Úr kreppunni í hundana - stutt björgunarhundaæfing
1.10.2008 | 22:12
Í kvöld skrapp ég á stutta björgunarhundaæfingu. Það var kærkomin hvíld frá öllu krepputalinu að fara bara í útigallann og arka með lambhúshettu á höfði og hund í bandi upp hlíð.
Það var fámennt en góðmennt á æfingunni - við vorum bara tvö, ég og Skúli félagi minn sem vorum mætt að þessu sinni. Hann með Patton sinn, ég með Skutul minn - báðir bráðefnilegir Border-Collie hundar. Heima sat Blíða mín eftir, helsærð yfir því að vera ekki tekin með. Ýlfrið í henni fylgdi mér út að bíl þegar ég lagði af stað með þann stutta.
Jæja, fyrst æfðum við Skutul. Skúli faldi sig á bak við stóran stein í hlíðinni. Skutull var svo sendur af stað, þvert á vindáttina. Hann hljóp sem fætur toguðu uppi í hlíðina og leitaði vel - datt fljótlega inn í lyktina og hljóp þá til Skúla þar sem hann gelti strax nokkrum sinnum og fékk leik að launum, þar til ég kom móð og másandi á eftir honum. Hann tók þrjú svona rennsli, og gekk mjög vel í öll skiptin - enda áhugasamur og óhræddur að hlaupa út frá mér til að leita.
Patton (hér sjáið þið hann) er kominn mun lengra en Skutull, enda löggiltur björgunarhundur með B-próf. Hann er yfirferðarmikill og leitar stór svæði. Ég faldi mig fyrir hann, og meiningin var að láta hann leita undan vindi nokkurn spöl til að reyna svolítið á hann, stýra honum svo í átt að lyktarsvæðinu og leyfa honum þá að finna mig.
En Patton lét ekki plata sig. Hann var ekki fyrr kominn út úr bílnum en hann þaut af stað og rakleitt til mín. Skipti engu þó að Skúli reyndi að kalla á hann til baka - Patton lét það sem vind um eyru þjóta, enda kominn í lykt. Hann vísaði á mig með glæsibrag - og var stoltur af frammistöðu sinni, enda ástæða til.
Í seinna leitarrennslinu tókst að láta hann leita svolitla stund áður en hann vísaði á mig. Það gerði hann með sama öryggi og fyrr. Mjög flott hjá honum.
Já, þetta gekk vel. Svolítil föl á jörðu og nokkur snjókorn í lofti, annars milt veður. Það var gott að draga að sér hreina loftið. Og þó ætlunin hefði verið að hugsa um eitthvað annað en fjármáladramað sem skekur samfélagið, þá tókum við auðvitað svolitla spjalltörn um málið. Nema hvað.
Jamm ... Hér sjáið þið svo hina vösku Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Myndirnar voru teknar í fyrravetur og vor.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Íþróttir, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:08 | Facebook
Athugasemdir
Kannski hundar geti bjargað málunum þegar allt er á leið í hundana.
Þorvaldur Guðmundsson, 1.10.2008 kl. 22:25
Sæl Ólína.
Svo má ekki gleyma því að hundurinn er tryggasti vinur mannsins.
Hafðu það sem best og fjölskyldan líka.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 2.10.2008 kl. 06:58
Gott að ná jarðsambandi inn á milli. Kveðjur frá hvítu Héraði
Jónína Rós Guðmundsdóttir, 2.10.2008 kl. 09:28
Frábærir hundar, slík deild er alveg nauðsynleg.
Ragnheiður , 2.10.2008 kl. 09:57
Ha, gelti Skúli og fékk að leika? Fínt hjá honum!
Guðni Ólason, 2.10.2008 kl. 10:46
Guðni, ef þarna hefði staðið "hljóp þá til Skúla sem gelti nokkrum sinnum" ... þá væru þetta auðvitað bráðfyndin pennaglöp.
En þarna stendur reyndar "þar sem", og vísar til þess að það hafi nú verið hundurinn sem gelti hjá Skúla.
Ég viðurkenni þó að hitt er skemmtilegri tilhugsun.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.10.2008 kl. 11:34
Flott á myndinni til hægri. Líka hundurinn.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 2.10.2008 kl. 12:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.