott aðhald í ríkisfjármálunum, bankarnir hér verði seldir fljótlega aftur og byggðir upp með dreifðri eignaraðild, til dæmis lífeyrissjóða og einstaklinga.
Íslensk fyrirtæki þurfa á fé lífeyrissjóðanna að halda og það gengi að sjálfsögðu ekki að senda 12% af launum landsmanna úr landi í hverjum mánuði.
Þorsteinn Briem, 13.10.2008 kl. 14:09
Athugasemd af allt öðrum toga. Það var einstaklega fallegt að aka frá þínum heimabæ og suður á laugardaginn. Við feðgar tókum slatta af myndum, sem eru hér
http://www.simnet.is/siks/vest
ÞJÓÐARSÁLIN, 13.10.2008 kl. 14:36
Nú þegar álverðið hrynur og sjávarútvegurinn er eina styrka stoðin er vantrú á þeirri grein ein af þeim meinsemdum sem þarf að skera burt. Önnur meinsemd sem þyrfti að skera burt er þráhyggja sumra stjórnmála- og embættismanna um að efla utanríkisþjónustuna.
Sigurður Þórðarson, 13.10.2008 kl. 15:31
Þakka þér fyrir þessi skrif Ólína, sjaldan hef ég verið jafn sammála. En ég er einn þeirra sem í ljósi þess sem áður hefur tíðkast hér á landi, óttast að það verði enginn dreginn til ábyrgðar í þessu klúðri öllu, í besta falli einhverju smá peði fórnað rétt fyrir kosningar.
Ég vona bara að ég hafi rangt fyrir mér.
Róbert Tómasson, 13.10.2008 kl. 15:38
Sigurður minn. Lægra gengi krónunnar kemur öllum til góða sem flytja út vöru og þjónustu, ekki bara sjávarútveginum. Þar má til dæmis nefna ferðaþjónustuna, útflutning á tækjum til veiða og fiskvinnslu, stoðtækjum, lyfjum, hugbúnaði og erlendar áskriftir að tölvuleiknum EVE Online, sem gefur mörg hundruð milljóna króna gjaldeyristekjur á ári.
Hér verða reist fleiri hótel á næstunni, veitingastaðir selja útlendingum mat og drykk, íslenskar landbúnaðarvörur með tilheyrandi virðisauka og eftir örfá ár verða ferðamenn transporteraðir hér á milli staða í rafmagnsbílum, sem þurfa ekki á rándýrum erlendum orkugjafa að halda, olíu eða bensíni.
Útlendingar fara hér tugþúsundum saman í hvalaskoðunarferðir og greiða nokkur hundruð milljónir króna á ári fyrir sjóstangveiði, til dæmis á Vestfjörðum.
Þar að auki munu vextir lækka hér mikið á næstunni og því auðveldara á margan hátt að reka íslensk fyrirtæki en undanfarin ár.
Þorsteinn Briem, 13.10.2008 kl. 16:04
Íhlutanir, eftirlit og inngrip, að ég tali nú ekki um aðild hins opinbera, væru gamaldags og þunglamaleg, beinlínis skaðleg fyrir efnahagslífið sem þyrfti að fá að blómgast í friði, laust við "forræðishyggju" og "ríkisafskipti".
Og nú vilja sjálfstæðismenn og fleiri leggja niður umhverfismat svo bissnessmenn geti haldið áfram firringunni.
Goðirnir blessi umhverfismálaráðherra.
Rögnvaldur (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 18:20
Hver étur eftir öðrum að "nýfrjálshyggjan" sé vandamálið. Steingrímur J, Jóhanna, þú ('OLlína) og fleiri.
"Í fyrsta lagi er það hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem læddi þeirri hugvillu inn hjá ráðandi öflum að leikreglur og siðferði væru heftandi fyrir vaxtarmöguleika hagskerfisins." Segir þú Ólína.
Sumir segja að "nýfrjáshyggjan" sé dauð en áður en við jörðum hana verður að gera þá kröfu til þeirra sem eru í óðaönn að kistuleggja hana að útskýra á mannamáli hvað sé í kistunni og hvernig innihald hennar tengist aðsteðjandi vanda. Innihaldslausar frasar duga bara ekki.
Á t.d. að jarða EES samningin? Banna einkabanka? Banna frjáls viðskipti?
Á vísindavef segir um "nýfrjálshyggju":
Hvað er það nákvæmlega sem þú villt jarða Ólína?
Ef þú hittir útfararstjóra "nýfrjalshyggjunnar" bið ég innilega að heilsa honum og vona að við fáum að sjá líkið.
Benedikt Halldórsson, 13.10.2008 kl. 18:30
fínt, það er alveg tími til að greina meinið en það verður samt að hafa í huga að við sjáum kannski ekki allt einmitt af því við erum svo nærri atburðunum núna. kannski er orsökin fyrst og fremst að það var ekkert bakland fyrir bankana og Ísland var skilið eftir í alþjóðlegum samningum.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.10.2008 kl. 20:01
Á meðan svona hlutir eru í gangi, á meðan ekkert breytist, á meðan þeir seku ganga frjálsir og almenningur blæðir fyrir, þá verður ekki friður, samkennd, bati né litði bjart fram á veginn.
Ef niðurstaðan verður sú að ekkert breytist líkt og talið um "leita ekki sökudólga, líta fram á veginn" þá vona ég að flestir, ungir sem aldnir, Íslendingar, flytji af landi brott fyrir fullt og allt og láti óráðsíumennina, hönnuði þessara hörmunga úr stjórnmálum og stuðningsmenn þeirra borga brúsann.
AK-72, 13.10.2008 kl. 20:10
Fínn pistill hjá þér Ólína.
Sérstaklega er ég ánægður með það sem þú sagðir varðandi uppgjörið. Það fer mikið í taugarnar hjá mér þegar fólk er farið að tala um að ekki megi draga menn til ábyrgðar fyrir sukkið og líkir slíkum aðgerðum við nornaveiðar.
Það er rétt hjá þér að uppgjör er hluti af því ferli, sem við verðum að fara í gegnum. Fyrst kemur reiði og sorg og síðan fer maður í uppgjör og að því loknu byrjar maður upp á nýtt.
Ég minni á að Þjóðverjar slepptu þessu uppgjöri í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Flestir þeirra sem voru við stjórn hjá ríkinu eða í fyrirtækjum og bönkum héldu sínum stöðum og það var kannski að einhverju leyti skiljanlegt, þar sem þeir voru þeir einu, sem kunnu að reka ríki og fyrirtæki. Hérna er þetta ekki vandamál. Þótt 20-30 manns verði dregnir til ábyrgðar mun þjóðfélagið virka eins og áður.
Ef við förum ekki í uppgjör, verðum við að dröslast með líkið af þessu ævintýri í skottinu næstu árin.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.10.2008 kl. 20:38
Ég þakka athugasemdir ykkar.
Benedikt er ekki sáttur við að ég skuli vilja gera upp við nýfrjálshyggjuna og telur ekki ljóst af mínu máli hvað átt sé við.
Ég tel mig þó rökstyðja það bærilega í sömu málsgrein. Nýfrjálshyggjan læddi inn þeirri hugvillu að aðhald, eftirlit og inngrip væru heftandi fyrir vaxtarmöguleika hagskerfisins. Þeir sem gleyptu þetta hrátt virtust hvorki kæra sig um leikreglur né vegvísa og töluðu með fyrirlitningu um "forræðishyggju" og "ríkisafskipti".
Nýafstaðnir atburður eru talandi dæmi um það sem hér er átt við. Engan óraði fyrir því sem nú hefur gerst, og hefði maður spáð því hefði maður trúlega verið úthrópaður fyrir hatursfullan öfgaáróður gegn frjálshyggjunni. Þannig er nú það.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.10.2008 kl. 21:23
ESB-er ekki tíminn kominn.
Ég er svo gáttuð á því að enn séu til Íslendingar sem telja að með inngöngu í ESB séum við að missa sjálfstæðið?
Ég spyr höfum við efni á því að láta þann (óraunhæfa) ótta stjórna okkur áfram, er ekki komin tími til að við stígum þá skrefi lengra en við þorum.
Flestir hagfræðingar heimsins hafa talað um að krónan sé ónýtur gjaldmiðill, það er talað um það á öllum markaðsfréttarásum að hún sé verðlaus í raun og sannast það ekki best nú þegar ekki er enn hægt að versla gjaldeyri né millifæra krónur héðan til útlanda.
Það er hræðilegt til þess að hugsa að við ætlum áfram að láta stjórnast af óttanum og ekki einu sinni athuga hvað aðild fæli í sér heldur ætlum við áfram að vera "stoltir" íslenginar með ónýtan gjaldmiðil og undir stjórn aðlþjóðagjaldeyrisstofnun með Rússalán upp á nokkur þúsund milljarða.
Ætli staða okkar væri sú sama í dag ef við værum með evruna sem gjaldmiðil.
Við þurfum ekki nema að horfa til Evrópu til að sjá að þó að einhver lönd hafi þurft að þjóðnýta einstaka banka eru þau með sterkan gjaldmiðil og fallið því ekki nærri því eins alvarlegt, nú hafa samhæfðar aðgerðir þessara landa sennilega bjargað þeim frá algjöru hruni eins og hefur orðið hér.
Það er verst að ekki skuli vera hægt að sækja til saka þessa spunameistara sem mest hafa hrætt landann með tilhæfulausum áróðri um að ESB sé endalok alls sem íslenskt heitir og við myndum ekki lengur hafa sjálfstæði okkar, sjáið hvert það hefur leitt okkur.
Það kom yfirlýsing frá ESB að ef við viljum sækja um aðild væri möguleiki á flýtimeðferð en við þurfum ekkert að nýta okkur hana ef og ég segi EF okkur líkar ekki það sem ESB aðild þýðir og það vitum við ekki fyrr en við höfum raunverulega athugað það.
Ég vona innilega að allir fari að sjá hversu nauðsynlegt þetta er fyrir okkur, er ekki komin tími til að hætta að hlusta á sjálfstæðismenn sem eru fremstir í að hræða fólk frá aðild og fara að hlýða á aðra raddir í þjóðfélaginu.
Jóna (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 13:47
góð
halkatla, 14.10.2008 kl. 15:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.