Hvað ef heimsfriður væri í húfi?
9.10.2008 | 13:58
Þvílík hneisa - fyrir alla hlutaðeigandi.
Árni Matthiesen er auðvitað með allt niðrum sig. En það eru þeir Alistair Darling og Gordon Brown líka.
Hafi Árni Matthiesen gefið Darling raunverulegt tilefni til að skiljast það að Íslendingar myndu ekki standa við lögbundnar skyldur sínar gagnvart viðskiptamönnum Ice-Saving netbankans í Bretlandi - þá er óþægilegt til þess að hugsa að eitt símtal skuli geta orsakað milliríkjadeilu af þessu tagi. Það liggur ekki fyrir nein formleg yfirlýsing af hálfu Íslenskra stjórnvalda um þetta mál - og það er ekki til mikils ætlast að forsætisráðherra Breta taki upp símtólið og kanni stöðu málsins aðeins betur áður en hann rýkur til og stefnir Íslendingum fyrir dómstóla frammi fyrir heimspressunni.
"Belive it or not - they're not going to pay" sögðu þeir félagar, Brown og Darling, á blaðamannafundi yggldir á brún báðir. Svo var gripið til ákvæða hryðjuverkalöggjafar til þess að gera Íslendingum ljóst að nú væri Bretum sko alvara.
Þessi harkalegu viðbrögð breskra ráðamanna á opinberum vettvangi hafa nú haft örlagaríkar afleiðingar fyrir okkur Íslendinga. Dvergþjóðina við nyrsta haf, sem nú berst um í ölduróti alþjóðlegrar fjármálakreppu, og liggur við drukknun.
Bretland er málsmetandi ríki í samfélagi þjóðanna. Þetta er herveldi. Orð og gjörðir ráðamanna þar eru afdrifarík alla jafna. Það er þess vegna óþægilegt til þess að hugsa ef ekki þarf meira til þess að breskir ráðherrar bregðist við í fljótfærni. Hvað ef heimsfriður væri í húfi - en ekki "bara" afdrif smáþjóðar?
Svo mikið er víst að Bretar eru ekki vinir okkar. Það vitum við nú.
Og Árni Matthiesen verður að segja af sér sem ráðherra. Það er deginum ljósara.
Samtal við Árna réð úrslitum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:01 | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru sennilega afdrifaríkustu mistökin sem gerð hafa verið í þeirri atburðarás sem komin er af stað.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.10.2008 kl. 14:09
Þú skilur auðsjáanlega hvað þarna er á ferðinni.
Mér er til efs, að þessir menn skilji EES samning okkar og /eða að þeir skilji bara ekkert yfirleitt.
Reglur um ,,fjórfrelsið " er algerlega kýrskýrt og reglur um ábyrgðarsjóð innlánsstofnana eru líka fullkomlega óbreytanlegar í samningnum. Heimalandið ber ábyrgð EFTIR að gengið hefur verið á ábyrgðasjóð gistilands útibúsins eða bransans.
Hvað er svo verið að djöflast í Davíð?
Hann gat hvorki bannað eða leyft sölu Krónubréfa . Hann gat hvorki leyft eða bannað flutning fjáramagns milli landa.
Hann var verkfæralaus en varaði samt við að fyrirtæki mættu (allt samkv tilmælum EES) setja inn í sína ársreikninga ,,óefnislegar eigur" í eins ríkum mæli og gerðist hér.
Sami maður varaði við krosstenglum við fjölmiðla, því þeir gætu ekki haldið perspektíf á brot eigenda sinna.
Það hefur komið afar ljóslega fram síðustu mánuði og nú vikur.
Með virðingu og þökk fyrir birtingu þessa ,,leiðinda komments"
Miðbæjaríhaldið
fyrrum Vestfjarðaríhald
Bjarni Kjartansson, 9.10.2008 kl. 14:10
Sérlega heimskulega mælt.
Svona tala þeir einir sem halda - eða vilja - að íslenskir ráðamenn séu zúkkat í alþjóðlegu samstarfi.
Hefur þú gert lauslega könnun á því hvernig íslenskir ráðamenn hafa bruðist við gagnrýni erlendis frá síðustu ár?
Þar hefur undantekningarlítið verið stokkið í fjölmiðla með digurbarkaleg ummæli.
Þarna var einfaldlega gerð tilraun til að komast hjá því að borga - og sjá hver viðbrögðin yrðu í Bretlandi. Þegar skiljanleg viðbrögð komu, er þeim svo kennt um allt.
Aumara verður það varla en þegar íslensk alþýða er farinn að verja heimsku ráðamanna sinna með þessum hætti.
baldur mcqueen (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 14:14
Hvort kom á undan hænan eða eggið ? Kastljósþáttur seðlabankastjóra eða símtal fjármálaráðherra ?
Sævar Helgason, 9.10.2008 kl. 14:16
Það eru eðlileg viðbrögð við áföllum að finna til reiði og um leið, að leita útrásarleiða fyrir reiðina. Það þekkja allir sálfræðingar. Fyrstu viðbrögð við áfalli eru því oft að leita sökudólgs og beina reiðinni að honum/henni.
Við sem erum eldri en tvævetur vitum þetta. Það skýrir reiðina í garð Davíðs - hann er orðinn tákngerfingur fyrir vandamálið. Þjóðin er í áfalli.
Ég ætla ekki að hvítþvo Davíð. En gleymum því ekki að hér eiga fleiri sök. Málið hefur ekki verið gert upp í heild sinni enn - en þegar þar að kemur munu menn sjá að hér bera margir ábyrgð.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.10.2008 kl. 14:20
Þessi athugasemd mín (nr. 7) var viðbrögð við orðum Bjarna Kjartanssonar (nr. 3). Hér fjölgar athugasemdum svo ört, að það voru nokkrar komnar inn í millitíðinni.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.10.2008 kl. 14:24
Er ekki málið þannig vaxið að dýralæknirinn er bara ekki betri í enskri tungu en svo að Árni baulaði bara á Alistair Darling og vonaði að hann myndi skilja sig!
Þröstur (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 15:02
Árni Matt er dýralæknir og hans orð eru dýr. Honum er að takast að vera föðurverrungur í fjármálum en hingað til hefur slíkt verið talið óhugsandi.
Bretar voru að hugsa um eigin hag, en ekki okkar, þegar þeir hernámu Ísland í Seinni heimsstyrjöldinni og þorskastríðin eru greinilega geymd en ekki gleymd á þeim bænum. En Bretar eru vinir Bandaríkjanna.
Hins vegar fórust hlutfallslega fleiri íslenskir sjómenn í Seinni heimsstyrjöldinni en bandarískir hermenn þegar þeir fyrrnefndu fluttu íslenskan fisk til Bretlands til að halda líftórunni í Tjallanum. Frönskurnar gátu þeir ræktað sjálfir og höfðu af því góðan starfa meðfram mannvígum.
En Rússar hengdu heiðursmerki á íslenska sjómenn, sem transporteruðu hergögn til Múrmansk í styrjöldinni.
Húsmæður úr Vesturbænum, sem fóru til Nýju Jórvíkur í verslunarerindum í fyrravetur, voru aftur á móti handjárnaðar til að innsigla vináttu Bandaríkjamanna og Íslendinga.
Vinir á Facebook: Rússar og Norðurlandaþjóðirnar.
Þorsteinn Briem, 9.10.2008 kl. 15:55
Hraustlega að orði komist Ólína, um krata-bullurnar þá Brown og Darling. Raunar er Alistair Darling þekktur kommúnisti, sem áratugum saman boðaði vopnaða byltingu. Er hann ekki bara í baráttu gegn Kapítalismanum ?
Ég er þeirrar skoðunar, að aðgerðir gegn Íslendskum hagsmunum hafi verið í undirbúningi um einhverja hríð. Heimildir mínar í Bandaríkjunum herma, að Bretar hafi komið að neitun Bandaríkjanna, að gera gjaldeyris-skipta-samning við okkur um leið og Skandínava.
Svona harkaleg ummæli, eins og þeir viðhöfðu og aðgerðirnar sem fylgdu geta varla verið klaufaskapur. Auðvitað vissu þeir hvaða áhrif ummælin myndu hafa, sérstaklega í ljósi þeirrar óvinveittu umræðu sem farið hefur fram í Bretlandi. Aðgerðirnar voru svo auðvitað úr hófi harkalegar og ekki sæmandi gagnvart "vinaþjóð".
Loftur Altice Þorsteinsson, 9.10.2008 kl. 16:28
Enga sá ég nú eggjakökuna í Vatíkaninu, Búkolla mín. En það er ekki að marka, því þar er eggjakaka eins og krækiber í Helvíti, svo vítt til veggja og hátt til lofts að enginn kemst þar yfir nema fuglinn fljúgandi. Og reyndi ég það ekki.
Þorsteinn Briem, 9.10.2008 kl. 16:30
Á vefsíðunni Spiegel Online var 7. október síðastliðinn rætt um 4ra milljarða evra (5,44 milljarða dollara) lánatilboð Rússa til Íslendinga. Jafnframt er bent á að þann sama dag hefðu stjórnvöld í Moskvu tilkynnt að þau ætluðu að lána rússneskum bönkum 36,4 milljarða dollara eftir 19,1% verðfall í rússnesku kauphöllinni daginn áður, 6. október.
http://bjorn.blog.is/blog/bjorn/entry/665164/
Þorsteinn Briem, 9.10.2008 kl. 16:38
Þetta er stórhættuleg þróun, að gerræðisleg ríkisstjórn geti notað lög um hryðjuverk til að íhlutast um hvort að fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum séu eitthvað að reyna að skjóta undan eignum. Auðvitað eru fyrirtæki í þeirri stöðu alltaf að reyna það og þess vegna eru sérstök lög sem fjalla um hvernig fyrirtæki mega hegða sér.
En það er ekki sama að vera vanskilamaður eða vera hryðjuverkamaður
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2008 kl. 17:33
þetta ruddalega fjölmiðlaupphlaup ráðherrans Darlings og núna hjá Gordon Brown er ómerkilegt lýðskrumararaus og kannski hefur skaðleg áhrif í eldfimum heimi þar sem allir tortryggja alla. En þetta að beita hryðjuverkalögum var algjörlega síðasta sort. Bretland er búið.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2008 kl. 17:35
Ef heimsfriður væri í húfi? Heimsfriður ER í húfi.
Við vissum líka að Bretar væru ekki vinir okkar, eina þjóðin sem við höfum verið í stríði við og það oftar en einu sinni.
kop, 9.10.2008 kl. 22:02
Já og Guð minn almáttugur, þessi sagði þetta og hinn sagði hitt. Orð eru til alls fyrst. Og svo getum við velt okkur upp úr þessu endalaust, fram og til baka. Vandann er bara einfaldleg að finna í þjóðarsálinni. Við kusum ríkisstjórn, aftur og aftur og aftur. Treystum fólki til að fara með okkar mál. Aftur og aftur. Og núna síðast; Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna. Treystum þeirra talsmönnum hvort sem þeir kunna ensku eða ekki. Til hvers þá að benda á að þessi eða hinn sagði þetta og gerði þetta o.s.frv. þegar allt er komið í steik og við kusum þessa steik yfir okkur, eins og svo oft áður. Við. Íslenska þjóðin. Kýs yfir sig þá stjórn sem hún á skilið. Er einhverjum að kenna hvernig staðan er nú? Jú, íslensku þjóðinni. Hún valdi. Hún kaus. Og þrífur svo upp skítinn. Það er ekki flóknara en það, hvort sem við kunnum ensku eða ekki. Við þrífum skítinn. Það er í þjóðarsálinni. Og kjósum svo aftur það sama yfir okkur. Þannig erum við. Eða hvað?
NínaS (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 22:30
"Declining to offer Iceland a quick €4 billion loan is one of the worst decisions the US and European countries have made in the financial turmoil. It is a false economy that will prove diplomatically expensive."
http://www.timesonline.co.uk/tol/comment/columnists/bronwen_maddox/article4916541.ece
Þorsteinn Briem, 10.10.2008 kl. 01:21
Ég las þessa grein sem Steini vísar á í síðustu athugasemd - hún er merkileg.
Ég hvet ykkur til að lesa hana.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.10.2008 kl. 11:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.