Hispurslaus eineltisumræða

mannud Margir eiga sárar minningar um einelti frá barnæsku. Í Morgunblaðinu hefur ungur maður nú ákveðið að deila með lesendum vanlíðan sinni og erfiðum tilfinningum sem hann mátti kljást við vegna eineltis í skóla. Hann segir hispurslaust frá því hvernig honum leið - hafi hann þökk fyrir.

Þessi ungi maður segir frá því hvernig hugsanir hans á þeim tímasem eineltið gekk næst honum koma heim og saman við það sem lesa má úr játningum og skilaboðum þeirra sem framið hafa ódæðisverk á skólafélögum sínum á borð við fjöldamorðið sem framið var nú síðast í finnskum framhaldsskóla.  

Ég bendi líka á bloggsíðu Róberts Björnssonar sem varð fyrir einelti í æsku, og fjallar hreinskilnislega um þá reynslu sína. Róbert segir einnig frá því hvernig umfjöllun hans varð í reynd til þess að opna augu eins af fyrrum skólafélaga hans sem tók þátt í eineltinu gegn honum. Það er líka athyglisvert að lesa viðbrögð Jens Guðmundssonar á sömu síðu, þar sem hann segir heiðarlega frá því hvernig hann lagði félaga sinn í einelti sem barn fyrir það að sá síðarnefndi skaraði fram úr honum í gítarleik. Viðbrögð Jens stöfuðu af því að hann kunni ekki að bregðast við eigin vanmætti gagnvart öðrum.

Einelti er alvarlegt mál - sama hvernig að því er staðið eða á hvaða aldursskeiði það á sér stað. Þess vegna er heldur ekki sama hvernig menn nota hugtakið "einelti". Það er með þetta hugtak eins og önnur ofbeldishugtök, til dæmi "nauðgun", "pynting", "kúgun" , "kvalari", o.fl. að í ýtrustu merkingu sinni eru þau svo grafalvarleg að það er ekki sama hvernig með þau er farið.

Eitt af því sem gerir einelti flókið er að þeir sem taka þátt í því gera sér oft ekki grein fyrir því sjálfir. Þeir taka óbeinan þátt með þögninni, með því að fylgja kvalaranum að málum og láta sér líðan og afdrif fórnarlambsins í léttu rúmi liggja. Þetta er jafnvel gert í nafni einhvers málstaðar - því vitanlega þarf réttlætingar fyrir illverkum. Það þekkjum við frá tímum Gyðingaofsóknanna, McCarty-ismans í Bandaríkjunum, galdraofsóknanna á 17. öld, og þannig mætti lengi telja. Einelti getur að sjálfsögðu beinst gegn hópi fólks og er oft hagsmunadrifið.

Þess vegna viðgengst einelti víða í samfélaginu - víðar en margan grunar. Við sjáum stjórnmálamenn sem lagðir eru í einelti af flokksfélögum og fjölmiðlum ár eftir ár. Sömuleiðis opinbera embættismenn og poppstjörnur.  Einelti á sér oft flóknar félagslegar orsakir sem full ástæða er til að taka alvarlega og reyna að átta sig á. Það getur verið vafið inn í einhverskonar "ágreining" eða "skoðanamun" sem er oft ekkert annað en fyrirsláttur til þess að geta sótt að einstaklingum.

Sérstaklega er mikilvægt að kennarar og uppalendur séu á varðbergi gagnvart einelti í skólum og grípi inn í það umsvifalaust. Dæmin sanna að ef einelti er látið óátalið nærir það heift og haturstilfinningar í brjósti þolenda um leið og það ýtir undir yfirgang og skeytingarleysi gagnvart mannlegum tilfinningum hjá þeim sem komast upp með það.

Þetta er þörf umræða.


mbl.is Ætlaði að pynta þau og drepa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ertu í alvöru að setja stjórnmálamenn og opinbera embættismenn undir sama hatt og poppstjörnur?

Heiða B. Heiðars, 28.9.2008 kl. 13:08

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fólk á öllum aldri leggur aðra í einelti til að upphefja sjálft sig á kostnað annarra. Allir geta verið lagðir í einelti, hvar sem er í þjóðfélaginu, einnig þeir sem eru á toppnum hverju sinni.

Fullorðnir leggja stundum börn í einelti, til dæmis nemendur, og öfugt.

Kennarar kunna ekki allir að taka á einelti í skólum og í sumum tilfellum leggja foreldrar grunnskólabarna kennara þeirra í einelti.

Einelti er ekki saklaus stríðni.

Þorsteinn Briem, 28.9.2008 kl. 15:27

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Heiða, ég er bara að taka dæmi um fólk sem orðið hefur fyrir einelti opinberlega að undanförnu. Einelti spyr hvorki um stétt né stöðu manna, það getur birst gagnvart hverjum sem er, hvenær sem er.

Einelti birtist ekki endilega gagnvart þeim sem minna mega sín heldur líka - og jafl oft - gagnvart þeim sem gerendunum stafar ógn af á einhvern hátt. Þannig getur einelti orðið aðferð til þess að ryðja einhverjum úr vegi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 28.9.2008 kl. 17:44

4 identicon

Þetta er góður pistill og orð í tíma töluð að umræða um einelti verði hispurslaus. Ég hef verið kennari í grunnskóla í 20 ár og ég fullyrði að aðgerðir varðandi einelti séu stutt á veg komnar. Oft er staðan sú að fólki þykir þessi umræða óþægileg og "tímafrek". Ég hef heyrt skólafólk beinlínis hæðast að umræðunni og meira að segja hef ég orðið vitni að því að fólk lokar slíkri umræðu með því að það hafi sjálfsagt sjálft verið í hópnum sem "lagði grunn að einelti". Þá fallast manni hendur. Ég er algjörlega meðvituð um að einelti er "dauðans alvara" og hef miðað mitt starf við það, enda ekki annað í boði þegar maður er kannski með nemanda sem ætlað hefur "að taka eigið líf". Lífinu fylgja oft óþægindi en þau eru þroskandi ef tekist er á við þau. Börnum og unglingum þarf að leiðbeina um virðingu og manngildi og þá er betra að hinir fullorðnu standi sig!

Hlín Bolladóttir (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband